20.05.1960
Efri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3153 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

151. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Út af þeirri brtt., sem hæstv. fjmrh. flytur nú, þá sýnist mér málið liggja nokkuð öðruvísi fyrir en þegar það var lagt fyrir sjútvn., sem fjallaði um það. Mér sýnist í fljótu bragði, að það hafi í för með sér, að þar með sé fiskveiðasjóði veitt heimild til að veita lán, eftir því sem sjóðsstjórninni sýnist henta, til skipasmíða, en án alls tillits til þeirrar ríkisábyrgðar, sem er í fjárlögum. Um þetta út af fyrir sig skal ég ekki segja frekar á þessu stigi, en ég vildi mælast til þess, að umr. yrði frestað, svo að n. gæfist kostur á að bera sig saman um þetta atriði við sjóðsstjórnina. Það getur varla þurft að tefja málið neitt að ráði. En þegar n. hafði málið til meðferðar, fjallaði hún að sjálfsögðu um þessa heimild handa sjóðsstjórninni, að þar væri miðað við ríkisábyrgðina, sem er í fjárlögum, en nú á það ekki að verða samkv. brtt. hæstv. ráðh., og því teldi ég rétt, að n. gæfist kostur á að athuga þessa till. nánar, og fer því fram á það við hæstv. forseta.