05.12.1959
Neðri deild: 13. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu og afgreiðslu, er allsérstætt, eins og vikið hefur verið að af nokkrum hv. alþm. á fundum d. undanfarið og nú síðast af hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG). Og frv. er stærra og viðameira en það virðist vera við lauslega athugun. Þess vegna er fyllsta ástæða til þess að athuga nánar efni þess og ekki sízt þann anda, sem yfir því svífur.

Frv. þetta er sérstætt vegna þess, að það samanstendur af 5 ólíkum tekjuöflunarfrv., sem ríkisstj. hafði lagt fyrir þingið í upphafi funda þess. Því er þessi meðferð mála óeðlileg, eins og bent hefur verið á. Eðlilegast hefði verið, að hin upprunalegu tekjuöflunarfrv. stjórnarinnar hefðu verið fram borin og afgr. hvert í sínu lagi, eins og stjórnin hugðist gera í upphafi. Ríkisstj. hefði sjálfsagt getað ýtt á eftir afgreiðslu þessara frv. þannig, að þau hefðu ekki þurft að tefja þinghaldið óeðlilega. En þann hátt mátti ekki á hafa, enda þótt það væri venjulegur afgreiðslumáti á slíkum málum, svo sem þingtíðindi bera með sér.

Hvers vegna var þessum 5 frv. fyrirvaralaust skellt saman í eitt frv., frv. til laga um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga, enda þótt efni þessara frv. eigi ekki samleið í einu frv.? Svarið liggur ljóst fyrir. Samsuða þessi byggðist á því, að ríkisstj. hefur ákveðið að senda Alþingi heim. Ríkisstj. hefur því raunverulega sagt við sína stuðningsmenn á Alþingi: Því fyrr sem þið farið heim, því betra.

Höfuðröksemdir fyrir heimsendingu hins nýkjörna þings eru tvær, eftir því sem ríkisstj. og stuðningsblöð hennar segja: Sparnaður á ríkisfé og sköpun starfsfriðar fyrir ríkisstj., svo að hún geti gert tilraunir til að greiða úr þeim efnahagsvandræðum, sem nú þjaka þjóðarbúskapinn. Þetta er þá sá grundvöllur, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, er byggt á, og það verður að segja, að hann er nokkuð sandkenndur.

Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) kvaddi sér hljóðs á fundi Sþ. í fyrradag og ræddi nokkuð þessar sparnaðartilraunir ríkisstj. og stjórnarsinna í sambandi við heimsendingu Alþingis. Hv. þm. benti á, að annað aðalmálgagn ríkisstj. hefði upplýst, að sparnaðurinn yrði tæp ein millj. kr., og hv. alþm. óskaði upplýsinga hjá hæstv. ríkisstj. og hæstv. forseta Sþ. um viss atriði í umræddri sparnaðartilraun. Hv. 7. þm. Reykv. fékk eigi greið svör, heldur þau ein, er af verður að draga þá ályktun, að ekki sé unnt að taka hátíðlega þær fullyrðingar stjórnarsinna, að heimsending Alþingis muni spara ríkissjóði um 900 þús. kr. En ef svo er, að sparnaðurinn er svona mikill, þá væri ekki ófróðlegt, að einhverjir talsmenn stjórnarflokkanna hér í hv. d. sundurliðuðu þá upphæð og útskýrðu, hvernig hún er til komin.

Að sjálfsögðu ber að virða hverja þá viðleitni, sem miðar að því að spara, og á það ekki síður við sparnað á opinberu fé en öðru. En ég leyfi mér að draga í efa, að sparnaður verði eins mikill af heimsendingu Alþingis og stjórnarsinnar vilja vera láta, en að sjálfsögðu kemur það í ljós á sínum tíma.

