27.05.1960
Neðri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3231 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að láta þessa umr. fram hjá mér fara, ef fylgismenn málsins hefðu ekki neitt um það sagt, en úr því að umr. halda áfram, þykir mér ástæða til að fara dálítið nánar út í þetta mál og meðfram út af þeim ræðum, sem tveir hv. síðustu ræðumenn hafa hér flutt.

Ég skal byrja á því að geta þess, að á undanförnum dögum hafa verið miklu meiri brögð að því en venjulegt er, að menn úr ýmsum stéttum og byggðarlögum hafa hringt til mín og komið og talað við mig, sumir skrifað mér, og allir hafa þeir gert það í þeim tilgangi að þakka mér fyrir þá ákveðnu, hörðu andstöðu, sem ég hef haft gegn þessu frv. Þar er annars vegar um að ræða lífsreynda og vitra menn, hins vegar um að ræða menn, sem hafa stundað dragnótaveiðar og þekkja þær af eigin reynslu. Öllum þessum mönnum kemur saman um eitt aðalatriði í minni andstöðu, og það er þetta: Ef ætti að samþ. þetta frv. nú hér á hv. Alþ., mundi það verða eitt hið almesta spillingarmál, sem hægt væri að setja fram gegn málstað okkar í landhelgismálinu. Þetta liggur raunar í augum uppi eða mætti gera það, því að landhelgisbarátta okkar byggist, eins og ég hef áður tekið fram, ekki sízt á því, að það sé hægt að sanna umheiminum það, að við sjálfir förum heiðarlega með þau verðmæti, sem sjórinn geymir í kringum land okkar. En því fer ákaflega fjarri, að slíkt væri um að ræða, ef nú ætti að fara að taka upp dragnótaveiðar á ný eftir þá reynslu, sem fengin er í þeim málum á undanförnum árum, þegar þær voru leyfðar.

Þeir menn, sem við mig hafa talað og hafa verið á dragnótaveiðum, hafa gefið mér þær upplýsingar, sem raunar eru ekki nýjar fyrir mig, því að þær hafa oft verið gefnar áður hér á Alþ., að það hafi verið mjög algengt, þegar þessar veiðar voru stundaðar, að í vörpuna kom urmull af seiðum og smáfiski, sem var drepið og hent, var náttúrlega einskis virði. En þar með er auðvitað verið að eyðileggja framtíðarstofn þeirra fiska, sem um er að ræða, og um leið verið að sópa botninn og eyðileggja hrygningarstöðvar og botngróður sem næst landi, sem er allra hættulegast. Nýlega talaði við mig bóndi norðan úr Miðfirði, og hann hafði þá sögu að segja í sambandi við þetta mál, að áður en dragnótaveiðar var farið að stunda jafngífurlega og gert var, hefði verið talsverð veiði í Miðfirði og Hrútafirði, en það hefði verið gersamlega eyðilagt og væri ekki farið að ná sér nokkurn hlut enn þá á þessum stöðum, og það taldi hann fyrst og fremst vegna dragnótaveiðanna. Þetta er nákvæmlega sama sagan og Skagfirðingar hafa að segja varðandi sinn fjörð. Svo mundu margir landsmenn geta sagt.

Varðandi það, sem hv. tveir síðustu ræðumenn úr sjútvn. hafa tekið fram, er ekki næsta mikil þörf að tala um þeirra ræður. En það leyndi sér ekki hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG), að hann var að reyna að friða samvizku sína út af því, að hann skyldi hafa villzt út á þá hálu götu að fara að fylgja þessu frv., og það var auðheyrt á manninum, að honum gekk illa að forsvara það, að hann skyldi leggja út á þessa braut, vegna þess að ef ég man rétt, var þessi maður einn af hörðustu andstæðingum dragnótaveiða hér á Alþ., þegar þær voru mest til umr., enda mun það svo í því héraði, sem hann hefur lengst af verið fulltrúi fyrir, að þar eiga dragnótaveiðar formælendur fáa.

Þessi hv. þm. sagði, að þetta væri samkomulagsmál og hv. sjútvn. vildi reyna að afgreiða það með sanngirni, það væri samkomulagsmál, sem hann væri þó engan veginn ánægður með. En það, sem hann virtist einkum leggja til grundvallar til að friða samvizku sína út af fylginu við málið, var hið væntanlega eftirlit og svo þau ráð, sem sveitarstjórnum er ætlað að hafa um þetta mál. Allt þetta var þess vegna ekki annað en afsakanir, veigalitlar og þýðingarlitlar í sjálfu sér, sem ég skal koma nokkru nánar að.

