03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur nú gripið til þess ráðs að skera niður umræður með mjög óvenjulegum hætti um mál það, sem hér er á dagskrá. Ég vil til viðbótar því, sem ég sagði áðan um þessa ráðstöfun hæstv. forseta, vekja athygli á því, að með slíkum vinnubrögðum sem þessum er auðvelt — og sennilega verður það næsta skrefið — að koma í veg fyrir það, að alþm. geti fengið að ræða að nokkru leyti þau frv., sem lögð verða fyrir Alþingi, með því að einn eða tveir menn af 40, sem eiga sæti í þessari hv. d., tali alllengi og ýtarlega um eitthvert mál, sem lagt er fram. Og komið hefur það fyrir, að ráðherrar og aðrir, sem rætt hafa um mál, hafi talið sig þurfa að gera því glögg skil í löngu máli. En víssulega væri hægt með því að ætla að nota þingsköpin á þá lund, sem hæstv. forseti gerir nú í sambandi við niðurskurð á umræðum, að flytja till. um það, eftir að einn eða tveir ræðumenn hafa talað, að nú verði umr. lokið eftir nokkrar mínútur, og þar með er búið að svipta alla hina þingmennina möguleika til þess að segja skoðun sína á því máli, sem fyrir liggur.

Ég vil vekja athygli á því, að það, sem nú hefur verið gert í þessum efnum og er alveg einsdæmi, það miðar greinilega í þessa átt, að svipta menn málfrelsi hér á Alþingi og aðstöðu til þess að lýsa afstöðu sinni til mála. Hér er því efnt til hættulegs fordæmis, og það má fyllilega búast við því, að þetta fordæmi verði einhvern tíma notað siðar, fyrst byrjað er á því nú. Ég hlýt að mótmæla þessu.

Það sjá vitanlega allir hv. alþm., að það er engin aðstaða til þess fyrir þann, sem nú talar hér í fyrsta skipti um það mál, sem hér liggur fyrir, sem raunverulega eru fimm mismunandi mál og þau sum hver margsamansett, að það er engin leið til þess á örfáum mínútum að ræða þessi mál á þá lund, sem eðlilegt væri.

Ég vil líka benda á það, að þegar hæstv. forseti grípur nú til þess ráðs — sýnilega eftir fyrirskipun frá ríkisstj. — að svipta þm. á þennan hátt málfrelsi hér á Alþingi, þá er það líka gert við mjög sérstakar kringumstæður. Hér leggur ríkisstj. fram stjórnarfrv. Það er fjmrh. landsins, sem á að vera í forsvari fyrir þessum fimm frv., sem áttu að vera, en nú eru orðin að einu frv. Hér var um tekjuöflunarfrumvörp að ræða. En hvar hefur hæstv. fjmrh., sá sem átti að standa fyrir þessu máli, verið, á meðan umr. fóru fram hér á Alþingi? Hvar hefur hann verið? Allir ræðumenn, sem hér hafa fengið að tala í þessu máli, hafa lýst eftir því, að sá ráðh., sem ber ábyrgð á því máli, sem hér liggur fyrir, kæmi til andsvara, að hann kæmi hingað til þess að veita upplýsingar um málið. En hvar hefur hæstv. ráðh. haldið sig? Forseti hefur ekki orðið við óskum þingmanna í þessum efnum, að sjá til þess, að sá ráðh., sem flytur mál á Alþ., væri hér mættur. Ég verð að segja það, að ég þekki ekki eitt einasta dæmi um það þann tíma, sem ég hef verið hér á Alþ., að nokkur ráðh. hafi sýnt Alþ. slíka óvirðingu sem þessi ráðh, hefur gert í þessu efni, að hann hafi ekki gefið sér tíma til þess að vera nokkra stund hér á Alþ., á meðan það frv. er rætt, sem hann stendur að að leggja fyrir þingið. Það er alveg einstök óvirðing, og það er alveg furðulegt, að það skuli finnast nokkur forseti hér á Alþ., sem getur fallizt á það að svipta alþingismenn málfrelsi um mál, þegar þannig er að því staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Og það er eins og ég sagði áður, að þegar svona vinnubrögð eru víðhöfð hér og þau eru knúin fram með nokkurra atkv mun, þá verður munað eftir þeim vinnubrögðum, þótt síðar sé. Og það er alveg áreiðanlegt, að það boðar enga gæfu fyrir núverandi ríkisstj. að efna þannig til starfa í upphafi verka sinna.

