19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3183 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Um þessa till., sem hv. síðasti ræðumaður var að tala fyrir, vil ég segja það, að ég tel það skipta ákaflega litlu máli, hvort hún er samþ. eða ekki. Ég lít svo á, að hún sé óþörf, því að það eru engar áætlanir um það, allra sízt hjá nýbýlastjórn ríkisins og ég held ekki neinum þeim, sem hafa stutt þetta frv., að draga úr þeim framkvæmdum, sem áætlaðar eru til varnar því, að jarðir fari í eyði. Hins vegar má segja, að það spilli ekki neinu, þó að þessi till. væri samþ., því að ætlunin er hvort sem er, að nýbýlastjórn biðji um hækkaða fjárveitingu, þegar þess gerist þörf. Menn verða því alveg að eiga það við sjálfa sig, hvort þeir vilja samþ. þessa till. eða ekki, en ég lít svo á, að hennar sé ekki nein þörf.