Hv. síðasti ræðumaður, frsm. sjútvn. (BF), vildi fara að snúa eitthvað upp í villu því, sem ég hafði sagt í andsvari til hans varðandi mæðiveikieftirlitið. En það, sem hann sagði, er alveg í samræmi við það, sem ég tók fram í því efni. Ég skal lesa hér orðrétt upp úr ræðunni, eins og hún kom af stálþræðinum, það, sem ég sagði til andsvara við þennan hv. þm.:

Hv. frsm., 5. þm. Vestf., vék að því varðandi eftirlitið, sem ég tel og lýsti að ég teldi mundu verða lítils virði, — hann gat þess, þessi hv. þm., að ef ég ætti að vera samkvæmur sjálfum mér varðandi t.d. eftirlitið með mæðiveikivörnunum, ætti ég að leggja til, að það yrði lagt niður.“

Þetta er ekki að segja það, að hann hafi sagt, að það ætti að leggja það niður. Hann er bara að halda því fram, að ef ég ætti að vera samkvæmur sjálfum mér, þá mundi ég vilja leggja þetta eftirlit niður. — Svo held ég áfram:

„Þetta er alveg fullkominn misskilningur hjá þessum hv. þm., því að þótt þetta eftirlit hafi mjög misheppnazt, þá er ekki hægt, eins og sakir standa og eins og komið er með sauðfjárrækt í landinu, að leggja þetta eftirlit niður, og þarf miklu frekar að herða á því.“

Út í þetta skal ég svo ekki fara meira, því að okkur, þessum hv. þm. og mér, ber ekkert á milli í þessu efni annað en það, að hann vill halda því fram, að ef ég ætti að vera samkvæmur sjálfum mér varðandi eftirlit með mæðiveikivörnum, ætti ég að leggja til, að það yrði lagt niður. En ég vil ekki láta koma til þess, að það þurfi að fara að stofna slíkt eftirlit sem hér er stofnað til með dragnótaveiðum, vegna þess að það eftirlit verður tvímælalaust einskis virði eða næstum því einskis virði.

Þá las þessi hv. þm. upp samþykkt frá útvegsmönnum í Vestmannaeyjum um, að þeir krefjist þess, að dragnótaveiðar verði hér leyfðar, og ég tel ekkert undarlegt við það. Ég veit, að þeim er það mikið áhugamál þar suður frá, og mætti þá öðrum vera það frekar. Í þeirri þýðingarmestu og ég held arðmestu veiðistöð landsins, Vestmannaeyjum, eru þróttmiklir og ágætir fiskimenn, og ég held, eftir því sem ég hef bezt þekkingu á, að þeim verði meira ágengt í sínu starfi en nokkrum öðrum fiskimönnum í landinu, vegna þess að þar séu auðugri fiskimið en aðrir hafa við að búa. Það er auðvitað fagnaðarefni, ekki einasta fyrir menn í þessu byggðarlagi, heldur og yfir allt, hvar sem vel gengur. En hvað mættu þá fiskimennirnir á öðrum stöðum í landinu, sem hafa verri aðstöðu við að búa og minni fisk, hvað mættu þeir þá biðja um til þess að drýgja sínar tekjur, ef þeir væru þá á annað borð þess sinnis að vilja fara að eyðileggja framtíðarverðmæti með því að krafsa vegna stundarhagsmuna allan fisk upp undir landsteina, sem þeir geta náð í með dragnótaveiðum? Ég hef sannanir fyrir því, að bæði í vetur og undanfarið hafa Skagfirðingar veitt mjög mikið af kola, mjög mikið, og þeir veiða hann í net og á línu. Hví skyldu ekki Vestmanneyingar og aðrir, sem kapp leggja á það að koma á dragnótaveiðum, alveg eins og Skagfirðingar og raunar fleiri menn geta veitt þennan fisk á línu og í net eins og hinir, en þurfa endilega að fara að grípa til þess að heimta lögleitt hættulegasta veiðarfæri, sem þekkist í þessu landi?