Ég hlýt að mótmæla þessum vinnubrögðum og benda á það, hversu hættuleg þau eru. Auðvitað átti hæstv. forseti einmitt að sjá um það, að gamlar og rótgrónar þingvenjur væru haldnar í þessu efni, með því, eins og mörg dæmi eru til um áður, að forsetar stöðva umræðu um mál, ef ráðh. vantar í þd. til þess að gefa þær upplýsingar, sem um er beðið. Ég minnist þess, að það hafi komið fyrir hér oftar en einu sinni, að forsetar hafi stöðvað umræðu um mál og síðan slitið þingfundi og frestað málinu, þar til viðkomandi ráðherrar, sem áttu að fylgja málinu eftir og gefa hér upplýsingar, mættu á þinginu og gættu þingmannsskyldu sinnar og ráðherraskyldu sinnar. En núv. hæstv. forseti þessarar d. bregður við á gersamlega annan hátt. Hann lætur umr. fara hér fram, án þess að sá ráðherra, sem leggur málið fram og ber ábyrgð á málinu, sé mættur í þd., og ákveður svo í þokkabót að taka málfrelsi af þingmönnum til þess að ræða málið og slíta því þannig, að engin aðstaða verði til þess að yfirheyra þann ráðh., sem hér leggur málið fram, og spyrja hann út úr.

Er t.d. nema von, að hv. alþingismenn vilji fá það upplýst, þegar á að framlengja fimm mismunandi skatta frá næstu áramótum og út allt næsta ár, hvort meiningin sé að halda þessum sköttum allt næsta ár, þrátt fyrir það, þó að eigi að taka hér upp nýtt efnahagsmálakerfi og gerbreyta í einu og öllu öllum tekjustofnum ríkisins? Var nokkur þörf á því fyrir hæstv. fjmrh. að óska eftir framlengingu á þessum skattafrv. nema aðeins um tveggja mánaða skeið eða svo, eins og hann hefur óskað eftir að fá heimild Alþingis til þess að annast bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði aðeins um tveggja mánaða skeið?

En þó að fyrirspurnir hafi verið lagðar fram um þetta efni, þá vitanlega er engin leið að fá þeim svarað, vegna þess að sá fjármálaráðherra, sem á að svara fyrir þetta mál, er ekki mættur í húsinu. Aðrir ráðherrar, sem virðast hafa verið dæmdir til þess af hæstv. ríkisstj. að sitja hér á þingi, til þess þó að hægt væri að segja, að einhver úr ríkisstj. væri hér mættur, þeir þegja hér þunnu hljóði og segja ekki eitt einasta orð, hafa engu til að svara, hvernig sem þeir eru spurðir. Einn af þessum ráðherrum sagði, að hann mundi flytja fjmrh. eitthvað af því, sem hann heyrði hér sagt. Það er varla til mikils gagns, jafnvel þótt þetta væri gert, að flytja honum það, eftir að málið hefur síðan verið fullafgreitt hér á Alþingi, umr. slitið og málið afgreitt. Nei, þetta eru í mesta máta óforsvaranleg vinnubrögð á alla lund. Og ég vil vara við því, að svona verði að málunum staðið.

