10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., hefur verið mikið deilumál innan þings og utan um nokkra tugi ára, og hafa menn skipzt í öndverðar fylkingar eftir því, hvort þeir vildu leyfa dragnótaveiðar í landhelgi að einhverju leyti eða banna slíkar veiðar með öllu. Saga málsins sýnir, að andstæðingar dragnótarinnar hafa í fyrstu unnið á. Fengu þeir með l. nr. 27 1923 samþykkta heimild fyrir ríkisstj. til að banna dragnótaveiðar í landhelgi, og voru á grundvelli þeirra laga settar tvær reglugerðir um héraðabönn.

Með l. nr. 55 1928 var dragnótaveiði bönnuð hvarvetna í landhelginni 9 mánuði ársins, en heimil í mánuðunum september, október og nóvember, og jafnframt skyldi ríkisstj. heimilt að ákveða frekari takmarkanir eða héraðabönn, að fengnum till, sveitarfélaga og Fiskifélags Íslands.

Á grundvelli þessara l. voru árin 1932 og 1934 settar 7 reglugerðir um héraðabönn á tímabilinu 1. sept. til 30. nóv., en það jafngilti algeru banni við dragnótaveiði á þeim stöðum, sem reglugerðirnar tóku til. Hófst nú nokkur gagnsókn af hálfu þeirra, sem vildu leyfa veiðarnar. Var þannig með brbl. árið 1932 dregið úr ákvæðum l. frá 1928, en þau brbl. voru felld á Alþ. 1933. En á næstu árum voru gerðar ýmsar lagabreyt., sem drógu verulega úr takmörkunum á dragnótaveiðum. Gilti sú lagaregla um nokkurt skeið, að veiðarnar voru leyfilegar í 6 mánuði á ári, júní til nóvember, sunnanlands og vestan, milli Hjörleifshöfða og Látrabjargs, þó þannig, að á Faxaflóa og Breiðafirði máttu ekki önnur skip veiða en þau, sem skrásett voru innan lögsagnarumdæma, er að þessum fjörðum liggja, öðrum eða báðum. Annars staðar var leyft að veiða í 3 mánuði, sept. til nóv., nema þar sem reglugerðir voru settar um héraðabönn.

Með l. nr. 45 1937 og breyt. á þeim l. árið 1940 var leyfð dragnótaveiði í allri landhelginni 6 mánuði ár hvert fyrir allt að 35 rúmlesta fiskiskip, og ríkisstj. jafnframt heimilað að gefa út veiðileyfi fyrir stærri skip í okt. og nóv. Heimilt var sýslunefnd eða bæjarstjórn að banna dragnótaveiði innan afmarkaðra löggiltra hafnarsvæða í viðkomandi héraði. Einnig skyldi heimilt að setja reglugerð um möskvastærð og lengd dráttartauga, svo og um lágmarksstærð fisks, sem veiddur er í dragnót og fluttur í land eða haldið um borð í skipi.

Stóð þannig til ársins 1945, en þá hefja bannmenn sókn á ný og fá sett viðaukalög nr. 83 1945, þar sem ríkisstj. er heimilað að banna dragnótaveiði á afmörkuðum svæðum samkv. till. Fiskifélags Íslands og atvinnudeildar háskólans. Voru á grundvelli þessara viðaukalaga settar 3 reglugerðir, sem bönnuðu veiði á hinu annars lögleyfða 6 mánaða tímabili, júní til nóv. Þetta ástand hélzt síðan, þar til settar voru reglugerðir, sem banna dragnótaveiði með öllu innan landhelginnar á grundvelli l. nr. 44 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, en þær reglugerðir eru nr. 46 22. apríl 1950 varðandi Norðurland, nr. 21 19. marz 1952, nr. 70 30. júní 1958 og nr. 87, viðaukareglugerð, 29. ágúst 1958.

