03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. er ekki enn þá kominn. Ég vil leyfa mér að spyrja, hve lengi við eigum að bíða eftir honum. Við erum satt að segja ekki vanir því hér í Nd., að ráðherra finnist hann vera of fínn til þess að koma hingað. Ég veit ekki, hvað svona háttalag á að þýða. Það er búið að vera að ræða mál, sem undir þennan ráðherra heyrir, í allan dag, búið að óska eftir, að hann komi hingað, hvað eftir annað, búið að gera ráðstafanir af hálfu forseta til að senda eftir honum, búið að lýsa yfir úr forsetastóli milli kl. 6 og 7 í kvöld, að hann mundi því miður ekki verða við fyrr en klukkan sjö, en maður gat þó vænzt, fyrst átti að vera kvöldfundur, að hann mundi verða hérna við seinna. Hvað á svona hlutur að þýða? Hvers konar framferði er þetta, og hvernig stendur á, að forseti lætur einum ráðherra haldast slíkt uppi? Þó að þessi ráðherra tilheyri ekki þessari deild sem þingmaður, þá ber honum að mæta hér í þeim málum, sem hann er að leggja fyrir þingið. Hann lagði í dag til, að þetta mál færi til þeirrar nefndar, sem ég er í m.a. Ætlast þessi maður til, að við þm. förum að sýna svona mönnum kurteisi hér, ef þeir haga sér svona gagnvart okkur? Ég vil vekja athygli á því, að með því framferði, sem nú er verið að hafa hér um hönd, er verið að gerbreyta öllum þingsiðum og öllum þingvenjum og þar með líka þeirri háttvísi, sem hingað til hefur verið reynt að viðhalda hér á Alþingi, og því veldur núverandi hæstv. ríkisstj. og sá forseti, sem lætur nota sig sem verkfæri fyrir hana, og þó framar öllum sá fjármálaráðherra, sem varla getur búizt víð því, að hann sé sérstaklega hátt virtur af þingmönnum, þegar hann fæst ekki til að sýna sig hér.

Hefur þessi fjmrh. einhverja afsökun? Hefur hann nokkurn tíma tilkynnt nokkurn skapaðan hlut um, hvað hann sé upptekinn við, hvort hann sé kannske bara í veizlu? Hann er vanur að vera nokkuð mikið í veizlum, þessi ráðherra. Getur hann kannske ekki eitt einasta kvöld, þegar hans mál eru til 1. umr. hér, sleppt því að vera í einhverju slíku? Ég veit ekkert, hverju hann kann að vera vanur, þar sem hann hefur stjórnað undanfarið. En hann er a.m.k. ekki vanur að koma fram sem ráðherra á Alþingi. Og hann mun fá að finna það, að alþingismenn sætta sig ekki við slíka framkomu. Það er búið að spyrja hann út af þeim málum, sem hér liggja fyrir. Það er búið að sýna fram á, m.a. í ræðu, sem ég hélt hér, hve dýr þau slys eru, sem standa í sambandi við hans ráðstafanir í sambandi við þau lög, sem hann nú leggur til að framlengja. Þessi ráðh., sem óskar eftir því við þessa deild, að fjhn. deildarinnar athugi mál, sem hann ber hér fram, stekkur í burtu, sýnir sig ekki meir. Er þetta kannske fyrirboði þess, sem verður í sambandi við fjárlögin? Er það meiningin hjá þessum hæstv. — sem við venjulega hingað til höfum kallað svo, hvað sem kann að verða hér eftir — fjmrh., að þegar fjárlögin verði rædd, þá sleppi hann því í fyrsta lagi að fullnægja þeim þingsköpum að halda útvarpsræðu til þess að skýra frá, hvernig ástandið sé hjá ríkinu? Er þá máske meiningin hjá honum næst að koma ekki á fundi hjá fjvn.? Mér er sem ég sjái hv. 1. þm. Vestf., ef hann væri formaður fjvn. og fjmrh. leyfði sér það að ætla að tala þannig við fjvn., að hann henti í hana plaggi, sem væri samið einhvers staðar uppi í stjórnarráði, meira eða minna vitlausu, og sýndi sig ekki síðan. Mér er sem ég sjái, hvað sá röggsami þm. og formaður fjvn. hefði gert við slíkan ráðherra. Er þetta kannske undanfari þess, hvernig ráðh. ætlar að haga sér gagnvart fjvn.? Hvað er eiginlega á seyði hér? Og er ráðh. svona hræddur orðinn, að hann þori ekki að taka þátt í umr., að hann þori ekki að sýna sig hér, að hann lætur jafnvei gera sérstakar ráðstafanir til þess að beita ofbeldi hér á Alþingi? Hvert er verið að stefna með þessu? Hann var spurður að því hér áðan af manni, sem búinn er að vera meira en áratug í fjvn., hvort það væri máske meiningin að ætla að segja við fjvn.: Hér hefur þú eina eða tvær vikur eða eitthvað svoleiðis, og þá klárar þú fjárlögin, — og kannske meira að segja að segja við hana í viðbót: Ef þú dirfist að breyta þar einum stafkrók, er mér að mæta. — Hvers konar ráðstafanir er eiginlega verið að boða hér?