Í þessu frv., sem hæstv. fjmrh. leggur hér fyrir Alþ. um framlengingu nokkurra skatta, er m.a. um það að ræða að framlengja allt næsta ár söluskattinn svonefnda. Nú er það alkunnugt, að einmitt núv. hæstv. fjmrh. hefur verið sérstakur áhugamaður í sambandi við söluskattinn. Hann hefur sjálfur flutt hér á Alþ. ekki minna en tvö frv. um söluskattinn, um að gerbreyta honum, ekki framlengja hann óbreyttan, við eigum að gerbreyta honum, verja honum að verulegu leyti til stuðnings bæjarog sveitarfélögunum í landinu. Hann hefur flutt um þessi frv. sín hér á Alþ. langt mál og ýtarlegt. Hann hefur skrifað langar grg. þessum frv. sínum til stuðnings. Nú fer hann í alveg öfuga átt við þessi frv. sín í sambandi við söluskattinn, leggur nú til allt annað. En af því að hann veit, að hann muni verða spurður út úr um þetta hér á Alþingi, hvernig sé nú komið hans fyrri skoðun í þessu máli, hvað sé nú orðíð um hana, — af því að hann veit þetta, þá kýs hann þá leiðina að læðast út úr alþingishúsinu, hverfa frá sinni þingmannsskyldu og ráðherraskyldu að svara til saka í sambandi við það frv., sem hann hefur hér flutt, — læðast út úr húsinu, láta ekki sjá sig, vera ekki hér til andsvara, og fá síðan forseta þingsins til þess að svipta þingmenn eðlilegum ræðutíma hér á Alþingi, svo að hann verði ekki yfirheyrður hér um þetta mál. Þetta er ekki stórmannleg framkoma. Það er ekki ýkja beysið af hæstv. fjmrh. að standa þannig að málflutningi á Alþingi. Ég vil líka mótmæla vinnubrögðum eins og þessum, og ég tel það ekki maklegt, að hæstv. forseti þessarar d. skuli á þennan hátt hlaupa undir bagga með hæstv. fjmrh. til þess að reyna að frelsa hann úr þessari klípu, sem hann var kominn í, í sambandi við þetta söluskattsmál. En það er eins og aðrar klípur, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur sett sig í, það á að grípa til hvers óyndisúrræðisins á fætur öðru í sambandi við þessar pólitísku klípur.

Það vita allir, að ein meginástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. leggur slíkt ofurkapp á það, sem raun er á, að reka þingið af höndum sér nú, — nú strax, — er það, að ríkisstj, óttast 15. des., það vita allir. Hún óttast það, að þá ganga brbl. sællar minningar úr gildi, og hún er að reyna að flýja þennan dag, eða a.m.k. hún vill ekki hafa Alþ. hér sitjandi að störfum, þegar brbl. sællar minningar ganga úr gildi. Og það getur varla verið, að þetta sé gert með annað í huga en það, að ríkisstj. ætli, þegar hún er laus við Alþ., að gefa út ný brbl. í stað þeirra, sem ganga úr gildi 15. desember.

Hér hafa ekki fengizt neinar skýringar á því frá hæstv. ríkisstj., hvað við á að taka 15. des. í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara. Það væri þó sannarlega eðlilegt, að hv. alþingismenn fengju upplýsingar um það, hvað við á að taka í þeim efnum 15. des., þegar brbl. ganga úr gildi. Eða, eins og ég hef spurt um áður, er það í raun og veru meining hæstv. ríkisstj. að senda þingið heim 7.—8. des. og setja brbl. eftir 4—5 daga um málefni, sem Alþ. gat hæglega sett lög um sjálft? Hver á eiginlega að setja lög í þessu landi? Heldur núv. ríkisstj., að það sé verkefni ríkisstj. sjálfrar almennt að setja lög? Nei, það er vitanlega mesti misskilningur. Það er Alþingi, sem á að setja lögin, og það er aðeins í neyðartilfellum, sem má grípa til þess að setja brbl. Þegar Alþ. er ekki við höndina, en óhjákvæmilegt er þó að setja lög, þá má setja brbl., enda á þá að leggja þau strax fyrir næsta þing til staðfestingar. En það hefur ekki verið gert í þessu tilfelli. Frv. til staðfestingar á brbl. hefur enn ekki verið lagt fyrir þingið. Og það væri vitanlega hið freklegasta brot á þingræðinu, ef ríkisstj. ætlar að nota þingfrestunina til þess að setja brbl., rétt eftir að þingið hefur verið rekið heim.

