31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3417 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Stjórnarandstaðan, Framsfl. og Alþb., en á milli þeirra gengur nú ekki hnífurinn lengur, hefur nú í tvö kvöld haldið uppi ádeilum miklum á ríkisstj. fyrir störf hennar þetta missiri, sem hún hefur setið. Ef dæma ætti ríkisstj. eftir þessum orðræðum, væri hún vissulega ekki upp á marga fiska. Viðleitni hennar til að leysa aðkallandi vandamál hefði nánast sagt verkað öfugt við það, sem til var ætlazt, og ástandið í landinu á öllum sviðum svo bágborið, að það hefði aldrei verra verið. Það er áreiðanlega langt síðan jafniðulaus moldviðrisstórhríð hefur gengið yfir útvarpshlustendur og nú hefur gert í þessum umr. í gærkvöld, ef það þá hefur nokkurn tíma komið fyrir áður, og ræða hv. síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Austf. (EystJ), var mjög í sama tón. Mál voru af stjórnarandstöðunni afflutt svo rækilega, einstök atriði slitin út úr samhengi, hálfur sannleikur sagður og allt yfirdrifið, sem málflytjandinn taldi sér koma vel, að ég minnist varla að hafa verið með í slíku áður. Svo var a.m.k. í gærkvöld og einnig nú hjá hv. síðasta ræðumanni, hávaðinn og æsingurinn svo mikill, að maður gæti haldið, að heimurinn væri að forganga.

Vegna þess að meginefni þau, sem um er rætt, hafa verið flutt og skýrð rækilega svo og nauðsyn þess, að ríkisstj. hefur ráðizt í þær aðgerðir, sem hún hefur gert, skal ég ekki fara út í þá sálma mikið, heldur minnast á nokkur atriði, sem komið hafa fram í umr. og ég tel þurfa aths. við.

Hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, fór fyrir í þessari orrahríð, eins og vera bar. Hans þáttur í pólitískri framvindu síðustu ára er slíkur, að það var ekki óviðeigandi, að hann gerði þetta. Hann stjórnaði för íslenzku þjóðarinnar fram á hengiflugsbrúnina 1958, hljóp síðan frá henni og úr stjórninni, gafst upp og skildi þjóðina eftir í umkomuleysi. Því neitar enginn sanngjarn maður, að efnahagsmál þjóðarinnar voru komin í mikið óefni og þjóðinni var mikill vandi á höndum um það leyti, sem vinstri stjórnin svokallaða gafst upp í árslok 1958. Þá blasti það við, að vísitala framfærslukostnaðar mundi á einu ári hækka um 50–60 stig til viðbótar við þau 34 stig, sem hún hafði hækkað um á árinu 1958, og allt efnahagslíf í landinu komast úr skorðum, ef ekki væri að gert.

Alþfl. leitaði þá eftir því við Framsfl., að tilraun yrði gerð á Alþingi til að finna lausn á þessum vanda. En þessum tilmælum Alþfl. var ekki sinnt, og Hermann Jónasson baðst lausnar fyrir stjórnina án þess að gera nokkra tilraun til að leysa vandann. Það fer ekki hjá því, að sú hugsun hvarfli að manni, að hann og flokkur hans hafi þá kosið að koma sér hjá því að ráðast að þeim erfiðleikum, sem þessu voru samfara. Það var miklu auðveldara að standa fyrir utan og horfa á, gagnrýna allar aðgerðir og gera þær tortryggilegar í augum fólksins, þar sem vitað var, að það var ekki hægt að lækna meinið sársaukalaust.