Það yfirlit yfir gang þessa máls á Alþ., sem ég nú hef rakið, geta menn kynnt sér betur með því að lesa nál. hv. alþm. Gísla Guðmundssonar og Péturs Ottesens á þskj. 488 frá fyrra ári. Þá lá frv. samhljóða því, sem nú er flutt af Karli Guðjónssyni o.fl. á þskj. 5. fyrir hv. d., og urðu afdrif þess þau, að rökst. dagskrá frá þm. Gísla Guðmundssyni og Pétri Ottesen þess efnis, að ekki þætti tímabært, að Alþ. tæki ákvörðun um það, hvort eða hvernig leyfa skuli dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelginni, var samþ. með 18:7 atkv., og var málinu þannig vísað frá.

M.a. voru þau rök færð fyrir þessari meðferð málsins, að æskilegt væri, að n., sem fulltrúar frá stofnunum sjávarútvegsins ættu sæti í, gæti fjallað um málið, og einnig var afgreiðsla þess studd af álitsgerð Fiskifélags Íslands í bréfi 14. marz 1959, þar sem fram kom, að stjórn Fiskifélagsins taldi málið þurfa meiri undirbúning, áður en ákvörðun yrði tekin um að leyfa dragnótaveiðar. Einn stjórnarnefndarmanna, Pétur Ottesen, tók þó fram, að hann væri andvígur því, að dragnótaveiðar yrðu leyfðar.

Síðan hefur tvennt gerzt. Í fyrsta lagi hefur stjórnskipuð n. unnið að athugun málsins, eins og nauðsynlegt var talið í fyrra. Í n. áttu sæti Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, Sverrir Júlíusson, formaður Landssambands ísl. útvegsmanna, Elías Þorsteinsson, formaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Ólafur Björnsson sjómaður og Jón Jónsson fiskifræðingur. N. hefur lagt til, að takmarkaðar dragnótaveiðar verði leyfðar undir vísindalegu eftirliti, og samið uppkast að frv. um það efni.

Í öðru lagi hefur fiskiþing, sem haldið var á nýliðnum vetri, tekið afstöðu til málsins og afgreitt það með eftirfarandi ályktun, sem ég mun lesa, með leyfi hæstv. forseta. Samþykkt fiskiþingsins hljóðar svo:

„Fiskiþingið mælir með því, að takmarkaðar dragnótaveiðar innan fiskveiðilandhelginnar verði leyfðar að nýju. Fiskiþingið treystir því, að stjórn Fiskifélagsins og fiskifræðingarnir fylgist með því, að lög og reglugerðir um dragnótaveiðar verði þannig úr garði gerð, að tryggt sé, að ekki verði gengið um of á fiskistofnana eða uppeldisstöðvum þeirra spillt. Verði rækilega fylgzt með veiðunum frá upphafi og áhrifum þeirra á fiskistofnana, þannig að hægt sé að gera varúðarráðstafanir í tæka tíð, ef nauðsyn ber til.

Fiskiþingið vill sérstaklega benda á eftirfarandi:

1) Dragnótaveiðar skulu háðar leyfisveitingum.

2) Veiðileyfi skulu fyrst um sinn aðeins veitt bátum, sem ekki eru yfir 45 rúmlestir að stærð.

3) Veiðitíminn skal takmarkaður og ekki vera yfir 3 mánuði ár hvert á hverju veiðisvæði.

4) Strangar reglur séu settar um möskvastærð og gerð dragnótarinnar. Skal strangt eftirlit haft með því, að þeim reglum sé fylgt, og varðar misnotkun sviptingu veiðileyfis og háum sektum.

5) Dragnótaveiði á þröngum fjörðum og 1–2 sjómílur frá landi skal óheimil. Jafnframt sé heimilt í lögum að friða uppeldisstöðvar nytjafiska lengra út, ef þurfa þykir að áliti fiskifræðinga.

