31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3428 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

Almennar stjórnmálaumræður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 5. þm. Reykv., sem hér var að ljúka máli sínu núna áðan, talaði um, að mínar hrakspár 1950 hefðu ekki rætzt. Þær rættust allar. Það voru 2000 verkamenn atvinnulausir í Reykjavík 1951, það svarf að börnum verkalýðsins, launakjörin lækkuðu um 20% frá því 1947 til 1954, og á árunum eftir 1950 var hætt að kaupa togara. Ég held, að stjórnarherrarnir ættu að reyna að læra eitthvað af því, sem við vöruðum þá við þá. Þeir virðast því miður ekkert hafa lært og öllu því litla gleymt, sem þeir hafa einhvern tíma kunnað.

Hæstv. félmrh., Emil Jónsson, og fleiri stjórnarflokkamenn hafa hér verið að ráðast með svívirðilegum aðdróttunum að Alþb. og afstöðu þess á Genfarráðstefnunni, þar sem Lúðvík Jósefsson barðist fyrir hagsmunum Íslands, en ráðh. hengdu sig aftan í Atlantshafsbandalagið eins lengi og þeir þorðu. Það er bezt að svara þessum stjórnarherrum með því að segja sannleikann umbúðalaust: Sjálfstfl. og Alþfl. meta það meira í landhelgismálinu að þjóna Atlantshafsbandalaginu en Íslandi. Þess vegna hafa þeir setið á svikráðum við 12 mílna landhelgina, allt frá því að þeir gerðu samsæri um að hindra útgáfu reglugerðarinnar um hana í maí 1958 með því að fella vinstri stj. þá, en runnu raunar á rassinn með það, af því að Alþfl. sveikst um að svíkja vinstri stj. í það skiptið, en sveik Sjálfstfl. Og ef þið, fólkið í landinu, haldið ekki vöku ykkar í landhelgismálinu, þá munu þeir enn eiga eftir að bregðast í því.

Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, fór að minnast á Suður-Kóreu hér áðan. Hann hefði átt að láta það vera. Einmitt þeir menn, sem nú bera ábyrgð á ríkisstj. Íslands, voru valdir að því að láta Bandaríkin hernema Ísland 1951 undir yfirskini Kóreustríðsins. Þeir virtust þá reiðubúnir til að vera með í því að steypa heiminum í nýtt heimsstríð til þess að hjálpa Syngman Rhee, lýðræðishetjunni þeirra í Suður-Kóreu, við að ráðast á Norður-Kóreu. Og hvar er þessi Syngman Rhee þeirra í dag? Rekinn burt með smán sem harðstjóri og böðull af alþjóð landsins fyrir að hafa í 10 ár ástundað kosningasvik, ofbeldi og einræði, en er nú á leiðinni til Bandaríkjanna til þess að lifa á leynireikningum leppanna þar. Þetta eru lýðræðishetjurnar, sem stjórnarsinnar segja að við eigum að vera í sálufélagi með. Það er ekki að undra, þó að utanríkismálin séu feimnismál fyrir þessa herra, sem kjósa sér svona sálufélaga. En íslenzka þjóðin mun afþakka það að vera í slíku kompaníi.

Jón Þorsteinsson, hv. Alþýðuflokksþm., talaði hér áðan um, að það ætti að hækka kaupið, þegar þjóðarframleiðslan vex. Þjóðarframleiðslan hefur stórvaxið á undanförnum 12 árum, en verkamenn hafa enga raunverulega hækkun fengið í kaupgjaldi öll þessi ár, og stjórnarflokkarnir hafa aldrei boðið upp á neina kauphækkun, hvernig sem framleiðslan hefur vaxið. Það er því einber hræsni, þegar stjórnarliðar eru að verja ránið á vísitöluréttindum verkalýðsins með því að tala um, að greiða ætti eftir vísitölu þjóðarframleiðslunnar.

Emil Jónsson, hæstv. félmrh., minntist hér áðan á skýrslu um launaútreikning, sem ég hef birt hér á Alþ. Hún sýnir, að frá því í janúar 1959 þar til Alþfl.-stjórnin hafði komið sínu launaráni fram lækka launin í landinu um 10%. Það var Alþýðuflokksstj., sem hóf þá geigvænlegu launalækkunarherferð, sem Sjálfstfl. nú heldur áfram með og ekki mun hætta, fyrr en alþýðan sjálf bindur enda á hana en það gerir hún von bráðar.

