31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3422 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

Almennar stjórnmálaumræður

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þeir mættu vera meira en lítið vondir menn, hæstv. ráðh. og við alþm., sem styðjum þá, ef þó ekki væri nema lítill hluti af þeim ávirðingum og ódrengskap, sem stjórnarandstæðingar hafa tileinkað okkur í þessum útvarpsumræðum, væri sannur og réttur, og værum við ekki þessi varmenni, þá værum við a.m.k. svo heimskir, þeir blessaðir bjánar, að sá kosturinn væri ekki heldur góður. Það eina, sem við höfum ekki verið ásakaðir fyrir, er úrræðaleysi. Þvert á móti höfum við verið ásakaðir fyrir að láta okkur svo að segja ekki yfirsjást nokkurt ráð eða úrræði, sem tiltækilegt væri til þess, eins og þeir hafa orðað það, að skipuleggja fátæktina í landinu, að gera þá fátæku fátækari og ríku ríkari, að grafa undan framleiðslustarfseminni, uppbyggingunni í þjóðfélaginu, að skera á afltaugar hins almenna framtaks, að stöðva uppbyggingu almennings, að gera okkur leik að því að eyðileggja sölur á fiskframleiðslu okkar erlendis, af því að við viljum ekki verzla við svokölluð kommúnistaríki. Og svona mætti lengi telja.

Þessi framtakssemi okkar er svo til frekari áherzlu talin sprottin af einhverju ólýsanlegu hatri eða ofsóknaræði og þá aðallega gegn hverjum? Þið heyrðuð, hvað Eysteinn Jónsson sagði áðan: Jú, samvinnumönnum, samvinnufólkinu í landinu, eins og framsóknarmennirnir orða það svo sakleysislega. Formaður þingflokks þeirra framsóknarmanna, Eysteinn Jónsson, komst svo smekklega að orði hér fyrir nokkrum dögum í þinginu um þetta, að hann sagði, að við vildum stinga úr okkur sjálfum augað, ef við í leiðinni gætum klórað augað úr svo sem einum samvinnumanni, eða eitthvað því um líkt.

Kommúnistar allra landa fyrr og síðar hafa kunnað þessa iðju, að taka hatrið og öfundina, lægstu hvatirnar, í þjónustu sína í pólitískum áróðri. Kommúnisminn hlaut þessa verðleika í vöggugjöf. En því hafa menn vissulega tekið eftir í þessum umr., að kommúnistarnir eru ekki að þessu sinni forríðarar í þessari iðju. Framsóknarmennirnir eru komnir langt á undan þeim, svo að leiti ber á milli. Og hafa menn tekið eftir því, hve ræður framsóknarþingmannanna hafa verið miklar endursagnir hér hver af annarri? Í gærkvöld t.d. voru ræður Hermanns Jónassonar og Jóns Skaftasonar aðeins svolítið misjafnlega langar. Halldór E. Sigurðsson skaut inn svolitlum aukaþætti um fjármálin, annars var ræðan alveg sú sama. Þetta eru illa haldnir menn, en þeir eiga bata fram undan. Þeir munu halda augum sínum heilum, þótt þeim missýnist í bili.

Það var misskilningur hjá Eysteini Jónssyni áðan, að 30 ára tímabilið frá 1930 til 1960 mundi verða kennt við Framsfl. vegna framfaranna á þessu tímabili. Það er mesti misskilningur. En það verður kennt við Framsfl. vegna þess ranglætis í kjördæmaskipuninni og kosningalöggjöfinni, sem ríkti á þessu tímabili og gaf Framsfl. ólýðræðislega valdaaðstöðu, miklu meiri völd á öllum þessum tíma en honum nokkru sinni bar, og þess vegna gleðjast menn yfir því, að þessu tímabili er að þessu leyti lokið.

Ég þarf ekki að svara fyrir dómsmrh. í landhelgismálinu, en það þótti mér eftirtektarvert hjá Ásmundi Sigurðssyni hér áðan, þegar hann vék að því, að Íslendingar hefðu haldið skoðun sinni í Genf og ekki tekið aftur till. Íslands, þótt ekki næðist samkomulag við stórveldin. Með þessu taldi hann, að Íslendingarnir hefðu skapað sér takmarkaðan ávinning í augum hinna reyndu stjórnmálamanna heimsins. Þarna er kommúnistunum rétt lýst. Þeir eru svo þaulvanir að dansa á línunni, að það hvarflar ekki að þeim að halda sinni eigin skoðun. En langflestir Íslendingar kunna miklu betur við síðari kostinn.

