30.05.1960
Sameinað þing: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Bezti mælikvarðinn á ríkisstj. er það, hvað hún gerir til þess að létta almenningi lífsbaráttuna. Sú stjórn, sem horfir á það aðgerðalaus, að hagur almennings þrengist í sífellu, en telur það sjálfsagt, að milljónir eftir milljón renni í vasa milliliða og fjáraflamanna, sú stjórn er ekki stjórn fólksins í landinu. Það er auðvitað vond stjórn, sem segist ætla að gera rangt. Sú stjórn er þó verri, sem segist ætla að gera rétt, en gerir rangt. En verst allra er sú, sem segist hafa verið að gera rétt, þegar hún hefur verið að gera rangt, en þannig er sú ríkisstj., sem nú situr að völdum á Íslandi.

Nú haldið þið sjálfsagt, hlustendur góðir, að þetta séu mín orð, minn dómur um núv. hæstv. ríkisstj., og vissulega tel ég þetta allt saman hárrétt mat á þeirri endemisstjórn, sem nú situr að völdum hér á landi. En þetta eru samt orð núv. hæstv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, og þessi ummæli hans er að finna í útvarpsræðu, sem hann flutti 3. okt. 1951, um gengisfellingar-, dýrtíðar- og atvinnuleysisstjórn Ólafs Thors, en hann var forsrh. þeirrar stj. (Gripið fram í.) Já, margt er líkt með skyldum. En sá er bara munurinn, að nú er Gylfi Þ. Gíslason hæstv. viðsk.- og menntmrh. dæmdur af þeim Gylfa Þ. Gíslasyni, sem dóminn kvað upp fyrir 9 árum.

Ég mun ekki beina gagnrýni minni að stjórnarstefnunni í heild, heldur aðeins að verðlagspólitík hennar og útlitinu í atvinnulífinu.

Það var 19. febr. s.l., sem lög um efnahagsmál, þ.e. lög um gengislækkunina, lög, sem afnámu með öllu rétt launþega til að fá kauphækkun eftir vísitölu í vaxandi dýrtíð, voru afgreidd á Alþ. Sá dagur mætti með réttu kallast afmælisdagur viðreisnarinnar svokölluðu. — Lítum nú á þróun verðlagsmálanna síðan.

Fyrir kosningar hafði verið heitið stöðvun dýrtíðar, en nú koma bölvaðar staðreyndirnar og fara heldur í aðra átt. Ýmsum kom það á óvart, að innlend þjónusta ýmiss konar varð einna fyrst til að hækka í verði eftir gengislækkunina. Póstburðargjöld hækkuðu á augabragði, símgjöld hækkuðu stórlega, bæði ársfjórðungsgjöld talsímans og skeytagjöld, sjúkrasamlagsgjöld hafa hækkað, tryggingasjóðsgjöld einnig, heita vatnið til húsahitunar, rafmagnið o.s.frv., svo að nokkuð sé nefnt.

