02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3286 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af orðum hv. síðasta ræðumanns varðandi gróður í botni. Ég ætla að varpa fram smáfyrirspurn varðandi ummæli, sem komu fram í Nd. um þetta mál, en þar benti einn ræðumanna á, að það væri reynsla sjámanna frá síðustu vertíð, að á þeim stað í botni Faxaflóa, þar sem mest hefur verið sogað upp af skeljasandi fyrir sementsverksmiðjuna, þar hafi í vetur einmitt verið langbeztu fiskimiðin. Þetta var skýrt með því, að þarna hefði komið veruleg hreyfing á botninn, en á þennan litla blett í Faxaflóa virtist fiskurinn sækja í allan vetur. Þetta kom fram í Nd., og ég vildi bera fram fsp. til hv. 4. þm. Vesturl., sem kunnugur er staðháttum á Akranesi, hvort þetta sé ekki rétt.

Um annað atriði er rétt að fara örfáum orðum, um ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ), þar sem hann ræddi um áhrif af samþykkt þessarar till. á aðstöðu okkar í landhelgisdeilunni við Breta. Hann varpaði fram þeirri spurningu, hvort samþykkt þessarar undanþáguheimildar gæti ekki orðið óheppileg fyrir málstað okkar í því máli. Og hann benti á þá siðferðilegu skyldu, sem á okkur Íslendingum hvíldi í þeim efnum. Um þetta atriði er aðeins rétt að hreyfa því, hvort ekki hvíldi líka siðferðisskylda á okkur Íslendingum til að hagnýta þann auð, sem er í hafinu kringum okkur. Það var auðvitað alls ekki ætlun okkar með friðun landgrunnsins, að á því svæði yxi upp dýrmætur fiskistofn, dýrmæt matvæli, jafnvel heil fisktegund, sem yrði ellidauð hér uppi við landsteinana. Það væri siðferðilega erfitt fyrir Íslendinga að standa fyrir því.

Í Degi, blaði frá Akureyri, sem hingað kom í dag, er rætt um hið mikla vandamál okkar Íslendinga varðandi fiskverkun og meðferð á fiski. Þar er sagt frá því, að fréttir um slælega vöruvöndun hjá okkur Íslendingum hafi borizt til Bretlands og blaðið Fishing News hafi rætt um þetta nýlega og sagt m.a.:

„Okkur, sem erum vanir því, að sem næst 5% af afla fari í úrgang, þykir þetta, þ.e. sagan frá Akranesi á Íslandi, ganga næst glæpsamlegri sóun á náttúruauðæfum. Ef fiskimiðin við Ísland eru nýtt af þeim, sem vilja hafa á þeim einkarétt, til þess eins að framleiða skepnufóður úr fiskinum, þá geta sömu menn varla ætlazt til þess, að Sameinuðu þjóðirnar láti sem þær sjái ekki þeirra ljóta framferði.“

Tilvitnuninni er lokið, tekin upp úr Degi, sem hingað barst í dag, þýðing úr brezka blaðinu Fishing News.

Ég vildi vekja athygli á þessari hlið málsins og leggja áherzlu á, að þau ummæli hafa komið fram, að það væri alls ekki ástæða til að ætla, að samþykkt þessarar till. hefði óheppileg áhrif á stöðu okkar Íslendinga í landhelgisdeilunni, heldur miklu heldur þvert á móti, vegna þess að við höfum vísað til rökstuðnings fræðimanna fyrir vísindalegri nýtingu á fiskimiðunum, að það sé jafnvel siðferðileg skylda okkar Íslendinga að sjá til þess, að fisktegund, sem getur fullunnin orðið dýrmæt matvæli fyrir mannkynið, verði ekki ellidauð hér uppi við Íslandsströnd.

Varðandi afstöðu sjómanna í þessu máli vil ég minna á skjöl, sem liggja hér fyrir Alþingi frá Smáútvegsbændafélagi Vestmannaeyja, þar sem þeir hafa tvívegis bæði í formi áskorana og ályktunar á fjölmennum fundi skorað á Alþingi að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir. Þeir telja það mikilsvert fyrir atvinnu og afkomu smáútgerðarmanna á þessum stað, og þannig mun vera um marga aðra staði.

Varðandi áhættuna í sambandi við samþykkt þessarar till., þá hygg ég, að ef menn hugsa þessi mál rækilega niður í kjölinn og skoða frv. eins og frá því er gengið með öllum þeim varúðarheimildum, sem þar eru, þá sé fullkomlega forsvaranlegt af hv. Alþ. að samþykkja það að þessu sinni. Reynslan í sumar mun skera úr um það, hvort ástæða er til fyrir hv. Alþ. að grípa síðar í taumana. Fiskifræðingar okkar eru sá hópur manna, sem við þurfum að taka meira tillit til en gert hefur verið, og ég er að því leyti ekki sammála hv. 3. þm. Norðurl. v., og ég ætla, að fiskifræðingar séu þeir menn, sem hv. alþm. geta lagt traust sitt á, og vildi ég aðeins geta þegss til þess að gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli. Ég sé að athuguðu máli enga ástæðu til þess fyrir hv. d. að stöðva þetta frv. á síðustu stundu.