Þá er það eitt aðalatriði þessa máls, sem virtist vera mikið varnaratriði hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. og ég hef töluvert vikið að hér í mínum fyrri ræðum, og það er sú trygging, sem á að vera í því, að sveitarstjórnir eigi að leyfa það eða það eigi að bera það undir þær og þær leyfa það, ef dragnótaveiði á að vera komið á. Ég tók það fram í ræðu minni hér á dögunum, að ég liti svo á, að ef þetta yrði lögleitt, og þetta er í 1. gr. þessa frv., væri það eitt bezta ráð til að koma á megnum ófriði milli sveitarstjórna víðs vegar um land og innan sveitarstjórna og bæjarstjórna, fyrir utan það, að aðstaðan er þannig, að víðs vegar um landið eru sveitarstjórnirnar alveg ófrjálsar gagnvart öðrum. Þó að þær vilji hjá sér banna, að dragnótaveiði sé leyfð, þá eru þar aðrar í nágrenninu, sem gera það að verkum, að það verður óhjákvæmilega kapp um það. Ef á annað borð á að fara að nota þessa hættulegu veiðiaðferð, verður kapp um það að láta þá ekki þá næstu sitja alveg eina að pottinum. Við skulum hugsa okkur, að bæjarstjórnin í Keflavík felldi það að leyfa dragnótaveiðar, en bæjarstjórnirnar í Hafnarfirði og Reykjavík samþ. það. Segjum, að bæjarstjórnin á Akranesi neitaði því líka. Hvaða aðstaða er þá hjá þessum mönnum, sem neita að samþ., Keflvíkingum og Akurnesingum, hvaða aðstaða er það hjá þeim að hafa nokkrar varnir gegn ásókn þeirrar rányrkju, sem til væri stofnað frá Hafnfirðingum og Reykvíkingum? Ekki nokkur. Þið vitið, að þegar á annað borð er búið að leyfa dragnótaveiði og þau skip eru farin að skarka með sín veiðarfæri víðs vegar um sjóinn, bæði að nóttu og degi, þá er engin aðstaða fyrir neina menn í nágrenninu að vera til varnar gegn því, að þeir geti alveg eins verið inni í þeirra landhelgi og sinni eigin. Setjum svo, að Vestmanneyingar samþ. þetta, sem enginn þarf að efast um, því að sú alda mun vera þaðan runnin, eftir þeirri þekkingu, sem ég hafði af þessu máli áður, hún mun vera runnin einna mest þaðan, — segjum, að þeir samþ. þetta, en sveitar- og bæjarstjórnir hér um Suðurland neituðu því. Hvaða varnir hafa þeir Sunnlendingar gegn dragnótabátunum frá Vestmannaeyjum? Ekki neinar. Þeir eru varnarlausir gegn því, þó að þeir séu að skarka með dragnætur uppi í ósum Ölfusár og Þjórsár og taka þar laxinn og silunginn, sem er að því kominn að ganga upp í árnar, því að það vitum við, að mörg dæmi eru til, að dragnótabátarnir, — a.m.k. hef ég sannanir fyrir því hér á árunum norðanlands, að þeir veiddu alveg eins silung og lax eins og aðra fiska, þó að það sé að vísu örðugra með laxinn, vegna þess að hann er svo styggur fiskur og öruggari að bjarga sér en flestir aðrir fiskar undan nálega hvaða veiðarfæri sem er.

Nú skulum við taka fleiri dæmi um þessa aðstöðu. Setjum svo, að hreppsnefndin á Skagaströnd neitaði öllum dragnótaveiðum á Húnaflóa, en hreppsnefndin á Hólmavík leyfði þær og annars staðar á Ströndum. Hvaða varnir hafa þá Skagstrendingar, Blönduósingar og aðrir Húnvetningar gegn því, að dragnótabátarnir á Ströndum séu inni um alla firði og flóa og inni um fjarðarbotn og inn í ósa í Húnavatnssýslu, eins og ég hef lýst og hef sannanir fyrir að var hér á árunum? Engar. Allt þetta tal um það, að sveitarstjórnir geti ráðið, er út í bláinn, vegna þess að þær sveitarstjórnir, sem eru í nágrenni við þá, sem vilja fá þessa veiði, eru varnarlausar gagnvart hinum, og þær geta ekkert eftirlit haft með því, að þessir og þessir dragnótabátar, — því að þeir verða margir, ef farið er út á þessa braut, — séu að nóttu til að skarka um landhelgi þeirra. Ef ætti að koma þessu á á annað borð, væri kannske einna helzta leiðin að binda það við kjördæmin, sem nú eru, og að það skyldi þá þurfa yfirgnæfandi meiri hl. sveitarstjórnarmanna í hverju kjördæmi, til þess að það væri hugsanlegt að leyfa það, að dragnótabátar annars staðar að fengju að vera að sínum veiðum í landhelgi viðkomandi kjördæmis. Það er þó sanni nær, vegna þess að það er þó frekar hægt að hafa eftirlit með því, vegna þess að kjördæmin eru orðin svo stór sem nú er raun á.