Lítum svo á verðþróun útlendra vara. Tökum þá fyrst byggingarefni. Mótatimbur, algengasta tegund, kostaði kr. 2.16 fetið, nú kr. 3.09, hækkunin 45%. Fragthækkun á næstu sendingu mun hækka það enn um 15% í viðbót, og er þá hækkun orðin samtals 60%. Steypustyrktarjárn, 10 mm. kostaði kr. 4.70 kg, en nú kr. 8.46, hækkunin er 80% . Sement við skipshlið kostaði 730 kr. tonnið, nú 1122, hækkunin er 54%. Meðaltalshækkun á byggingarvörum mun vera alveg um 60%. Álímd stígvél, svokallaðar sjóbússur, kostuðu fyrir viðreisn 344 kr. nú 536, hækkunin er 56%. Lág gúmmístígvél kostuðu 228 kr., nú 373, hækkunin er 64%. Baðmullarvörur, sem áður voru undir 30% yfirfærslugjaldi, hækka nú um 85-90%. Sex vörutegundir, allt saman algengustu neyzluvörur, hækkuðu frá 1. til 15. maí s.l. sem hér segir: Nýmjólk í flöskum kostaði kr. 3.15 11. maí, á hátíðisdegi verkalýðsins, en fyrir 15. maí var verðið komið upp í kr. 3.40. Skyr kostaði 1. maí kr. 8.60 kr., en hálfum mánuði seinna 9 kr. Óskammtað smjör kostaði 1. maí kr. 47.65, en 15. maí kr. 52.20. Rúgbrauð, sem vegur 1½ kg, kostaði 1. jan. kr. 5.40, en þann 1. maí kr. 6.70 og 15. maí kr. 7.20. Þann 1. jan. var verkamaður 15 mín. að vinna fyrir þessu brauði, en þann 1. maí tók það hann 18 mín. og hálfum mánuði seinna 20 mín. Franskbrauðið, ½ kg, kostaði 1. jan. kr. 3.90, þann 1. maí kr. 4.30 og þann 15. maí kr. 4.55. Verkamaðurinn var í ársbyrjun 10.7 mín. að vinna fyrir þessu brauði, 1. maí var hann 11.8 mín. að því og núna um miðjan mánuðinn 12½ mín. 1 kg strásykur kostaði 1. jan. kr. 4.12, þann 1. maí kr. 5.66. Fyrir því var verkamaður 11 mín. að vinna í ársbyrjun, en nú 15. Brennt og malað kaffi kostaði í ársbyrjun kr. 34.60, þann 1. maí hafði það hoppað upp í kr. 46.00. Verkamaðurinn var í ársbyrjun 1 klst. og 35 mín. að vinna fyrir kaffikílóinu, en þann 1. maí 2 klst. og 6 mín. Ekki bætir það efnahaginn að hætta að drekka kaffi og snúa sér að kakódrykkju, því að þann 1. jan. kostaði kakókílóið kr. 55.77, en 1. maí kr. 73.40. Það tók verkamanninn 2 klst. og 33 mín að vinna fyrir því í ársbyrjun, en núna kringum 1. maí 3 klst. og 21 mín. — Svona er hægt að halda áfram óendanlega. Þessi er þróunin, hvar sem niður er gripið, ekki sízt þegar farið er út fyrir vísitöluvörurnar.

En kaupið á að vera óbreytt, segja stjórnarherrarnir, og atvinnurekendurnir brosa í kampinn og kinka auðvitað kolli. Og hvað ættu þeir annað að gera, blessaðir mennirnir?

En hvað segir þá vísitalan um öll þessi boðorð? kynni nú einhver að segja. Vísitala vöruverðsins mun hafa verið talin um 108 stig við seinustu mánaðamót. En þar frá lætur ríkisstj. víst draga 3 stig vegna fjölskyldubótanna, og segjum, að það sé ekki ranglátt gagnvart þeim, sem þeirra bóta njóta, en hitt er augljóst, að það styðst við engin rök gagnvart öllum þeim, sem þeirra bóta njóta ekki. Þannig er sagt, að framfærsluvísitalan sé nú 105 stig. En viðurkennt er með því, að kjörum allra annarra en barnafjölskyldnanna hefur hrakað um 8 stig, en það er sama sem 16 vísitölustig samkv. gömlu vísitölunni. Nú er þess að geta, að mjólkurhækkunin í seinasta mánuði var ekki birt fyrr en eftir mánaðamótin, svo að ekki hefur hún því verið mæld í vísitölunni enn þá. Sama er að segja um hækkun heita vatnsins til upphitunar húsa og um hækkun strætisvagnagjaldanna hér í Reykjavík. En þegar þessa er gætt, er auðsætt, að vísitala vöruverðsins er nú ekki undir 110 stigum, en það þýðir eftir gamla vísitöluverðinu sama sem 20 stiga hækkun, og hefði það einhvern tíma þótt umtalsverð kjararýrnun.

En því miður er bikarinn ekki tæmdur í botn enn þá, það er langt frá því. Miklar verðhækkanir eru enn þá fram undan fram eftir öllu sumri.

Og lítum þá þessu næst á útlitið í atvinnulífinu í ljósi viðreisnarinnar. Hvaðanæva af landinu berast þær fregnir, að það heyri til undantekninga, ef nokkur maður leggi nú í það að hefja byggingu íbúðarhúss. Því veldur hin stórkostlega verðhækkun byggingarefnis, vaxtaokrið og lánabannið. Hér í Reykjavík er í fyrsta sinn í mörg ár engin eftirspurn eftir lóðum fyrir sambýlishús. Fáir einstaklingar hefja byggingar íbúðarhúsnæðis þrátt fyrir mikla þörf. En peningamennirnir rjúka nú af stað með hvert stórhýsið af öðru til verzlunarrekstrar. Og þeir mörgu, sem nú eru að byggja og peningaráð hafa, flýta sér allt hvað af tekur, áður en kaupið hækki. Samdrátturinn hjá byggingarverkamönnunum er því fyrirsjáanlegur, því að þetta eru allt saman lántökur upp á framtíðina.

