05.12.1959
Neðri deild: 13. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. meiri hl. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af hæstv. ríkisstj. og fjallar um bráðabirgðabreytingu og framlengingu nokkurra laga. Allt eru þetta gamlir kunningjar á hv. Alþingi. Nánar tiltekið er hér um að ræða 5 núgildandi lög, sem gert er ráð fyrir að framlengist fyrir árið 1960. Eru það skatta- og tollaviðaukar, sem samþykktir hafa verið á ýmsum tímum undanfarið og framlengdir frá ári til árs.

Fjhn. hefur fjallað um frv. og farið yfir það, borið saman við gildandi lög. Að frátöldum formbreytingum, sem eru bein afleiðing af því, að fleiri lögum er hér steypt saman í eitt frv., eru öll ákvæði frv. samhljóða núgildandi lögum, að því undanskildu, að gildistíminn er í frv. árið 1960 í stað 1959, eins og er í núgildandi lögum.

Fjhn. hefur hins vegar ekki getað orðið sammála um afgreiðslu frv., og mun þar þó meira vera ágreiningur um form en efni, svo sem raunar hefur komið fram í umr. um þetta frv. áður í hv. d. Þó kom ein brtt. fram, sem getið verður síðar.

Meiri hl. fjhn. hefur skilað áliti á þskj. 58, þar sem hann mælir með því, að frv. verði samþykkt óbreytt, en minni hl. mun gera grein fyrir sinni afstöðu.

Þá, eins og áður segir, fjallaði n. einnig um brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) og hv. 3. þm. Reykv. (EOl), sem útbýtt hefur verið á þskj. 59. Sú till. hafði áður komið fram í hv. Ed., en ekki náð þar samþykki. Í fjhn. fór á sömu leið.

Um þetta er ekki þörf að hafa fleiri orð, og ég endurtek, að meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði afgr. óbreytt.