En ef ekki á að setja ný brbl. 15. des., nokkrum dögum eftir að þingið fer heim, hvað á þá að gera? Hvað gerist þá 15. des.? Eins og ég hef bent hér á áður, þá kemur þó 15. des., jafnvel þó að þingið fari heim. Það er alveg ómögulegt annað. Og hvað gerist þá? Já, það kemur 16. des., það er nokkurn veginn alveg vitað, hann kemur líka á eftir. En ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að sjá það, að bæði 15. og 16. des. koma. Og það verður vitanlega eitthvað að taka við í sambandi við verðlagsmál landbúnaðarins. Það er alveg útilokað, nema hér eigi að gilda ein runa af lögbrotum eða stjórnarskrárbrotum í krafti núv. ríkisstjórnar, að ætla að fara þá leið að leysa þessi vandamál með nýjum brbl. En það er eins og annað í sambandi við afgreiðslu þessara mála nú, að það er alveg þýðingarlaust að spyrja um eitt eða neitt. Hér fást engar upplýsingar, — ekki til að tala um.

Ég vildi tala hér talsvert langt mál um þetta frv., sem hér liggur fyrir, því að það var full ástæða til þess. Það er með endemum, hvernig sem á það er litið. Og það verður kannske á sinn hátt sem minnisvarði um tvo fyrrverandi prófessora í lögum frá Háskóla Íslands, sem nú sitja í ríkisstjórn og hafa gert sig seka um það að leggja þetta frv. fram hér á Alþingi. Frv. heitir: „Frv. til laga um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga.“ Nafnið eitt út af fyrir sig er býsna sögulegt: „Frv. til laga um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga.“ Það er svo sem ekkert um efni frv., ekkert, sem gæti leitt mann á sporið um það, um hvað frv. er. Við þm. gætum næst á eftir að sjálfsögðu farið að flytja hér frv., sem hétí: „Frv. til laga um breyting á lögum“ og ekkert meira. Það hlýtur að mega flytja hér frv., sem heitir: „Frv. til laga um breyting á lögum“ eins og að segja: „Frv. til laga um breyting á nokkrum lögum.“

Það eru tveir fyrrverandi lagaprófessorar, sem standa að því að flytja svona frv. hér, auðvitað vegna þess, að mennirnir voru komnir í pólitíska klípu, sem búið er hér að lýsa. Þeir voru búnir að leggja hér fram fimm frv. á Alþingi, eins og venja hafði verið til um þessi 5 mismunandi mál. Þeir voru búnir að láta þm. ræða þessi mál í alllangan tíma í hvorri þd. um sig. Þá allt í einu hendast þeir upp og sjá, að hér eru þeir komnir í öngþveiti, hér fái þeir ekki við neitt ráðið. Og þá er það, sem þeir hnoðböggla þessu öllu saman í eitt frv. Og það tekst auðvitað svona til, að lagasmiðin verður eftir því, sem þetta frv. er, og mætti margt um segja. Og það reyndist ekki heldur hægt að koma þessu frv. í gegnum þingið nema með því að grípa til alveg óþekktra vinnubragða á Alþingi, að skera að heita má niður allan eðlilegan ræðutíma hv. alþingismanna.