Góðir Íslendingar. Afturhaldsstj. auðvaldsins í Reykjavík hefur nú í 3 mánuði fengið að framkvæma niðurrifsstefnu sína gegn alþýðu Íslands í krafti þess valds, sem Sjálfstfl. og Alþfl. sviku sér út í síðustu kosningum með loforðum sínum um að bæta lífskjörin. Þessi afturhaldsstj. er að rífa grundvöllinn undan afkomu alþýðuheimilanna á Íslandi. Hún hefur þegar með kúgunarlögum sínum lækkað kaupið um 8% fyrir þorra launþega, eða um yfir 16 vísitölustig eftir gömlu vísitölunni. Og kaupið á eftir að lækka mikið enn, ef þeir fá að halda áfram, líklega allt niður í 16%, eða um yfir 30 vísitölustig eftir gömlu vísitölunni. Og með hverju reyndu ráðh. hér í útvarpinu að verja þessar svívirðilegu árásir á lífskjör almennings? Með þeirri gatslitnu, eilífu afturhaldsstaðhæfingu, að íslenzk alþýða hefði lifað yfir efni fram, atvinnureksturinn bæri sig ekki og auðvaldið græddi ekkert.

Hver er sannleikurinn í þessum málum? Alþýðan á Íslandi hefur ekki lifað yfir efni fram. Hún hefur þvert á móti þrælað baki brotnu langt fram yfir vit og sanngirni við að skapa þann auð, sem gert hefur Ísland ríkt, — þann auð, sem yfirstéttin nú ætlar að sölsa undir sig eina. Þeir segja, afturhaldsráðh., að kaup verkamanna sé of hátt, atvinnureksturinn beri það ekki. Við lögðum fram hér á Alþ. nýlega reikninga áburðarverksmiðjunnar, 300 millj. kr. fyrirtækisins, sem afturhaldið er að reyna að stela úr eigu þjóðarinnar. Framleiðsla hennar er 48 millj. kr. virði yfir árið. Vinnulaun eru tæpar 5 millj, kr., en vextirnir, sem bankavaldið fær eru líka á fimmtu millj. kr. Og gróðinn að frádregnum löglegum afskriftum er 11 millj. kr. Hvað sögðu afturhaldsráðh., þegar þeir sáu þessa reikninga? Þeir þögðu eins og þjófar staðnir að verki.

Þeir sögðu, ráðh., hér í útvarpinu, að afköstin verði að vaxa hjá alþýðunni, ef hún eigi að fá hærra kaup. Íslenzkur sjómaður afkastar að meðaltali tíföldu fiskmagni á við norskan sjómann. En norskir sjómenn fá tvöfalt til fimmfalt meira verð fyrir fiskinn til sín. Við lögðum fram till. hér á Alþ. um að skipa þinglega rannsóknarnefnd í þetta mál, en stjórnarliðið felldi þá till. Það má ekki skyggnast bak við tjöldin í aðfarir auðhringa vorra erlendis. Sporin frá leynireikningunum hræða.

Og hvað um gróða auðmannanna? Hér í Reykjavík eiga 29 menn 250 millj. kr. í skuldlausum eignum eftir gamla genginu. Auðvaldið á Íslandi græðir nóg. Það græðir meira en nóg. Það getur meira að segja ekki hamið allan gróðann sinn hér heima, það verður að koma honum fyrir í leynireikningum erlendis, í Ameríku og Sviss og annars staðar þar, sem ekki er búið að finna þá enn þá.

En mikið vill meira. Hít auðvaldsins verður aldrei full. Þess vegna heimtar það nú launalækkun og meiri gróða. Og hér í útvarpinu hafa fulltrúar ríkisstj. hælt sér af því, að þeim hafi tekizt í 15 ár að stela öllum kauphækkunum af launþegum með skipulagðri verðbólgu. Alþýða Íslands veit, að verðbólgan er sú svikamylla, sem auðvaldið notar til slíks þjófnaðar, meðan það hefur ríkisvaldið. Og nú heldur ríkisstj., að hún hræði alþýðuna frá kauphækkunum með því að hóta henni með verðbólgudraugnum. Það sýnir bezt, hve lítt hún þekkir íslenzka alþýðu. Íslenzk alþýða mun ekki aðeins hækka kaupgjald sitt, hún mun líka kveða verðbólgudrauginn niður. Íslenzkt auðvald getur borgað hærra kaup með því að minnka gróða sinn og skipuleggja atvinnureksturinn betur. En ef auðvaldið ætlar að nota ríkisvaldið einu sinni enn til þess að setja svikamyllu verðbólgunnar af stað, þá verður það að vera næsta skref alþýðunnar að taka ríkisvaldið af auðvaldi landsins, láta það ekki leika framar þann ljóta verðbólguleik, sem það hefur iðkað í 18 ár.

