28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt, að það komi fram út af ummælum hv. 3. þm. Reykv., að hæstv. forsrh. er forfallaður sökum lasleika, og hafði hann beðið mig um að koma því áleiðis hér, ef tilefni gæfist til, og mér þykir rétt, að þm. viti það.

Hitt er svo vitað, að varðandi það mál, sem hv. 3. þm. Reykv. gerði að umræðuefni, þingfrestunina, þá verður það mál auðvitað tekið fyrir á þinglegan hátt og ekki afgreitt öðruvísi en Alþingi veiti samþykki sitt til þess. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess, að utan dagskrár verði í dag teknar upp miklar umræður, allra sízt þar sem ég heyri á hv. 3. þm. Reykv., að honum er mjög illa við laugardagsfundi, þó að við heyrum nú að vísu, að a.m.k. hann getur talað jafnt á laugardegi sem aðra daga.

Það er auðvitað alger misskilningur, að það sé nokkur lítilsvirðing við þingið, þó að Alþingi kveði sjálft á um, að fundum þessi skuli frestað, og því fer mjög fjarri, að það sé ósamræmi í slíkri afstöðu hjá okkur sjálfstæðismönnum. Ég minnist þess einmitt frá þeim tíma, þegar við vorum í andstöðu við hina hæstv. vinstri stjórn svokölluðu, að þá bentum við á það oftar en einu sinni hér á Alþingi, að réttara væri að fresta fundum þingsins heldur en láta það sitja og bíða eftir þeim till. hæstv. þáverandi ríkisstjórnar, sem allt starf þingsins hlyti að miðast við. Við töldum, að það væri hyggilegra fyrir ríkisstj. og fyrir Alþingi og fyrir einstaka alþm., ef menn fengju að vera alveg lausir við þingstörf, á meðan stjórnin væri að undirbúa nauðsynlegar till. Ég minnist þess sérstaklega, að ég átti orðaskipti um þetta við þáverandi hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, snemma árs 1958. Hæstv. forsrh. taldi þá, að ekki væri nema nokkurra vikna bið fram undan eftir till. Menn muna, að þær komu ekki fram fyrr en í maílok. Og ég held, að það hefði verið vænlegra fyrir hæstv. þáverandi ríkisstj. og betra fyrir virðingu þingsins, að þing hefði þá tekið sér hlé frá störfum, heldur en að sitja með þeim hætti, sem gert var.

Nú stendur þannig á, að ný ríkisstj. settist að völdum sama dag og hv. Alþingi kom saman. Það gefur auga leið, að hv. Alþingi á kröfu til þess, áður en það tekur upp sín reglulegu og ákveðnu störf, að ríkisstj. leggi fram till. um lausn höfuðvandamála, sem öll önnur meðferð mála hlýtur að vera náð og undir komin. Ríkisstj. hefur ekki á þeim fáu dögum, sem hún hefur setið, getað undirbúið þessar till. og telur eftir mjög gaumgæfilega athugun, að hún sé ekki örugg, þó að samkomulag náist innan hennar, sem við vonum, um að geta haft till. til fyrr en seint í janúar. Við það er till. um þingfrestun miðuð. Ef till. verða til fyrr, verður Alþingi tafarlaust kallað saman.

Þetta er það, sem um er að ræða í þingfrestunartill., þ.e. að veita stjórninni starfsfrið til þess að vinna sín skyldustörf og þyrma Alþingi frá þvílíkri óvirðingu sem það varð við að una með setu sinni undir vinstri stjórninni hæstv. — sálugu. Að öðru leyti verður um þetta mál rætt, þegar till. um þingfrestun kemur fram.

Nú verður tekin ákvörðun um það hér á eftir, hvort menn vilja veita afbrigði frá þingsköpum til þess að afgreiða mál, sem enginn ágreiningur er um og ég hygg að aldrei hafi verið ágreiningur um að afgreidd væru með afbrigðum og umræðulaust, — ekki þótt á neinn hátt varhugavert.

Varðandi laugardagsfundi, þá minnist ég þess, að ég átti á sínum tíma í höggi við hæstv. þáverandi forseta Nd. og hæstv. forsrh. og mæltist til þess, að slík mál eins og bankalöggjöfin, sem sett var, eftir að þingið hafði setið aðgerðalaust heilan vetur, væru ekki tekin til efnismeðferðar hér í d. á laugardegi, af því að ég og ýmsir fleiri, sem þar vildu taka til máls, vorum búnir að binda okkur áður og auglýsa vist okkar á fundum um landið. Sú beiðni var þá höfð að engu, þrátt fyrir það, þótt hún hefði við full rök að styðjast. Slíkt er sannarlega ekki til fyrirmyndar, enda ekkert þess háttar á ferðum hér, heldur einungis það eitt að koma fram ágreiningslausu máli til þess að hraða því, að þingfrestun geti átt sér stað, ef meiri hluti þm. vill, eftir löglega meðferð þess máls. Og því fyrr sem þingfrestunin verður, því fyrr gefst ríkisstj. starfsfriður og því fyrr eru horfur á því, að þingið geti komið saman aftur til þess að vinna að málum á þeim grundvelli, sem það á rétt til, að ríkisstj., hver sem hún er á hverjum tíma, leggi.

Varðandi deiluna um brbl. hefur ríkisstj. þegar lýst yfir í sinni stjórnaryfirlýsingu, hvernig hún hyggst fara með það mál. Sú yfirlýsing liggur fyrir og hún er samin með glöggri vitneskju um allar þær yfirlýsingar, sem við sjálfstæðismenn og aðrir höfum gefið í því máli. Hitt má segja, að sjaldan er góð vísa of oft kveðin, og það er gott, að hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) er farinn að leggja fyrir sig að lesa Morgunblaðið. Ég óska honum til hamingju með það og fagna því, að svo lengi lærir sem lifir.