02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3183 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Mál þetta, sem er breyt. á l. nr. 48 28. maí 1957, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, hefur borizt hingað til Ed. frá Nd. og legið alllengi, síðan landbn. afgreiddi frv., sem var á þá leið, að meiri hl. n. leggur til, að það verði samþ. óbreytt, en tveir nm. hafa skilað sérstöku áliti og till., eru í sjálfu sér ekki á móti málinu, en vilja ganga allmiklu lengra en frv. sjálft gerir, eins og það liggur hér fyrir.

Í aðalatriðum er efni frv. það, að nýbýlastjórn skuli vera heimilt að veita lítils háttar byggingarstyrk til íbúðarhúsabygginga í sveitum, þar sem erfiður fjárhagur er fyrir hendi, af fé því, sem nýbýlastjórn hefur til umráða samkv. l. og varið er til aukinnar ræktunar á býlum, sem hafa ekki tún, sem ná 10 ha. stærð. Þannig stendur á, að fjárveitingar til þessara hluta, sem eru á vegum nýbýlastjórnarinnar, hafa verið ofur lítið hærri undanfarin ár en unnið hefur verið fyrir, svo að safnazt hefur lítils háttar sjóður hjá nýbýlastjórninni, um 4 millj. kr., eins og nú standa sakir.

Það þarf sjálfsagt ekki að skýra það, að þeir, sem þurfa að ráðast í byggingar á sveitabæjum nú, eru í allmiklum fjárhagslegum kröggum, ekki sízt þar sem þetta eru yfirleitt þeir menn, sem einna lakastan hafa fjárhaginn og hafa orðið að bíða með sínar byggingar. Eitt í hlutverki nýbýlastjórnar samkv. þessum l. frá 1957 er að vinna á móti því eftir föngum, að jarðir fari í eyði, þar sem nærri liggur, að svo verði vegna ýmislegrar óhagstæðrar aðstöðu. Þetta mál hefur verið sent landnámsstjóranum, Pálma Einarssyni, og óskað álits hans um það. Var það gert, meðan málið lá fyrir Nd., og eru eindregin meðmæli hans um, að þetta verði gert.

Það liggur að sjálfsögðu í hlutarins eðli, eins og fram kemur í frv., að þetta er aðeins heimild fyrir nýbýlastjórnina að meta, hvort út í þetta skuli farið í einstökum atriðum, og þar sem fé er fyrir hendi, sem raunar var þó ætlað til annarra hluta, kemur þetta ekki við fjárlög þessa árs, og eftir atvikum hefur meiri hl. landbn. sýnzt að mæla með, að þetta verði samþ. óbreytt.

Ég hefði að sjálfsögðu getað talað margt um þetta mál, því að ég er nokkuð kunnugur, hvernig ástandið er á þeim býlum, sem enn eiga eftir að byggja, og hjá þeim bændum, sem á þeim býlum búa. En þar sem tími er naumur, fer ég ekki út í það, en vil hins vegar leggja ákveðið til, að þetta mál nái fram að ganga sem bráðabirgðaúrræði fyrir þessa menn, sem því betur eru nú orðnir mjög fáir í landinu, því að víðast hvar er þegar búið að byggja upp á sveitabýlunum.