Ég er hræddur um, að þessir hlutir boði nokkuð illt og að þessi fjmrh., sem virðir ekki þessa deild þess að koma eða tala við hana eða svara fyrirspurnum eða slíkt, — ég er hræddur um, að hann eigi eftir að sjá það, að Íslendingar verða ekki beygðir undir svona aðferðir. Það er nokkurn veginn sama, hvað marga sérfræðinga þessi maður kann að panta frá París eða Ameríku til þess að ætla að fara að segja okkur, hvernig eigi að stjórna hér á Íslandi. Hann á eftir að reka sig á það, þessi maður, að það verður ekki tekið tillit til slíks af þjóðinni. Að vísu er rétt af mér að gera ráð fyrir einum möguleika, af því að rétt er að reikna alltaf með öllum teoretískum möguleikum, sem til eru, og hann er sá, að hinum skynsamari ráðherrum hafi þótt fjmrh. mæla svo óviturlega og sleppa svo miklu út úr sér af klaufaskap, að þeir hafi bannað honum að koma hingað. Ég skil það ósköp vel, að fyrir þá ráðherra, sem reyndir eru í ríkisstjórn, er náttúrlega ekki gott, þegar fjmrh. kemur og fer að segja, að það sé stefna ríkisstj, að taka upp alveg nýtt efnahagskerfi, sem engin yfirlýsing hafði verið gefin um áður, — fer að segja það hér á Alþingi, að það vanti 200–300 millj. kr. upp á, — gloprar þessu út úr sér, eins og hver annar klaufi, óvanur maður, — og vill svo ekki láta yfirheyra sig út af þessu. Það er náttúrlega sá möguleiki til, að skynsamari hluti ríkisstj. hafi sagt við þennan ráðh.: Heyrðu, þú ert búinn að gera nóg ógagn. Láttu nú ekki sjá þig meir. — Ef svona væri, þá náttúrlega verð ég að biðja afsökunar á þessum ádeilum mínum á hæstv. fjmrh. Þá hefur aumingja maðurinn gert tilraun til þess að vera heiðarlegur, en bara ekki varað sig á því, að það var algerlega rangt af honum að fara að segja það, sem honum bjó í brjósti. Og ef svona væri, þá ætti sem sé að refsa honum með því, að hann ætti ekki að fá að sýna sig hér.

