31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3404 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

Almennar stjórnmálaumræður

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Birgir Finnsson, 5. þm. Vestf., ræddi hér í gær í byrjun ræðu sinnar um afstöðu þeirra Hermanns Jónassonar og Lúðvíks Jósefssonar á Genfarráðstefnunni nýlega. Komst hann svo smekklega að orði að kalla framkomu Lúðvíks Jósefssonar þar einbera Rússaþjónkun. Hæstv. dómsmrh. kom inn á þetta líka mjög í sama dúr nú rétt á undan mér, svo sem hlustendur hafa heyrt. Líklega telur þessi þm. og þessi ráðh. óhætt að skáka hér í því hróksvaldi, að þeir vita, að Lúðvík Jósefsson er enn þá erlendis að leita sér lækninga og getur því ekki svarað hér fyrir sig sjálfur. En það er hægt í fáum orðum að skýra megindrætti mála á Genfarráðstefnunni. Þeir megindrættir voru svo skýrir, að það þarf ekki langan tíma til, og raunverulega vita Birgir Finnsson og hæstv, dómsmrh. betur en þeir hafa látið í veðri vaka.

Á þessari ráðstefnu voru tvær andstæðar fylkingar. Önnur var samsett af öllum ríkjum sósíalismans og nokkrum öðrum, er nýlega hafa öðlazt frelsi, ný ríki, sem hafa losnað úr klóm hinna vestrænu auðvaldslanda á síðustu árum. Hjá þessari fylkingu var allt okkar traust í landhelgismálinu og hefur alltaf verið. Án þessa stuðnings blasti við okkur ósigurinn einn og ekkert annað. Þessi fylking hélt fram 12 mílna almennri landhelgi og óskertri fiskveiðilandhelgi með viðurkenningu um rétt strandríkis í ýmsum tilfellum utan 12 mílna. Í hinni fylkingunni voru öll okkar vestrænu vinaríki. Þar voru í broddinum gömlu auðvaldsstórveldin: Bretland, sem hefur haldið uppi sjóhernaði við okkur í nærri 2 ár, og Bandaríkin, sem bitu okkur í bakið á fyrri ráðstefnunni í Genf 1958, eins og Morgunblaðið komst þá að orði. Þessi fylking barðist hatramlega á móti okkur. Hún barðist fyrir 6 mílna almennri landhelgi og mjög skertri fiskveiðilandhelgi, og forusturíkin lýstu því meira að segja yfir, að þau vildu helzt ekki hafa hana nema 3 mílur. Þetta var sem sé lýðræðisfylkingin. Í blaðaviðtali hefur Hermann Jónasson lýst vinnubrögðum þessarar fylkingar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Áróðurinn og bakferlin af hálfu andstæðinga Íslands í landhelgismálinu voru furðuleg. Það voru notuð blíðmæli, lof, hótanir og aðrar aðgerðir. Allt var við það miðað að fá 2/3 atkv. ráðstefnunnar með bræðingnum, hvernig sem atkv. voru fengin.“

Klofningur íslenzku sendinefndarinnar skeði út af því einu, að meiri hl. hennar samþ. að bjóða þessari fylkingu atkv. Íslands til kaups. Hún skyldi hjálpa þessari fylkingu til þess að samþ. 6 mílna regluna fyrir allar aðrar þjóðir veraldar, ef þeir fengju í staðinn samþ. loðna, óákveðna till. um, að Ísland fengi eitt allra ríkja sérréttindi utan þessara 6 mílna. Þá var Ísland reiðubúið að svíkja alla sína samherja, þrátt fyrir það að vitað var, að 12 mílna blokkin var nógu sterk, ef hún bara hélt saman. Þessu neituðu þeir Lúðvík og Hermann.

En svarið, sem meiri hluti n. fékk, var þetta: Nei, við viljum ekki kaupa ykkur, því að ef við metum ykkur til verðs, þá töpum við öðrum, sem okkur eru meira virði, svo að það borgar sig ekki fyrir okkur.

Þrátt fyrir þessa háðulegu útreið hélt íslenzka sendinefndin eða meiri hl. hennar samt áfram með till. og lét fella hana. Hvað skyldu þeir vera margir af reyndustu stjórnmálamönnum veraldar, sem botna í slíkri utanríkispólitík?