Þeir vinirnir Hermann og Hannibal gerðu mér þann heiður að vitna til ummæla minna í þingræðu þann 5. maí, og reyndar hafa fleiri gert það og blöð stjórnarandstæðinga gert sér nokkuð tíðrætt um það. Hermann Jónasson orðaði þetta þann veg í gærkvöld, að við sjálfstæðismenn værum nú svo ánægðir með Alþfl., að ég hefði sagt í nefndri ræðu, að ég vildi heldur meiri hl. á Alþingi með Alþfl. en hreinan meiri hl. sjálfstæðismanna. Ég veit, að Hermann hefur skilið betur en hann skýrir frá, en mér þykir vænt um að mega árétta það, sem ég sagði, með því að lesa upp örstuttan kafla úr þessari ræðu, með leyfi hæstv. forseta, en ég sagði þá eftirfarandi:

„Mig langar í þessu sambandi að víkja nokkuð að breyttum viðhorfum, sem orðið hafa og ég tel mjög veigamikil fyrir stjórnmálaþróunina hér á landi. Það, sem ég á við, er þetta: Jafnvel þótt Sjálfstfl, hefði hlotið hreinan meiri hl. í kosningunum 1956, mundi hann hafa verið í veikari aðstöðu til að framkvæma þá stefnu, sem nú er unnið að. Þetta er auðskiljanlegt. Þá hafði lengi verið talað um svokallað vinstra samstarf, og í hugskoti margra var það e.t.v. það, sem gat leyst vandann. Nú höfum við reynsluna af vinstra samstarfinu, reynslutíma vinstri stjórnarinnar frá 1956, þar til hún gafst upp í árslok 1958. Nú þekkir þjóðin máttleysi og úrræðaleysi þessa svokallaða vinstra samstarfs. Það er þar með úr sögunni. Á hinn bóginn gat Sjálfstfl. ekki 1956, eftir að Alþfl. þá hafði myndað hið svokallaða Hræðslubandalag með Framsfl., vænzt samstöðu annarra flokka um framkvæmd þeirra meginmála, sem hann hefði viljað stefna að eftir kosningarnar. Síðan hafa viðhorf manna breytzt, vafalaust fyrir áhrif úr hinum vestræna stjórnmálaheimi og vegna okkar eigin reynslu. Atvikin hafa hagað því svo, að nú eru tveir stjórnmálaflokkar, Alþfl. og Sjálfstfl., sammála um stjórnarstefnu og stjórnarframkvæmd, sem þeir ekki hefðu orðið sammála um fyrir 3–4 árum, og þessi stjórnarstefna er nú studd svo að segja af öllum sérfræðingum og hagfræðingum í hinum vestræna lýðræðisheimi. Þetta er mikill munur frá því, sem var fyrir 10–12 árum, þegar flestir hagfræðingar og efnahagssérfræðingar voru meira og minna sósíalistískir, boðendur áætlunarbúskapar og þjóðnýtingar, en eru nú meira og minna horfnir af þessari leið og að gagnstæðri stefnu. Þetta eru mikilvæg undirstöðuatriði, er lúta að því, að framkvæmd stjórnarstefnunnar nú sé sterkari en áður og líklegri til að lánast.“

Hér lýkur þessari tilvitnun. Hér þarf engra skýringa við. Þetta er svo einfalt mál.

