05.12.1959
Neðri deild: 13. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Jón Skaftason:

Herra forseti. Brtt. sú á þskj. 60, sem þeir hv. 7. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Norðurl, v. eru meðflm. mínir að, gefur ekki tilefni til langrar framsögu.

Með till. er lagt til, að gerðar verði tvær efnisbreytingar á 4. gr. frv. til l. um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga, sem nú er í meðferð þessarar hv. deildar.

Fyrri breyt., sem við flm. leggjum til að gerð verði á 4. gr. frv., er sú, að þeir, sem annast í umboðssölu framleiðsluvörur innlends iðnaðar, greiði einungis söluskatt af umboðsþóknun sinni, en ekki af heildarandvirði vörunnar, eins og gert er nú að óbreyttum lögum. Söluskattur af smásölu, sem var 2%, var felldur niður í ársbyrjun 1956. Samtímis hækkaði söluskattur á umboðssöluvörum úr 3% í 6%, með tilkomu laga um framleiðslusjóð, og frá ársbyrjun 1957 hækkaði skattgjald þetta í 9% með setningu laga um útflutningssjóð o.fl.

Óeðlilegt og ósanngjarnt verður að telja að gera svo mikinn mun í skattalegu tilliti á umboðssölu og smásölu sem nú er gert, og hefur það m.a. leitt til þess, að umboðssöluviðskipti eru mikið til horfin úr viðskiptalífinu og þegar af þeirri ástæðu ekki neinn skattstofn fyrir ríkissjóð að leggja söluskatt á þau.

Við flm. þessarar brtt. leggjum því til, að söluskattur verði framvegis aðeins lagður á umboðsþóknun í umsýsluviðskiptum. Við teljum, að skatttap af þessari breytingu yrði mjög litíð fyrir ríkissjóð, en hins vegar væri með því, að þessi breyt. næði fram að ganga, höggvið á leiðindahnút, sem nú er í viðskiptalífinu og meinar ýmsum, sem þar starfa, að vinna að því á þann hátt, sem þeir telja heppilegastan og eðlilegastan.

Önnur efnisbreyting samkvæmt till. okkar og sú, sem er veigameiri, er það, að við leggjum til, að vinna og efni við íbúðarhúsabyggingar verði undanþegið söluskattskyldu, en samkv. núgildandi reglum er goldið 9% veltugjald af seldri vinnu og efni byggingarmeistara íbúðarhúsa.

Sem kunnugt er, er hinn hái byggingarkostnaður og dýr leiga á íbúðarhúsnæði ein af stærstu orsökum þeirrar verðbólgu, sem tröllriðið hefur húsum hér á Íslandi seinustu árin og áratugina. Byggingarstarfsemin í landinu gerir ekki betur, þegar bezt gegnir, en að fullnægja þörfum á húsnæði vegna þeirrar fjölgunar, sem verður á fólki hér á landi. Mjög seinlega gengur að útrýma heilsuspillandi og lélegu húsnæði. Fjárskortur gerir það að verkum, að þúsundir íbúða eru víða um landið ófullgerðar, og ýmsir, sem sára þörf hafa fyrir húsnæði, sjá sér ekki fært að leggja út í byggingar af völdum fjárskorts.

Lánveitingar til húsnæðisbygginga úr almenna veðlánakerfinu hafa stórlega gengið saman á þessu árí. Þannig mun húsnæðismálastjórn hafa afgreitt lán að fjárhæð rúmar 30 millj. kr. á þessu ári, en árið 1956 námu þessar lánveitingar um 63.6 millj. kr. og á s.l. ári tæpum 49 millj. kr. Þó hefur byggingarkostnaður á þessu tímabili farið hækkandi. Staðreyndin er líka sú, að hreint neyðarástand ríkir í þessum málum víða um land. Hjá húsnæðismálastjórn lágu 1999 umsóknir fyrir um ný lán og viðbótarlán þann 1. des. s.l., og þau lán, sem veitt hafa verið á þessu ári, hafa aðeins numið að meðaltali á milli 40 og 50 þús. kr. á hvert hús eða aðeins um 1/8 hluta af byggingarkostnaði þriggja og fjögurra herbergja íbúða.

Þegar ríkisvaldið er ekki fært um að halda í gangi starfandi veðlánakerfi til íbúðabygginga og lánastofnanir eru auk þess lokaðar að mestu fyrir húsbyggjendum, er það fullkomlega óréttlátt, að hið opinbera skattleggi byggingarkostnað jafnstórkostlega og nú er gert. Því leggjum við til með brtt. okkar, að söluskattur og útflutningssjóðsgjald, sem nú nemur samtals 9% af verðmæti skattskyldrar vinnu og efnis við húsabyggingar, verði fellt niður. Til upplýsinga og samanburðar fyrir hv. dm. vil ég taka fram, að í Noregi, þar sem almennur söluskattur er 10%, eru íbúðarhúsabyggingar, sjúkrahúsabyggingar og skólabyggingar undanþegnar þessu skattgjaldi, og þó njóta um 80% af íbúðabyggjendum í Noregi hagkvæmra lána frá því opinbera, og nema lánsupphæðir almennt um 75% af byggingarkostnaði húsa.

