12.05.1960
Neðri deild: 80. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3205 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) hefur hér fært fram þau rök, sem áður hafa heyrzt á hv. Alþ. frá þeim mönnum, sem mjög hafa lagzt gegn því, að leyfð væri veiði í dragnót. Hans rök voru þó aðallega, eins og þau hafa verið áður, að þetta væri skaðlegt veiðarfæri, þó að fram kæmi ekki um það nein greinargerð eða staðfesting önnur en sú, að til væri hér í fórum Alþ. áskorunarlisti frá smáútvegsmönnum í Skagafirði. Á móti þessu liggur hins vegar fyrir í grg., sem fylgir frv., sem hér var lagt fram og er 5. mál, sem fyrir þessa hv. d. kom, álit þeirra manna, sem verður að ætla og Alþ. verður að treysta á að hafi betur vit á þessum hlutum en kannske þeir menn, sem senda áskoranir hingað til Alþ. Þar segir svo, í þessari grg., orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Haustið 1958 leitaði sjútvmrn. álits Árna Friðrikssonar fiskifræðings og fiskideildar atvinnudeildar háskólans um það, hvort leyfa bæri einhverjar dragnótaveiðar í landhelgi. Í áliti Árna Friðrikssonar segir: Það er eigi aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt að leyfa dragnót í landhelgi Íslands, því að aðeins þannig er hægt að fullnytja sjóð, sem er eðlileg lyftistöng fyrir fiskiðnaðinn í landinu og sókn bátaflotans á nálægustu mið.“

Í grg. þessa frv. er einnig vitnað í álit fiskideildarinnar. Þar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er því orðið tímabært að leyfa veiðar með dragnót í íslenzkri landhelgi, ekki einungis innan 12 mílna landhelginnar nýju, heldur einnig innan gömlu 4 mílna takmarkanna.“

Ég held, að hv. Alþ. geti varla gengið fram hjá því, þegar álit þeirra manna, sem vinna beint að því og verður að treysta á að hafi mesta vitneskju um þessi mál, liggur jafnjákvætt fyrir og þetta. Þá hlýtur það að marka stefnu hér á Alþ., sem er eðlileg og rétt.

Hv. þm, gat þess í ræðu sinni, að útþensla landhelgistakmarkanna væri til þess að friða landhelgina. Ég held, að þetta hljóti að byggjast á misskilningi, því að það kæmi að litlu haldi fyrir íslenzku þjóðina, ef þetta væri höfuð- og einasta stefnan í því máli. Það er verið að færa út landhelgislínuna og ákveða það svæði, sem ætlað er Íslendingum sjálfum að nytja. Þegar svo stendur á eins og nú er hjá íslenzku þjóðinni, að til eru bæði bátar til þess að veiða aflann, til eru frystihús til þess að vinna hann og það fólk, sem við sjávarsíðuna býr, er fyrir hendi og þessar veiðar koma einmitt á þeim tíma, þegar helzt vantar hráefni í frystihúsin og helzt vantar vinnu handa því fólki, sem þar býr, þá hlýtur það að vera hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar allrar, að þessar veiðar verði leyfðar. Ég tel, að Íslendingar hafi ekki efni á því lengur að láta flatfiskinn, sem er dýrmætasti fiskurinn hér við strendur landsins, vera þar ónytjaðan til þess eins, að Bretar geti síðan hirt hann í sín veiðarfæri, þegar hann fer út fyrir 12 mílna mörkin. Við höfum á undanförnum árum verið að vinna það eitt að ala upp innan 12 mílna markanna flatfisk handa Bretum og öðrum erlendum þjóðum, sem togveiðar stunda við Ísland, til þess að þær gætu nytjað þennan fisk, þegar hann kemur út fyrir hin ákveðnu mörk. Ég tel þetta óraunhæfa stefnu, sem þegar verði að leiðrétta hér á hv. Alþ.

Það hefur mjög verið bent á það í öllum umr, um dragnótamálin, að þau gengju gegn hagsmunum þeirra manna, sem stunda hina svokölluðu trillubátaútgerð. Ég tel, að á þessu hafi engin staðfesting fengizt. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að mér er tjáð af kunnugum mönnum, að þessi útgerð hafi t.d. sumarið 1959 algerlega brugðizt á Akranesi. Þó hefur Faxaflói um langt árabil verið algerlega friðaður fyrir dragnót, og ætti það út af fyrir sig ekki að geta haft nein áhrif á slíkt, þannig að þetta sýnir það alveg glöggt og eru rök fyrir því, að slík útgerð getur jafnt brugðizt, hvort sem dragnætur hafi verið leyfðar á því svæði, þar sem þessir bátar fiska, eða ekki.