En þetta mál hefur aðra hlið en þá, sem ég hef nú rætt, og skal nú að henni vikið. Alþingi það, sem nú hefur setið, hefur setið í aðeins 16 daga. Þegar frá er skilinn sjálfur þingsetningardagurinn, hefur Alþingi aðeins starfað í tíu daga. Nú spyr nýliði á Alþingi: Er svo komið málum okkar Íslendinga, að ekki sé þörf á að ræða þau á löggjafarsamkomu þjóðarinnar, þá er hún af forseta Íslands hefur verið kvödd saman til reglulegra funda? Eru t.d. byggingarmál landsmanna í því ásigkomulagi, að óþarft sé á þau að minnast hér á Alþingi? Ég spyr enn fremur: Þarfnast vega- og hafnamál engra umþenkinga af þeim þingmönnum, sem kjörnir hafa verið til þess að ráða þessum málum til lykta á hinu háa Alþingi? Víðs vegar um landið eru ófullgerð hafnarmannvirki og bíða þess, að unnt sé að afla fjár til að halda áfram framkvæmdum. Ég hygg, að þessum byggðarlögum hefði ekkert þótt að því, þó að Alþingi hefði starfað eitthvað að þessum málum og reynt að koma þeim í farsæla höfn. Eru atvinnumál landsmanna í því ljómandi ástandi, að eigi sé þörf um þau að ræða hér á Alþingi? Svona mætti lengi telja.

Vissulega liggja fjölmörg verkefni fyrir hinu nýsetta Alþingi, eins og gefur að skilja hjá vaxandi og vakandi þjóð. Og Alþingi á að fá að sitja til að taka þessi mál til meðferðar. Ríkisstjórnin gæti vissulega fengið starfsfrið og ráðið ráðum sínum, þó að Alþingi sé starfandi og vinni að lausn fjölda mála, sem úrlausnar bíða. Saga liðinna ára staðfestir þetta. Það hafa fleiri ríkisstjórnir en núv. hæstv. ríkisstj. tekið við erfiðleikum í ríkisbúskapnum og greitt fram úr þeim vanda án þess að grípa til þess ráðs að senda Alþingi burt og tvístra því.

Annars vegar verð ég að segja það, að það kemur nokkuð undarlega fyrir eyru að heyra núv. stjórnarsinna tala um erfiðleika, fjárhagserfiðleika í ríkisbúskapnum, sökum þess að á framboðsfundunum í haust héldu forsvarsmenn núv. ríkisstj. því fram, sem þar mættu og voru frambjóðendur, og það alveg sérstaklega frambjóðendur Alþfl., að það væri búið að stöðva dýrtíðina, það væru engir erfiðleikar fram undan, og ég minnist þess alveg sérstaklega frá þeim framboðsfundum, sem ég mætti á, að þegar ég leyfði mér að fullyrða, að útflutningssjóð vantaði stórkostlega háa upphæð til að standa straum af sínum skuldbindingum, þá var ég af frambjóðendum þessa hv. flokks víttur fyrir að fara með staðlausa stafi. Hinn almenni kjósandi, sem var á þessum fundum, hafði að sjálfsögðu enga möguleika til að vita, hvor okkar færi með réttara mál, ég eða meðframbjóðandi minn. Hann varð að draga sínar ályktanir. En hvað hefur komið í ljós, og hvað kemur í ljós?

Enda þótt boðuð þingfrestunartillaga og afkvæmi hennar, en meðal þeirra er frv. það, sem hér er til umræðu, gefi fyllstu ástæðu til þenkingar um stjórnmál almennt, loforð og efndir stjórnarfiokkanna fyrir og eftir kosningar, ætla ég ekki að hafa orð mín öllu fleiri um þessi mál. En á eitt atriði í frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, vil ég þó alveg sérstaklega minnast, en það er heimildin um framlengingu söluskattsins.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ákvæði um tekjuöflun, sem sett eru í III. kafla laga nr. 100 frá 1948 og 2.—5. gr. l. nr. 112 1950, en þetta eru ákvæði um söluskattinn, skuli gilda til 31, des. 1960, þó með þeim breyt., sem greinir í b- og c-lið. Þegar ég sá þetta ákvæði frv., rifjaðist upp fyrir mér, að þm. Sjálfstfl. höfðu áður fyrr annað sjónarmið en það, að söluskatturinn rynni óskertur í ríkissjóð. Ég minnist í sambandi við þessar umræður, að 1951 flutti hv. núv. fjmrh. brtt. við frv. til laga um framlenging á gildi III. kafla laga nr. 100/1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, sem þá lá fyrir Alþingi. Brtt., sem ég geri hér að umtalsefni, hljóðuðu svo, með leyfi hæstv. forseta:

Brtt. við frv. til l. um framlenging á gildi III. kafla l. nr. 100/1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna. Frá Gunnari Thoroddsen.