Nú kemur Hermann Jónasson, hv. 2. þm. Vestf., og telur sig þess umkominn að deila á Alþfl. fyrir það, að hann tók að sér það, sem Hermann Jónasson gafst upp við að gera sjálfur. Hann sagði, að Alþfl. hefði svikið öll sin kosningaloforð. Hann hefði lofað að beita sér fyrir stöðvun dýrtíðarinnar, en nú stæði hann að hinni mestu vöruverðshækkun og skerðingu lífskjara, sem átt hefði sér stað í áratugi. Og hvað er hæft í þessu? Alþfl. tók við stjórn sem minnihlutaflokkur, þegar Hermann Jónasson gafst upp og hljóp frá þjóð sinni á hengiflugsbrúninni á örlagastundu. Alþfl. lýsti því þá þegar yfir, að stefna stjórnar hans væri fyrst og fremst að halda verðlagi og kaupgjaldi í horfinu, þangað til mynduð hefði verið meirihlutastjórn með þingræðislegan meiri hluta að baki, sem gæti ráðizt að vandanum sjálfum. Því var margyfirlýst af Alþfl. fyrir kosningar, að hann teldi vanda framtíðarinnar óleystan, þó að tækist að halda í horfinu með verðlag og kaupgjald þangað til, og það tókst, því að verðlag hækkaði ekki um eitt einasta stig, frá því að gengið var frá lögunum um niðurfærslu verðlags og kaupgjalds í ársbyrjun 1959 og þangað til efnahagslögin nú voru afgreidd. En hvað það þýddi að halda verðlagi niðri þennan tíma, sést bezt á því, að það hefur verið reiknað út og sýnt fram á það með fullum rökum, að ef ekki hefði á þessu tímabili verið spyrnt við fótum, hefði gengisfellingin nú þurft að vera helmingi meiri í krónum talið, miðað við dollar, heldur en hún varð eða 44 kr. í staðinn fyrir 22, upp í 60 kr. Það er því með öllu rangt og útúrsnúningur af verstu tegund, þegar Hermann Jónasson sagði, að Alþfl. hefði brugðizt þeim loforðum, sem hann gaf fyrir kosningarnar.

Sami hv. þm. minntist á útflutningssjóð og sagði, að því hefði verið haldið fram, þegar efnahagsráðstafanirnar voru gerðar, og fært fram sem rök fyrir þeim, að sjóðinn vantaði hundruð milljóna króna, en nú hefði komið í ljós, að sú upphæð væri miklu lægri, svo að ekki hefði þurft hans vegna að grípa til eins róttækra ráðstafana og gert var. Hinu sama var hv. síðasti ræðumaður einnig að tæpa á. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að þegar lögin um efnahagsmál voru sett, var talið, að útflutningssjóð vantaði 270 millj. kr. Það hefur nú komið í ljós við nánari athugun, að þessi upphæð var ekki minni, heldur meiri, eða 293 millj., þegar með er talin uppbót sú til togaranna, sem greidd var fyrir árið 1959 og var að vísu ekki til komin, þegar efnahagsfrv. var samið, þannig að þessi fullyrðing hv. þm. fær ekki heldur staðizt.

Því má svo bæta við, að hefði gengisbreytingin ekki verið gerð, hefði þurft hundruð milljóna kr. til að bæta upp birgðir þær, sem til voru í landinu, þegar gengisbreytingin var gerð. „Neyðarástandið var hvergi til,“ sagði hv. þm. „Halli útflutningssjóðs var skröksaga, skuldirnar við útlönd yfirskinsástæða,“ bætti hv. þm. við. Þetta er að berja höfðinu við steininn og neita staðreyndum, sem allar rökræður eru þýðingarlausar um. En á það má benda, að þetta er þó ekki meiri skröksaga en það, að hún nægði til þess, að hv. þm. sagði af sér fyrir sjálfan sig og stjórn sína í árslok 1958.

Hv. 4. þm. Reykn., Jón Skaftason, sagði, að íbúðabyggingar ætti að skera niður. Heldur er nú þetta trúlegt, þegar öll fjárfesting í landinu hefur verið gefin frjáls og gerðar hafa verið ráðstafanir til að auka lánamöguleika húsnæðismálastjórnar um helming, þó að hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, hefði sig upp í það að segja kalt og rólega, að engin hækkun lána hefði átt sér stað.

En hv. 3. þm. Vesturl., Halldór E. Sigurðsson, var sá eini af ræðumönnunum í gærkvöld, sem lagðist svo lágt að reyna að gera lítið úr hinum stórfelldu endurbótum á almannatryggingalögunum, sem gerðar hafa verið nú. Hann sagði, að fjölskyldubætur á fyrsta barn væru ekkert annað en sönnun þess, að svo væri nú komið okkar efnahags- og launamálum, að fjölskylda með eitt barn gæti ekki lifað styrkja- eða aðstoðarlaust. Honum vildi ég benda á, að þar sem tryggingamálum er komið hvað lengst í veröldinni og í sem fullkomnast horf, eins og t.d. í Svíþjóð, þar sem launakjör almennings líka eru talin hvað bezt í heiminum, þar hefur það ekki þótt bera vott um lélega efnahagsafkomu eða lág laun að greiða fjölskyldubætur með fyrsta barni, heldur sjálfsögð félagsleg aðgerð til þess að taka þátt í uppeldiskostnaði barnsins eða barnanna. Sami hv. þm. vildi líka læða því inn hjá hlustendum, að þeir, sem ættu mörg börn, yrðu harðar úti en hinir, sem ættu eitt eða tvö. Þetta er hið argasta öfugmæli. Þeir fá sömu hækkun og aðrir á fyrsta og annað barn og nokkra hækkun líka á hin eða jafnar fjölskyldubætur á öll börnin.