6) Settar séu reglur um meðferð aflans í bátum og í landi, er tryggi, að varan verði eftirsótt á erlendum markaði.“

Afstaða fiskideildanna úti um land til málsins er rakin í grg. með frv. sjútvn. á þskj. 399, og vil ég í því sambandi geta þess, að niður hefur fallið að skýra þar frá afstöðu sambands fiskideildanna á Vestfjörðum, en þær eru meðmæltar takmörkuðum dragnótaveiðum undir vísindalegu eftirliti. Er nú svo komið, að ekkert fiskideildasamband leggur beinlínis á móti því, að dragnótaveiði verði leyfð með einhverjum takmörkunum, þó að sumar þeirra vilji enn láta athuga málið, áður en ákvörðun er tekin. Hins vegar er kunnugt um, að einstakar fiskideildir eru með öllu á móti dragnótaveiði, t.d. fiskideild Gerðahrepps.

Álitsgerðir færustu fiskifræðinga okkar hafa legið fyrir síðan haustið 1958, sbr. fskj. í og II með frv. Karls Guðjónssonar o.fl. á þskj. 5. Dr. Árni Friðriksson segir m.a. í fskj. I. með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1957 veiddust 9603 smálestir af skarkola við Ísland. Þetta er meiri heildarveiði en nokkurt annað ár síðan 1906, að undanteknum þremur árum, 1906, 1920 og 1949, þrátt fyrir það að öll beztu kolamiðin voru ónytjuð 1957. Síðan fiskveiðamörkin voru færð út 1952, hefur skarkolastofninn aukizt stórlega, eins og sjá má af þessu. Aðrir fiskistofnar, sem dragnótaveiðar byggjast mjög á, hafa einnig aukizt mjög, eins og sýnt er í töflu 3, þar sem gerður er samanburður á árunum eftir 1952 og árinu 1938. Það sýnir sig t.d., að 1957 veiddist meira en þrefalt af ýsu samanborið við 1938. Með tilvísun til þess, er að framan greinir, verður að mæla eindregið með því, að Íslendingum verði heimilað að beita dragnót í landhelgi. Eftir að fiskveiðalína við Ísland hefur verið færð stórkostlega út á ný, er þess enginn kostur að ná til sumra verðmætustu fiskitegundanna hér við land, svo að neinu nemi, nema með því að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi. Eina markmiðið með fiskifriðun er að sjálfsögðu það að ná af fiskistofninum sem mestum arði, en ekki hitt, að láta þá verða ellidauða. Þegar veiðast nærri því 10 þús. lestir af skarkola á ári, eins og nú er, en það er meira en tvöfalt á við það, sem öllum hraðfrystihúsum á Íslandi barst af öllum fiski árið 1938, þrátt fyrir það að öll beztu skarkolamiðin eru lokuð, hljóta nú að vera uppgrip af þessum fiski við strendur landsins. Það er því eigi aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt að leyfa dragnót í landhelgi Íslands, því að aðeins þannig er hægt að fullnytja sjóð, sem er eðlileg lyftistöng fyrir fiskiðnaðinn í landi og sókn bátaflotans á nálægustu mið.“

Þetta var álit dr. Árna Friðrikssonar.

Jón Jónsson, forstöðumaður fiskideildar atvinnudeildar háskólans sýnir í álitsgerð sinni á fskj. II fram á aukningu ýsu og skarkola vegna friðunarinnar undanfarin ár, en það eru þær tvær tegundir, sem mesta þýðingu hafa fyrir dragnótaveiðarnar. Um ýsuna segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1937 var ýsuveiðin á Íslandsmiðum 10.5% af heildarýsuveiði Evrópu, en árið 1956 nam afli sá af ýsu, er fékkst við Ísland, 18.7% að heildarveiðinni. Sé sóknin á Íslandsmið mæld með samanlögðum ferðafjölda enskra og þýzkra togara, kemur í ljós, að 1937 var hann 4367 ferðir, en ekki nema 2432 ferðir 1956, eða um 56% af ferðunum 1937. Aukning heildaraflans er því ekki árangurinn af meiri heildarsókn, heldur er hér um að ræða stórlega aukningu sjálfs ýsustofnsins, þótt tekið sé tillit til aukinnar veiðihæfni togaranna og aukningar íslenzka fiskveiðiflotans. Það, sem hér hefur verið sagt, er miðað við ástandið eins og það var með 4 mílna fiskveiðilandhelgi. Með fjarveru útlendinga á svæðinu innan 12 mílna er mikið létt sókninni á þennan stofn, og má því segja, að hann sé ekki fullnytjaður, eins og nú er.“

