03.06.1960
Efri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3186 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls í gær voru felldar brtt., sem ég bar hér fram ásamt hv. 5. þm. Austf. (PÞ). Til þess að prófa enn þá einu sinni, hvort d. geti ekki fallizt á það, að fjárveiting sé viðhöfð, þegar farið er að greiða af því fé, sem hefur til annars verið ætlað, vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þeirri till., sem við berum hér fram að nýju, hv. 5. þm. Austf. ásamt mér, en till. hljóðar þannig, með leyfi forseta, — hún er við 1. gr. og um það, að síðari efnismálsliður falli burt, en aftan við frv. komi svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði:

„Heimilt er að greiða styrk samkvæmt lögum þessum af fé því, sem lagt er fram samkv. 41. gr. laganna, enda endurgreiði ríkissjóður fé þetta á næsta ári á eftir.“

Ég ætla mér ekki að fara að fjölyrða um þetta mál hér nú, enda hefur hv. þingmönnum gefizt kostur á að kynna sér það til hlítar, þar sem við gerðum glögga grein fyrir málinu í nál., en ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir tillögu þessari.