10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

57. mál, orlof húsmæðra

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Frv. um orlof húsmæðra er komið frá hv. Ed., en mér finnst ástæða til að kynna það með örfáum orðum hér í þessari hv. d.

Flestir eru sammála um nauðsyn þess, að fólk geti fengið nokkurra daga hvíld frá starfi sínu á ári hverju. Það er líka löngu viðurkennt í framkvæmd í flestum starfsgreinum þjóðfélagsins. Í fjölmennasta starfshópnum hefur þó reynzt erfiðast að koma við orlofi almennt. Stór hluti þess hóps, húsmæðranna, eru þeir þegnar þjóðfélagsins, sem lengstan hafa starfstíma og fæstar næðisstundir. Það er því ekki að ófyrirsynju, að það hefur um mörg undanfarin ár verið mjög á dagskrá fjölmennustu kvennasamtaka þessa lands, Kvenfélagasambands Íslands, hvernig leysa megi þann vanda að skapa þeim húsmæðrum, sem örðugast eiga og búa við kröppust kjörin, skilyrði til að njóta nokkurrar hvíldar og hressingar árlega, en sá er einmitt tilgangur þessa frv.

Frv. er árangur af starfi nefnda, sem unnið hafa á milli landsþinga Kvenfélagasambandsins. Í þeirri mynd, sem frv. var lagt fram í hv. Ed., hafði það verið samþ. á síðasta landsþingi Kvenfélagasambands Íslands og þá undirbúið af sérstakri n. undir forustu Herdísar Ásgeirsdóttur. Til að rísa undir kostnaði af orlofsferðum og dvölum barnmargra og efnalítilla kvenna er hugsunin að mynda sérstakan sjóð, orlofssjóð. Ætlun kvennanna var upphaflega m.a., að hver húsmóðir á aldrinum 18–65 ára greiddi árlega 10 kr. í þennan sjóð, þannig að sú stétt, sem orlofsins ætti að njóta, kostaði það að því leyti. Innheimta átti svo þessar 10 kr. með ríkissköttunum. Auk þess var gert ráð fyrir framlagi ríkisins, — það skyldi vera jafnhátt samanlagðri þeirri upphæð, sem innheimtist hjá húsmæðrunum, — og svo framlögum bæjar- og sveitarfélaga og ýmsum fjáröflunarleiðum, sem orlofsnefndum og kvenfélögum þætti henta.

Ákvæðið um 10 kr. gjald húsmæðranna var fellt burt við 3. umr. málsins í Ed. og gr. umorðuð á þann hátt, sem segir á þskj. 393. En aðalefni þeirrar gr. er, þar sem segir, að ríkissjóður skuli árlega greiða upphæð, sem svari til minnst 10 kr. fyrir hverja húsmóður á landinu. Húsmæður á öllu landinu munu vera rúmlega 32 þús., þannig að þarna mundi ríkissjóður leggja fram 320 þús. En að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir framlagi ríkissjóðs.

Fyrsti flm. þessa máls var fjarverandi, er þessi breyt. var gerð, og átti því ekki kost á að segja sitt orð um hana. Ég vil því láta þess getið til upplýsingar fyrir þá hv. n., sem málið fær til meðferðar, að þær forvígiskonur Kvenfélagasambands Íslands, sem ég náði til, þær frú Helga Magnúsdóttir á Blikastöðum og frú Aðalbjörg Sigurðardóttir, töldu sig ekki andvígar niðurfellingu 10 kr. gjaldsins.

Það er líka skiljanlegt, að nú, þegar svo margir njóta skattfrelsis, hlýtur innheimta ríkisins á einum 10 kr. af hverri húsmóður á landinu að verða illframkvæmanleg vegna tiltölulegra umsvifa og kostnaðar. Að vísu verða hinar föstu tekjur orlofssjóðs minni með þessum hætti en í upphafi var ráðgert, en á þessu stigi hygg ég, að rétt sé að láta breyt. Ed. halda sér.

Úthlutun orlofsfjárins eiga skv. frv. orlofsnefndir, ólaunaðar og kosnar af hlutaðeigandi héraðssamböndum kvenfélaga, að hafa með höndum. Ein eða fleiri slíkar n. munu starfa á svæði hvers héraðssambands kvenfélaga. N. þessar eiga einnig að sjá um skipulagningu orlofanna. Verður þar að sjálfsögðu brýnt verkefni að finna góða og ekki of dýra dvalarstaði, þar sem viðkomandi húsmæður geta dvalizt með eða án fjölskyldu sinnar. Hafa mæðrastyrksn., sem víða starfa, mikla reynslu í þessu orlofsstarfi, enda er gert ráð fyrir samstarfi við þær, þar sem þær eru starfandi.

Rétt til orlofsfjárins eiga allar konur, sem veita heimili forstöðu án launagreiðslu fyrir það starf. Einnig er gert ráð fyrir heimild til að veita nokkurt orlofsfé vegna barna allt að 10 ára.

Ég mun ekki fjölyrða um frv. frekar og tel líklegt, að hv. þdm. láti ekki sitt eftir liggja til að stuðla að framgangi þessa áhugamáls svo fjölmargra íslenzkra kvenna og reyni að hraða afgreiðslu þess, þar eð nú er mjög orðið liðið á þingtímann. Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.