Um skarkolann kemst Jón Jónsson m.a. svo að orði:

„Árleg meðalveiði á tímabilinu 1947–1952 var 8385 tonn, og það álag þoldi stofninn greinilega ekki. Þó ber að geta þess, að á þessu tímabili fór veiðin að verulegu leyti fram á grunnmiðum og voru aðaluppeldisstöðvar skarkolans ákaft nýttar. Á tímabilinu 1953–1957 var árleg meðalveiði 7116 tonn, og virðist stofninn hafa þolað það, því að veiðin jókst allt tímabilið. En nú beindist sóknin að eldri hluta stofnsins, sem heldur sig utan 4 mílna markanna, en uppeldisstöðvarnar voru ekkert snertar. Mestur hluti heildarveiðarinnar fellur á Breta, t.d. 86% árið 1956, en hlutur Íslendinga er hins vegar mjög naumur, eins og taflan að framan ber með sér. Fram að 1952 tóku Íslendingar um helming heildaraflans, en eftir það hefur hlutur okkar verið frá 3.3% í 7.5% heildaraflans. Fjarvera útlendra veiðiskipa á öllu svæðinu innan 12 mílna léttir mjög sóknina á skarkolastofninum, því að mestur hluti veiðinnar hefur farið fram á þessu svæði.“

Niðurstaða Jóns er svo þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„Af því, sem að framan er sagt, verður að mæla eindregið með því, að ýsu- og skarkolastofnarnir verði betur nýttir af Íslendinga hálfu en gert hefur verið undanfarin ár. Stofnarnir hafa rétt svo við, að skynsamleg nýting þeirra er orðin aðkallandi. Hófleg veiði gerir meira gagn en engin eða of lítil veiði. Markmið friðunaraðgerða okkar er vitaskuld, að stofnarnir gefi af sér hámarksarð. Það er því orðið tímabært að leyfa veiðar með dragnót í íslenzkri landhelgi, ekki einungis innan 12 mílna landhelginnar nýju, heldur einnig innan gömlu 4 mílna takmarkanna, en það er rétt að fara að öllu með gát, og skal því hér á eftir minnzt á það helzta, sem máli skiptir um framkvæmd veiðanna.“

