29.04.1960
Efri deild: 67. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3138 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

57. mál, orlof húsmæðra

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. þetta. N. leitaði umsagnar félmrn. um frv., og umsögn sú, sem n. hefur borizt frá ráðuneytinu, er í stuttu máli á þá leið, að það mælir með samþykkt frv.

Ég vil hér lesa umsögnina, og hún er þannig, orðrétt:

„Ráðuneytinu hefur borizt bréf heilbr.- og félmn. Alþingis, dags. 23. f. m., þar sem leitað er umsagnar ráðuneytisins um frv. til laga um orlof húsmæðra.

Nokkur undanfarin ár hefur verið á fjárlögum upphæð, 40 þús. kr., til orlofs- og sumardvalar fyrir húsmæður frá barnmörgum heimilum. Þessi fjárveiting hrekkur að sjálfsögðu skammt til þess að koma á orlofi fyrir húsmæður almennt. Samkvæmt grg. frv. mundi framlag húsmæðra samtals nema ca. 320 þús. kr. á ári, og gert er ráð fyrir jafnháu framlagi úr ríkissjóði, sjá 3. gr. frv.

Þörfin fyrir hvíld eða orlof mun áreiðanlega ekki vera brýnni fyrir aðra þjóðfélagsþegna en einmitt þær húsmæður, sem veita heimili forstöðu án launagreiðslu. En ef frv. þetta verður að lögum, eiga slíkar húsmæður rétt til orlofsfjár, sbr. 4. gr. frv.

Enda þótt með frv. þessu sé lagt til, að húsmæður hljóti verulega réttarbót frá því, sem er, virðist ráðuneytinu þó, að langt sé frá því, að allar húsmæður gætu hlotið orlof árlega, sem gagn væri að.

Ráðuneytið telur, að með frv. þessu sé stefnt í rétta átt, og mælir því eindregið með samþykkt þess.“

Eins og fram kemur í nál., hafa nm. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt. Einn nm., hv. 9. þm. Reykv. (AGl), undirritar þó nál. með fyrirvara, og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir sinni afstöðu.