Það, sem er og hlýtur að verða aðalatriði í sambandi við þetta mál, er, að þjóðin með þessum veiðum getur aflað sér geysilegra verðmæta og þau verðmæti eru dregin að landi á þeim tíma árs, sem fiskiðjuver okkar allt í kringum landið vantar fyrst og fremst hráefni. Jafnvel þó að þetta gengi eitthvað á hlut þeirra manna, sem stunda veiðar á trillubátum, tel ég ekkert áhorfsmál, að þetta yrði að leyfa. Það liggur að sjálfsögðu ekki fyrir, hvað einn bátur, sem dragnót stundar, mundi afla yfir þetta 2–3 mánaða úthald, sem ætlað er að veiðin verði leyfð. Hins vegar vita allir, sem nokkuð þekkja þessi mál, að það er margfalt á við það, sem hinir smærri bátar hafa aðstöðu til að draga að landi á sama tíma. Afli dragnótabátanna er svo miklu verðmeiri, þeir eru svo miklu afkastameiri, að þar er um margfalt meiri verðmæti fyrir þjóðarbúið í heild að ræða en hinir smærri bátar, sem handfæraveiði stunda yfir sumarið, hafa aðstöðu til þess að draga að landi.

Ég tel, að það liggi hins vegar alveg skýrt fyrir, að það er ekki raunhæft, að þetta skerði á nokkurn hátt aðstöðu hinna smærri báta, þó að dragnót væri leyfð. Það voru um nokkurt árabil stundaðar dragnótaveiðar við Vestmannaeyjar. Ég hef ekki orðið þess var, að síðan þetta var bannað hafi afli á nokkurn hátt, nema síður sé, aukizt á handfæri fyrir hina smærri báta. Þetta er mér alveg kunnugt um, og tel ég, að það sýni, eins og afkoman á Akranesi s.l. sumar, að dragnótin hefur þar ekkert að segja. Þetta er gömul trú þeirra manna, sem þessar veiðar stunda, en rök eru þar engin fyrir hendi, sem geta sannað eða staðfest, að þetta sé rétt.

Ég skal ekki dæma um skaðsemi dragnótaveiðanna. Það verða þeir að gera, sem þar hafa sérþekkingu á, og í þeim efnum liggur alveg örugglega og skýrt fyrir álit þeirra manna, sem þjóðin í heild byggir á að séu þar kunnugastir og geti verið leiðbeinandi í þeim efnum. Þeir vilja í þessu sambandi ganga lengra en þetta frv. segir, gera þetta ekki eins þungt í vöfum og þetta frv. að nokkru leyti er, eins og það kom frá n.

Í sambandi við þær áskoranir, sem hingað hafa borizt og hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) minntist á, þá er því til að svara, að þeir staðir, sem ekki óska eftir, að dragnót sé stunduð þaðan, hafa sjálfir aðstöðu til þess að koma í veg fyrir, að slíkt verði gert. Þeir geta þá, ef það er vilji meiri hluta þeirra manna, sem þar búa, komið í veg fyrir þetta og stundað útgerð sína eins og þeir hafa áður gert og með sama hætti.

Í 3. mgr. 1. gr. þessa frv. á þskj. 399 segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði. Berist álitsgerðir, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd.“

Ráðherra þarf ekki að vera þarna í neinni erfiðri aðstöðu. Ef sveitarstjórn óskar ekki eftir þessu, og ef það er vilji almennings á þeim stöðum, sem koma til greina, að slíkar veiðar verði ekki stundaðar, hefur ráðherra ekki leyfi til þess að leyfa veiðarnar, þannig að hann er þar ekki í neinni klípu eða slæmri aðstöðu, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. var að tala um.

Ég mun nú við þessa umr. ekki fara um þetta fleiri orðum, nema sérstaklega gefist tilefni til. Ég vil aðeins undirstrika það, að af þeirri reynslu, sem ég þekki til þessara mála úr þeirri útgerðarstöð, þar sem þetta var stundað um margra ára bil, þá tel ég ekki áhorfsmál, ekki vegna þess byggðarlags eins, heldur vegna þjóðarbúsins í heild, að þessar veiðar verði leyfðar. Þær geta með einna minnstum tilkostnaði í erlendum gjaldeyri allað geysilegra verðmæta fyrir þjóðarheildina. Þegar þannig stendur á og þegar fyrir liggur um það alveg klár yfirlýsing frá þeim aðilum, fiskifræðingum og fiskideildinni, að þetta beri að gera, þó að sjálfsögðu, eins og þeir orða það, innan vissra takmarka, þá tel ég ekki áhorfsmál fyrir Alþ. að leyfa þeim stöðum, sem þess óska, að þessar veiðar verði stundaðar, að nytjuð séu mið með dragnót eins og öðrum veiðarfærum.