28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3439 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) vill fá svör við því, hvort þingi verði frestað í næstu viku eða t.d. eftir hálfan mánuð. Það hefur því miður farið fram hjá þessum hv. þm., sem ég sagði hér áðan, að það er óbreytt sú afstaða ríkisstj., að þingi verði frestað í næstu viku.

Út af orðum hv. 5. þm. Reykn. (FRV) um það, að tillagan á þskj. 22 frá forsrh. feli það í sér, að þingi verði frestað á mánudaginn kemur, þá eru þau ummæli á misskilningi byggð, því að í till. segir, að fundum þingsins verði frestað frá 30. nóv. 1959 eða síðar, ef henta þykir. Ég geri ráð fyrir því, eins og málin standa nú, að þingi yrði ekki frestað á mánudaginn, en eins og ég hef margtekið fram: í næstu viku. Það er ætlan ríkisstj, og þeirra þm., sem að henni standa.