13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Ásmundur Sigurðsson.:

Herra forseti. Í framhaldi af því, sem ég sagði um þetta mál við 1. umr. þess, vildi ég segja fáein orð út af þeirri brtt., sem ég flyt á þskj. 350. Ég gerði þá grein fyrir því, sem og hefur komið fram hjá hv. flm., að það fé, sem hann gerir ráð fyrir að verði veitt til þess að greiða þá styrki, sem frv. gerir ráð fyrir, yrði tekið af því fé, sem samkv. umræddum lögum er ætlað til þess að koma ræktun á þeim jörðum, sem væru óhæfilega langt á eftir tímanum hvað ræktun snertir, í sæmilegt horf.

Nú er það að vísu rétt, að eins og sakir standa, er til fé laust, sem mundi leysa úr þessu máli á þessu ári, og ástæðan er ofur eðlileg. Þær framkvæmdir, sem þar var um að ræða, var landnámi ríkisins falið að hafa á hendi, og þær kostuðu mikinn undirbúning. M.a. þurfti að gera nýjar mælingar á öllum túnum á landinu. Þetta gerði það að verkum, að það fé, sem lagt hafði verið fram til að koma jörðunum, sem illa voru ræktaðar, í sæmilegt horf, hefur ekki alveg verið notað enn. En hitt er alveg víst, að það kemur til með að þurfa á því að halda mjög fljótlega og ekki sízt eftir þá miklu verðhækkun, sem verður á þessum framkvæmdum eftir þá löggjöf, sem sett hefur verið hér á hv. Alþ. í vetur. Þess vegna er það, að ég tel, að þetta sé, eins og frv. gerir ráð fyrir, engin lausn til neinnar frambúðar, og flyt þess vegna brtt. á þskj. 350, þar sem ég legg til, að ríkissjóður greiði til þessara auknu styrkveitinga 1 millj. 250 þús. kr. á ári.

Ég vil enn fremur gera lítils háttar grein fyrir þessari upphæð, sem ég nefni í till. Frv. gerir ráð fyrir því, að nýbýlastjórn sé heimilt að veita styrk þeim bændum til bygginga, sem erfitt eiga, og er það samkv. frv. nokkuð á hennar valdi að meta, hverjir það eru. Ég gerði grein fyrir því við 1. umr., að mér þætti það mjög óákveðið orðalag, og held við þá skoðun enn þá.

Nú hefur verið svo með framkvæmdir í þessum málum, að síðan landnáms- og nýbýlalögin tóku gildi árið 1947 og til 1959, þ.e. á 13 árum, hefur meðaltala lána úr byggingarsjóði numið 125 lánum á ári á eldri býlum. Þegar maður dregur nýbýlin frá öllum þeim, sem hafa fengið lán til bygginga, koma 125 á eitt ár. Nú hef ég gert áætlun um það, þó að hún sé auðvitað lauslega gerð og ekki hægt að segja, að hún sé nákvæm, að aldrei koma til greina færri en 50 býli á ári, sem mundu njóta styrkveitingar samkv, frv., og er það aðeins 2/5 þess býlafjölda, sem að meðaltali hafa verið byggð íbúðarhús á síðastliðin 13 ár. Það má að vísu vera, að núna muni eitthvað draga úr byggingum, svo að það verði ekki eins mörg næstu árin, vegna þeirra verðhækkana, sem nú hafa orðið. En jafnvel þó að eitthvað dragi úr byggingum íbúðarhúsa, þá hygg ég það mjög varlega áætlað, að ekki minna en 50 býli á ári komi undir þessi ákvæði, og þau gætu vissulega orðið fleiri. Þess vegna hef ég miðað fjárhæðina við það, að ríkissjóður yrði að leggja fram það fé, sem þyrfti til þess að leysa úr þessu vandamáli fyrir þennan nýbýlafjölda.

Ég tel að vissu leyti, að það sé full þörf á því að greiða úr fyrir þeim, sem þurfa að ráðast í byggingarframkvæmdir núna, ekki sízt eftir verðhækkanirnar, sem nú hafa orðið. En hitt er annað, að ég tel það ekki fulla lausn og satt að segja ákaflega litla lausn að ætla að taka það fé af öðru fé, sem þegar er áætlað til annarra framkvæmda og þarf á að halda til þeirra á næstunni. Þess vegna vildi ég óska, að þessi brtt. yrði samþykkt.