Ég man t.d. vel eftir andstöðu Alþfl.-manna gegn gengisbreytingunni 1950. Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sagði í ræðu sinni í gærkvöld, að sú gengisbreyting hefði átt að eiga sér stað fjórum árum fyrr. Ég tel þetta mikilvæga yfirlýsingu, þó að hún sé gefin að tíu árum liðnum, — og kannske einmitt vegna þess, því að á þeim áratug hefur skapazt yfirsýn yfir liðna tímann og að því leyti öruggara, að rétt séu metnar umdeildar aðgerðir, en meðan menn stóðu í hita dagsins. En ég sakna framsóknarmannanna úr samfylgdinni með okkur nú eins og 1950, þegar þeir slógust í förina til viðreisnar í efnahagsmálum með gengisbreytingunni þá, til þeirrar viðreisnar, sem tryggði stöðugt verðlag í landinu, þannig að vísitala framfærslukostnaðar hélzt óbreytt frá árslokum 1952 og þar til eftir áhrif verkfallsins mikla vorið 1955, þegar kommúnistum tókst með liðveizlu Hannibals — og sumir segja ekki að óvild Hermanns Jónassonar — að hleypa verðbólguskriðunni af stað að nýju, — til þeirrar viðreisnar, sem tryggði vaxandi trú almennings á gildi krónunnar, svo að sparifjáreign landsmanna tvöfaldaðist á fjórum árum, og var þar með lagður fjárhagslegur grundvöllur m.a. að framkvæmd tíu ára áætlunarinnar um rafvæðingu landsins og stofnun hins almenna veðlánakerfis til hinna miklu og mikilvægu íbúðabygginga landsmanna, — í fæstum orðum sagt til þeirrar viðreisnar, sem nú eftir á er lýst sem einu mesta blóma- og framfaraskeiði þjóðarinnar.

Hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, var fyrir nokkrum dögum hér í þinginu að lýsa með ferlegum hætti þeirri eyðileggingu, sem við blasti af völdum núverandi stjórnarstefnu, einkum og sér í lagi ef við öðluðumst meira verzlunarfrelsi. Þetta var ein af mörgum löngum ræðum á þessu þingi um sama efni. Fyrir utan þingsalinn hitti ég gamlan kunningja, að vísu einlægan kommúnista: Já, það versta er, sagði hann mæðulega, að þetta á allt saman eftir að rætast, sem Einar segir, allt eftir að koma fram.

Fyrir tíu árum höfðu sjálfstæðismenn forustu um að kippa í liðinn efnahagskerfi þjóðarinnar, sem þá var gengið úr skorðum, með því að viðurkenna eins og nú gengisfall krónunnar, sem orðið var, og skrá rétt gengi. Þá var líka tekið vasklega til orða af andstæðingum. Hrakspárnar létu ekki á sér standa. Hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, segir m.a. um þetta í nál. um gengisskráningarfrv. 1950: „Árás á lífskjör alþýðu er augsýnilega aðaltilgangur frv. — Það stöðvar vélþróun landbúnaðarins, bindur enda á þá atvinnubyltingu, sem hófst 1945 (það er nýsköpunin eftir stríðið). — Stærsta spor, sem enn hefur verið stigið á landinu til þess að auka dýrtíðina og gera hana óbærilega fyrir alþýðu.“ Og í lokin þetta: „Með þessu frv., ef að lögum verður, er verið að kalla fátæktina aftur yfir Ísland, eins sára og hún áður var, og verið er að gera amerískum auðdrottnum handhægt að nota þá fátækt til að auðga sig, en ræna Ísland gæðum þess og oss Íslendinga arði vinnunnar og yfirráðum lands vors.“

Svona voru nú spádómarnir við gengisfellinguna 1950. En hvað hefur rætzt af þessu? Það þekkir allur almenningur.

Sömu hrakspárnar heyrði maður í kvöld hjá Páli Þorsteinssyni. Hann var að telja upp verðbreytingar á landbúnaðarvörum. Það kom fram hjá öðrum, að heldur meiri mundu verðbreytingarnar hafa verið við gengisfellingu vinstri stjórnarinnar, sem var í sumum tilfellum meiri en nú. Hún er talin vera þá um 30%, en núna 20–34%, og 1950 var hún 42.6%, en samt sem áður er eftir þann tíma sú mesta vélvæðing, sem nokkurn tíma hefur þekkzt í íslenzkum landbúnaði. Það er líka svo komið nú, að þessir sömu menn keppast við það að halda því fram, að stjórnarstefnan að þessu sinni sé verst vegna þess, að hún kippi stoðum undan einu mesta framfaraskeiði þjóðarinnar, sem orðið hafi einmitt á þeim árum, sem þeir áður sögðu að hin sára fátækt mundi halda innreið sina á, þ.e.a.s. síðastliðnum áratug, á vordögum þjóðlífsins og gróandans, eins og Karl Kristjánsson komst svo skáldlega að orði hér áðan. En það var einmitt á þessum vordögum þjóðlífsins og gróandans í þjóðlífinu, sem Karl var að tala um, sem Hermann Jónasson sagði, í kosningunum 1956, að Sjálfstfl. hefði haft alla tíð lykilaðstöðuna í þjóðfélaginu.