Ekki er líklegt, að flotinn stækki mikið í bili. Má ólíklegt teljast, að þeir verði margir útgerðarmennirnir, sem kaupa togara fyrir 38–40 millj. eða 100 tonna fiskibát fyrir 5–6 millj. Auk þess segja útgerðarmenn nú, að hag þeirra sé illa borgið eftir ráðstafanir ríkisstj. Strax hafa þeir knúið fram á þeim grundvelli 60 millj. í uppbætur, og fyrir nokkrum dögum gerði Landssamband ísl. útvegsmanna svo hljóðandi samþykkt:

„Að gefnu tilefni telur fulltrúafundurinn, að í framtíðinni skuli ekki hefja vertíð, fyrr en tryggður hefur verið rekstrargrundvöllur fyrir fiskibátaflotann og samningar undirritaðir við fiskkaupendur.“

Hvað er að heyra þetta! Og þó var viðreisnin fyrst og fremst gerð til þess að koma útgerðinni á traustan grundvöll. Þarna virðist því botninn bara hafa dottið úr stjórnarkeraldinu, sem þeir kalla viðreisn.

Og þó er það alvarlegast, að skipulega virðist að því unnið að eyðileggja okkar beztu markaði. Allt er gert, sem hægt er, til að lokka menn til viðskipta við hið svokallaða frjálsa svæði. Það dregur úr sölu sjávarafurða á okkar beztu mörkuðum og dregur auðvitað jafnframt úr allri atvinnu við fiskiðnaðinn í landinu. Og þá er svo sannarlega orðið auðskilið mál fyrir verkakonurnar og verkamennina, hvaða þýðingu þessir markaðir hafa haft og hafa fyrir lífsafkomu verkalýðsins. Enn þá er meiri hlutinn af sjávarafurðum okkar fluttur til jafnkeypislandanna, en þar safnast nú upp innistæður, en hins vegar flytjum við inn hvers konar varning fyrir lánsfé, þ.e.a.s. upp á krít, frá frjálsa svæðinu. Og hvað halda menn, að þetta geti staðið lengi? Allir sjá, að þetta er ekki blómlegt búskaparlag, það hlýtur að taka fljótt enda. Því meira sem við drögum úr vörukaupum okkar í vöruskiptalöndunum, því minna getum við selt þangað af fiski, og það þýðir samdrátt atvinnuveganna og jafnframt minni gjaldeyristekjur.

Þó væri þetta allt saman í lagi, ef stjórnin gæti bara selt afurðir okkar á frjálsa svæðinu, en svo er ekki. Amerískir markaðir hafa ekki opnazt, ekki heldur í Vestur-Evrópu. Miklu fremur heyrum við nú um samdrátt markaða þar og verðfall, enda er nú svo komið, að fiskverðið er lækkað niður í kr. 2.20 til útgerðarmannanna. Síldarverðið á komandi vertíð er einnig lækkað, vorsíldarveiðin er stöðvuð og fiskverðið til hlutarsjómanna er lögfest í kr. 1.66 á kg. Hins vegar er nú sannað, að norskt hraðfrystihús getur borgað fiskimönnum þar í landi frá kr. 4.21 upp í kr. 4.80 fyrir kg af þorski, en eins og kunnugt er, selja Norðmenn fisk sinn á sömu mörkuðum og við. En þá vaknar spurningin: Hver eða hverjir eru það, sem hirða þennan mikla mismun til sín?

Slíkur ótti hefur nú gripið forráðamenn Landssambands ísl. útvegsmanna út af því, að verið sé að eyðileggja markaðina í vöruskiptalöndunum, að þeir hafa ásamt síldarútvegsnefnd, síldarverksmiðjum ríkisins og Sambandi ísl. samvinnufélaga skipað n. til þess að fylgjast daglega með þróun viðskiptanna varðandi jafnkeypislöndin.

Margt fleira þyrfti raunar að segja um yfirvofandi samdrátt atvinnulífsins, en þetta verður þó að nægja í þetta sinn.