Nú féll bræðingurinn með aðeins eins atkv. mun. Það þýðir, að ef andstæðingar okkar hefðu virt meiri hluta íslenzku sendinefndarinnar til nokkurs verðs og samið við hana, þá hefði hún og þar með Ísland borið ábyrgð á því, að 6 mílna reglan hefði orðið samþ. sem alþjóðalög. Hvað haldið þið nú, hlustendur góðir, að heiður Íslands hefði verið hátt metinn á vettvangi milliríkjaviðskipta í heiminum, ef sá hefði orðið endir á okkar baráttu fyrir 12 mílna landhelginni?

Ég ætla, að þetta sé nokkurn veginn nægilegt svar til herra Birgis Finnssonar og dómsmrh. Bjarna Benediktssonar. — Annars erum við sósíalistar orðnir því svo vanir að vera kallaðir Rússaþjónar fyrir það eitt að vilja ekki vera með í að afhenda erlendum stórveldum Ísland með gögnum og gæðum þess og sál og sannfæringu þjóðarinnar í kaupbæti, að við erum hættir að kippa okkur upp við slíkar ásakanir.

Í útvarpsumr. um efnahagsmál, sem fram fóru hinn 15. febr. s.l., komst 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, þannig að orði, að það væri annað að hafa lært hagfræði og kunna á reikningsstokk en að kunna á vél atvinnulífsins á Íslandi. Sannleiksgildi þessara orða er nú að sýna sig svo áþreifanlega í afleiðingum þeirra ráðstafana, sem samþ. voru á s.l. vetri, að hver maður finnur. En það hefur verið rakið svo vel af ræðumönnum Alþb. hér í þessum umr. á undan mér, að ég þarf litlu við það að bæta. En mér komu einmitt þessi orð í hug í gærkvöld, þegar ég hlustaði á ræðu hagfræðings Sjálfstfl., 6. landsk. þm., Birgis Kjarans, og raunar líka ræðu hæstv. viðskmrh., og það er annar þáttur þessa máls, sem verður ekki komizt hjá að gera nokkuð ýtarleg skil, einkum vegna þess, að þessir þm. báðir ræddu sérstaklega um hið marglofaða nýfengna verzlunarfrelsi.

Það hefur áður verið bent hér á það, hver áhrif þessar ráðstafanir hafa á utanríkisverzlun okkar og samdrátt hinna beztu markaða og þar af leiðandi stórhættu á minnkun framleiðslunnar. Hér er komið að þeim kjarna málsins, sem fólginn er í hinni marglofuðu vestrænu samvinnu bæði á hernaðar- og viðskiptasviði, og nú er aftur að sýna sig, hve röng var sú stefna að flækja Íslandi inn í þau samtök, þó að hæstv. dómsmrh. væri að lofsyngja það hér áðan.

Þegar frv. um innflutnings- og gjaldeyrismál var til meðferðar hér í þingi fyrir rúmum mánuði, komust umr. inn á viðskipti okkar við Efnahagsstofnun Evrópu, en hún er, sem kunnugt er, ekkert annað en hluti af Atlantshafsbandalaginu og hún annast hina efnahagslegu og viðskiptalegu hlið á starfsemi þess. Aðalefni þessa frv., sem nú er orðið að lögum, er það að gera innflutningsverzlunina frjálsa. Í þeim umr. gaf núverandi viðskmrh. þessa yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar við gerðumst aðilar að Efnahagsstofnun Evrópu fyrir 12 árum, skuldbundum við okkur til þess að gefa verzlunina frjálsa við þau ríki önnur, sem eru aðilar að henni, sem nemur um 80–90% Þessa skuldbindingu höfum við aldrei getað staðið við. Þessar ráðstafanir gera okkur fært fremur en nokkru sinni fyrr að efna þessa skuldbindingu.“