Af því, sem ég hef nú rakið, tel ég mig mega draga þá ályktun, að frekari dráttur á afgreiðslu málsins en orðinn er muni ekki leiða neitt nýtt í ljós. Sú skoðun, að tímabært sé að leyfa takmarkaðar dragnótaveiðar undir vísindalegu eftirliti, er studd sterkum rökum og á vaxandi fylgi að fagna, og leyfi ég mér að benda á, að annar hv. flm. dagskrártill. frá í fyrra er nú meðflm. að frv. sjútvn. og hefur hann þannig einnig tekið þá afstöðu, að frekari dráttur á afgreiðslu málsins eigi ekki rétt á sér. Hins vegar situr sú reynsla, að einu sinni var of langt gengið í dragnótaveiðunum, svo föst í sumum mönnum, að þeir telja, að þessa veiðiaðferð beri að banna um tíma og eilífð. Með þeirri afstöðu er sama sem sagt, að Íslendingar geti ekkert lært af reynslunni, þeir kunni sér ekki hóf í neinu og séu í reynd ekkert annað en hugsunarlausir skemmdarvargar. Ég er ósammála þessum harða dómi og dómsniðurstöðu. Mín skoðun er sú, að einmitt vegna fenginnar reynslu sé nú óhætt að leyfa dragnótaveiðar á ný, og ég ber það mikið traust til fiskifræðinga okkar og þekkingar þeirrar, sem þeir búa yfir, að þeir geti með nægilegu öryggi leiðbeint okkur um þessar veiðar og þær takmarkanir, sem nauðsynlegt er að setja, til þess að ekki verði gengið of nærri fiskistofnunum. Hér er um að ræða takmarkanir á veiðitíma og veiðisvæðum, eftirlit með veiðarfærum og ákvörðun á lágmarksstærð þess fisks, sem leyfilegt er að landa og taka til vinnslu, og ákvörðun á árlegri heildarveiði einstakra tegunda. Ég endurtek það, að í þessum efnum getum við treyst sérfræðingum okkar. Okkur er nauðsynlegt að hafa jafnan sem mesta fjölbreytni í útflutningsframleiðslunni, því að alltaf getur brugðizt hjá okkur annaðhvort afli á einni tegund eða markaður fyrir aðra, og þá er gott að geta látið eitthvað annað koma í staðinn. Nú stendur t.d. þannig á, að þjóðin mun tapa milljónatugum eða jafnvel hundruðum í gjaldeyri vegna óviðráðanlegs verðfalls á fiskimjöli. Þetta gætum við bætt okkur upp að nokkru með því að flytja út skarkolaflök á þessu ári fyrir 50–60 millj. kr., og einnig gætum við aukið verulega útflutning á öðrum fisktegundum með því að leyfa dragnótaveiðarnar um miðjan næsta mánuð. Mörg hraðfrystihús víðs vegar á landinu hafa lítil verkefni yfir sumartímann. Dragnótaveiðin getur breytt því ástandi og skapað mikla atvinnu og örugga. Það mun þannig t.d. núna talið, að við eitt útflutt tonn af kolaflökum þurfi að greiða um 4600 kr. í vinnulaun.

Að öllu þessu athuguðu lagði ég áherzlu á það í sjútvn., að reynt yrði að afgreiða frá þessu þingi lög um takmarkaðar dragnótaveiðar. Nokkurs skoðunarmunar gætti í n. um málið, en niðurstaðan varð sú, sem hér liggur fyrir, þ.e.a.s., að n. samdi nýtt frv., og féllust flm. frv. á þskj. 5 á þá málsmeðferð, og tók 1. flm. þess, hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj), þátt í þessari afgreiðslu í stað hv. 4. þm. Austf. (LJós), sem sæti á í sjútvn., en var fjarverandi.

Frv. á þskj. 399 ber þess merki, að þar hefur verið reynt að samræma ólík sjónarmið, og er sennilega enginn hv. sjútvn.-maður fullkomlega ánægður með árangurinn, og hafa nm. áskilið sér rétt til að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, þó þannig, að þær verði fyrst athugaðar af n. milli umr. En um það er ekki lengur ágreiningur í n., að mál þetta ber að afgreiða á þessu þingi, og í þeim tilgangi er frv. n. á þskj. 399 fram borið. Vona ég, að þessi hv. d. geti héðan af hraðað afgreiðslu málsins, því að ekki á að vera þörf á að vísa frv. til n. eftir þessa umr.

Mun ég nú að síðustu fara nokkrum orðum um einstakar greinar frv.

Um 1. gr. Hér er gert ráð fyrir, að sjútvmrh. veiti leyfi til dragnótaveiða innan fiskveiðilandhelginnar. Hér er um að ræða breyt. frá l. um bann við dragnótaveiði í landhelgi frá 1937, en samkv. þeim eru dragnótaveiðar ekki háðar leyfisveitingu. Með tilliti til þess eftirlits, sem nauðsynlegt verður að hafa með þessum veiðum, er óhjákvæmilegt, að skip, sem þær ætla að stunda, fái til þess sérstakt leyfi, og einnig með tilliti til þess, að sérstakar takmarkanir kunni að verða nauðsynlegar samkv. ákvæðum í 5. gr.

