28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3468 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í sambandi við það, hvernig þingmálum er nú framfylgt, þykir mér ástæða til þess að minnast hér úr ræðustóli þessarar hv. þd. á það hugtak, sem nefnt hefur verið virðing Alþingis og ekki virðist af veita að rifjað sé upp fyrir hv. þm. að hlýtur að sjálfsögðu að eiga að hafast í heiðri.

Ég vil þá fyrst minnast á það, að bæði ég og sjálfsagt langtum fleiri hv. alþm. lásum það í blöðum hæstv. ríkisstj. í gær, að ákveðið væri að fresta fundum Alþingis. Ég vil máli mínu til sönnunar vitna til þess, sem í stjórnarblöðunum stendur. Að vísu er sá ágalli á, að ég get ekki vitnað í blað hv. Alþfl., blað það, sem hæstv. starfandi forseti þessarar deildar nú er einn af ritstjórum fyrir, en þar var sagt frá því sem ákveðnum hlut, að Alþingi yrði frestað nú alveg á næstunni, vegna þess að einhvern veginn hefur ekki tekizt samkomulag með því blaði og þessari stofnun um, að blaðið gæti verið til hér í stofnuninni, svo að þegar ég bað hér um það að láni til ívitnunar máli mínu til sönnunar, reyndist það ekki vera til í stofnuninni. Ég álít, að það væri m.a. verkefni fyrir forseta Alþingis, bæði í deildum og sameinuðu þingi, að sjá til þess, að slíkt komi ekki fyrir í framtíðinni og að þm. eigi þess jafnan kost að eiga hér í þessari virðulegu stofnun aðgang að þeim blöðum, sem gefin eru út a.m.k. af þeim stjórnmálaflokkum, sem sæti eiga á Alþingi. En það gerir í rauninni ekki ákaflega mikið til, þótt ég verði að láta hjá líða af þeim ástæðum, sem ég nú hef greint, að færa fram beinar tilvitnanir í blað Alþfl., því að efnislega er þetta mjög á sömu lund í blöðum hins stjórnarflokksins, blöðum Sjálfstfl., og get ég t.d., með leyfi hæstv. forseta, vitnað hér til dagblaðsins Vísis, sem eins og öllum er kunnugt er annað höfuðmálgagn Sjálfstfl., en þar segir í gær undir mjög áberandi fyrirsögn á forsíðu: „Alþingi frestað.“ Síðan stendur þar orðrétt:

„Ákveðið mun hafa verið að fresta Alþingi fram yfir áramót. Frestun þessi mun vera gerð vegna þess, að undirbúningur undir till. til úrbóta í efnahagsmálum þjóðarinnar mun taka nokkurn tíma, en sérfræðingar vinna nú að því að rannsaka ástandið og finna leiðir til úrbóta. Á meðan á þessum umr. stendur og undirbúningi undir framkvæmdir til úrbóta, sýnist ástæðulaust, að Alþingi bíði aðgerðalaust fram yfir áramót, en það munar ríkið 800–900 þús. kr. í útgjöldum. Heimild hefur verið veitt fyrir ríkisstj. til að inna af hendi bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði fyrsta mánuð næsta árs, en það er venja, ef afgreiðslu fjárlaga lýkur ekki fyrir áramót. Líklegt er, að till. um þingfrestun verði lögð fram á Alþ. í dag.“

Þetta var grein sú, sem dagblað þess stjórnarflokks, sem fer með forustu stjórnarinnar, lét frá sér fara í gær. Þegar blaðið kom út, hafði enn ekki verið útbýtt á Alþ. neinni till. um þingfrestun. Þar hafði að vísu verið lagt fram frv. um heimild fyrir ríkisstj. til bráðabirgðagreiðslna úr ríkissjóði, en því fer alls fjarri, að nokkur slík heimild hafi verið ríkisstj. veitt. Ég vil í fyrsta lagi af þessu tilefni skora á forseta Alþ. að gefa út frá Alþ. og í samráði við skrifstofu Alþ. leiðréttingar, þegar blöð, sem allur almenningur í landinu hefur ástæðu til að ætla að viti glöggt um það, hvernig mál standa á Alþ., fara með slíkt fleipur og slíkar staðleysur sem hér hefur átt sér stað, — þá gefi forsetar Alþ. út tilkynningu um, að hér sé hallað réttu máli, og skýri hins vegar frá staðreyndum, eins og þær liggja fyrir. Það virðist næstum ekki vera annar möguleiki eftir til leiðréttingar slíku, þegar blöð hæstv. ríkisstj. ganga svo freklega á snið við allan sannleika sem hér hefur verið til vitnað.