Tökum t.d. aðstöðuna í Skagafirði og Siglufirði. Setjum svo, að bæjarstjórnin á Siglufirði leyfði dragnótaveiði. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið úr Skagafirði, bæði frá Sauðárkróki og Hofsósi, eru engar líkur til, að sveitarstjórnirnar þar mundu leyfa þetta. En hvaða varnir hafa þær gegn dragnótabátunum frá Siglufirði? Þeir geta farið inn um allan Skagafjörð og veitt þar, ef þeir á annað borð eru búnir að fá leyfi til þess að stunda veiðar með þessari aðferð.

Og eins getum við sagt um Austfirði. Ef það væri leyft t.d. af bæjarstjórninni á Norðfirði að taka upp dragnótaveiðar, en það væri fellt á Seyðisfirði, Mjóafirði, Reyðarfirði og Eskifirði, þá væru þeir varnarlausir gegn dragnótabátunum inn um alla firði og inn í fjarðarbotna. Þeir, sem vilja ekki fá þetta, væru varnarlausir fyrir dragnótabátum hinna, því að allt þetta tal, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., um, að það sé einhver vörn í þessu frá sveitarstjórnunum í eftirlitinu, það er alveg út í bláinn, það er gert til þess að blekkja þm., sem hafa ekkert hugsað út í málið. Það er ekki til neins annars.

Hér á fundinum í dag í Sþ. var verið að samþ. till. um klakstöðvar og ræktun á laxi og silungi, og ég held, að það hafi verið með því hver einn og einasti þm. Mér datt í hug, þegar þessi till. var samþ., sem ég auðvitað greiddi atkv., að mikill væri nú munurinn á hugsunarhætti þeim, sem bak við það liggur að samþ. þessa till., ellegar þeim, ég vil segja gerspillta hugsunarhætti, sem liggur á bak við þetta frv. Hann er byggður á því að eyðileggja framtíðarverðmætin með því að draga dragnætur alveg inn í fjarðarbotna og inn að landi. Og ég hef áður vikið að því, hvaða réttlæti, hvaða sanngirni, svo að ég noti orð hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG), hvaða sanngirni mundu landeigendurnir, bændurnir, geta fundið fyrir því, að það ætti að leyfa mönnum úr öðrum héruðum og öðrum landsfjórðungum að vera að skarka með dragnætur upp að söndum og landsteinum, inni í fjarðarbotnum, víkum og ósum, þegar þeim sjálfum, sem eiga land þar að, er gersamlega bannað að kasta neti út frá landi, vegna þess að það var hræðsla um það frá meiri hl. Alþingis, að það kynni að geta slæðzt í netin, sem þessir landeigendur eiga, einhver laxbranda? Eins og menn vita, er það harðlega bannað í lax- og silungsveiðilögunum að veiða lax í sjó, en þeir, sem ætla að stunda dragnótaveiðina, mega veiða laxinn og þeir mega veiða silunginn, bara ekki þeir, sem eiga land að.