Þingi Vinnuveitendasambands Íslands er nýlokið. Það ræddi, eins og að líkum lætur, um efnahagsmálaaðgerðir hæstv. ríkisstj., og það gerði samþykkt, fagnaðarsamþykkt, út af þessum aðgerðum. En það gerði líka meira. Það samþ. auk þess ályktanir varðandi lögin um stéttarfélög og vinnudeilur, um atvinnuleysistryggingarnar og um lögin um rétt verkafólks í veikinda- og slysatilfellum, og allar fóru þessar ályktanir Vinnuveitendasambandsins í þá átt að krefjast skerðingar og takmarkana á þeim réttindum og þeirri vernd, sem þessi löggjöf veitir vinnandi fólki og samtökum þess. Hverju sætir þetta? Hvað sýnir þetta okkur? Það sýnir okkur það, að samtök atvinnurekenda eru staðráðin í því að fylgja fast eftir hinni pólitísku sókn ríkisvaldsins gegn verkalýðsstéttunum og gegn verkalýðssamtökunum. Fyrst var ráðizt á fjárhagsaðstöðu vinnandi fólks, nú er stefnt á mannréttindin. Verkalýðsráðstefna Alþýðusambandsins gerði á sunnudaginn var ályktanir, sem taka af allan vafa um það, að verkalýðshreyfingin stendur einhuga saman um að vernda þá dýrmætu réttindalöggjöf, sem fram hefur náðst, en sumpart hefur þegar verið skert og er nú beinlínis ógnað að öðru leyti mjög ákveðið af samtökum atvinnurekenda.

Einn af forustumönnum Sjálfstfl. sagði nýlega á Alþ., að það, sem nú væri verið að gera í efnahagsmálunum, væri framkvæmd á stefnu Sjálfstfl., framkvæmd á málum, sem hann hefði fyrir löngu viljað vera búinn að framkvæma, aðeins ef hann hefði haft aðstöðu til, og nú hefði hann loks fengið aðstöðu, sem að ýmsu leyti væri betri en hann hefði haft, þótt hann hefði haft hreinan meiri hluta. Þetta er athyglisverð játning, en hún sýnir, að nú þykjast íhaldsöflin tveim fótum í jötu standa og geti því leyft sér það, sem hugurinn hefur lengi staðið til, þó að aðstöðuna til framkvæmda hafi vantað.

Eitt sinn sagði orðsnjall maður, að klær atvinnurekendavaldsins hefðu lengstum hvassar verið og beinzt að íslenzkri alþýðu, væri það því mjög miklu brýnna verkefni alþýðustéttunum og alþýðusamtökunum að brjóta þær en brýna. En þó að sárt sé að verða að segja það, af því að það er satt, hafa nú klær atvinnurekendavaldsins fengið duglega brýnslu við þá aðstöðu, sem Alþfl. hefur veitt Sjálfstfl. með forustu í ríkisstj- og ákvörðun um stjórnarstefnu.

Ég vil ekki trúa því fyrr en í síðustu lög, að hin faglega verkalýðshreyfing beri ekki gæfu til að sjá, hvert klóm atvinnurekendavaldsins er nú stefnt. Það er enn sem fyrr skylda hvers einasta manns, sem undir merkjum verkalýðssamtakanna berst, að brjóta þær klær heldur en brýna.

Á laugardaginn var kom saman í Reykjavík fjölmennasta og myndarlegasta ráðstefna, sem haldin hefur verið í sögu verkalýðssamtakanna. Hún skyldi fjalla um kjaramál og atvinnuhorfur verkafólks, og það gerði hún. Fulltrúarnir voru úr öllum landshlutum, öllum héruðum landsins, úr öllum stjórnmálaflokkum. Enginn var sá á þessari fjölmennu ráðstefnu meðal forustumanna verkalýðsfélaganna, sem viðurkenndi ekki, að nú hefði svo stórkostleg kjaraskerðing orðið, að verkafólkið yrði að rétta sinn hlut. Einn fulltrúinn sagði: Við höfum verið úr öllum flokkum í stjórn míns verkalýðsfélags, en nú er eins og við séum allir úr einum flokki. — Annar sagði: Lengi vel vildu fylgjendur stjórnarflokkanna reyna að verja stjórnarstefnuna, en nú eru þeir allir þagnaðir og heimta eins og aðrir, að verkalýðssamtökin hefji þegar sínar varnarráðstafanir og gagnsókn upp úr því.

