13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3171 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Í því frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 280, er lagt til, að breytt verði lögunum um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, þannig að inn í þau verði felld ný grein, þess efnis, að nýbýlastjórn sé heimilt að veita þeim bændum, sem hafa örðugan fjárhag, eins og það er orðað, styrk til íbúðarhúsabygginga á sama veg og nýbýlastofnendum, þó að ekki sé um nýbýli að ræða, enda geti þessi styrkur orðið, eins og segir í 26. gr. laganna, allt að 25 þús. kr. En ákvæði um byggingarstyrk til íbúðarhúsa á jörðum, sem eru ekki nýbýli, eru ekki í lögunum, eins og þau eru nú. Í frv. er gert ráð fyrir, að fé til þess að greiða þennan endurbyggingarstyrk verði tekið af því fé, sem nýbýlastjórnin hefur til ráðstöfunar og á að verja, samkv. 41. gr. frv., aðallega til þess að greiða fyrir stækkun þeirra túna í landinu, sem eru minni en 10 ha. Af þessu fé leggur flm. frv. til, að tekin sé sú upphæð, sem þarf til að greiða endurbyggingarstyrkinn á íbúðarhúsin, sem eru ekki á nýbýlum, og um það er svo ekki frekar fyrir mælt.

Ég hygg, að það sé alveg rétt hjá hv. flm., að þess sé nú full þörf, að bætt sé einhverju við þær 75 þús. kr., sem bændur nú geta fengið að láni til byggingar íbúðarhúsa á jörðum sínum úr byggingarsjóði sveitabæja, og hefði þó ef til vill verið eðlilegast að byrja á því að sjá svo um, að bændur gætu fengið þessi lán á réttum tíma og á þeim tíma, sem þeir hafa verið vanir að fá þau undanfarin ár. En á því hefur því miður orðið mikill misbrestur að þessu sinni, þannig að lán út á húsin, sem byrjað var að byggja á árinu 1959 og áttu samkvæmt venju, ef skjöl voru fyrir hendi, að verða veitt í Búnaðarbankanum ekki síðar en í des. 1959, er verið að veita fyrst nú þessa dagana, eftir að komið er fram í maímánuð, og eðlilegast hefði það verið sem fyrsta úrlausn á vanda þessara manna að greiða fyrir því, að þessi lán hefðu verið veitt á eðlilegum tíma. Nú hefur það tekizt, eins og ég hef nefnt.

Í öðru lagi hefði verið eðlilegt að taka til athugunar, eins og nú er komið, þegar byggingarkostnaður er mjög hækkaður, að hækka þessi lán, þau lán, sem nú eru veitt, og þau lán, sem kunna að verða veitt síðar á þessu ári, úr 75 þús. upp í hærri upphæð.

Þetta eru vitanlega þau úrræði, sem eðlilegt er að mönnum, sem vilja hér styðja að fyrirgreiðslu, komi fyrst í huga. En þar að auki kemur það vitanlega mjög til athugunar að greiða bændum eitthvert óafturkræft framlag til endurbyggingar á íbúðarhúsum.

Þetta var í lögum fyrir nokkuð löngu. Ég man ekki, hvað langt er síðan það var fellt úr lögum. En það er fyllilega athugandi að taka þau ákvæði upp aftur, um endurbyggingarstyrkinn, og að því leyti virðist mér þetta frv. stefna til réttrar áttar. En það, sem mér finnst vera galli á þessu frv., svo sem nokkuð hefur verið drepið á hér í umr., er það, að þetta fé í endurbyggingarstyrkinn skuli eiga að taka á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég vil biðja hv. þm. að athuga nánar það orðalag, sem er á 1. gr. frv. á þskj. 380. Þar er fyrst kveðið svo á, að nýbýlastjórn skuli heimilt að veita þeim bændum, er hafa örðugan fjárhag, styrk til íbúðarhúsabyggingar á sama veg og nýbýlastofnendum, sbr. 26. gr., þ.e.a.s. allt að 25 þús. kr. á hvert íbúðarhús, og síðan segir, með leyfi hæstv. forseta: „Sé styrkurinn greiddur af því fé, sem fram er lagt samkv. 41. gr.