Framsóknarmenn telja höfuðsynd hjá Seðlabankanum að binda helming innlánsaukningar, sem verða kann í bönkum og sparisjóðum. Þetta kalla þeir að loka féð inni í Reykjavík, svipta atvinnuvegi úti á landi afnotum þess. Þessi öryggisráðstöfun er til þess ætluð fyrst og fremst að styrkja aðstöðu Seðlabankans til þess að sinna því hlutverki að tryggja framleiðslustarfseminni um allt land nægjanlegt rekstrarfé, bæði í afurðalánum til útvegs og landbúnaðar og í öðru formi með lánum til þeirra peningastofnana annarra, sem sjá eiga atvinnuvegunum fyrir rekstrarfé, og hefur Seðlabankinn þegar lánað allverulegt fé í þessu skyni til þess að gera upp erfiða vertíð nú t.d. í Vestmannaeyjum og á öðrum stöðum, þar sem nokkuð hefur hallað undan.

Maðurinn, sem skildi við þjóðarskútuna í árslok 1958, sagði í gærkvöld, að allar ráðstafanir núv. ríkisstj. miðuðust við að rýra kjör almennings og rifa niður umbætur síðustu ára. Nú gerist Hermann Jónasson gleyminn. Vinstri stjórnin gafst upp 5. des. 1958. Síðan hefur það verið erfiðasta viðfangsefnið að forða frá því hruni, sem við blasti. Hermann Jónasson tilkynnti lausnarbeiðni sína hér í þingsölunum með hinni eftirminnilegu yfirlýsingu, sem margir hafa vitnað í: „Ný verðbólgualda er skollin yfir.“ Og við þetta hafði hann aðeins einu að bæta, eins og hann sagði sjálfur: „að í ríkisstj. er ekki samstaða um nein úrræði í þessum málum, sem að mínu áliti geti stöðvað hina háskalegu verðbólgu.“ Þessi háskalega verðbólguþróun var að dómi Hermanns vinstri stjórninni algerlega óviðráðanleg.

Karl Kristjánsson sagði hér áðan, að vinstri stjórnin hefði verið góð, já, fjarska góð, en komst einhvern veginn þannig að orði, að almenningur hefði ekki skilið sinn vitjunartíma. Þegar engin úrræði eru í vinstri stjórninni sjálfri, ekki samstaða um nokkur úrræði, þá er það vegna þess, að almenningur skilur ekki sinn vitjunartíma, ef nokkur meining er í þessu hjá þessum hv. þm.

Þó að þannig hafi verið lýst yfir af Hermanni Jónassyni, að hann hafi litið á, að verðbólguþróunin væri vinstri stj. algerlega óviðráðanleg, þá er nú komið allt annað hljóð í strokkinn. Það verður lítt skiljanlegt, þegar hlustað er á ræður framsóknarmanna nú, af hverju þeir héldu ekki áfram að stjórna landinu. Eysteinn Jónsson sagði hér áðan: Það þurfti ekki að gera nema bara smávægilegar ráðstafanir. — Því voru ekki þessar smávægilegu ráðstafanir gerðar? Skuldafenið, sem þeir steyptu þjóðinni út í vegna úrræðaleysis í efnahagsmálum og stöðugs greiðsluhalla við útlönd, er nú á máli þeirra eins konar smáræði, sem ekki sé orð á gerandi.

Um lántökur vinstri stj. mætti margt segja og alvarlegt. Ég nefni aðeins þetta nú: Þegar ráðunautur vinstri stj. og alþýðusamtakanna,

Torfi Ásgeirsson hagfræðingur, gefur stj. og Alþýðusambandsþinginu haustið 1958 skýrslur um ástandið, segir hann m.a. um lántökurnar: „Sé horft fram á við, þá er augljóst mál, að þetta lántökuskeið er senn runnið á enda,“ — áðan heyrðum við, að Eysteinn var að halda því fram, að hann hefði vel getað fengið miklu meiri lán, — „og við blasir tímabil, þar sem þjóðin í stað þess að hafa til ráðstöfunar allt verðmæti sinnar eigin framleiðslu og að auki 5–10% af erlendu fé aðeins hefur til umráða eigin framleiðslu að frádregnum vöxtum og afborgunum hinna erlendu lána. Í stað þess að hafa til ráðstöfunar þjóðarframleiðsluna alla, hver sem hún nú verður, og að auki 5–10% verðum við að leggja til hliðar vegna greiðslna á vöxtum og afborgunum erlendra lána 3–4% ársframleiðslunnar,“ segir í skýrslu Torfa. M.ö.o.: viðskilnaður vinstri stj. boðaði að þessu eina leyti, að dómi hennar eigin sérfræðings og Alþýðusambandsins, 8–14% kjaraskerðingu allrar þjóðarinnar. Ofan á þetta má svo bæta hreinskilinni viðurkenningu eins af ráðh. vinstri stj. í þessum umr., sem við heyrðum í gærkvöld, að Íslendingar hefðu verið á góðum vegi með að verða bónbjargamenn og styrkþegar og ekki getað litið framan í vini sína og viðskiptamenn sem frjálsir menn, sem þjóð, sem vildi aðeins góð og heilbrigð viðskipti við allar þjóðir.