Ég veit, að það hlýtur að vekja mikla athygli hjá almenningi í þessu landi, þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð hér á hv. Alþingi. Menn hljóta vitanlega að fara að hugleiða það, hvað eiginlega stendur til, hvað er á seyði. Menn spyrja: Hvernig stendur á því um nýkjörið Alþingi, sem aðeins hefur setíð að störfum í eina viku, að það þykir alveg lífsnauðsyn að reka það heim, svo að segja með valdi? Hvað stendur til? Hvað er á ferðinni? Og hvað kemur til, að ríkisstj. skuli fleygja fram einu frv. í dag, kippa því til baka á morgun og þverkrussa þetta fram og til baka, sem hún er að gera? Hvernig stendur á því, að hún skuli yfirgefa frumvörp í miðju kafi á Alþ. og í miðjum umr. og snúa þannig við blaðinu? Hvers konar fát og fum er þetta á ríkisstj.? Hvað er það, sem sækir að henni? Stendur eitthvað stórkostlegt til? Menn verða líka varir við það, að í þeim fáu orðum, sem hér hafa verið kreist upp úr hæstv. ráðherrum í sambandi við þessar umræður, koma hinar merkilegustu yfirlýsingar. Hæstv. fjmrh. segir, að hér eigi að taka upp nýtt fjármála- og fjárhagskerfi í landinu. Það var nú ekki minna en það.

Það er alveg augljóst mál, að svona vinnubrögð munu vitaskuld skapa gífurlegan ótta hjá fólkinu í landinu. Og þessi ótti er þegar farinn að segja til sín, með því að stórfelldar truflanir ganga yfir í öllum viðskiptamálum og atvinnumálum landsins, og þessar truflanir eru að verða svo alvarlegs eðlis nú, að það má segja, að það stappi nærri lokun bankanna í landinu í sambandi við alla gjaldeyrissölu. Ég hef vakið á því athygli áður, að þetta er hættulegt, að þegar svona stórfelldar ráðstafanir eru boðaðar og það á þennan sérkennilega hátt og þingið á að sendast heim og þingstörf að leggjast niður um tveggja mánaða tíma, þá vitanlega verður þessi 2 mánaða tími nokkurs konar felmtursástand í landinu. Það má alveg búast við því, að það sé ekki aðeins byrjunin á því, eins og bankarnir kvarta undan núna, að þeir, sem hafa útflutningsvörur í sinum höndum, vilji ekki flytja þær út, þeir ætli að bíða eftir hinu breytta gengi. Og nú eru líka bankarnir að gera kröfu um það, að ríkisstj. með einhverjum hætti píni menn þá, sem hafa útflutningsvörur í sínum höndum, til þess að selja þær. Það má líka búast við því, að bankarnir þurfi að kvarta betur en þeir gera nú í dag undan því, að þeir, sem hafa flutt út vörur og selt þær í erlendum gjaldeyrí, skili ekki gjaldeyrinum og hér verði á einhverju tímabili alger gjaldeyrisþurrð. Og það yrði jafnvel alvarlegra en það er orðið, þegar útgerðarmenn geta ekki fengið nauðsynlegasta gjaldeyri til þess að kaupa sér veiðarfæri og annað það, sem þarf til þess að útbúa bátana og skipin undir komandi vertíð. Þetta ástand er þegar skapað núna að talsverðu leyti, en auðvitað kemur þetta til með að magnast. Svona óvenjuleg vinnubrögð leiða vitanlega af sér stórhættulegt ástand á marga lund. Og það er alveg furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skuli efna til þessa.