M.ö.o.: ég fæ ekki betur séð en með þessu ákvæði sé verið að minnka ríkisframlagið samkv. 41. gr. um þá upphæð, sem í endurbyggingarstyrkina kann að fara. Það er ekkert ákvæði um það í frvgr., að þetta fé eigi að endurgreiða, að ríkissjóður eigi að endurgreiða nýbýlastjórninni þessa upphæð, sem varið verði til endurbyggingarstyrkja, og ef ekkert slíkt ákvæði er til í lögunum, er ríkisstj. vitanlega ekki skylt að gera það. Þess vegna virðist mér, að koma verði inn í frv. ákvæði um, að þetta fé skuli endurgreiða úr ríkissjóði, og þó að slíkt ákvæði verði sett inn í frv., er það ekki sama sem fjárveiting. Og eftir því sem segir í grg. fyrir þessu máli af hálfu hv. flm., er ekki líklegt, að til endurgreiðslu þurfi að koma á þessu ári, þannig að það eru ekki rök í þessu máli að tala um, að búið sé að afgreiða fjárlög fyrir árið 1960 og þess vegna sé ekki hægt að samþykkja þetta. Hér þarf ekki að vera um neina fjárveitingu að ræða á árinu 1960, heldur aðeins lagaákvæði um það, að þetta fé beri að endurgreiða. Annars er ekki skylt að endurgreiða það samkvæmt ákvæðum frv., því að þar eru engin fyrirmæli um endurgreiðslu.

Ég vildi mælast til þess við hv. flm. og aðra, að þeir tækju þetta til athugunar. Lögin um landnám, ræktun og byggingar í sveitum eru frá árinu 1957, þau voru sett eftir að milliþn. hafði fjallað um nýbýlalöggjöfina og fleira. Í grg. þessa frv., sem var stjórnarfrv., segir svo um 41. gr. frv., sem fjallar um framlög til þess að stækka minnstu túnin, að stefnt sé að því, að ekkert tún þurfi að vera minna en 10 ha. Um það segir svo í grg.: „Hér er um að ræða stærsta nýmæli frv. Hér er lagt til samkvæmt till. nefndarinnar, að ríkissjóður greiði 4 millj. kr. á árinu 1957 og síðan 5 millj. kr. á ári næstu 4 árin til stuðnings þeim jörðum, sem hafa of litla ræktun.“

Þetta ákvæði um að verja á fimm árum 24 millj. kr. til þess að stækka minnstu túnin er í grg. frv. talið stærsta nýmæli laga þessara, og í áliti þeirrar mþn., sem vann að endurskoðun laganna, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þeim rannsóknum, sem landnám ríkisins hefur gert um eyðijarðir, er ljóst, að meginhluta þeirra jarða, sem í eyði hafa farið, hefur skort fullnægjandi heyöflunaraðstöðu.“ Svo segir: „Það er og vitað mál, að 10.3% af byggðum jörðum hafa bústærðir árið 1957, sem svara til 2–3 kúa þunga samkvæmt heimildum frá formanni Stéttarsambands bænda, og 33.9% af jörðunum hafa bústærðir frá 4–8 kúa þunga. Það, sem orsakar þetta, er m.a., að viðkomandi jarðir hafa of litinn heyskap af ræktuðu, vélfæru landi. Þessum jörðum er öðrum jörðum fremur hætta búin um að fara í eyði.“

Þetta var álit þeirrar mþn., sem á sínum tíma var til þess sett að gefa gaum að þessum málum. Hún var skipuð með bréfi landbrh. 5. júlí 1956. Í þeirri nefnd voru menn, sem kunnugir eru landbúnaðarmálum, og mun enginn draga það í efa. Form. n. var skólastjóri bændaskólans á Hólum í Hjaltadal, Kristján Karlsson, en með honum voru í nefndinni form. Búnaðarfélags Íslands, Þorsteinn Sigurðsson bóndi á Vatnsleysu, Pétur Ottesen alþm. og bóndi á Ytra-Hólmi, Jón Pálmason alþm. og bóndi á Akri, form. nýbýlastjórnar, og Pálmi Einarsson landnámsstjóri.

Það var álit þessara mætu manna, og ég sé ekki annað en það hafi verið sameiginlegt, að þessum jörðum, þar sem túnin eru minni en 10 ha., væri öðrum jörðum fremur hætt við að fara í eyði. Og það var í fullu samræmi við þetta að sjálfsögðu, sem segir í grg., sem ég las upp áðan, að ákvæðið um að verja þessum 24 millj. á fimm árum til þess að stækka tún þessara jarða væri stærsta nýmæli laganna.