Loks er gert ráð fyrir því, að veiðiskip skili nákvæmum skýrslum um veiðarnar, sem ákvæði verði sett um í reglugerð, og ætlazt er til, að leyfið verði m.a. bundið því skilyrði, að slíkum skýrslum sé skilað reglulega, þar sem það er nauðsynlegt með tilliti til þeirra rannsókna og þess vísindalega eftirlits, sem hafa verður með veiðunum.

Veiðitímabil það, sem hér er tiltekið, er 4½ mánuður í stað 5½–6 mánaða í l. frá 1937. Í fyrsta lagi þykir rétt að takmarka tímann nokkru meira en þá var gert með það fyrir augum að fara ekki of geyst af stað, þar til reynslan hefur skorið úr um, hversu miklar veiðar stofninn þolir. Í öðru lagi er við það miðað, að veiðarnar séu leyfðar einungis á þeim tíma, þegar gæði flatfisksins eru talin mest, en það er eitt frumskilyrði þess, að gæði framleiðslunnar verði tryggð.

Þá eru í greininni ákvæði, sem tryggja það, að sveitarstjórnir geta í samráði við samtök útvegsmanna og sjómanna gert hvort heldur sem er, fyrirbyggt opnun einstakra veiðisvæða eða krafizt lokunar þeirra, ef friðunar er talin þörf eða ef hagkvæmara þykir að stunda aðrar veiðar en dragnótaveiðar á tilteknum svæðum. Þetta getur í fljótu bragði virzt erfitt í framkvæmd, en þarf þó ekki að vera það. Samt vil ég taka fram sem mína skoðun í sambandi við túlkun þessara ákvæða í framkvæmd, að ég álít, að ekki eigi að veita fiskiskipum skrásettum innan lögsagnarumdæma lokaðra svæða veiðileyfi annars staðar.

Um 2. gr. í þessari gr. eru stærðarmörk þeirra skipa, sem leyfi skulu fá, sett við hámark 35 rúmlestir brúttó eins og í l. frá 1937. Þó skal ráðh. heimilt að veita veiðileyfi fyrir allt að 45 rúmlesta skip og enn fremur að takmarka stærðina við 25 rúmlestir, ef þurfa þykir. Fróðlegt er í þessu sambandi að athuga stærðardreifingu vélbátaflotans eins og hann var 1937 og þá breyt., sem síðan hefur orðið, en sá samanburður er á þessa leið:

Árið 1937 var tala skipa undir 12 rúmlestum 226, eða 42.2% af bátaflotanum. 1959 var talan komin niður í 130, eða 19% af bátaflotanum. 1937 voru 12–35 rúmlesta skip 247, eða 46.2% af bátaflotanum. 1959 var þessi bátastærð 195 að tölunni, eða 29% af bátaflotanum. 1937 voru 36–45 tonna fiskiskip 31 talsins, eða 5.9% af bátaflotanum. 1959 var þessi bátastærð 65 talsins, eða 10% af bátaflotanum.

Með þeirri hámarksstærð báta, sem leyft var að stunda dragnótaveiðar, þegar l. voru sett árið 1937, mátti heita, að nær allur vélbátaflotinn, eða 88.4%, gæti notfært sér heimildina. Var þá við það miðað, að þeir bátar mættu stunda dragnótaveiðar, sem síður væru hentugir til síldveiða á sumrin, en þá var það algengt, að bátar allt niður í 35 rúmlesta og jafnvel minni stunduðu þær veiðar með góðum árangri. Á þessu tvennu hefur orðið gerbreyting. Undir 35 rúmlesta bátar eru nú aðeins 48% af bátaflotanum, og tala þeirra er 325 á móti 473 árið 1937. Á síldveiðum sumarið 1959 voru aðeins tveir bátar 35 rúmlestir eða minni og ekki nema 10 bátar á bilinu 36–45 rúmlesta. Þá voru alls 224 bátar á veiðum. Á sumarsíldveiðum 1937 voru hins vegar 146 vélbátar við síldveiðarnar, en þar af voru 88, sem voru 35 rúmlestir eða minni. Þessi mikla breyting á sér eðlilega skýringu.

