28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3437 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal taka undir þær fyrirspurnir, sem hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) hefur borið fram til hv. ríkisstj. um það, hvort það sé nú afráðið, að sú till., sem í gær var útbýtt í þinginu um frestun á fundum Alþ., eigi að verða samþ. Í henni er gert ráð fyrir, að þinginu verði frestað frá 30. nóv., frá mánudegi, næsta starfsdegi þingsins, og ég verð að taka undir það, að mér finnst það skipta allmiklu máli um afgreiðslu þeirra mála, sem nú liggja fyrir hv. deild á þessum fundi hennar, hvort það er afráðið að fresta þinginu þegar á mánudag. Ég álít það mjög óvenjuleg og óviðurkvæmileg vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. að fresta þessu nýkosna þingi svo fljótt, og ég hygg, að þess séu fá dæmi, að ríkisstj. grípi til þess ráðs að senda nýkosið þing heim svo fljótt, eftir að það kemur saman. Fyrir því hafa ekki enn verið færð nein rök, að til þess sé nokkur nauðsyn.

Ég heyrði svar hæstv. fjmrh., og eftir það get ég ekki búizt við öðru en að það sé afráðið af hálfu hæstv. ríkisstj. að láta samþ. þá tillögu um þingfrestun, sem útbýtt hefur verið, eins og hún hljóðar, og senda þingið heim þegar á mánudag. Ég get upplýst það, að seint í gær óskaði hæstv. forsrh. eftir samtali við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar og lét þau orð falla þá, að fyrir hádegi í dag mundi þingfl. stjórnarandstöðunnar berast svör um það, hvort hæstv. ríkisstj. vildi fyrir sitt leyti samþ. hina fram komnu ályktun um frestun þingsins, eins og hún liggur fyrir. En svo var mér tjáð nú um hádegið, að þetta loforð hæstv. forsrh. hafi brugðizt og engin svör komið af hans hálfu um þetta efni. Ég verð því, eftir að ég heyri svör hæstv. fjmrh. um þetta, að líta svo á, að það sé afráðið að fresta þinginu þegar á mánudag. (Fjmrh.: Í næstu viku.) Ja, í næstu viku. Í næstu viku eru 7 dagar, eins og öðrum vikum. Ber að skilja svo þetta goðsvar hæstv. fjmrh., að það sé, eins og fyrir liggur í þskj., sem ég hef hér fyrir framan mig, mánudaginn 30. nóv. eða t.d. á laugardaginn í næstu viku? Það skiptir nokkru máli. En eins og málið liggur fyrir og eftir þau svör, sem hafa fengizt hér, eða öllu heldur neitun um svör, þá verð ég að líta svo á, að það sé afráðið, að þessi þáltill. verði samþ., eins og hún liggur fyrir, og þingið sent heim á mánudag, nema hæstv. fjmrh, neiti því nú, að það verði. En ef svo verður, þá hefur það áhrif á afstöðu míns flokks til þeirra mála, sem liggja fyrir hv. deild á dagskrá í dag.