30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3253 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) vil ég taka það fram, að það er rétt, sem hann sagði, að í auglýsingu um skipun og skiptingu starfa ráðh, frá 20. nóv. 1959 er mér falið að fara með þann hluta sjútvmrn„ sem fjallar um löggjöf um verndun fiskimiða landgrunnsins. Þessi löggjöf, sem þarna er vitnað til, heyrði áður undir sjútvmrh., en þótti eftir atvikum, eins og á stóð, nú rétt að leggja undir mig, skulum við segja, vegna þess að það má segja, að að þessu leyti sé ég þá sjútvmrh., ef við viljum orða það þannig. Það voru pólitískir samningar og ástæður, sem þessu réðu. Hins vegar ber að sjálfsögðu að skilja þessa reglu, sem er undantekningarregla, þröngt og ekki leggja meira inn í hana en tilætlun var á sínum tíma, og þá var einungis tilætlunin, að það væru sjálf landgrunnslögin og ákvarðanir samkv, þeim, sem undir mig heyrðu, hins vegar t. d, ekki ákvæðin varðandi leyfi til dragnótaveiða.

Þetta frv., sem hér er til umr., haggar hins vegar ekki að neinu leyti gildi landgrunnslaganna, heldur einungis nemur úr gildi fyrri ákvæði um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi, enda er um það að ræða, hvernig Íslendingar vilji hagnýta sér þá fiskveiðilögsögu, sem ákveðin hefur verið í skjóli landgrunnsl., en alls ekki hagga sjálfri fiskveiðilögsögunni að nokkru leyti.

Ég tel þess vegna ótvírætt og hefur aldrei annað til hugar komið og ekki heyrt á annað minnzt í ríkisstj. en að þetta mál varðandi dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands heyri undir hæstv. sjútvmrh. Emil Jónsson, en ekki mig. Þetta er minn skilningur, og hygg ég, að honum verði naumast hnekkt við frekari íhugun. Ég játa, að ég hafði talið svo sjálfsagt, að þetta heyrði undir sjútvmrh., að ég hafði ekki skoðað það ýtarlega fyrr en nú. Við að bera saman lagastafina og úrskurðinn sýnist mér öll venjuleg rök hníga að því, að málið heyri undir sjútvmrh. og geti ekki heyrt undir mig nema með nýju ákvæði um skiptingu starfa ráðh., sem hvorki mér né neinum öðrum hefur komið til hugar að fara fram á að gerð yrði.

Af þessu leiðir, að ég tel mig ekki sérstaklega bæran til þess að svara hinni fsp., sem hv. þm. bar fram. En ég hygg, að ef sveitarstjórnir svara ekki innan hæfilegs tíma, sé ekki á móti þeim gert, þó að sjútvmrn. taki sínar ákvarðanir. Í þessu verður sem öðrum stjórnarákvörðunum að gæta hófsemi og skynsemi. Eðlilegra væri e.t.v. að setja þeim visst tímatakmark, að þær yrðu að hafa svarað fyrir ákveðinn tíma. Það væri í raun og veru, að því er mér sýnist, eðlilegasta meðferð málsins. En ef þær hafa ekki svarað innan ákveðins tímamarks eða þess, sem rn. telur eftir atvikum vera eðlilegt, þá hlýtur ákvörðun þess að gilda. En eins og ég segi, þá tel ég ekki, að þetta mál heyri undir mig, en svara einungis af því, að ég hygg, að hæstv. sjútvmrh. sé ekki viðstaddur.

Um málið sjálft skal ég ekki fjölyrða. Ég geri mér grein fyrir, að hér er um ákaflega mikið vandamál að ræða, og ég vil einungis beina því til allra þeirra, sem um það tala, –og ég segi það áreitnislaust í allra garð, — að tala þannig um það, hvort sem þeir eru með því eða móti, að engin ummæli geti orðið notuð okkur til trafala í þeirri lokaviðureign, sem hv. 7. þm. Reykv. réttilega sagði að væri eftir í þessu máli.