27.11.1959
Neðri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Ég spurði hæstv. landbrh. um það, hvort þess væri ekki að vænta, að brbl. um landbúnaðarverðlagið yrðu lögð fram nú strax eða alveg næstu daga. Þessu hefur hæstv. landbrh. ekki svarað eða öllu heldur svarað þessu út í hött. Það stendur í stjórnarskránni, að það skuli leggja brbl. fyrir næsta Alþingi. Það er að vísu rétt, að það stendur ekkert um, að það skuli gert endilega fyrstu daga þingsins, þannig að það mundi sjálfsagt ekki vera hægt að kalla það beint stjórnarskrárbrot, þó að það drægist eitthvað. En það hefur verið venja yfirleitt, ég þori þó ekki að segja alveg undantekningarlaust, en venja yfirleitt, að brbl. væru lögð fram, undireins og Alþingi kemur saman, enda er það vitanlega það, sem ætlazt er til. Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar á að vera til þess að tryggja, að það séu engin lög í gildi, eftir að Alþingi hefur komið saman, önnur en þau, sem það hefur samþykkt. Ef löggjöf eins og þessi er ekki lögð fyrir hv. Alþ. til þess að taka afstöðu til hennar, er ekki hægt að kalla það annað en undanbrögð til þess að fara í kringum þetta ákvæði stjórnarskrárinnar.

Nú vil ég ekki enn ætla hæstv. ráðh. þetta, þó að full ástæða væri kannske til þess, miðað við það svar, sem hann gaf. En ég vil setja strik undir, að það er alveg sérstaklega þýðingarmikið, að það dragist ekkert, að einmitt þessi löggjöf verði lögð fyrir hv. Alþ. til úrskurðar. Þetta er ágreiningsmál, og það er meira að segja full ástæða til að líta svo á, að það sé ekki til meiri hluti á þessu hv. Alþ. fyrir þessari löggjöf, eins og hún er. Það er því alveg sérstök ástæða til þess að hraða því, að þessi löggjöf komi til meðferðar, þannig að þingviljinn komi í ljós. Og ég tala nú ekki um, að það hlýtur að auka nauðsyn þess, að brbl. séu lögð fram nú strax, að fram eru komnar bollaleggingar um það frá hæstv. ríkisstj. að fresta fundum þingsins, senda þingið heim og það jafnvel á alveg næstu dögum, eða a.m.k. sé ég það nú rétt í þessu, að útbýtt er hér á hv. Alþ. þáltill. um, að stjórnin fái heimild til þess að fresta þinginu nú eftir þrjá daga, ef henni sýnist.

Ég trúi því að vísu ekki, að það sé ætlunin að fresta þinginu, fyrr en margt hefur verið unnið hér að því, sem fyrir liggur óunnið, m.a. við 1. umr. fjárlaga gefnar ýmsar upplýsingar um efnahagsmál o.fl. og tekin fyrir til afgreiðslu ýmis mál, sem fyrir liggja, þar sem nægilegur tími er til þess að gera það, því að enn er æðilangur tími til þess, að eðlilegt jólafrí verði gefið í þinginu. Ég vil ekki gera neinar áætlanir um, að það sé meiningin að fresta þingi, áður en slíkt fari fram. En einmitt það, að þessi hugmynd er uppi, jafnvel um, að hægt sé að fresta þingi fljótlega, gerir það enn þá nauðsynlegra, að einmitt þessi brbl. séu lögð fram og fái afgreiðslu, því að það er alveg nauðsynlegt, að þessi lög fái afgreiðslu einmitt nú sem allra fyrst.

Ég vil því skora á hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstj. að leggja brbl. fyrir nú strax og haga öllu þinghaldi þannig, að eðlileg afgreiðsla þeirra geti átt sér stað og þingviljinn komi fullkomlega fram. Og ég vil engum manni ætla að óreyndu, að það sé meiningin að hafa áhrif í þá átt, að slíkt geti ekki átt sér stað. Engum manni geri ég þær getsakir. Þó að hæstv. ráðh. væri ekki ákveðinn í tali, vil ég vona, að úr því rætist með hann í þessu sambandi, og skora eindregið á hann og ríkisstj. að leggja brbl. fyrir, þannig að hægt sé að fara að vinna að málinu.