20.05.1960
Efri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

151. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þessu frv., sem flutt er af hv. 4. þm. Vesturl. (JÁ), er ætlað að greiða fyrir bátasmíði hér innanlands, og efni þess er það að heimila Fiskveiðasjóði Íslands að veita eigendum innlendra skipasmíðastöðva bráðabirgðalán til smíði fiskiskipa, meðan á smíði stendur. Í gildandi lögum um fiskveiðasjóð er svo ákveðið, að fiskveiðasjóður láni í vissum hlutföllum til smíði báta, og sérstakar reglur um, hvernig þau lán skuli greidd af hendi. En til þess að hefja slíka smíði skortir oft fé hjá þeim, sem vilja láta smíða slíka báta, eða hjá skipasmíðastöðvunum, og er þessu frv. sem sagt ætlað að skapa heimild til að veita bráðabirgðalán þegar í upphafi, svo að smiði skipanna geti hafizt.

Þetta er í beinu framhaldi af ákvæði í 22. gr. fjárlaga fyrir 1960, XVIII. lið, þar sem segir, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast allt að 10 millj. kr. lán fyrir skipasmíðastöðvar til bátasmíða innanlands, gegn þeim tryggingum, er hún metur gildar, enda greiðist lánið að fullu af stofnláni, sem Fiskveiðasjóður Íslands veitir. Ríkisstj. setur að öðru leyti nánari skilyrði um ábyrgðir þessar.

Nú ætla ég, að hv. þm. séu á einu máli um það, að æskilegt og nauðsynlegt sé að greiða fyrir smíði skipa og báta innanlands, og bæði þetta frv., sem hér liggur fyrir, og umrætt ákvæði fjárlaga stefni því í rétta átt.

Ég vil hins vegar leyfa mér að bera fram hér brtt. við niðurlag 1. gr. þessa frv., en þar segir, að slík bráðabirgðalán úr fiskveiðasjóði til smíði fiskiskipa skuli veitt gegn ríkisábyrgð. Í fyrsta lagi sýnist mér eðlilegra að stjórn sjóðsins meti hverju sinni, hverjar tryggingar hún telur nægilegar fyrir slíkum bráðabirgðalánum. Í langflestum tilfellum eru slík bráðabirgðalán áhættulaus, vegna þess að þau greiðast nokkru síðar, þegar smíði bátsins miðar áfram, af stofnlánum úr fiskveiðasjóði. Ef miðað er við eðlileg bankasjónarmið, má segja, að fremur eigi stjórn sjóðsins að meta það hverju sinni, hverjar tryggingar eru nægar. Það er ekki ástæða að mínu áliti til að gera það að skilyrði í hvert einasta skipti fyrir slíku bráðabirgðaláni, að ríkið komi með ríkisábyrgð, enda í flestum tilfellum, að ég ætla, engin þörf á slíku. Í annan stað er þess að gæta, að ef fiskveiðasjóður er búinn að veita slík bráðabirgðalán, 10 millj. kr., gegn ríkisábyrgð, þannig að fullnotuð er heimildin í 22. gr. fjárlaga, þá hefur fiskveiðasjóður samkv. orðalagi frv. nú ekki heimild til þess að veita fleiri bráðabirgðalán, vegna þess að það er skilyrði samkv. frv., að ríkisábyrgð sé fyrir hendi.

Mér sýnist, að æskilegt sé því frá flestum sjónarmiðum séð að breyta þessu, og leyfi mér að leggja til, að í stað orðanna „gegn ríkisábyrgð“ í niðurlagi 1. gr. komi orðin: gegn þeim tryggingum, er stjórn sjóðsins metur gildar. — Þegar verið er að hefja smíði báta eða skipa og sótt er um bráðabirgðalán, sem hjálpa yfir byrjunarörðugleikana, þangað til stofnlán fiskveiðasjóðs kemur, og sótt er um slíkt bráðabirgðalán, þá yrði í fyrsta lagi stjórn sjóðsins að meta það hverju sinni, hvort hún hefur nægar tryggingar, sem aðili getur lagt fram, og ef hann hefur ekki nægar tryggingar, þá er hægt að grípa til ríkisábyrgðarinnar, sem heimild er til í fjárlögum. En jafnvel þótt búið væri að nota þessa 10 millj. kr. ábyrgðarheimild að fullu, gæti sjóðurinn engu að síður lánað til viðbótar, ef þessi brtt. verður samþ., en mundi ekki verða heimilt samkv. orðalagi frv., eins og það nú er.

Ég hef rætt þetta við hv. fim., er hefur tjáð sig samþykkan þessari brtt., og vænti þess, að hún nái samþykki. Þessi till. er skrifleg, og vænti ég, að hæstv. forseti leiti afbrigða.