28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3438 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Af því að ég á sæti í þeirri nefnd, fjhn. þessarar hv. deildar, sem fjallað hefur um þau frv., sem hér eru á dagskrá, þykir mér rétt að taka það fram, að afstaða mín og annars manns í nefndinni, hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ), markaðist mjög af því, að ekki var hægt að fá upplýsingar um það við umræðu í nefndinni, þó að hæstv. fjmrh. væri þar mættur, hvort stofnað yrði til þingfrestunar núna næstu daga eða ekki, og till. þær, sem við flytjum eða flytjum ekki, eru miðaðar við það, hvort þessar upplýsingar kynnu að fást nú eða ekki. Það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það er ekkert órofasamband á milli þessara frv. og þingfrestunar, þegar litið er á það, að sennilegt er, að þá löggjöf, sem frv. fela í sér, þurfi að setja fyrir áramót. En þegar litið er á það, að ekki er hægt að rjúfa þing fyrr en búið er að setja þessa löggjöf, þá sést, að sambandið er mikið, og þannig er það frá sjónarmiði þeirra, sem telja, að það sé gjörræði að rjúfa hið nýkjörna þing, eins og nú er fyrirhugað, strax eftir að það hefur komið saman, og senda þingmennina heim. Ég vil þess vegna óska þess alveg eindregið, að hér komi fram skýrt og ákveðið, hvort ætlunin er að rjúfa þingið eftir næstu helgi eða í næstu viku, sem ég tel að sé sama sem að rjúfa það á fyrstu dögum þess, eða ekki fyrr en hæfilegt má telja, að þingfrestun hefjist. Ég geri þessa kröfu vegna þess, að þær tillögur, sem við nefndarmennirnir, sem ég nefndi áðan, höfum hugsað okkur að flytja, flytjum við ekki, ef gert er ráð fyrir því, að þingfrestun hefjist ekki fyrr en eftir hæfilegan tíma.

En ég er þeirrar skoðunar og vil undirstrika það, að það sé mjög eðlilegt, að þinghlé verði alllangt að þessu sinni og ríkisstj. fái ráðrúm í því hléi til þess að hugsa sín mál. Ég efast ekki um það, að henni veitir ekki af því, þó að hún hins vegar hafi haft allgóðan tíma að undanförnu, þar sem telja má, að sú stjórn, sem nú situr, hafi farið með stjórnarstarfið allt þetta ár og hefði mátt vera betur undirbúin en hún virðist nú til þess að hefja sitt nýársstarf. En undir öllum kringumstæðum tel ég rétt, að þinghlé gefi henni gott tóm. Hins vegar tel ég mestu fjarstæðu og mesta gjörræði að stofna til þinghlés á fyrstu dögum þingsins, og mér þykir það undarlegt geðleysi hjá nýkjörnum þingmönnum stjórnarflokkanna, ef þeir láta reka sig heim um hæl strax.

Það var hér á sumarþinginu talað mikið af hálfu þeirra flokka, sem nú fara með ríkisstjórn, um lýðræði og jafnan rétt einstaklingsins, nauðsyn þess og skyldu þess, að einstaklingarnir í þjóðfélaginu hefðu jafnan rétt til þjóðmála. En ég fullyrði, að það eru einhver önnur sjónarmið, sem eru nú komin til sögunnar, ef þessir flokkar taka sér vald til þess, í krafti þess, að þeir hafa 6 atkv. fram yfir stjórnarandstöðuna, að rjúfa þingið og máske — ég segi: máske — til þess að fá aðstöðu til þess að stjórna með brbl. í þinghléinu og skerða þannig þingræðið.

Ég endurtek ósk mína um ákveðin svör við því, hvort þingi verður frestað í næstu viku eða hvort það verður dregið t.d. fram í miðjan mánuðinn, en það tel ég allt annað mál, og ég tel mig eiga rétt á að fá svör í þessu efni, vegna þess að mér ber að taka afstöðu til málsins sem nm. við næstu umræðu í þessari hv. deild.