30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

151. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. (BF) tók fram og einnig er gerð grein fyrir í nál. á þskj. 563, hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, — sama hefur raunar annar nm. gert, hv. 6. þm. Sunnl., — og fyrirvarinn lýtur að því, að fiskveiðasjóði verði útvegað aukið fjármagn til lánveitinga skv. því, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vil benda á í því sambandi, að mér er kunnugt um, að í áætlun, sem stjórn fiskveiðasjóðs hefur gert um lánveitingar þessa árs, hefur verið talið, að sjóðinn mundi skorta talsvert fjármagn til þess að geta innt af hendi þær lánveitingar, sem taldar eru óhjákvæmilegar á þessu ári.

Um s.l. áramót voru í smíðum erlendis um 50 stórir fiskibátar skv. skýrslum Skipaskoðunar ríkisins, og út á þessa báta, flesta eða alla, þarf fiskveiðasjóður að veita lán. Enn fremur má gera ráð fyrir, að þá um áramótin hafi verið eitthvað af leyfum, sem búið var að veita, en ekki búið að gera smíðasamninga út á. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að á þessum skipum hefur að sjálfsögðu orðið mjög mikil verðhækkun í íslenzkum krónum síðan um síðustu áramót. Sama er að segja um vélar í báta, sem fiskveiðasjóður lánar út á. Það er alltaf mikið um það árlega, að skipt sé um vélar í eldri bátum, og þá yfirleitt reyndin sú, að nýju vélarnar eru kraftmeiri og dýrari en þær eldri. Sömuleiðis lánar sjóðurinn til endurbóta á bátum og þ. á m. út á ný tæki, sem sett eru í bátana til aðstoðar við fiskveiðarnar, og allt hefur þetta hækkað mjög mikið í verði. Þar að auki er svo þess að geta, að undanfarin ár hefur sjóðurinn tæplega getað sinnt eftirspurn eftir öðrum lánum, sem honum samkvæmt lögum er heimilt að veita, og þá sérstaklega lánum til að koma upp tækjum til vinnslu aflans í landi. Það er alltaf nokkuð mikil eftirspurn eftir slíkum lánum úr sjóðnum, og hann hefur ekki getað sinnt þeirri eftirspurn undanfarin ár á þann hátt, sem æskilegt hefði verið.

Nú er það hins vegar svo, að það væri auðvitað mjög æskilegt, eins og tekið er fram í grg. þessa frv., að hægt sé að aðstoða skipasmíðastöðvar við bátasmíði, því að bátasmíðin þyrfti að færast meira inn í landið, og ætlunin er að sjálfsögðu með þessu frv., að það verði gert á þann hátt, að stöðvarnar geti fengið bráðabirgðalán til smíða, þó að ekki sé búið að semja um kaup á bátnum.

Það hefur verið gert nokkuð að því undanfarið að veita bráðabirgðalán út á báta í smíðum, og samkv. fiskveiðasjóðslögunum er heimilt að greiða út lánið í þrennu lagi: fyrsta hluta, þegar efni er komið á staðinn og kjölur lagður að bátnum, næsta hluta, þegar búið er að byrða bátinn, ef ég man rétt, og þriðja hlutann, þegar bátur er fullgerður og virðing hefur farið fram. Að því leyti sem þessi lán skipasmíðastöðvanna færu saman við þær fyrirgreiðslur, sem tíðkazt hafa af hálfu fiskveiðasjóðs, beint eða óbeint, í þessu sambandi, þá er kannske ekki um mikið aukið fjármagn að ræða. En ef hins vegar yrði um raunverulega aukningu að ræða, sem annars kæmi ekki til greina að lána, þá verð ég að segja það, og ég vil ekki láta málið fara til næstu umræðu án þess að taka það fram, að mér sýnist ekki, að það sé á neinn hátt fært að taka hana af þeim lánveitingum, sem ella þarf að veita í þeim tilgangi, sem ég hef áður minnzt á. Ég tel, að jafnvel þá að ekki kæmu til greina nýjar lánveitingar af þessu tagi, þá skorti sjóðinn fé til þess að geta innt af hendi þær lánveitingar, sem hann er vanur að inna af hendi, og ef hér kemur einhver viðbót að auki samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður, þá verður sú lánsfjárvöntun að sjálfsögðu þeim mun meiri. Þess vegna hef ég viljað gera þennan fyrirvara við nál., að ef menn ganga út frá því, að þessi heimild verði notuð, þá verði jafnframt á einhvern hátt séð fyrir viðbótarfé til þess.