Hér liggur þá fyrir a.m.k. óbein yfirlýsing sjálfs viðskmrh. um það, að þessar ráðstafanir séu að verulegu leyti gerðar til þess að þóknast þessari erlendu stofnun og efna þetta 12 ára gamla loforð. En hvers vegna höfum við ekki efnt það fyrr? Einfaldlega vegna þess, að enginn viðskmrh. og engin stjórn, sem að völdum hefur setið öll þessi ár, hefur treyst sér til að krefja þjóðina um þær fórnir, sem það kostar. Ef hlustendur skyldu efa það, að hér sé rétt ályktað, þá skal ég færa fleiri rök. Þess er vert að minnast, að í nóvembermánuði s.l. var staddur hér í Reykjavík sjálfur forstjóri þessarar stofnunar. Hv. þm. Alfreð Gíslason minntist svolítið á hann í ræðu sinni hér áðan. Þessi forstjóri hélt hér fyrirlestur í hátíðasal háskólans og ræddi um viðskiptahorfur Íslendinga í Vestur-Evrópu, og síðan var þessi fyrirlestur birtur í efnahagsmálatímariti Landsbanka Íslands, sem Fjármálatíðindi heitir. Mál sitt hóf forstjórinn með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil fyrst af öllu taka það fram, að við (þ.e. leiðtogar Efnahagssamvinnustofnunarinnar) hörmum það mjög, hversu utanríkisviðskipti Íslands hafa í síauknum mæli beinzt frá löndum Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Fyrir stríð fór um 80% af útflutningi Íslands til Vestur-Evrópulanda og greiðslusvæða, sem þeim voru tengd. Árið 1949 var ástandið mjög svipað. En síðan hefur utanríkisverzlun ykkar beinzt mjög ört að vöruskiptalöndum, svo að nú fara ekki nema 40% af útflutningi ykkar til Vestur-Evrópulanda og bandalagslanda þeirra, og jafnframt því sem útflutningur ykkar hefur minnkað, hefur innflutningur ykkar frá Vestur-Evrópu einnig minnkað.“

