02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3280 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég vona, að það komi í ljós, þegar afgreiðsla þessa máls verður í þessari d., að málið eigi hér formælendur fáa, eins og fram hefur komið í umr.

Sá eini ræðumaður, sem hér hefur mælt fyrir málinu, hóf mál sitt á því að vitna til vísindamannanna og hversu hollt okkur hafi verið í sambandi við ýmsa aðra starfsemi að hlíta þeirra forsjá, og taldi hann, að það hefði borgað sig vel í því tilfelli. sem hann minntist á. En hvað sögðu nýju vísindamennirnir 1937? Þá töldu þeir allt í lagi að opna fyrir dragnótina og leyfa hana. Ætli það hafi borgað sig fyrir íslenzku þjóðina? Þá var margar vertíðir aflabrestur hér við land, og sá fiskistofn, sem sérstaklega var rannsakaður í sambandi við þetta veiðarfæri, það sýndi sig í sambandi við hann, að hann gekk mjög til þurrðar sem og annar fiskur á öllum grunnmiðum í kringum landið. Nei, ég held, að við þurfum ekki að vitna til tillagna og leiðbeininga vísindamannanna í sambandi við notkun dragnótarinnar hér við land.

Það var líka bent á, að það væri ótrúlegt, að útgerðarmenn óskuðu ekki frekar eftir að selja flatfiskstonn fyrir margfalt meira verð en fengist fyrir t.d. ýsu eða þorsk. En það skiptir ekki öllu máli, þegar um slíkt er að ræða, hvort hægt er að selja örfá tonn, samanborið við það mikla magn, sem fæst af hinum fiskinum, ef hann fær friðland til þess að vaxa upp á uppeldisstöðvunum. En ef verður horfið að því að leyfa dragnótina, mun sýna sig, að það mun skipta um í þeim efnum frá því, sem verið hefur, í ört vaxandi mæli allt í kringum landið á fiskimiðunum. Það er ekkert óeðlilegt, þó að sjómenn, þetta eina sjómannafélag, sem hefur sent álit til Alþingis, sé mjög uggandi út í þær aðgerðir, sem Alþ. er nú að ráðgera að framkvæma, og það er einmitt vegna þess, að þeir hafa þungbæra reynslu frá tímunum, þegar dragnótin var notuð, og þeir þekkja líka árangurinn, sem orðið hefur af friðuninni síðan.

Samkvæmt þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir um aflamagnið við Íslandsstrendur á dragnótinni frá 1938, yfir það eina ár, þá er talið, að allur dragnótaraflinn við strendur Íslands, sem vóst við frystihúsin, hafi aðeins numið 3980 lestum. Það er allt og sumt. Þetta er aflamagnið, sem á að svara til þess, að það borgi sig nú að setja í hættu alla fiskistofna, sem eru á fiskimiðunum í kringum landið. En af þessum 3980 tonnum, sem veiddust í dragnótina, voru 1360 tonn af öðrum fiski, sem er mjög auðvelt að veiða í önnur veiðarfæri, það var þorskur og ýsa, svo að það eru aðeins 2600 tonn, sem tókst að ná í þetta veiðarfæri, þegar þetta var allt opið 1938. Það eru allar tekjurnar, sem þjóðin getur átt von á í framtíðinni við það að leyfa nú dragnótina, vegna þess að vonir manna um að fá nú í augnablikinu meiri afla byggjast einvörðungu á þeirri aukningu, sem hefur átt sér stað á fiskimiðunum í skjóli þeirrar friðunar, sem í gildi hefur verið nú um nokkurt skeið. Hefði hún ekki átt sér stað, sú friðun, þá væri orðin ördeyða á þessum miðum og ekki að vænta meiri árangurs en áður fékkst í dragnótina. Það er því eðlilegra, að reiknað sé með þeim tölum, sem voru þekktar, þegar dragnótin var leyfð og notuð, heldur en ætla sér nú að byggja vonir á því fiskimagni, sem þróazt hefur uppi við ströndina einmitt nú á friðunartímunum.

Þá er ekki óeðlilegt, að vikið sé nokkuð að því, að það hefði verið eðlileg afstaða okkar til þessa máls að líta nokkuð til þeirra ráðstefna, sem fulltrúar okkar um fiskveiðar hafa setið á undanförnum árum. Þeir hafa unnið fulltrúa ýmissa annarra þjóða til fylgis við skoðun okkar um, að bægja þurfi rányrkjunni frá. Þeir hafa haldið þannig á málunum fyrir okkur og talið öðrum trú um það, að þjóðin eigi líf sitt undir því, að grunnmiðin verði friðuð. En nú þegar sú friðun hefur staðið í nokkur ár og glöggt má sjá þess merki, hver árangurinn er fyrir þjóðina, þá ætlum við sjálfir að innleiða þetta veiðarfæri, sem við höfum reynslu fyrir frá fyrri tíma að hefur lagt í auðn fiskimiðin, eins og skýrslur þær, sem liggja fyrir með frv. um takmarkaða dragnótaveiði, bera glöggt merki.

Ég vil að lokum segja það í sambandi við afgreiðslu þessa máls: Er það forsvaranlegt að tefla fengsælum fiskimiðum í hættu fyrir þann stundarhagnað, sem dragnótaveiðarnar geta fært þennan mjög takmarkaða tíma, því að það mun sýna sig í þessum efnum, að sagan frá fyrri árum mun endurtaka sig? Mér finnst það í alla staði mjög óviðeigandi að ætla sér nú að keyra þetta mál hér í gegn, jafnmikilvægt sem það er á ýmsan hátt og hættulegt fyrir öryggi aðalatvinnuvegar þjóðarinnar, sjávarútvegsins, og vænti ég, að hv. alþm. geri sér fyllilega ljóst, hversu þunga ábyrgð og örlagaríkar afleiðingar geta orðið af afgreiðslu þessa máls nú. Þessari deild hefur varla gefizt kostur á að hafa þetta til athugunar jafnmarga daga og hin deildin hafði mánuði, og það má, ljóst vera, að það hefði þurft miklu meiri tíma. Og eins og ég benti réttilega á áðan, er það aðeins eitt sjómannafélag, sem hefur sent umsögn um málið til Alþ., og þetta sjómannafélag hefur reynslu af því, hvernig fór um fiskimiðin, meðan dragnótin var notuð, og hvernig fiskurinn hefur vaxið á fiskimiðunum, eftir að þau urðu friðuð af þessu veiðarfæri.

Ég vænti þess, að hv. þm. þessarar d. styðji þá dagskrártill., sem meiri hl. sjútvn. flytur hér í þessari hv. d., og með því bjargi frá þeim voða, sem annars hlýtur að koma yfir þjóðina, því að við skulum vera þess fyllilega viss, að afleiðingarnar af veiðum með botnvörpu geta ekki orðið á annan hátt en reynslan hefur sýnt frá fyrri tímum.