En því miður er ekki upp talin öll sú óvirðing, sem Alþ. hefur verið sýnd hina síðustu daga, með því að vitna til þess, hvernig blöð hæstv. ríkisstj. hafa hagað sér með því að flytja almenningi í landinu alrangar fregnir frá Alþingi. Hér er t.d. á dagskrá þessarar hv. d. í dag skemmtanaskattsviðauki, sem fyrirhugað mun vera að afgreiða hér með afbrigðum á degi, sem er alls ekki venjulegur fundadagur Alþingis. Það virðist vera, að það sé einnig stefnt í voða virðingu Alþ. með því að gera sér leik að því að ganga á snið við þingsköp. Ég vil ekki mótmæla því, að stundum beri nokkra nauðsyn til þess að víkja frá þingsköpum með afbrigðum, en á hinn bóginn tel ég jafnfráleitt að gera það að reglu, að hvenær sem einhverra manna duttlungar, þeirra sem með völd fara og að ríkisstj. standa, krefjast þess, að nú sé vaðið yfir þær reglur, sem Alþ, hefur með eðlilegum hætti sett sér. Þá á ekki að gera það. Það á einungis að gera, þegar nauðsyn ber til. En hér hafa engar sönnur verið færðar á og ekki einu sinni líkur fyrir, að hér sé um neina nauðsyn að ræða. En svo mikið sem hv. stjórnarliði virðist liggja á því að koma fram máli, eins og ég hér hef tilnefnt, þá virðist þeim mun minna liggja á þeirra sömu manna samvizku um það að uppfylla þingsköp, uppfylla stjórnarskrá og þingvenjur með því að leggja fyrir Alþ. þau brbl., sem út hafa verið gefin og ber að leggja fyrir Alþ. eðli málsins samkv. eins fljótt og verða má, eftir að þing hefur komið saman.

Ekki er það síður vítavert að láta hjá líða að leggja þau brbl., sem hér um ræðir og hér hefur verið rætt um í dag, lögin um verðlag á landbúnaðarvörum, fyrir fljótlega, þar sem sú staðreynd liggur fyrir staðfest af þingflokkum, að bæði á þeim tíma, sem lögin voru gefin út, og væntanlega enn þá er enginn þingmeirihluti til fyrir þeim og lögin því í eðli sínu allt annars eðlis en lagasetning yfirleitt. Brbl., sem gefin eru út á sama tíma sem vitað er, að enginn þingmeirihluti er til fyrir þeim, eru í rauninni ekki lagalegs eðlis, heldur miklu fremur í ætt við einræðistilskipanir. Þess vegna er það ótvíræð skylda þeirra, sem með þessi mál fara nú í ríkisstj., að láta ekki hjá líða, að þessum l. verði brugðið undir gagnrýni Alþ., þau verði þar lögð fyrir og fái þar sína meðferð, hver sem hún svo kann að verða. En eins og ég hef áður tekið fram, er ekki það að efa, að samkv. yfirlýsingum gefnum út af einstökum þm. og heilum þingflokkum er ekki til meiri hluti á Alþ. fyrir þessum lögum.

