03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Flestu gat maður búizt við af hæstv. ríkisstj., en að hún léti hæstv. forseta d. beita slíku ofbeldi sem því að varna alþingismönnum máls, því hefði ég ekki trúað. Það er alveg óþekkt fyrirbæri, að slíku ofbeldi hafi verið beitt hér á Alþingi, í fjöldamörg ár. Það er beint brot á móti öllum þingvenjum og brot á öllu lýðræði. Hér er stjórnarandstaðan beitt grímulausu ofbeldi í krafti meirihlutavalds, þeim einum til ævarandi skammar og svívirðingar, sem ofbeldinu hafa beitt.

Ég var einn af þeim, sem höfðu kvatt sér hljóðs í fyrsta sinn á þessu þingi, þar sem ég hafði hugsað mér að ræða þau mál, sem hér hafa verið til umræðu, allýtarlega, en þar sem næstum er liðinn sá fundartími, sem nú hefur verið ákveðinn, sé ég mér ekki fært að taka upp umræður um þau mál, sem fyrir liggja.

Ég vil endurtaka mótmæli mín gegn þessu fáheyrða ofbeldi, og þess skal hæstv. ríkisstj. minnast, að þessu ofbeldi verður munað eftir. Það er ekki í fyrsta sinn, sem hæstv. forseti sýnir sitt rétta innræti. Þessi hæstv. forseti var á sínum tíma formaður útvarpsráðs. Í þeirri stofnun beitti hann verkalýðshreyfinguna því fáheyrða ofbeldi að neita forustumönnum Alþýðusambands Íslands um að fá að koma fram fyrir hönd Alþýðusambandsins 1. maí. Þannig hefur þessi hæstv. forseti sýnt alveg ótrúlegan fjandskap gagnvart verkalýðssamtökunum. Nú hefur þessi sami maður beitt alþingismenn hinu freklegasta ofbeldi. Hæstv. forseti leggur ekki einu sinni til, að þeir hv. alþm., sem búnir voru að biðja um orðið, fái að flytja mál sitt.

Ég endurtek enn á ný mótmæli mín gegn hinu fáheyrða ofbeldi, sem ég og aðrir alþm. hafa verið beittir og tel þeim einum til skammar, sem fyrir slíku hafa staðíð, en þó engum frekar en hæstv. forseta.