En auðvaldið er ekki aðeins að lækka launin hjá almenningi. Það er líka að rifa atvinnugrundvöllinn undan þjóðarbúinu, eyðileggja afkomuöryggi alþýðuheimilanna. Með okurvöxtum, lánabanni og viðreisnarverðinu á nýjum bátum og togurum er verið að stöðva öll ný kaup atvinnutækja, allar framfarir. Þetta er þeirra uppbygging. Innan árs verður komið almennt atvinnuleysi um land allt, ef afturhaldið hefur ekki hrökklazt frá völdum áður. Með glæpsamlegri viðskiptapólitík er verið að eyðileggja öruggustu markaði okkar til að þóknast vestrænu auðvaldi og leiða Ísland inn í kreppukerfi verðhrunsins. Og þegar svo verðhrun auðvaldskreppunnar dynur yfir, fórnar hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, höndum, eins og í gær í útvarpinu, og segir: Er þetta okkur að kenna? — Það er eins og maður færi með barn, sem honum hefði verið trúað fyrir, inn í brennandi hús og fórnaði svo höndum, ef barnið brenndi sig, og hrópaði: Ekki er eldurinn mér að kenna.

Bardagaaðferð ríkisstj. við alþýðuna og óskirnar, sem allir hennar fulltrúar bera fram hér í útvarpinu nú, minnir mann á gamla bragðið stráksins á glímunni: Bíddu, meðan ég bregð þér. — Allt stjórnarliðið hefur verið að biðja alþýðuna í kvöld og í gærkvöld um að bíða, meðan auðvaldið bregði henni. Þeir skara þar sérstaklega fram úr öllum öðrum í prúðmannlegum lygum og blekkingum, hæstv. fjmrh. og viðskmrh., Gunnar Thoroddsen og Gylfi Þ. Gíslason, og eru svo í viðbót að æfa sig á þeim landsföðurlega tón, sem þeir halda að sé heppilegastur til að blíðka landslýðinn og fá alþýðuna til að bíða, meðan auðvaldið er að smeygja á hana fjötri fátæktarinnar. En síðan á svo, ef það tækist, svipa atvinnuleysisins og skipulagðar pólitískar ofsóknir að duga til að viðhalda alræði auðsins.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, var að vanda hreinskilnastur. Hann sagðist vilja fá aftur hina góðu, gömlu daga frelsisins. Já, við þekkjum þá góðu, gömlu daga, þegar auðurinn var frjáls og fólkið fátækt, — þá góðu, gömlu daga, þegar sveitaflutningarnir voru stefnumál íhaldsins, þegar miskunnarleysi peningavaldsins sat við stjórnvölinn, þegar atvinnuleysið svarf svo að, að sá á börnunum, þegar verkamenn urðu að slá niður alla lögregluna í Reykjavík til þess að hindra íhaldið í því að lækka kaupið í atvinnubótavinnunni, þegar verkamenn áttu að lifa af einu lélegu vikukaupi allan mánuðinn.

Nei, ég segi hæstv. forsrh. það fyrir munn alls íslenzks verkalýðs: Við viljum ekki góðu, gömlu dagana hans aftur. Íslenzk alþýða mun aldrei þola þá, hvað sem það kostar. Það kemur ekki til mála að gefa þessari stj. og niðurrifsstefnu hennar nein grið. Það er ekki eftir neinu að bíða nema því, að alþýðan hafi fylkt liði sínu til þess að brjóta árásir auðvaldsins örugglega á bak aftur. Tíminn er dýrmætur. Þessi stj. og stefna hennar er Íslandi dýrkeypt. Hver mánuður sem líður þýðir missi markaða, hver vika þýðir versnandi lífskjör. Það hefst ekkert fram nema með harðvítugri baráttu einhuga alþýðu. „Það er ekki sjálfsagt, að menn búi við góð lífskjör á Íslandi,“ sagði Gylfi Þ. Gíslason hér í gærkvöld. Nei, vissulega, hæstv. ráðh., vissu fleiri og þögðu þó. Hvað hefur knúið fram hin góðu lífskjör og hinar miklu framfarir Íslands á síðustu 20 árum, sem allir státa nú af? Það er alþýðan, látlaus barátta hennar, þrotlaus vinna hennar myrkranna á milli og stórhugur hennar, sem í tvígang í 20 ár hefur knúið fram nýsköpun íslenzks atvinnulífs.