Verður okkar hlutur í þessu sambandi næsta rýr, þegar þetta er borið saman. Þótt brtt. okkar þremenninganna yrði samþ., hefði það ekki í för með sér, að allur söluskattur á byggingarkostnaði íbúðarhúsa félli niður, því að í innflutningi er á allt byggingarefni lagður 7.7% söluskattur, en brtt. okkar nær ekki til þess hluta söluskattsins. Verði gengið fellt á næstunni, eins og leiða má af ýmsum ummælum hv. stjórnarliða, mundi það að sjálfsögðu þýða stóraukningu á þessum söluskatti, sem tekinn er af innfluttu byggingarefni, og þeim mun frekar er þá ástæða til þess að feila þann söluskatt niður, sem við leggjum til að gert verði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um brtt. á þskj. 60, og um aðaldagskrármálið hefur svo mikið verið rætt á undanförnum dögum, að ég tel ástæðulaust að fara um það fleiri orðum. Ég vil þó ekki láta undir höfuð leggjast að skýra frá því áliti mínu, að ég tel allsendis óeðlilegt og raunar til vansæmdar hv. Alþingi að samþ. það umræðulaust, að framlengingarheimild sú, sem ríkisstj. fer fram á að hún fái, nái til alls ársins 1960. Hæstv. fjmrh. og fleiri af talsmönnum stjórnarinnar hafa í umr. á undanförnum dögum lýst því yfir, að til standi að breyta öllu efnahagskerfi landsins. Menn skilja þetta á þann veg, að í ráði sé að fella gengið stórlega. Í sambandi við svo mikla breytingu á efnahagskerfi landsins væri alveg óviðeigandi, að allt tolla- og skattakerfi landsmanna, sem miðað er við það gengi, sem við höfum nú, væri ekki jafnframt tekið til endurskoðunar. Ég tei því algerlega óverjandi fyrir hv. Alþingi að gefa ríkisstj. heimild til þess að innheimta eftir þeirri tekjulöggjöf, sem hún fer fram á að framlengd verði til heils árs, — ég tel það óviðeigandi, að þingið samþykki, að hún gildi lengur en til endaðs febrúar, eins og gert er ráð fyrir að gildi um bráðabirgðagreiðsluheimild úr ríkissjóði fyrir næsta ár, sem ríkisstj. hefur líka farið fram á og búið er að samþ. af hv. Alþ. Alþingi hefur sem stofnun að sjálfsögðu ríka skyldu til þess að fylgjast með skattlagningu og skattheimtu ríkisstjórna á þjóðina, og ég tel, að Alþingi væri að afsala sér eðlilegu valdi með því að samþykkja það, að ríkisstj. skuli hafa heimild til að innheimta alla þessa tekjustofna með því álagi, sem gert er ráð fyrir í bandormsfrv. svokallaða, — ég tel það óeðlilegt, að Alþingi gefi ríkisstj. heimild til þess, ef út í stórfellda gengislækkun verður farið.

Ég vil ekki verða til þess að lengja þær umræður, sem hér hafa orðið um þau mál, sem tekin hafa verið fyrir fram að þessu, frá því að þing var sett, því að bæði er, að þar mundi verða um miklar endurtekningar að ræða, og svo hitt, að mér skilst, að það liggi fyrir einhvers konar samkomulag um það, að þingi skuli nú fara að fresta. Ég vil þó leyfa mér að lokum að undirstrika, að það að senda nýkjörið Alþingi, sem kosið er samkv. nýrri stjórnarskrá, heim eftir nokkurra daga setu, er í sjálfu sér hin freklegasta móðgun, því að að sjálfsögðu er Alþingi og þm. ætlað að starfa að úrlausn vandasamra mála, eins og efnahagsmálin eru núna, — Alþ. er ætlað að starfa að þeim alveg eins og ríkisstjórnum, og þm. stjórnarandstöðuflokkanna eiga að sjálfsögðu kröfu til þess að geta krufið málin til mergjar og fengið eðlilegan tíma til þess að koma fram með sínar tillögur. En með því að reka þingið heim er komið í veg fyrir, að þm. stjórnarandstöðunnar a.m.k. og jafnvel þm. stjórnarliðsins, sem sitja ekki í ráðherrastólum, geti uppfyllt það skyldustarf, sem þeim ber að rækja hér á hv. Alþingi.