Lítum nú fyrst á, hvað það var, sem forstjórinn var að harma. Árið 1949 bjuggum við við þessi gósenviðskipti, að kringum 80% af útflutningnum voru seld til Vestur-Evrópulanda og bandalagslanda þeirra, eins og forstjórinn komst að orði og taldi svo ágætt. Þá höfðum við gengið í Atlantshafsbandalagið og Efnahagssamvinnustofnunina. Við nutum Marshallgjafa í ríkum mæli, enda hafði tekizt að eyðileggja með þessum ráðstöfunum þá markaði, sem við höfðum fengið í Sovétríkjunum að lokinni styrjöldinni. En hver er sá, sem kominn er til vits og ára og ekki man líka fylgifisk þessara aðgerða, markaðskreppuna miklu, er neyddi þáverandi ríkisstj, til þess að banna beinlínis að framleiða nema visst magn af helztu útflutningsvörum okkar, og hefðu þó markaðsvandræðin orðið enn þá meiri, ef síldveiðin hefði ekki brugðizt hvert árið af öðru? Að vísu liðum við engan skort, því að það, sem á vantaði, að heiðarleg framleiðsluatvinna hrykki fyrir fjárhagslegum þörfum þjóðarinnar, var bætt upp með Marshallgjöfum og hernámstekjum. Það var á þessum árum, sem þjóðin komst svo langt niður efnahagslega, að þessir tveir síðastnefndu tekjuliðir urðu til samans um það bil helmingur á móti tekjum af útflutningsframleiðslunni, eða nánar sagt nærri þriðjungur af öllum gjaldeyristekjunum. Þetta voru þeir tímar, sem voru bezt að skapi hinna vestrænu vina, leiðtoga Atlantshafsbandalagsins og Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Þessar aðstæður voru þeim hagstæðar, en að sama skapi óhagstæðar og niðurlægjandi fyrir okkar þjóð, og þá höfðum við, eins og forstjórinn sagði, 80% af viðskiptum okkar við lönd þessara stofnana. Þegar komið var fram á árið 1953, treysti þáv. stjórn sér blátt áfram ekki til að halda þessum málum áfram á sama hátt. Þess vegna var leitað eftir samningum við vöruskiptalöndin í Austur- og Suðaustur-Evrópu, eins og hæstv. dómsmrh. minntist á áðan, og það sýndi sig strax, að þangað var hægt að selja framleiðslu okkar fyrir ágætt verð, ef við vildum aðeins uppfylla það eina eðlilega skilyrði að verzla við þessi lönd í staðinn. Þessi viðskipti losuðu strax um verstu hnútana, þótt ekki væri byrjað í stórum stíl, og þegar vinstri stjórnin tók við völdum, var Lúðvík Jósefsson ráðherra bæði sjávarútvegsmála og viðskiptamála. Þá voru þessi viðskipti enn aukin, og fyrir hans forgöngu var farið inn á þá braut, sem ýmsar þjóðir, t.d. Norðmenn, höfðu farið á undan okkur, að gera vöruskiptasamninga til margra ára í einu. Þetta viðskiptafyrirkomulag tryggði framleiðsluna betur en nokkru sinni hafði verið gert áður, og auðvitað jafnframt tryggði það betur hagsmuni þjóðarinnar í heild. Hver var svo árangurinn af þessu? Árið 1953, þegar markaðskreppan var komin í algleyming, áður en losað var um viðskiptin austur, nam útflutningsframleiðslan öll 706.3 millj. kr. Í viðbót við þetta kom svo hermangs- og gjafafé á fjórða hundrað millj., sem eins og fyrr er sagt var um það bil þriðjungur af öllum gjaldeyristekjum þjóðarinnar. En hvernig var svo árið 1958, þegar þessi þróun hafði orðið í 4–5 ár? Árið 1958 hafði Alþb. líka verið 2 ár í ríkisstj. og einmitt stjórnað þessum tveimur stóru málaflokkum. Þá voru tekjur af útflutningi 1069 millj. kr. Þær höfðu aukizt síðan 1953 um 363 millj., meir en þriðjung, eða ámóta upphæð og gjafa- og hernámsfé samtals var þau árin, sem það var sem allra mest. Ég bið ykkur, hlustendur, að taka eftir því, að árið 1958 framleiddum við 1 millj. kr. á dag meira en á hverjum degi árið 1953, þar með taldir allir helgidagar ársins. Aftur á móti höfðu tekjur af hermanginu minnkað verulega eða svo, að þær voru ekki orðnar nema milli 2/3 og ¾ af því, sem þær höfðu verið, þegar þær voru mestar. Þannig vorum við þetta ár á góðri leið með að ná efnahagslegu sjálfstæði á þann eina hátt, sem talizt getur eðlilegur, þ.e. að vinna fyrir okkur með heiðarlegum framleiðslustörfum, og það byggðist auðvitað á því, að við höfðum eignazt næga markaði í hinum sósíalistísku vöruskiptalöndum í Austur-Evrópu, og þeirri þróun í viðskiptamálum okkar, að nú fóru ekki nema 40% af útflutningsvörum okkar til landa Efnahagssamvinnustofnunarinnar í staðinn fyrir 80% áður. Hitt vita svo allir, að þessir markaðir eru háðir því, að við kaupum vörur í staðinn, og það er þetta, sem forstjóri Efnahagssamvinnustofnunarinnar var að harma, enda mun fleira hafa komið til, svo að þeim herrum í Reykjavík, París og Washington mun ekki hafa farið að lítast á það, sem hér var að gerast, og nú skal ég benda á það.

Sá atburður gerðist vorið 1958, að við víkkuðum landhelgi okkar út í 12 mílur, þvert á móti hinni hatrömmu baráttu vesturveldanna, en þá baráttu þekkjum við öll. Mun nú ekki hinum vestrænu húsbændum og velgerðarmönnum, sem þóttust raunverulega eiga þessa þjóð, hafa þótt kynlega vera farið að bregða við og hugsað til ársins 1951, þegar það skeði, að klíkufundur þriggja stjórnarflokka, sem kallaði sig Alþingi, hlýddi skipunum að óska eftir bandarískri hersetu hér? Munu þeir ekki hafa látið sér detta í hug, að þær 363 millj., sem við höfum aukið framleiðslu okkar á þeim árum, sem liðin voru síðan, kynnu að hafa gert okkur dálítið öruggari, dálítið sjálfstæðari í hugsun og jafnframt dálítið hortugri í þeirra eigin garð? Svo mikið er víst, að tvær ferðir hefur forstjóri Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu gert sér frá París hingað síðan með stuttu millibili, og það var í hinni síðari, sem hann flutti þetta fræga erindi, sem ég hef verið að vitna hér í.

