28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3444 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að eyða löngum tíma og skal verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að tala ekki langt mál að þessu sinni, nema tilefni gefist til þess.

Hæstv. landbrh. svaraði áðan því, hvort ætti að leggja brbl. fyrir Alþ., og sagði, að það væri móðgandi spurning að spyrja um þetta, því að auðvitað færi hæstv. ríkisstj. að lögum. Það var einmitt það, sem ég var að spyrja um: Hvernig í dauðanum á þessi hæstv. ríkisstj. að fara að lögum, ef hún leggur l. ekki fyrir þingið? Lögin falla úr gildi 15. des., en ríkisstj. ætlar að fresta Alþ. 30. nóv. Hvernig ætlar hún að fara að því að fullnægja ákvæðum stjórnarskrárinnar? Um þetta spurði ég. Ég skil ekki, hvernig þetta er hægt. Þess vegna hélt ég, að Alþ. þyrfti að sitja, svo að hægt væri að leggja málið fyrir þing og afgreiða það, áður en l. falla af sjálfu sér úr gildi.

Hæstv. landbrh. er nú ekki viðstaddur, en ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. geti svarað fyrir hann um þetta efni, því að hann mun vera öllu fróðari í því, hvernig svona hlutir geta gengið fyrir sig á lögfræðilega réttan hátt. Ég er ekki lögfræðingur og þess vegna engin móðgun, þótt ég spyrji að þessu. Ég skil ekki, hvernig hægt er að framkvæma þetta, eins og stjórnin hugsar sér.

Hæstv. ráðh. talaði um, að ég væri ekki í nógu góðu skapi. Mér skilst, að hæstv. ríkisstj. þurfi að fresta þingi m.a. vegna þess, að hún er sjálf í hálfbágbornu skapi og það ekki að ástæðulausu, eftir að þessir flokkar eru búnir að stjórna í hér um bil heilt ár og eru enn að leita að úrræðum í efnahagsmálunum. Ja, guð má vita, hvort þeir verða búnir að finna nokkur úrræði 28. jan., það efast ég um. Nei, ég held, að ég hafi ekki móðgað hæstv. ríkisstj. á neinn hátt, þó að ég spyrji hana að því: Hvernig er hægt að fullnægja ákvæðum stjórnarskrárinnar með því að leggja ekki brbl. fyrir þing, áður en þau falla úr gildi? Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. muni geta upplýst mig eitthvað um þetta eða gefið einhver svör við þessu, því að þetta er krossgáta fyrir mér.