30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3263 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt svar við fsp. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG). Hann beindi þeirri fsp. til mín sem frsm. sjútvn., hvort n. teldi, að frv. um dragnótaveiði hefði áhrif á gildandi lög um lax- og silungsveiði. Ég tel, að frv., ef að lögum verður, hafi engin áhrif á þau lög og það hljóti að vera reglugerðaratriði fyrir rn., sem málið hefur til framkvæmdar, að gera mönnum ljóst, hvaða takmarkanir á dragnótaveiðunum felast í öðrum lögum en þessum, ef frv. yrði samþ.

Út af fsp. hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ), sem honum þótti ekki fullsvarað, um það, hvernig að skyldi farið, ef bæjar- og sveitarstjórnir gerðu ekki tillögur um dragnótaveiðar, þá lít ég þannig á, að ef svör berast ekki innan þess tíma, sem tilskilinn verður, verði farið í því efni eftir tillögum Fiskifélags Íslands og atvinnudeildar háskólans.