26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Út af þessum aths., sem fram komu hjá mínum góða samstarfsmanni í nýbýlastjórn ríkisins varðandi þetta frv., vil ég taka þetta fram:

Það er nú svo með það fé, sem ákveðið er að úthluta samkv. 41. gr. l., að það er fyrst og fremst til þess ætlað að koma í veg fyrir, að jarðir fari í eyði, og það hefur verið notað fram að þessu til þess að veita viðbótarstyrk til jarðræktar á þeim jörðum, sem stytzt eru komnar með jarðrækt. En eins og ég tók fram áðan, er það víðast hvar svo, að ég þori að fullyrða, að það er ekki skortur á ræktun, sem gerir það að verkum, að jarðirnar fara í eyði, heldur miklu fremur hitt, hve miklir örðugleikar eru fyrir menn að koma byggingunum upp, og þar er íbúðarhúsið örðugasti hjallinn.

Varðandi hitt atriðið, sem hv. síðasti ræðumaður benti á og náttúrlega fljótt á litið er rétt athugað hjá honum, að það geti verið örðugt fyrir nýbýlastjórn að skera úr um það, hverjir bændur hafi örðugan fjárhag og hverjir ekki. En þetta verður nýbýlastjórn að gera í mörgum tilfellum, og ég, sem hef verið lengi formaður hennar, þekki það vel, að í þeirri nefnd eru svo sanngjarnir menn og réttsýnir, að ég óttast ekkert um, að þeim verði nein skotaskuld úr því að skera úr um þetta, þótt þeim séu ekki fengnar í hendur fastar reglur frá hálfu Alþ. Þess er líka að geta í þessu sambandi, að sem betur fer er það almennt svo í sveitum landsins, að það er orðinn minni hluti af jörðum, sem eftir er að byggja íbúðarhús á, og eins og gefur að skilja, er það almennt svo, að það eru fátækustu mennirnir, sem eiga eftir að byggja hús sin. Frá því kunna að vera nokkrar undantekningar, og þess vegna set ég þetta ákvæði í frv., að það gilti um þá bændur, sem hafa örðugan fjárhag.

Ég vildi taka þetta fram út af þessum athugasemdum, svo að hv. alþm. geti um það hugsað, hvað það er, sem hér er á ferðinni.