Karl Guðjónsson, hv. 6. þm. Sunnl., sem annars var einna hógværastur ræðumanna stjórnarandstöðunnar í gærkvöld, æsti sig þó upp í það að reyna að telja hlustendum trú um, að útgjaldaaukning meðalfjölskyldu vegna efnahagsaðgerðanna mundi verða um 30 þús. kr, á ári. Sjá allir, hversu fráleitt þetta er, þegar hækkunin nemur aðeins 4–5 vísitölustigum. En hann sagði líka annað, sem er eftirtektarvert. Hann sagði, að Sjálfstfl. hefði í samstarfi sínu við Alþfl. brugðið öllum sínum venjum að sjá hag sinna manna í útgerðarstétt borgið, þannig að þeir væru nú lentir í síhækkandi skuldaflækjum. Sýnir þetta, að hann telur gengislækkunina ekki hafa verið nógu mikla. Og það sanna er, að þetta er að vissu leyti rétt. Það var ekki farið lengra í lækkun gengisins en minnst var talið hugsanlegt að komast af með.

Umræðurnar í kvöld hafa mjög fallið í sama farveg og í gærkvöld og þurfa því ekki sérstakra aths. við, en eitt má ég þó til með að nefna.

Hv. 4. þm. Austf., Ásmundur Sigurðsson, sagði eftirfarandi, — ég held, að ég hafi náð því orðrétt: „Hjá Rússum og þeirra fylgifiskum á Genfarráðstefnunni var allt okkar traust.“ Hvað þýðir þetta? Þessi fylking hafði engan möguleika til að ná tilskildum meiri hluta á ráðstefnunni fyrir sínum tillögum. Að hnýta sér aftan í hana þýddi því, að engar till. okkar og hennar hefðu nokkra möguleika til að komast fram. En samkvæmt skoðun hv. 4. þm. Austf. bar heldur að fylgja þessum hópi en að freista samstarfs við þann hópinn, sem hafði möguleika til að koma fram sínum till. Og afstaða Lúðvíks Jósefssonar, sem nefnd var í þessu sambandi, var sú, að hann krafðist þess, að ef till. íslenzku n. yrði samþ. um tafarlaus og skilyrðislaus og óskert réttindi til 12 mílna fiskveiðilandhelgi fyrir Íslendinga, þá skyldum við samt vera á móti aðaltillögunni, til þess eins að gera ekki ágreining við rússnesku blokkina. Rússnesku hagsmunirnir skyldu ganga fyrir hagsmunum Íslands.

Hv. síðasti ræðumaður, Eysteinn Jónsson, 1. þm. Austf., var í ræðu sinni hér áðan að reyna að fetta fingur út í það, sem hv. þm. Birgir Finnsson sagði hér í gær um þetta mál. En hann gat með því móti sannað það eitt, að Hermann Jónasson fylgdi á ráðstefnunni nákvæmlega sömu línunni og Lúðvík Jósefsson og var þar aftan í honum.

Því hefur verið haldið fram alveg feimnislaust, að aðgerðirnar til stöðvunar á verðlagi og kaupgjaldi í ársbyrjun 1959 hefðu þýtt 13% skerðingu á kaupi launamanna, þó að nú hafi komið í ljós í skýrslu, sem sjálfur Einar Olgeirsson, hv. 3. þm. Reykv., hefur lagt fram hér á Alþingi, að kaupmáttur tímakaups verkamanna hafi aldrei meiri verið s.l. tíu ár en hann var 1959. Nákvæmlega sama sagan er að endurtaka sig núna. Afleiðingar efnahagsaðgerðanna eru rangtúlkaðar og affluttar, enda þótt ekkert hafi komið fram um það, að hækkun framfærslukostnaðar vegna gengisbreytingarinnar, þegar tekið er tillit til þeirra hliðarráðstafana, sem gerðar hafa verið um leið, bæði á sviði tryggingalöggjafar og með auknum niðurgreiðslum, fari nokkurn skapaðan hlut fram úr þeim 4–5 vísitölustigum, sem gert var ráð fyrir í upphafi, — og hvað er það, samanborið við hin ósköpin, sem hefðu komið, ef ekkert hefði verið að gert, og þegar líkur eru líka til, að þetta þurfi ekki að standa nema stutta stund?