Ég verð að segja það, að mér er mjög sárt um, að verið sé að hrófla við þessum lagaákvæðum og þessari viðurkenningu, sem þarna hefur fengizt á Alþ, og verið sett þar í lög, að farið sé að hrófla við þeirri lagasetningu og þeirri viðurkenningu með því að ákveða nú allt í einu að fara að greiða fé úr þessum sjóði til annarra framkvæmda, þótt að vísu séu þarfar og góðar, án þess að nokkuð sé um það sagt, sem lagagildi hefur, að þetta eigi að endurgreiðast, því að þótt menn geri ráð fyrir því hér í þingræðum, að um endurgreiðslu verði að ræða, hefur það ekki lagagildi. Ég skil ekki ástæðuna fyrir því, ef menn vilja ekki setja þetta ákvæði um endurgreiðslu inn í lög. Ég skil ekki ástæðuna fyrir því, því að eins og ég sagði áðan, á það ekkert skylt við fjárveitingu á þessu ári eða fjárlög þessa árs, heldur er það aðeins til þess að tryggja rétt þessa sjóðs, ef svo mætti nefna þessa 24 millj. kr. fjárupphæð, til endurgreiðslu á fé, sem til stendur að lögbjóða að úr honum skuli tekið.

Ég tel, að í sambandi við það, sem nú er fram komið, sé a.m.k. alveg sjálfsagt að samþykkja brtt. á þskj. 439, 2. tölul., um endurgreiðslur úr ríkissjóði, þegar fjárins er þörf, og ég sé ekki, hvernig þeir menn, sem ætlast til þess í alvöru, að féð sé endurgreitt, ætla sér að greiða atkv. á móti þeirri brtt. Ég sé ekki, hvernig þeir geta hugsað sér að greiða atkv. á móti þeirri brtt., ef þeir ætlast til þess, að þetta fé sé endurgreitt yfirleitt.

Hitt er svo annað mál, hvort menn vilja fallast á það að hækka hámark endurbyggingarstyrks úr 25 þús. upp í 40 þús. Ég fyrir mitt leyti tel það enga ofrausn, þó að það væri gert, og mun verða því fylgjandi. En andstaðan gegn hinni brtt. er mér óskiljanleg, ef það sjónarmið liggur ekki til grundvallar, að hér sé verið að byrja á að rýra þetta fé, rýra þessi ríkisframlög, sem eiga að fara til þess að stækka minnstu túnin. Ég veit, að það er til hér í landinu það sjónarmið, að bændabýlin séu nógu mörg og þau séu kannske of mörg og það eigi kannske að fækka bændum landsins um helming. Það hefur maður jafnvel séð á prenti og ekki mjög langt síðan. Ef þetta sjónarmið er lagt til grundvallar, er það mjög skiljanlegt, að menn treysta sér til þess að greiða atkv. á móti brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. 2. þm. Norðurl. v. hafi það sjónarmið, að hann vilji vinna að því að fækka bændum landsins, ég geri ekki ráð fyrir því, að hann vilji það. En fyrir þá, sem hafa það sjónarmið og er ósárt um það, þótt bændastéttin dragist eitthvað saman, telja það þjóðhagslega óhollt og óþarft að hafa svo stóra bændastétt, þá er þetta kærkomið tækifæri. Það er ósköp eðlilegt byrjunarskref að vera ekki að hlúa að því, að þær jarðir eflist og verði kannske stórbýli, sem nú berjast í bökkum. Það er ósköp einfalt mál fyrir þá, sem slíkt sjónarmið hafa, að stuðla að því, að ríkið hætti að styðja þessar jarðir, sem berjast í bökkum, og láta það svo koma af sjálfu sér, að búskapurinn leggist niður á þeim. Það er sjónarmið út af fyrir sig, að bændur kunni að vera of margir í landinu og byggðar jarðir of margar og það kunni að vera hætta á því, að landbúnaðarframleiðslan verði of mikil, hún kunni að verða baggi á þjóðfélaginu. Það er sjónarmið út af fyrir sig, sem glögglega kemur fram að ýmsir hafa nú á tímum. Það er ekki mitt sjónarmið, ég ætla, að það sé ekki sjónarmið hv. 2. þm. Norðurl. v., og sem betur fer eru þeir margir í landinu, sem hafa ekki það sjónarmið. En ég held, að menn, sem hafa ekki þetta sjónarmið, ættu að hugsa ráð sitt í sambandi við þetta mál, þegar verið er að seilast í upphæð, sem kann að skipta einhverjum millj., af því fé, sem ætlað er til stuðnings þeim býlum, sem minnsta ræktun hafa, og engin trygging sett fyrir því jafnframt, að það verði endurgreitt.

Það gæti verið ástæða til þess að ræða miklu lengur um þessi mál í tilefni af því frv., sem hér liggur fyrir, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni og skal láta máli mínu lokið.