Árið 1937 voru síldveiðarnar að mestu stundaðar inni á flóum og fjörðum, eða örskammt undan ströndinni, og því auðvelt að koma við litlum bátum, þar sem sigling var að jafnaði stutt. Nú er hins vegar svo komið, að veiðarnar fara að mestu fram langt til hafs og sigling því mjög löng og með öllu útilokað að nota eins lítil skip og áður, enda eru bátar undir 45 rúmlestum með öllu að hverfa úr síldveiðiflotanum.

Hér er því nauðsynlegt að taka tillit til þeirrar þróunar, sem orðið hefur með tilliti til stærðardreifingar bátaflotans almennt og einnig með tilliti til hagnýtingar hans. Út frá þessu sjónarmiði er lagt til, að heimilt sé að miða hámarksstærð báta við 45 rúmlestir brúttó.

Um 3. gr. Eðlilegt er að banna dragnótaveiðar innan löggiltra afmarkaðra hafnarsvæða, svo sem hér er ráð fyrir gert.

Um 4. gr. Ekki þykir rétt að binda það leyfum, þó að rannsóknarskip noti dragnót til veiða í rannsóknarskyni, einnig þó að það sé utan þess tíma, sem þær veiðar eru annars heimilaðar öðrum, og er því sett ákvæði síðustu mgr. þessarar greinar.

Um 5. gr. Skilyrði fyrir því, að dragnótaveiðar verði leyfðar á nýjan leik innan fiskveiðilandhelginnar, er, að nákvæmt vísindalegt og opinbert eftirlit sé haft með veiðunum, svo að jafnan megi fylgjast sem gleggst með því, hver þróun veiðanna verður, og unnt sé að grípa til verndarráðstafana án tafar, ef þörf krefur. Er ætlazt til, að vísindamenn fiskideildarinnar fylgist stöðugt með veiðunum og að þeir geri rn. viðvart, ef þeir telja hættu á ferðum. Verður hér að vísu um allyfirgripsmikið starf að ræða, og er hæpið, að það starfslið, sem fiskideildin hefur nú á að skipa, nægi til þess. Getur því orðið nauðsynlegt að sjá fyrir aukningu þess, ef full not eiga að verða af eftirlitinu.

Þá verður að telja nauðsynlegt, að heimilt sé að setja frekari takmarkanir við veiðarnar eða banna þær með öllu, ef reynslan leiðir í ljós, að hætta sé á ofveiði. Lúta ákvæði 2. mgr. þessarar gr. að því.

Um 6. gr. Nauðsynlegt er að setja í reglugerð ýmis ákvæði um framkvæmd laganna. Hér er sérstaklega tiltekið um möskvastærð og gerð og notkun dragnótarinnar. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að í reglugerð verði sett ákvæði um meðferð aflans um borð í veiðiskipi. Er áríðandi, að allt sé gert, sem unnt er, til að tryggja góða meðferð aflans, frá því að hann kemur um borð í veiðiskip, þar sem það er eitt frumskilyrði fyrir því, að úr honum megi vinna góða vöru.

Þá er m.a. gert ráð fyrir því, að leyfishafar gefi skýrslu um veiðina, þar sem slíkt er nauðsynlegt með tilliti til framkvæmdar eftirlitsins með veiðunum. Veiðisvæðin samkv. 1. gr. þarf einnig að ákveða með reglugerð.

Um 7. gr. Eðlilegt virðist, að utan þess tímabils, sem dragnótaveiðar eru leyfðar, sé óheimilt að hafa dragnætur og dragstrengi um borð í skipum.

Um 8. gr. Hér er um að ræða hliðstætt ákvæði því, sem er í lögum um bann gegn botnvörpuveiði, þ.e.a.s. sektarákvæði.

Aðrar gr. frv. hygg ég að þurfi ekki skýringa við, og vil ég að endingu leggja til, að þessu máli verði vísað til 2. umr.