En því miður eru þó ekki enn upp taldar allar þær ávirðingar, sem hæstv. ríkisstj. og hennar lið sýnir Alþ. þessa dagana. Það er lögbundið ákvæði, að fyrir Alþ. skuli leggja fjárlagafrv. í þingbyrjun. Þetta hefur að vísu verið gert, en af því hlýtur að leiða, að það er ekki með þessu lagaákvæði til þess ætlazt eingöngu, að það sé lagt tiltekið blað á borðið hjá háttvirtum þingmönnum, heldur að fram fari umr. um fjárhag og fjárreiður íslenzka þjóðarbúsins í sambandi við framlagningu þessa frv., sem er áætlun um það, hvernig reka skuli ríkisbúskapinn á komandi ári. Hér sjást engin merki þess, að á næstunni sé fyrir dyrum nein aðgerð á þessu plaggi, ekki einu sinni framsöguræða með því. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að sú ríkisstj., sem ekki treystist til þess að birta Alþ. framsöguræðu með sínu fjárlagafrv., er sannarlega ekki á þeim vegi, sem þingræði hlýtur að krefjast af hverri ríkisstj. Ég veit, að hv. Sjálfstfl., sem fer með það rn., sem leggur fram fjárlagafrv., hefur uppi þær afsakanir, að hann sé svo ókunnugur öllum málum, öllum fjárreiðum íslenzka ríkisbúsins, öllum fjárreiðum ríkissjóðs, fjárreiðum útflutningssjóðs o.s.frv., að hann sé hreint í vandræðum með að marka sína stefnu í þessu. Í sambandi við þær yfirlýsingar hv. Sjálfstfl, vil ég aðeins rifja upp, hvað á undan er gengið, og spyrja hann að því, hvaðan úr ósköpunum honum komi réttur til þess að halda fram slíkri fáfræði hjá sjálfum sér um fjárhagsmál íslenzku þjóðarinnar, sem hann nú gerir og virðist telja sér til afbötunar. Ef rétt væri öll sú fávísi, sem hann telur sér nú, þá væri þetta sannarlega flokkur, sem ætti að hætta í íslenzkum stjórnmálum. En því mun nú ekki svo farið, að hann sé eins fávís og hann sjálfur vill vera láta. Ég vil minna á það, að fyrir u.þ.b. einu ári eða tæplega einu ári, þegar forseti Íslands kvaddi til formann Sjálfstfl. og fól honum að gera tilraun til stjórnarmyndunar, þá tók formaður Sjálfstfl., hæstv. núv. forsrh., þetta að sér, og eftir því sem á þeim sjálfstæðismönnum var þá að skilja, voru bornir í herbúðir Sjálfstfl. stórir bunkar af hvers konar fjármálaskjölum úr stjórnarráði Íslands og fengnir í hendur öllum þeim sérfræðingum, sem Sjálfstfl. taldi sig bezta hafa á að skipa, til þess að kanna fjárreiður ríkisins. Dag eftir dag dróst það hjá hv. formanni Sjálfstfl., hæstv. núv. forsrh., að svara forseta Íslands einu eða neinu um það, hvort hann tæki að sér stjórnarmyndun, því að sérfræðingar Sjálfstfl. væru að athuga fjármál þjóðarinnar. Ég kann nú ekki lengur tölu á þeim dögum, sem þjóðinni var þannig haldið án stjórnar út á það eitt, að Sjálfstfl. var einmitt að kanna þau mál, sem hann núna telur sér helzt til ágætis að vera fávís um. Síðan liðu fram tímar, og þótt það sé önnur saga, þá er kannske ekki úr vegi að rifja hana hér upp, fyrst þessi mál eru á annað borð komin hér til umr., að sá virðulegi flokkur, sem nú fer með stjórnarforustu, hafði allt til þess tíma haldið því fram, að hann einn væri til forustu fallinn í íslenzku þjóðlífi, þar sem hann væri stærstur allra flokka og sterkastur og samstilltastur og ég veit ekki hvað og hvað hann tíndi upp af skrautfjöðrum sér til handa. En þegar sérfræðingar hans voru búnir að blaða í efnahagsplöggum íslenzka ríkisins dögum, ef ekki vikum saman, þá reyndist þessi hv. flokkur ekki vera sterkari eða samstæðari en svo, að hann gafst upp við það að gera nokkurn skapaðan hlut, hann vísaði málinu frá sér, hann reyndist engan styrkleika hafa og þaðan af síður samstöðu og hann vísaði málinu frá sér.