Þá er ein kenning, sem hefur verið nokkuð haldið á loft og þó ekki mjög mikið bólað á, að það sé alveg nauðsynlegt að veiða kolann miklu meir en gert hefur verið, vegna þess að þetta sé ránfiskur, sem gleypi seiði, og þar fram eftir götunum. Ég skal nú ekkert fullyrða um það. Þetta getur vel verið, ég hef ekki þekkingu á því. En það eru svo margvísleg dæmi og margvíslegar sannanir fyrir því, að það eru til bæði fiskar og önnur dýr í sjónum, sem éta hin minni, og ekki gott að vera að taka þar fram fyrir hendurnar á náttúrunni. Eitt dæmi er það, sem fyrir okkur, er búum við ósana, er dálítil ástæða til að minnast á í þessu sambandi, og það er það, að við vitum það og það vita allir menn, að selirnir, sem halda sig mjög við ósa, éta eitthvað meira eða minna af silungi og laxi og öðrum fiski, sem þar kemur upp. Þess vegna eru margir, sem eiga veiðirétt að ósum, sem hafa á það lagt kapp að drepa sem allra mest af selnum. Aðrir eru þeirrar skoðunar, að þetta sé alger misskilningur, því að það sé alveg eins víst, að selurinn reki laxinn og silunginn upp að landinu og upp í ósana. Mín reynsla var sú, á meðan ég mátti draga á í Húnavatni, að þegar mest var af sel, þá var líka mest af silungi og laxi. Og hvað sem öllu því líður, þá er það víst og áreiðanlegt, að á meðan þetta land var óbyggt eyðiland, þá var enginn að grípa fram fyrir hendurnar á náttúrunni í þessu eða öðru, en það er fullyrt, að þegar forfeður okkar komu hér að landi, voru allar ár og öll vötn full af fiskum, full af löxum og silungum, þrátt fyrir það þótt engir selir hefðu verið drepnir. Eins getur þetta verið með kolann og önnur sjávardýr, sem hætt er við að éti hin smærri og þróttminni. En aðalatriðið í málinu er þó það, að það er frá mínu sjónarmiði lífsskilyrði fyrir okkar land og ekki sízt fyrir alla þá, sem stunda sjávarútveg, og eins hina, sem gera það ekki, að vernda ungviðið, og að því miðar landhelgisbarátta okkar, og að því hefur miðazt starfsemi allra þeirra manna, sem hér á Alþ. og annars staðar hafa barizt gegn því, að leyfð væri dragnótaveiði.

Ég get sagt ykkur það, að ég álít, að það hafi verið einhver hin mesta ógæfa, sem komið hefur yfir okkar land varðandi síldveiðar, þegar Hvalfjarðarsíldin fannst, síldin í Hvalfirði og víðar hér, reyndar aðallega í Hvalfirði, en líka í Kollafirði, því að hún fannst þar fyrst. Eftir því sem kunnugir menn segja, var þarna um hrygningarsíld að ræða. Hún var drepin um háveturinn alveg óskaplega, mokað upp, og þó líklega enn þá meir drepið vegna þeirra veiðiaðferða, sem þá voru viðhafðar. Við getum ekkert um það sagt nema á þessum stöðum hafi verið hrygningarsvæði síldarinnar frá aldaöðli, því að forfeður okkar höfðu ekki bergmálsdýptarmæla til þess að leita í sjónum, eins og nú er orðið títt. En hvað sem um það er, þá er það nokkurn veginn víst, að alla tíð, meðan síldveiði var góð fyrir Vestfjörðum og í Húnaflóa, kom síldin vestan fyrir, en síðan Hvalfjarðarsíldin var drepin svona óskaplega eins og raun var á, hefur öll síldveiði brugðizt á þessum stöðum, bæði fyrir Vestfjörðum og í Húnaflóa, og það mætti segja mér, að einn þátturinn í því, að hún hefur brugðizt, væri það, að sú ógæfa skyldi henda, að þessi Hvalfjarðarsíld fannst, hrygningarsíldin, sem þar var, því að þar var verið að drepa stóra flokka af mæðrum hinna komandi síldarstofna. Ég sagði við þáverandi sjútvmrh., sem hafði nokkuð með þetta að gera: Þessa veiði átt þú að banna, gersamlega að banna. — Mér er ekki stætt á því, segir hann, því að ásóknin er svo mikil. Þetta nefni ég bara sem eitt dæmi af mörgum og er eitt af því, sem er þáttur í því, að það er hættulegt, hættulegra en flestir hyggja, að ganga svo nærri stofninum eins og ætla má að verði, ef hin fyrirhugaða dragnótaveiði verður leyfð.

Auðvitað er það í þessu máli eins og í hverju öðru, að það verður hver hv. þm. að ráða sínu atkv. En ég vil halda, að ef svo ólíklega og raunalega fer, að meiri hl. hér á hv. Alþ. verði svo skammsýnn að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, hvíli á þeim mönnum þung ábyrgð gagnvart framtíðinni og ekki sízt gagnvart þeirri baráttu, sem þjóðin stendur í nú um landhelgisréttindi sín.