Hér ber allt að sama brunni. Tilhneigingin til að gera pólitískan andstæðing tortryggilegan í augum fólksins ræður athöfnum stjórnarandstöðunnar, en ekki viðleitnin til að leysa aðkallandi vanda, enda hefur ekki bólað á tillögum í þá átt frá þeirri hlið, því að allt tal þeirra um stöðvunarstefnu og dreifbýlisstefnu og framkvæmdastefnu er svo óljóst, að það skilur enginn maður og ekki einu sinni þeir sjálfir. Ekkert nema neikvæð gagnrýni hefur komið frá þessu fólki og ekkert, sem felur í sér neina pósitíva lausn.

Alþfl. hefur verið legið stundum á hálsi fyrir það að hafa samstarf við Sjálfstfl. um þessar aðgerðir, þar sem stefnumið þessara flokka séu svo ólík, að litlar líkur séu til, að nokkurt raunverulegt samstarf geti með þeim tekizt. Þessu er því til að svara fyrst, að hér hafa nú um langan tíma verið samstjórnir af ýmsu tagi, þar sem allir flokkar hafa unnið með öllum, og sjálfsagt er ekki mikill munur á því samstarfi fyrr og nú. En hitt sker þó úr, að báðir núverandi stjórnarandstöðuflokkar hlupu úr samstarfi við Alþfl. haustið 1958, án þess að nokkurt samkomulag gæti tekizt um lausn þeirra aðkallandi verkefna, sem fyrir lágu þá og ekki mátti dragast að snúa sér að því að leysa. Samstarfið við Sjálfstfl. um lausn þessara verkefna hefur verið gott og snurðulaust, enn sem komið er a.m.k., enda á þessum málum tekið af fullu raunsæi, en það voru hinir ófáanlegir til að gera. Þess má líka geta, að fullt samkomulag varð um endurbætur á tryggingalögunum, sem eru stærri og veigameiri en nokkrar aðrar breyt., sem á þeim lögum hafa nokkurn tíma verið gerðar. Það má líka nefna breyt. á tekjuskattslögunum í þá átt að undanþiggja venjulega launþega gersamlega tekjuskatti og lækka til muna skattinn á millistéttarfólki og öðrum launþegum, sem orðið hafa áður hart úti við álagningu þessa skatts og hann komið ranglátlega niður á vegna rangra framtala ýmissa þeirra, sem því hafa getað komið við. Á það eftir að sýna sig, þegar þessi skattur verður nú lagður á í ár í fyrsta sinn eftir hinum nýju reglum, hversu miklu þetta munar margan manninn.

Yfirleitt má segja, að þetta þing, sem nú er að ljúka störfum hafi verið afhafnasamara og afkastameira en flest önnur. Það hefur með ábyrgðartilfinningu og festu snúið sér að lausn aðkallandi mála og leyst þau.

Hinu verður svo þjóðin sjálf að skera úr, hvort hún vill una þessum úrlausnum eða ekki. En fyrir mitt leyti er ég ekki í vafa um, að þær úrlausnir mála, sem fengizt hafa nú, eru þær líklegustu til að tryggja í framtíðinni góða efnahagsafkomu íslenzku þjóðarinnar og þær af hugsanlegum lausnum eða möguleikum, sem fyrir hendi voru, sem þó koma minnst við hinn almenna þjóðfélagsþegn. Veltur því óendanlega mikið á, að þessum aðgerðum verði eirt og að tækifæri gefist til þess, að þær fái að sýna sig í raun og heild.

Ég spyr að lokum: Er líklegt, að manninum, sem leiddi íslenzka þjóð fram á hengiflugsbrúnina 1958 og hljóp þar frá henni, hefði tekizt betur? Og ég spyr aftur: Er líklegt, að Alþfl. hefði tekizt að ná betri lausn í samstarfi við hann, sem tvísvar hefur rofið stjórnarsamstarf við Alþfl. með setningu gerðardómslaga til lausnar aðkallandi vanda í efnahagsmálum? Ég segi nei og aftur nei. Sá flokkur og sá maður hefur jafnan reynzt stefnulaus og tækifærissinnaður í flestum málum, sem snerta íslenzka alþýðu. — Góða nótt.