Hvað er raunverulega það, sem þarna hefur gerzt? Þetta er það, sem víð þurfum að fá að vita. Það fara að koma margar spurningar upp hjá þm. þessarar hv. deildar, þegar svona er farið að. Menn fara að undrast, hvað sé að gerast á bak við tjöldin. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur haft ákaflega lítið fyrir því að tala við sitt þinglið hér, að tala við þingflokkana sína. Þm. hennar kvarta yfir því sín á milli, að það sé nú ekki verið að setja þá mikið inn í, hvað gera skuli, svo að ég býst við, að þeir hafi orðið alveg eins undrandi og við, þegar fjmrh. fór að boða hið nýja efnahagskerfi. Ég er þess vegna hræddur um, að hér séu mjög slæmir hlutir að gerast á bak við tjöldin, og ég vil eindregið óska eftir því, að hæstv. ríkisstjórn fari nú að láta ljós sitt skina í þessum umræðum. Ef þeim ráðh., sem sýna okkur þá virðingu að mæta hér, finnst hæstv. fjmrh. hafa hlaupið á sig, svo að hann eigi ekki að sýna sig hér meir að áliti ríkisstj., þá hefur sá hluti ríkisstj., sem skynsamari er og gætnari og klókari í þessum hlutum, möguleikann að koma hér fram og segja nú nokkur orð, sem þeir gætu verið búnir að íhuga vel, vegna þess að þeir hafa ekki talað svo mikið enn þá, að þeir hafi haft neinn verulegan möguleika til að tala af sér, þannig að það, sem þeir segðu núna, gæti ef til vill að einhverju leyti bætt fyrir það, sem glopraðist upp úr hæstv. fjmrh. ( Forseti: Ég vil minna hv. þm. á það, að umræðutímanum er lokið.) Það er ekki umræðutími þm., sem er lokið enn þá. Þm. hafa hér sitt málfrelsi, og þeir munu halda því. (Forseti: Samkvæmt ákvörðun meiri hl. deildarinnar er umr. lokið. ) Samkvæmt ofbeldi, sem forsetinn hefur beitt, sem átti að sjá um að varðveita rétt þingmanna, þá er verið að svipta þingmenn málfrelsi. ( Forseti: Samkvæmt ákvörðun deildarinnar, sem er byggð á 37. gr. þingskapa, lauk þessum umræðum kl. 1. ) Ég held, að þessum umr. sé alls ekki lokið enn þá. Nú er kl. fimm mínútur yfir eitt, og ef forseti segir, að þeim hafi lokið kl. 1, þá er hann að tala á móti öllum staðreyndum. Ég er hræddur um, að það sé misskilningur hjá forseta, að þessum umræðum hafi lokið kl. 1. Ég veit ekki betur en ég sé búinn að standa hér fimm mínútur fyrir framan hann; þessum umr. hafi alls ekki verið lokið kl. 1. Ég held það þýði ekkert fyrir forseta að vera að hringja bjöllunni. Ég skil ekkert, hvað hann meinar eiginlega með því. Dettur þessum forseta í hug, ef ofbeldi er beitt, að þingmenn standi ekki á rétti sínum? Það hefur verið siður hér að standa á rétti sínum og beygja sig ekki fyrir valdinu, og nú held ég, að það væri tími fyrir hæstv. forseta til að fara að sjá um, að fjmrh. mæti. Það er eitt, sem forsetar í þingi verða að gá að, og það er að reyna að láta þing halda virðingu sinni. Á því byggist það, að menn beri virðingu og að menn hlýði. Hvað ætlar forseti til bragðs að taka? Umræður halda hér enn þá áfram. (Forseti: Ég vil aftur benda hv. ræðumanni á það, að samkvæmt löglegri ákvörðun meiri hl. þessarar deildar átti umr. að ljúka kl. 1, og hann hafði ræðutíma til kl. 1, og ég skora á þm. að ögra ekki meiri hl. deildarinnar, sem hefur tekið hér löglega ákvörðun samkv. þingsköpum þessa Alþingis. ) Og með hvaða móti ætlar þessi meiri hl. deildarinnar, sem hefur tekið óstjórnarskrárlega ákvörðun, að framfylgja henni? Það er bezt satt að segja fyrir bæði forseta og meiri hluta að reyna að halda sér við það að varðveita rétt þingmanna, en ekki brjóta hann. Þegar menn taka upp á hlutum eins og þeim, sem hér var tekið upp á áðan, þá er bezt fyrir menn að hugsa hlutina til enda. Það þýðir ekki að fara að byrja á einhverjum hlut og þora ekki að halda áfram með hann. Hér halda áfram umræður í deildinni. Hér er enn þá lýst eftir fjmrh. Hér hefur forseti enn þá tækifæri til þess að láta fjmrh. koma. Hvað ætlar forsetinn að gera? Vill hann, að ég fari að tala um nýju fötin keisarans? Vill hann, að ég fari að rekja aftur efnahagspólitík ríkisstj.? (Forseti Samkvæmt löglegri ákvörðun meiri hl. þessarar deildar lauk umr. um 1. mál dagskrárinnar kl. 1. ) Það er ekki rétt. Hún er sjö mínútur yfir eitt núna. (Forseti: Fundinum er frestað um fimmtán mínútur. ) —

[ Fundarhlé.]