En einhvern veginn virðast samt þær niðurstöður, sem sérfræðingar hans komust að við rannsóknina miklu, ekki hafa bent til þess, að fjárreiður íslenzka ríkisins væru sérlega slæmar, því að litlu síðar tók hv. Sjálfstfl. einmitt að sér að hafa forustu í lagasetningu um fjárreiður íslenzka ríkisins á árinu 1959. Það var einmitt hv. Sjálfstfl., sem hafði um það algera forustu, hvernig mótuð skyldu fjárlög ársins 1959. Það var hans fulltrúi, sem hafði þar framsögu fyrir öllum þeim ákvörðunum, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj., ríkisstj. Alþfl., í orði kveðnu beitti sér fyrir, en með algerri samstöðu við Sjálfstfl. og undir forustu Sjálfstfl. að því er varðaði alla lagasetninguna varðandi fjárreiður íslenzka ríkisins. Ég vil því minna á, að sá hv. stjórnarflokkur, sem nú telur sig allra fávísastan um íslenzk efnahagsmál, hefur sjálfur mótað fjárlögin, sem stjórnað hefur verið eftir á þessu ári. Hann hefur sömuleiðis sjálfur mótað þá lagasetningu, sem ákveður tekjur og útgjöld útflutningssjóðs, eins og þau nú eru. Ég held, að í þessu ljósi verði það harla erfitt fyrir hv. Sjálfstfl. að ætla að gera hvort tveggja í senn að halda því fram, að hann geti ekkert nú í fjármálum, af því að hann sé svo ókunnugur og af því að hann viti svo lítið um þau, og jafnframt verður hann þó að viðurkenna þá staðreynd, að hann hefur sjálfur sett þau lög um fjárreiður íslenzka ríkisins, sem nú hefur verið stjórnað eftir um skeið. Og fjárreiður ríkisins voru ekki verri en það, að báðir hv. núv. stjórnarflokkar héldu því fram í síðustu kosningabaráttu nú í októbermánuði, að þeim hefði tekizt með viturlegri fjármálastjórn að stöðva alla dýrtíð í landinu og koma efnahagslífi Íslendinga í fastari skorður en það hefði um langt skeið verið. Fjölmargir atvinnurekendur hafa líka vitnað um það í blöðum hæstv. ríkisstj., að aldrei hafi afkoma verið eins góð í þeirra atvinnurekstri og nú, enda er það mála sannast, að fyrir þá aðila gerðu hv. núv. stjórnarflokkar töluvert á s.l. vetri, þar sem þeir ákváðu, að nokkur hluti af umsömdum launum verkafólks og sjómanna skyldi renna beint í vasa atvinnurekenda, þ.e.a.s. að ekki skyldu lengur haldnir samningar um kaup og kjör, heldur skyldi kaup til verkafólks og sjómanna og afurðaverð á búvörum til bænda lækka nokkuð til ábötunar fyrir gagnaðila.

Það er ekki heldur langt síðan hæstv. forsrh. flutti Alþingi héðan úr þessum ræðustóll sérstakan nýjan stjórnarsamning. Þar var að vísu tvístigið mjög um það, hvaða efnahagsráðstafanir og löggjöf í því sambandi væri væntanleg. En einhvern veginn hefur þeim, sem þann samning gerðu, fundizt, að ekki mundi þar verða neinn fagnaðarboðskapur fluttur íslenzkri þjóð, því að sem aukanúmer í stjórnarsamningnum var það tekið fram, að til þess að keyra ekki um þverbak — eða hvernig sem það nú var orðað — hjá þeim, sem verst væru settir í þjóðfélaginu, þá ætti t.d. að hækka fjölskyldubætur og ellilaun o.s.frv. Og ekki virtust fjárreiður ríkisins þá vera verri en svo, að hæstv. ríkisstj. eða hæstv. forsrh. fyrir hennar hönd taldi sig hafa efni á því að boða það þingheimi og þjóð, að það ætti að afnema tekjuskatt. Tekjuskatturinn mun þó gefa ríkissjóði nú um hálft annað hundrað millj. kr. eða um það bil. Maður getur nú rétt ímyndað sér, hvernig sá sáttmáli muni í eðli sínu vera, sem telur ástæður til þess, áður en hann er sagður upp fyrir alþjóð, að þá verði að tilkynna, að honum fylgi nokkurt sælgæti. Má ekki bjóða yður sultutau? sögðu embættismenn Danakonungs við þá Íslendinga, sem þá voru í forsvari fyrir land og þjóð og vantaði veiðarfæri og annað, sem íslenzka þjóðin hafði til síns lífsuppeldis, en ekki var fáanlegt. Það virðist vera, að stjórnarsáttmálinn, sem hér var nýlega sagður upp, sé sama eðlis, hann bjóði upp á lús af sultutaui, en mál þjóðarinnar séu hins vegar jafnóleyst og þau áður voru. Vegna þess, hvernig stjórnarsáttmálinn var, þ.e.a.s. vegna þess að hann var um ekki neitt það, sem alþjóð mátti fá að heyra, hefur hann nú fengið hjá alþjóð nafn eftir því, sem alþjóð þá fékk að vita um efni hans eftir öðrum leiðum en þeirri einni, sem sögð var upp hér í ræðustól. Hann gengur nú almennt undir nafninu „sjöstólasáttmáli“, og það er í rauninni það eina, sem þjóðin hefur fengið að vita um þann sáttmála, að hann er sáttmáli um sjö stóla.

