28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3449 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þann 18. sept. s.l. voru gefin út brbl. um verð landbúnaðarvara. Var þar svo fyrir mælt, að heildsölu- og smásöluverð það á sauðfjárafurðum, mjólk og mjólkurvörum, nautgripakjöti og hrossakjöti, sem kom til framkvæmda 1. marz 1959, skv. auglýsingu framleiðsluráðs landbúnaðarins, skuli gilda óbreytt á tímabilinu 1. sept. til 15, des. 1959. Í lögunum var einnig ákvæði um, hvenær sumarverð á vissum vörum skyldi niður falla.

Með bréfi til forsrh., er ritað var sama daginn sem lög þessi voru út gefin, mótmælti stjórn Stéttarsambands bænda lagasetningunni mjög ákveðið, vegna þess að með því væri freklega gengið á rétt bændastéttarinnar. Daginn eftir að brbl. voru gefin út, þ.e.a.s. 19. sept., birtist í Morgunblaðinu yfirlýsing þingflokks og miðstjórnar Sjálfstfl. um þetta mál. Í yfirlýsingunni segir m.a., að vegna ósamkomulags hafi ekki að þessu sinni reynzt kleift að ákveða verð landbúnaðarafurða lögum samkvæmt og að æskilegast hefði verið, að úr því hefði fengizt bætt. Síðan segir svo í yfirlýsingunni, með leyfi hæstv. forseta: „Það hefur ekki tekizt,“ — þ.e.a.s. að fá úr þessu bætt, — „og er því, þangað til annað reynist réttara, ekki við annað að miða en þann verðlagsgrundvöll, sem verið hefur í gildi.“ Þetta sýnist vera eðlileg ályktun og í samræmi við 6. gr. laganna um framleiðsluráð. Í þeirri gr. laganna segir, að verðlagsgrundvöllur, sem ákveðinn er skv. lögum, skuli gilda, þar til annar verðlagsgrundvöllur er fundinn. Síðan segir í yfirlýsingu þeirra sjálfstæðismanna: „Samkvæmt þeim grundvelli hefði verðlag landbúnaðarafurða nú átt að hækka um 3.18%. Sú hækkun er hliðstæð því eins og ef kaup launþega hækkaði vegna hækkunar vísitölu fyrir verðlagshækkanir og þess vegna annars eðlis en beinar grunnkaupshækkanir. Í framhaldi af þessu segir svo í yfirlýsingu Sjálfstfl. m.a., að það hefði verið sanngjarnast að greiða þessar verðhækkanir niður, þangað til Alþingi hefur gefizt kostur á að taka ákvarðanir um efnahagsmálin í heild, en ríkisstj. hafi ekki fallizt á þetta, heldur ákveðið að banna verðhækkanirnar með lögum. Og síðasta málsgr. í yfirlýsingu þeirra sjálfstæðismanna hljóðar svo: „Af framangreindum ástæðum lýsir Sjálfstfl, yfir því, að hann mun á Alþingi leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir af þessum sökum verða fyrir.“

Tveimur dögum eftir að brbl. voru gefin út, eða þann 20. sept., var birt ályktun miðstjórnar Framsfl. um málið. Lýsti miðstjórnin því þar yfir, að hún teldi brbl. gerræði og að flokkurinn mundi gera það, sem í hans valdi stæði, til þess að þau yrðu ekki samþykkt á Alþingi. Eftir að Framsfl. hafði markað afstöðu sína til laganna með þessum hætti, kom fram ný yfirlýsing frá Sjálfstfl. þann 22. sept. og var eins og hin fyrri birt í Mbl. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gefnu tilefni í yfirlýsingu miðstjórnar Framsfl„ sem lesin var í útvarpinu í fyrrakvöld, ítrekar miðstjórn Sjálfstfl. það, sem fram kom í samþykkt hennar og þingflokks Sjálfstfl. hinn 18. þ.m., að Sjálfstfl. lýsti sig þegar í stað andvígan setningu bráðabirgðalaganna um ákvörðun verðlags landbúnaðarafurða og mun þess vegna ekki styðja þau á Alþingi, heldur leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir verða fyrir af þessum sökum.“