Og þá ætla ég að víkja að þeim atriðum í erindinu, sem hann kallar hinar eiginlegu viðskiptahorfur Íslendinga í Vestur-Evrópu og gefur síðan ríkisstj. fyrirskipanir. En ekki gat hann bent okkur á neina aukna markaðsmöguleika í þessum ágætu löndum Vestur-Evrópu, sem er nokkuð á að byggja. Hann segir í þess stað hinni íslenzku ríkisstj. fyrir, hvað gera skuli í efnahagsmálum okkar, til þess að allt geti komizt aftur á gamla viðskiptagrundvöllinn frá 1949, og fyrirskipanir forstjórans voru þessar, — ég ætla að lesa þær, með leyfi hæstv. forseta, og ég ætla að biðja ykkur, hlustendur góðir, að athuga vel um leið, hvort þið finnið ekki sjálf skyldleika með þessum till. forstjórans á þessum fundi í hátíðasal háskólans og efnahagsráðstöfunum ríkisstj., — ég skal lesa það lið fyrir lið: „1) Útgjöld til neyzlu verða að aukast hægar en verið hefur.“ Finnur einhver skyldleika með þessu og kjaraskerðingunni? „2) Bæta þarf afkomu ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja.“ Finnur einhver skyldleika með þessari till. og hinum geipilega söluskatti t.d. og öðrum skattaálögum? „3)Beina þarf einkafjárfestingu meira að þeim þáttum, sem þjóðfélaginu eru hagkvæmastir.“ Þetta ákvæði geta kannske flestir samþykkt, en það virðist sízt ætlað til framkvæmda. „4) Takmarka þarf útlán bankanna.“ Þetta er ein af höfuðráðstöfunum ríkisstj. og flokka hennar. „5) Draga þarf úr hinni nánu tengingu milli smásöluverðlags, launa og verðlags landbúnaðarvara.“ Hvað finnið þið, hlustendur, fólgið í þessu annað en það, sem hefur verið gert, afnám vísitölunnar? „6)Lagfæra þarf fjárhagskerfið þannig, að þeir, sem framleiða til útflutnings, þarfnist ekki aðstoðar ríkisins.“ Hvað er fólgið í þessu annað en það að afnema útflutningsbæturnar, eins og nú hefur verið gert. „7) Gera verður innflutninginn frjálsan, að svo miklu leyti sem frekast er unnt.“ Þetta er sjöunda atriðið, og það er búið að semja heil lög á Alþ. sérstaklega til þess að koma þessu í kring.

Þannig eru ráðstafanir þær, sem ríkisstj. og flokkar hennar hafa samþykkt í vetur. Þær eru fyrirskipaðar lið fyrir lið af Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, af forstjóra hennar hér í hátíðasal háskólans í Reykjavík, í sama fyrirlestrinum sem hann var að harma það, að sú þróun hefði gerzt hér á árunum 1953–58, sem hafi aukið útflutningsvörur okkar um 363 millj. eða um þriðjung. Og yfirlýsing viðskmrh. um það, að þessar ráðstafanir geri okkur meira fært en nokkrar aðrar að efna hina 12 ára gömlu skuldbindingu við Efnahagssamvinnustofnunina um frjálsa verzlun, sýnir betur en nokkuð annað, hvernig nú á að þjarma að okkur og reyna að koma okkur í sömu aðstöðu og við vorum þá í. Hún sýnir betur en nokkuð annað, hvernig á nú að ná aftur á okkur tökunum frá 1949, sem voru svo mikið farin að slakna árið 1958, að flestir, sem eitthvað skildu í pólitík okkar og ástæðum, höfðu fulla von um það, að við losnuðum úr þeim að fullu og öllu. En það er ekki aðeins, að þetta sé fyrirskipað. Til þess að létta stjórninni framkvæmdina fyrst í stað er boðið upp á 800 millj. kr. lán, sem þó má ekki fara í framkvæmdir, ekki í uppbyggingu atvinnulífsins, — eingöngu til eyðslu. Auðvitað léttir þessi lántaka fyrir okkur að lifa flott, á meðan verið er að smeygja gömlu böndunum á okkur aftur, og við þessu agni hefur verið ginið. En hvernig haldið þið, að okkur gangi að greiða þetta lán aftur, ef við lendum aftur í þeirri viðskiptaaðstöðu, sem við bjuggum við árin 1949–53, en það er það, sem okkur er ætlað af þessari stofnun? Megi gifta hinnar íslenzku þjóðar verða svo mikil, að takist að afstýra slíku óláni. — Góða nótt.