22.02.1960
Efri deild: 27. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3136 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

57. mál, orlof húsmæðra

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af okkur 4 þm. þessarar hv. þd. fyrir tilmæli stjórnar Kvenfélagasambands Íslands. Efni frv. er í stuttu máli það, að komið verði á fót orlofsnefndum húsmæðra, sem fái til starfsemi sinnar lögbundið framlag húsmæðra sjálfra gegn jafnháu framlagi frá ríkinu, auk þess fjár, sem aflað kann að verða með öðru móti til starfseminnar.

Mál það, sem frv. fjallar um, orlof húsmæðra, hefur verið til umræðu á landsþingum Kvenfélagasambands Íslands á árunum 1955, 1957 og 1959 og á fulltrúaráðsfundum samtakanna árin á milli þeirra þinga. Á landsþingi Kvenfélagasambandsins s.l. haust var svo samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir, og stjórn sambandsins var þá falið að fá það flutt hér á Alþingi.

Samtök þau í Kvenfélagasambandi Íslands, sem að frv. standa, eru langfjölmennustu samtök kvenna hér á landi og hafa innan vébanda sinna nokkuð á þriðja hundrað kvenfélaga víðs vegar um landið með á 14. þús. félagskvenna. Kvenfélagasambandið hefur á stefnuskrá sinni ýmis hagsmunamál heimilanna, þ. á m., eins og segir orðrétt í lögum sambandsins, með leyfi hæstv. forseta: „Að stuðla eftir megni að hverju því, sem létt geti störf húsfreyjunnar og bætt aðstöðu hennar.“

Á þingi Kvenfélagasambandsins 1955, þegar orlof húsmæðra kom þar fyrst til umr., skilaði allsherjarnefnd þingsins áliti, sem hófst með þessum formála, sem ég leyfi mér hér að lesa upp orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Rík áherzla hefur verið lögð á það á síðari árum, að sem flestum þegnum þjóðfélagsins verði árlega tryggður nokkur hvíldar- og frítími, orlof. Sú stéttin, sem lengstan hefur yfirleitt vinnutímann og fæstar næðisstundirnar, mæðurnar, sem jafnframt eru húsfreyjur, hafa samt algerlega orðið þar út undan. Erfiði þeirra og tómstundaleysi hefur vaxið að sama skapi og torveldazt hefur að fá aðstoð við heimilisstörf. Augljóst er, að úrbætur eru hér hin mesta nauðsyn, en úrræði vandfundin. Kvenfélagasamband Íslands telur þó, að við svo búið megi ekki lengur standa og verði því að hefjast handa.“

Ég ætla, að hv. þm. geti fallizt á réttmæti þessa formála nefndarinnar. Allir þekkja til þess, hve fjöldi húsmæðra á erfitt um vik að veita sér þótt ekki sé nema nokkurra daga hvíld frá daglegum önnum, og ég mun ekki fjölyrða frekar um nauðsyn þess, að þeim, sem verst eru settar, sé gert slíkt kleift, svo sem ætlunin er með frv. þessu.

Það hefur verið nokkuð unnið að því á undanförnum árum og áratugum af ýmsum aðilum að sjá húsmæðrum fyrir orlofsdvöl. En sá aðilinn, að ég ætla, sem lengstan á starfsferil í þeim efnum og umsvifamestan, er mæðrastyrksnefndin hér í Reykjavík, sem hefur nú í senn 3 áratugi nær óslitið haldið uppi sumardvöl fyrir mæður og börn og hvíldarvikum fyrir rosknar konur, oft við hinar erfiðustu aðstæður, þangað til n. fyrir nokkrum árum kom sér upp húsnæði fyrir þessa starfsemi og fékk til þess nokkurn styrk frá ríki og bæ, en aðallega var fjár aflað til þeirra framkvæmda sem og til starfseminnar allrar með ýmsum fjáröflunarleiðum, sem meðlimir mæðrastyrksnefndarinnar beittu sér fyrir. Þótt þessari starfsemi hafi verið hægt að halda uppi hér í fjölmenninu, þar sem hlut átti líka að máli gróinn og vinsæll félagsskapur hér í bænum, sem nýtur ríkulegs örlætis bæjarbúa auk sumardvalarstyrks frá Reykjavíkurbæ, þá byggist þó starfsemin öll á velvild þessara aðila, og það er hætt við því, að erfitt sé um vik, þegar komið er á fámennari staði.

Á 17. gr. fjárl. hefur síðan árið 1957 verið fjárveiting til orlofsdvalar fyrir húsmæður frá barnmörgum heimilum. Alþýðusambandinu mun hafa verið falin úthlutun þess fjár, sem ég tel út af fyrir sig hafa verið nokkuð vafasamt, þar sem eðlilegra hefði verið að fela hana samtökum, sem starfa á víðari grundvelli. Það má reyndar vera, að einnig hafi verið til þeirra leitað, án þess að mér sé kunnugt um það.

Með frv. þessu, ef að lögum verður, þyrfti að taka upp fjárveitingu, sem væntanlega mundi nema 320 þús. kr., því að eins og hv. þm. sjá, er í grg. við 3. gr. frv. áætlað, að á landinu öllu séu um 32 þús. konur eða húsmæður, sem greiða mundu 10 kr. hver á móti jafnháu framlagi frá ríkinu, og jafnframt yrði svo lögfest, hvernig úthluta skyldi orlofsfénu og hvaða aðilar hefðu þá úthlutun með höndum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um frv. sjálft eða einstakar greinar þess umfram það, sem í grg. fyrir frv. segir. Þó er e.t.v. rétt að taka það fram, að héraðasambönd kvenfélaga, sem um ræðir í frv., eru nú 18 að tölu. Sambandssvæði margra þeirra falla saman við sýslurnar, en önnur ná yfir fleiri sýslur og skiptingin á milli fylgir þá ekki alltaf sýslumörkum.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn. hv. þingdeildar.