Þegar Sjálfstfl. hafði birt þessa síðari yfirlýsingu sína, ritaði formaður Framsfl. forsrh. og krafðist þess, að Alþingi væri kallað saman til að fjalla um verðlagsmál landbúnaðarins. Kvað hann af þessari síðari yfirlýsingu sjálfstæðismanna augljóst, að brbl. nytu eigi þingfylgis, en þá lausn yrði að finna á þessu máli, er þingfylgis nyti. Formaður Alþb. mun einnig hafa ritað forsrh. og krafizt þess, að Alþingi væri kvatt saman. Forsrh. svaraði þessum kröfum með bréfi 25. sept. og hafnaði þar kröfunni um að kalla saman Alþingi þá þegar. Og í tilefni af svarbréfi hæstv. forsrh. birtist klausa í ramma á forsíðu Mbl. 29. sept. Hún ber yfirskriftina: „Viðurkenning Emils.“ Þar segir, að ummæli forsrh. í bréfinu staðfesti það, að setning þessara brbl. sé þýðingarlaus og komi ekki til með að hafa nein áhrif, svo framarlega sem Framsfl. bregðist ekki í málinu. „Bráðabirgðalögin munu þá ekki hljóta samþykki hins nýkjörna þings, vegna þess að Sjálfstfl. mun beita sér fyrir því á þingi, að hlutur bænda verði réttur og þeim bætt það tjón, er lögin hafa þá bakað þeim.“

Í yfirlýsingu Sjálfstfl. 22. sept. og í rammaklausunni í Mbl. 29. sept., sem ég hef hér vitnað til, kemur fram, að Sjálfstfl. muni ekki styðja brbl. á Alþingi.

Nú er fyrir skömmu komin ný ríkisstjórn, þar sem formaður Sjálfstfl. er forsrh. og annar maður úr þingflokki sjálfstæðismanna landbrh. Af yfirlýsingunum, sem ég hef vitnað til, hefði mátt ætla, að hinn nýi landbrh. léti það verða sitt fyrsta verk að leggja brbl. fyrir Alþingi, til þess að honum sjálfum og flokksbræðrum hans á þingi gæfist sem fyrst kostur á að greiða atkv. gegn þeim þegar í upphafi þings. En þetta hefur enn ekki orðið.

Það var þó einkum út af öðru atriði viðkomandi þessu máli, sem ég kvaddi mér hér hljóðs að þessu sinni. Í sambandi við þær endurteknu yfirlýsingar, sem Sjálfstfl. gaf út í september, vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh., hvað hann sé búinn að gera eða ætli að gera viðkomandi greiðslu á þeim uppbótum, sem flokkur hans lofaði að leggja til að bændum yrðu greiddar. Er ráðh. t.d. búinn að tilkynna framleiðsluráði landbúnaðarins, að bændur muni fá þessa umræddu 3.18% uppbót á verð þeirra afurða, sem þeir hafa selt, síðan brbl. komu til framkvæmda? Þegar slík yfirlýsing frá ríkisstj. lægi fyrir, væri hægt að deila uppbótunum niður á búvörutegundirnar, gera reikninga yfir þær og ganga eftir borguninni.

Svo er annað viðkomandi þessu máli: Telur hæstv. ráðh. sig þurfa sérstaka heimild frá Alþingi til að greiða þessar bætur, eða telur hann lagaheimild fyrir hendi? í yfirlýsingum Sjálfstfl., sem ég hef áður vitnað til, virðist koma fram sú skoðun, að þörf sé sérstakrar þingsamþykktar um þetta. Í fyrstu yfirlýsingu flokksins, sem samþykkt var í flokknum 18. sept. og birt í Morgunblaðinu daginn eftir, segir, að Sjálfstfl. lýsi því yfir, að „hann mun á Alþingi leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir af þessum sökum verða fyrir.“ Í yfirlýsingu nr. 2 frá sama flokki, sem birt var í Morgunblaðinu 22. sept., segir, að flokkurinn muni ekki styðja brbl. á Alþingi, heldur leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir verða fyrir af þessum sökum. Og í rammaklausunni í Morgunblaðinu 29. sept. segir enn fremur, að Sjálfstfl. muni beita sér fyrir því á þingi, að hlutur bænda verði réttur og þeim bætt það tjón, er lögin hafa þá bakað þeim.

Sé þetta skoðun hæstv. ráðh. eða ríkisstj., að sérstaka heimild þurfi frá Alþingi til þess að borga uppbæturnar, vil ég spyrja hæstv. landbrh.: Ætlar hann ekki að leita eftir slíkri heimild á Alþingi nú þegar? Það mál þyrfti að fást afgreitt, áður en þingi verður frestað, ef til þess kemur. En í gær var útbýtt hér á hæstv. Alþingi till. frá hæstv. forsrh. um þingfrestun. Er þar lagt til, að þingi verði frestað mjög bráðlega og allt fram til síðustu daga janúarmánaðar, en það væri hin mesta óhæfa að láta bændur bíða eftir bótagreiðslum allan þann tíma. Það er einmitt vegna þingfrestunartill., sem ég leyfi mér að bera þessar fyrirspurnir til hæstv. landbrh. fram munnlega og utan dagskrár, því að biðin eftir svari við skriflegri fsp. mundi verða of löng. Og ég vænti svars frá hæstv. ráðh. um þetta, hvaða ráðstafanir hann er þegar búinn að gera, ef einhverjar eru, eða hvaða ráðstafanir hann ætlar að gera og þá hvenær viðkomandi greiðslu á þessum bótum.