Og hver hefur reynt að hafa af alþýðunni ávöxtinn af vinnu hennar og nýsköpun? Það hefur auðvaldið gert í krafti ríkisvaldsins. Á alþýðan því máske eitthvað upp að unna? Hefur það nokkurn tíma boðið henni kauphækkun að fyrra bragði? Nei. Allt, sem við unnum, hefur alþýðan orðið að sækja með harðri hendi og fórnfúsri baráttu í helgreipar þess afturhalds, sem alltaf rænir hana rétti sinum, ef það bara þorir. Og svo verður enn.

Auðvaldið sagði alþýðu Íslands stríð á hendur með gengislækkunar- og þrælalögunum 19. febr. Alþýða Íslands hefur nú svarað stríðsyfirlýsingu auðvaldsins á ráðstefnu Alþýðusambandsins 31. maí. Einróma hefur íslenzk verkalýðsstétt, hver og einn einasti fulltrúi hennar, ákveðið að láta til skarar skríða um kauphækkanir. Dauðadómurinn yfir kreppukerfi afturhaldsins er felldur, og í þeim 30 þús. verkamönnum og verkakonum, sem skipa Alþýðusamband Íslands, býr sá kraftur, er getur framkvæmt þann dauðadóm. Og með þeim standa í anda allir þeir launþegar, sem enn eru sviptir verkfallsréttinum. Íslenzkir launþegar eru ¾ hlutar þjóðarinnar. Það hefur enginn gerðardómsfjötur auðvaldsins, hvorki 1942 né síðar, staðizt það afi. Og kreppukerfi Gunnars og Gylfa mun ekki heldur standast því snúning.

En það er ekki aðeins alþýðan, sem hefur kveðið upp dauðadóminn yfir þessu kreppukerfi. Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur gert það líka, svo ótvírætt sem verða má. Það hefur lýst því yfir, að það verði ekki oftar gert út á Íslandi með þessu efnahagskerfi, sem átti að tryggja þetta frjálsa atvinnulíf á Íslandi til frambúðar. Því var haldið uppi í vetur með blekkingum, með loforðum, sem svikin voru. Og eftir á lýsa fulltrúar Landssambandsins því yfir, að þeir eygi og sjái enga möguleika til þess að halda áfram með því efnahagskerfi, sem hér hefur nú verið boðað af stjórnarliðinu í allt kvöld sem það eina sem hafi átt að bjarga Íslandi út úr öllum vandræðum.

Það er því nú svo komið, að vinnandi stéttirnar vilja ekki una þessu þrældómskerfi lengur og aðalatvinnurekendastéttin, útvegsmennirnir, lýsir því yfir, að hún geti ekki framar gert út undir þessu kreppukerfi, hún hafi verið blekkt til þess í vetur, en hún láti ekki blekkja sig til þess á ný.

Svona gersamlega gjaldþrota er þessi stefna ríkisstj., þessi aumi uppvakningur frá liðnum eymdartímum. En blindingarnir í ríkisstj. ætla sér auðsjáanlega ekkert að sjá, ekkert að læra, sitja lengur en sætt er og flýja þá kannske eins og Syngman Rhee til Bandaríkjanna í leynireikningana þar, þegar þeir hafa hrökklazt frá.

Verkamenn, bændur, sjómenn, útvegsmenn, menntamenn og millistéttir, takið höndum saman um allar byggðir þessa lands, skerið upp herör til sjávar og sveita, mölvið þetta kreppukerfi, slitið af ykkur þá fjötra fátæktarinnar, sem verið er að hneppa ykkur í og verða sárari með hverjum deginum. Bíðið ekki þangað til þeim hefur tekizt að koma líka atvinnuleysinu á. Steypið afturhaldinu, áður en það hefur leitt atvinnuleysið og neyðina yfir þjóðina og eyðilagt öruggustu markaði hennar, grafið grunninn undan efnahagslegu sjálfstæði Íslands. Munið, að Ísland er nógu ríkt til þess, að öllum börnum þess geti liðið vel, og gæti verið margfalt ríkara, ef því væri stjórnað af viti og réttlæti. Og munið þið, að þegar alþýðan hefur tekið um stjórnvöl þessa lands, þá hefur birt yfir öllu, þá hafa allir öðlazt nýja trú á möguleika okkar þjóðar, þá hafa menn séð þau úrræði, sem þeir neituðu áður, þá hafa menn neyðzt til þess að viðurkenna, að það, sem haldið var fram að væru skýjaborgir hjá okkur kommúnistum, eins og þeir kalla það, það hafi verið einu raunverulegu úrræðin, sem íslenzka þjóðin hafi átt. Munið þið, að enn eigum við þess kost að gera skýjaborgir að veruleika fyrir okkar íslenzku þjóð. Fram til sóknar og sigurs, íslenzk alþýðustétt. — Góða nótt.