Á eftir 1. gr. komi fjórar nýjar greinar, svo hljóðandi:

a. (2. gr.) Söluskattur samkvæmt lögum þessum skal að 3/4 hlutum renna í ríkissjóð og 3/4 hluta til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

b. (3. gr.) Tekjum jöfnunarsjóðs af söluskatti skal skipt milli bæjar- og hreppsfélaga eftir fólksfjölda, eins og hann var samkvæmt manntali næstliðins árs. Ekkert bæjar- og hreppsfélag skal þó fá meiri greiðslu en nemi 50% af álögðum útsvörum næsta ár á undan í því bæjar- eða hreppsfélagi.

c. (4. gr.) Nú falla ábyrgðarskuldbindingar á ríkissjóð vegna sveitarfélags, og er félmrh. þá heimilt að ákveða, að hluti sveitarfélagsins af söluskattinum gangi til greiðslu á slíkum kröfum.

d. (5. gr.) Ríkissjóður greiði jöfnunarsjóði þann hluta af söluskatti, sem honum ber, eigi síðar en einum mánuði eftir að innheimtumenn skattsins hafa gert fjmrn. ársfjórðungsskil.

Félmrn. framkvæmir skiptingu fjárins milli sveitarfélaganna tvisvar á árí, 1. apríl og 1. október, og sér um, að greiðslur þær, sem í 3. gr. getur, séu inntar af hendi.“

Því minnist ég á þetta hér, að mér þóttu þessar till. hæstv. núv. fjmrh. mjög athyglisverðar, enda var hv. flm. vel kunnugt um þörf sveitarfélaganna á nýjum tekjustofni.

Undir umræðum um þessi mál á Alþingi 1951 var bent á, að alvarlegt ástand ríkti í fjárhags- og atvinnumálum flestra bæjar- og sveitarfélaga á landinu og þörf væri úrbóta. Bent var á, að tekjustofn bæjar- og sveitarfélaga væri svo til einn, þ.e. útsvörin, og nauðsyn bæri til að finna annan til úrbóta vegna versnandi fjárhagsafkomu bæjar- og sveitarfélaga.

Síðan þessi brtt., sem ég hef gert hér að umtalsefni, var flutt, eru liðin átta ár. Enn er söluskatturinn á dagskrá. En með tilvísun til fyrri umr. um söluskattinn finnst mér ekki óeðlilegt, að minnzt sé lítillega á þarfir bæjar- og sveitarfélaganna í dag, það sé minnzt á þessar þarfir á ný hér í þinginu og það athugað, hvort hagur þeirra hafi svo batnað, að ekki sé ástæða til að ræða um nýjan tekjustofn þeim til handa.

Ég held, að ég þurfi ekkert að fjölyrða um hag bæjar- og sveitarfélaga á Íslandi. Hv. alþm. eru í ákaflega mörgum tilfellum einmitt forsvarsmenn bæjar- og sveitarfélaga og í hreppsnefndum og bæjar- og sveitarstjórnum, og þeir vita vel, hvernig og hvar skórinn kreppir að. Með tilliti til þess og einnig þess, sem áður hefur verið sagt um þessi mál, tel ég réttara, að 4. gr. frv. verði umorðuð á þann veg, að framlengingarheimild í a-lið gildi aðeins til febrúarloka, en ekki til 31. des. 1960, eins og brtt. á þskj. 59 gerir ráð fyrir, og mun ég því greiða henni atkv., þegar hún verður borin upp til atkvgr. Fengist hún samþ., þá mundi gefast tækifæri við afgreiðslu efnahagsmálanna, eftir að þingið kemur saman á ný, að athuga, hvort ekki sé unnt að klípa ofur lítið út úr söluskattinum til bæjar- og sveitarfélaga. En ég er þeirrar skoðunar, að fyllsta þörf sé á, að þau fái nýjan tekjustofn og því fyrr því betra.

Á þskj. 60, sem útbýtt hefur verið, er brtt. frá 4. þm. Reykn. og 6. þm. Reykv. og mér varðandi tvö atriði í því frv., sem hér liggur fyrir. En með því að 4. þm. Reykn. mun fylgja þessum brtt. úr hlaði, þá sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þær hér að sinni.