Þegar þetta er haft í huga, er ekki að undra, þó að málpípa kommúnista hér í kvöld, Alfreð Gíslason, sem aldrei vill þó kalla sig kommúnista, væri að tala um, að sumum fyndust utanríkismálin eins konar feimnismál. Hann og hans líkar studdu ríkisstj., sem tók dollaralánin úr sérstökum sjóði, sem Bandaríkjaforseti getur ráðstafað af öryggisástæðum sinnar eigin þjóðar. En meðan vinstri stj. dró fram lífið á slíkum dollaralánum, steinþagði Alfreð og félagar hans og minntust ekki á þál. frá 28. marz 1956 að vísa varnarliðinu þegar úr landi. Nú eru þeir aftur farnir að kvaka og hafa flutt hér till. um, að við eigum að segja okkur úr NATO. En hver tekur lengur mark á svona tísti?

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er nú komið að þinglausnum. E.t.v. finnst sumum þingtíminn langur. Starfstími þessa þings er þó nær allur eftir áramótin. Það er almennt viðurkennt, að þetta þing sé eitt hið starfsamasta um langan aldur. Auðvitað sýnist hverjum sitt um störfin. Hinu verður ekki neitað, að með þessu þingi eru orðin þáttaskil í íslenzkum stjórnmálum. Gerðar hafa verið víðtækar, heilsteyptar ráðstafanir í efnahagsmálunum. Það hefur verið horft framan í vandann, og þjóðin hefur engu verið leynd, en því treyst, að hún vildi þola í bili að leggja nokkuð á sig til þess að treysta eigið öryggi í framtíðinni, fjárhagslegt og pólitískt.

Samfara stórauknum almannatryggingum höfum við kastað af okkur gömlum álagaham hafta og skriffinnsku, gefið fjárfestinguna frjálsa og innflutning okkar að langmestu leyti frjálsan innan þeirra marka, sem markaðsmöguleikar okkar segja til um. Hið nýja viðskiptafrelsi tekur gildi 1. júní, en 30 ára gömul slitin flík skipulagsbundins haftakerfis lögð til hliðar. Á þessum tímamótum tekur nýr Verzlunarbanki Íslands h/f til starfa á grundvelli Verzlunarsparisjóðsins skv. lögum, sem þetta Alþ. hefur afgreitt. Í bankamálum eru boðaðar nýjar leiðir og meiri aðgerðir, og taka nú viðskiptabankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, við störfum innflutningsskrifstofunnar, sem lögð er niður.

Margt bíður enn ógert. Minnzt hefur verið á útflutningsverzlun okkar. Ég tel eitt mikilvægasta verkefnið að renna fleiri stoðum undir þá atvinnugrein í anda frjálsræðis og framtaks.

Til viðbótar þeirri löggjöf, sem þetta þing hefur sett í skatta- og útsvarsmálum, heldur heildarendurskoðun þeirra mála áfram og bíður næsta þings. Tryggt hefur verið um helmingi meira lánsfé til íbúðalána í ár á vegum húsnæðismálastjórnar en í fyrra, en gagnger endurskoðun húsnæðismálalöggjafarinnar er nauðsynleg. Framleiðslustarfsemin hefur verið rekin af kappi, og atvinna er örugg. Á næstu mánuðum mun reyna á löggjöf þessa mikilvirka þings og margs konar nýja skipan. Það hefur verið einlægur ásetningur okkar, sem að þessu stöndum, ekki að auka fátæktina, því þarf enginn að trúa, heldur að skapa skilyrði traustara og betra þjóðfélags. — Góða nótt.