Þannig var stemningin á þessari ráðstefnu, enda varð niðurstaðan sú, að allir fulltrúar, hver einasti, allra flokka menn, — enginn sat hjá og enginn greiddi mótatkv., — samþykktu svo hljóðandi ályktun um kjaramálin, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá því að verkalýðsfélögin hækkuðu almennt kauptaxta sína á árunum 1958, hafa kaupgjaldsákvæði í samningum þeirra tvívegis verið skert með lagaboði og nú síðast með því að afnema með öllu rétt launþega til að fá kauphækkanir eftir vísitölu í vaxandi dýrtíð. Ráðstefnan telur, að með þessum ráðstöfunum hafi samningsbundinn réttur verkalýðsfélaga verið freklega skertur, og mótmælir því harðlega. Afleiðingar gengisfellingarinnar og annarra ráðstafana eru þær, að nýju dýrtíðarflóði hefur verið hleypt af stað. Verðhækkanir á flestum sviðum eru meiri en dæmi eru til að komið hafi í einu, og er þegar sjáanlegt, að þær verða meiri en gert var ráð fyrir í byrjun. Allt launafólk hefur því þegar orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu og augljóst, að sú skerðing muni enn aukast mikið. Hætta er á, að ríkjandi stefna muni ásamt minnkandi kaupmætti leiða til samdráttar í framleiðslu og framkvæmdum, þar af leiðandi til minnkandi atvinnu og jafnvel atvinnuleysis, verði ekki að gert í tíma. Launakjör verkafólks hafa um langt skeið verið með þeim hætti, að ókleift hefur verið að lifa af 8 stunda vinnudegi, og er kaupgjald íslenzkra verkamanna orðið mun lægra en stéttarbræðra þeirra á Norðurlöndum. Ráðstefnan álítur, að kjaramálum verkafólks sé nú svo komið, að óhjákvæmilegt sé fyrir verkalýðsfélögin að láta til skarar skríða og hækka kaupgjald og hrinda þannig þeirri kjaraskerðingu, sem orðið hefur. Jafnframt því lýsir ráðstefnan því yfir, að hún telur, að fyllilega sé unnt að verða við réttlátum kröfum verkafólks, án þess að verðbólgan vaxi, og ekki sízt ef um leið er framkvæmdur sparnaður í ríkiskerfinu og framleiðsla landsmanna aukin og gætt meiri hagsýni um rekstur framleiðslutækja þjóðarinnar. Ráðstefnan telur því nauðsynlegt, að hvert verkalýðsfélag hefji nú undirbúning að þeirri baráttu, sem óhjákvæmilega er fram undan, og felur miðstjórn Alþýðusambandsins að samræma kröfur félaganna og baráttu þeirra og hafi hún um það samráð við félögin eftir þeim leiðum, sem hún telur heppilegastar.“

Með þessari ákveðnu ályktun hefur einhuga verkalýðshreyfing dregið fána að hún. Hún hefur falið forustu sinni fullnægjandi umboð til að samræma kröfur félaganna og skipuleggja baráttu þeirra, og þetta var gert af öllum, ekki síður af fylgjendum stjórnarflokkanna en öðrum. En það verða enn fleiri, sem snúast til varnar gegn þeirri gæfusnauðu ríkisstj., sem ráðizt hefur af fádæma skilningsleysi og rangsleitni gegn bændastétt landsins, gegn samvinnuhreyfingunni. Það verður seint fyrirgefið, að auðvaldsklærnar hafa gerzt svo bíræfnar að seilast inn í hverja innlánsdeild samvinnufélaganna úti um land og heimta þaðan helming sparifjáraukningar til Reykjavíkur. Þeir verða margir alþýðumennirnir í sveitum og við sjó, sem hefna þessa ranglætis í einhverri mynd, þegar færi gefst. Að veltuútsvörum hefur verið skellt á félagsmannaverzlun samvinnufélaganna, það mun líka lengi í minnum haft. Þeir verða líka margir í ýmsum stéttum, sem minnast þeirra fríðinda og skattalækkana, sem hátekjumönnum og auðfélögum hafa verið veitt með hinum nýju tekjuskattslögum og útsvarslögum. Og ekki bætir það heldur fyrir ríkisstj., er hún er með það hræsnishjal, að þessi löggjöf sé til þess sett að létta byrðar hinna fátækari.

Stjórnin, sem lofaði verðstöðvun og atvinnuöryggi, en færir þjóðinni hörmungar skefjalausustu dýrtíðar og ógnar með atvinnuleysi, er sannarlega ekki stjórn fólksins.

Ég bið hlustendur að lokum að minnast nú ummæla hæstv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, þeirra sem ég viðhafði í upphafi ræðu minnar, nefnilega þessara: „Verst allra er sú ríkisstj., sem segist hafa verið að gera rétt, þegar hún var að gera rangt.“ En einmitt þannig er sú ríkisstj., sem nú situr illu heilli að völdum á Íslandi. Það er næsta ólíklegt, að hún þurfi að kemba hærurnar.