29.04.1960
Efri deild: 67. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

57. mál, orlof húsmæðra

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég verð að játa, að ég er ekki vel kunnugur uppbyggingu Kvenfélagasambands Íslands, en ég hygg þó, að Kvenfélagasamband Íslands sé samband héraðasambandanna, sem aftur eru mynduð af kvenfélögunum, sem eru starfandi í hinum ýmsu eða kannske öllum sveitar- og bæjarfélögum í landinu. Þess vegna finnst mér, ef þessi uppbygging er rétt, það vera einkennilegt, að í þessu frv., þegar gerð er grein fyrir því, á hvern hátt skuli aflað fjár til orlofs húsmæðra, sem ég fyllilega játa að sé mikið nauðsynjamál, sé ekki gert ráð fyrir því, að þessi félagasamtök, sem eru mynduð á frjálsan hátt af húsmæðrunum í landinu, skuli þurfa að láta neitt framlag til þessara mála. Í öðru lagi finnst mér, þegar lagalega er ákveðinn sá hlutur, sem húsmæður eiga að greiða til þessa orlofs, 10 kr. á hverja húsmóður í landinu, eða því sem næst 320 þús. kr. á ári og gert er líka ráð fyrir því, að ríkið greiði jafnháa upphæð, og það er enn fremur gert ráð fyrir því, að bæjar- og sveitarfélögin leggi framlag til þessa orlofs, en hins vegar er þar engin fjárhæð ákveðin, að það sé mjög misráðið, sakir þess að ef sveitar- og bæjarstjórnir eiga sjálfar að ráða þessum framlögum, þá verða héraðasamböndin og þær nefndir, sem eiga að sjá um orlof húsmæðra, mjög misjafnlega á vegi staddar hvað fjárhaginn snertir. En ég vildi benda á það, úr því að við erum hér að gera ráð fyrir því, að það verði lögskipaður skattur á hverja húsmóður í landinu og til jafns við þann skatt frá ríkinu, hvort við eigum ekki að ganga það tryggilega frá að ákveða hlut bæjar- og sveitarfélaganna líka. Mér finnst, að það væri miklu hreinna og betra að verki gengið og tilgangi þessa máls væri betur náð á þann hátt. Ég vil líka benda n. á það, að mér hefði ekki fundizt óviðeigandi að gera ráð fyrir því, að hin einstöku héraðssambönd og kvenfélög í landinu greiddu líka tillag í þennan sjóð, orlofssjóð húsmæðra, því að mér er það vel ljóst, að það verður ekki langt frí, sem húsmæður landsins geta tekið sér, þó að þær fengju árlega eina milljón króna til að fara í eitthvert ferðalag fyrir. Svo dýrt er orðið að ferðast í þessu landi, að það hrekkur ekki langt. En þetta er aðeins ábending af minni hálfu, að ég tel, að við eigum að ákveða gjaldið frá bæjar- og sveitarfélögum og í öðru lagi að gera ráð fyrir því, að kvenfélögin og kvenfélagasamböndin í landinu verði svo vel stæð, að þau gætu einnig látið eitthvert framlag til þessara sjóða, sem eiga að sjá um orlof húsmæðra.