Ég hef í þessum umræðum m.a. minnzt á það eða spurzt fyrir um það hjá hæstv. ríkisstjórn, hvort henni fyndist ekki vera þörf á því að gefa hér einhverjar upplýsingar, um það leyti sem verið er að senda Alþingi heim, um það, hvaða trygging sé yfirleitt fyrir því, að útgerð geti hafizt nú um næstu áramót. Mér er kunnugt um það, að samtök útgerðarmanna í landinu hafa boðað til landsfundar, sem á að koma saman næsta mánudag, líklega þann dag, sem þingið verður sent heim, eða þar um bíl, til þess á venjulegan hátt að ræða einmitt um það, hvernig fara skuli með kröfur útgerðarinnar í sambandi við samninga um rekstrargrundvöll og byrjunarrekstur útgerðarinnar á komandi vertíð. Ég hef kynnt mér það, að engir samningar eða engin viðtöl hafa enn þá átt sér stað á milli forustumanna útvegsmanna og ríkisstjórnarinnar. Og það er engin trygging fyrir því, sem liggur nú fyrir, að það hefjist útgerð með eðlilegum hætti um næstu áramót. Það er í mesta máta óviðkunnanlegt og óeðlilegt, að þing sé sent heim, um sama leyti og útgerðarmannasamtökin í landinu eru að koma saman til þess að tilkynna, eins og vant er, að útgerð hefjist ekki um næstu áramót, ef samningar hafi ekki tekizt um rekstrargrundvöll bátanna.

En svona er ástandið í dag. Útgerðarmenn hafa margsinnis lýst því yfir áður, og ég býst við því, að stefna þeirra sé óbreytt í þeim efnum, að þeir taki það ekki í mál að hefja útgerð um áramót, nema þeir hafi í höndunum samning við ríkisvaldið um rekstrargrundvöllinn, sem á að gilda fyrir alla vertíðina. Þeir hafa ekki verið til viðtals um það hingað til að hefja útgerð upp á samning fyrir einn eða tvo mánuði. Og það er ósköp hætt við því, að hæstv. ríkisstj. eigi eftir að reka sig á það, að hún verður og þá vitanlega með fulltingi Alþingis að semja við samtök framleiðenda um rekstrargrundvöllinn, ef ekki á að koma til stöðvunar nú strax upp úr næstu áramótum. En það er svona. Um þetta fást hér á Alþ. engar upplýsingar frá hæstv. ríkisstjórn. Henni þykir bezt í þessum efnum að þegja. En kannske ætlar hún að hafa það þannig, eins og menn eru að geta sér til, þó að mér þyki það furðulega ótrúlegt, það er kannske hennar þingræði að samþykkja á þennan hátt að senda þingið heim og stjórna svo landinu í einu og öllu með brbl. á eftir. E.t.v. er það ætlunin að gefa ekki aðeins út ný brbl. um verðlagningu landbúnaðarafurða, heldur að gefa einnig út brbl., rétt eftir að þingið fer heim, t.d. um nýja skráningu á genginu. Menn eru að geta sér þess til. Er nema von, að menn fari að geta í eyðurnar? En það þýðir vitaskuld ekki að spyrja hæstv. ríkisstj. neitt um, hvað hún hyggst fyrir í þessum efnum. En það er ótrúlegt, að hún ætli að leysa efnahagsmálavandann, eins og hún mun kalla það, á þann hátt að gefa bara út brbl. um þetta allt saman, rétt eftir að hún hefur rekið þingið af höndum sér. Það er ótrúlegt, að gripið verði til slíkra vinnubragða. Þó getur maður næstum farið að trúa því, þegar maður sér og heyrir það, sem nú hefur verið að gerast í þessum málum.

Það er kannske ekki rétt, að ég taki hér allan þann takmarkaða ræðutíma, sem hér hefur verið ákveðinn af meiri hl. hv. þd. eftir till. frá forseta. Ég verð að sjálfsögðu að láta mikinn hluta af því ósagðan, sem ég vildi segja um þetta óvenjulega frv. Ég verð vitanlega að búa við það, eins og aðrir hv. þdm., að fá ekki að ræða það þingmál, sem hér er lagt fram, ekki einu sinni við 1. umr. málsins, þegar á að ræða málið á almennum, breiðum grundvelli. En það verður að sjálfsögðu svo að vera. Það gefst kannske tækifæri síðar til þess að láta hæstv. ríkisstj. finna það, að ofbeldisaðgerðir af hennar hálfu í upphafi hennar starfsferils munu ekki greiða götu hennar í sambandi við þær ráðstafanir, sem hún ætlar sér að leggja út í.