Ég get vel skilið það, að mennirnir, sem gerðu „sjöstólasáttmálann,“ vilji fá að sitja í sínum sjö stólum án þess að verða spurðir út úr fræðum þeim, sem þeir nú hlaupa bak við tjald fávísinnar til þess að reyna að komast hjá að gefa þau svör, sem um eðli málsins er skylt að gefa. Ég get vel skilið það, að þeir, sem mynduðu ríkisstj. og gleymdu að semja um þjóðmálin, en sömdu bara um stólana sína, hafi ekkert við þing að gera. Ég get líka skilið það, að þegar saman hafa hlaupið í ríkisstj. tveir stjórnmálaflokkar, sem t.d. í því máli, sem hér hefur stundum verið til umr., brbl. um verðlag á búvöru, hafa skoðanir, sem eru að því er ætla má eftir yfirlýsingu þeirra algerlega gagnstæðar, vilji gjarnan losna við að ræða þau mál frammi fyrir þingi og þjóð. En ég vil minna þá hæstv. ríkisstj. á það, að hún er að sjálfsögðu skuldbundin til þess að halda þær reglur og halda þau lög, sem íslenzka þjóðin hefur. Hún er skyldug til þess að halda íslenzka stjórnarskrá. Hún er skyldug til þess að leggja þessi brbl. fyrir Alþingi. Það er stjórnarskrárákvæði, og það munu allir hæstv. ráðh. eins og aðrir þingmenn hafa skrifað undir á sínum tíma, að þeir skuldbinda sig og legðu við drengskap sinn um að halda stjórnarskrána. Og ég vil enn minna þá á það, að jafnvel þó að það sé ekki alveg átakalaust hjá þeim og ekki alveg þrautalaust að halda stjórnarskrána, þá ber þeim samt að gera það. Það þing, sem nú situr, er reglulegt Alþingi ársins 1959. Það eru þess vegna ekkert annað en undanbrögð og í eðli sínu hreinlega brot á stjórnarskrárákvæðum að leggja ekki brbl., sem út eru gefin á haustinu 1959, fyrir reglulegt Alþingi 1959. Það má vel hugsast, að þeir, sem eru miklir lagakrókamenn, geti fundið sér til einhverjar afsakanir frá því að gera þetta, t.d. með því að það sé líka reglulegt Alþingi 1959, sem saman á að koma samkvæmt þingfrestunartill. ríkisstj. hinn 28. jan. n.k. En það verður hvorki ég né alþjóð í þessu landi sannfærð um það, að andi stjórnarskrárinnar sé haldinn með því að leggja ekki þessi brbl. fyrir nú á þessu þingi og nú hið fyrsta.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú um þessi mál sagt, vil ég enn ítreka þá áskorun mína til forseta Alþingis að gefa út leiðréttingar á því beint frá Alþingi, sem rangt er sagt frá störfum Alþingis í blöðum hæstv. ríkisstj. nú undanfarna daga. Og ég vil sérstaklega skora á hæstv. forseta þessarar d. sem ég veit að hlýtur að hafa alveg sérstaka aðstöðu til þess, að leiðrétta það, sem rangt er sagt í hans flokksblaði um störf Alþingis, þannig að alþjóð fái raunverulega að vita um staðreyndir. Ég vil enn fremur spyrja hæstv. ríkisstj., ef hún skyldi nú vera samþykk þeim skrifum, sem blöð hennar hafa látið frá sér fara að undanförnu, — ég vil spyrja hana um það í sambandi við ívitnaða grein í dagblaðinu Vísi, sem ég hef hér lesið, þar sem stendur: „Ákveðið mun hafa verið að fresta Alþingi fram yfir áramót,“ — ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvar hefur þetta verið ákveðið? Ef forsetar Alþingis geta ekki fallizt á að leiðrétta svona hluti, þá vil ég skora á hæstv. ríkisstj. að svara þessu: Hvar hefur þessi frestun verið ákveðin? Hún hefur ekki verið ákveðin hér á Alþingi. Ég vil enn fremur minna á það, að sá stjórnmálaflokkur, sem nú fer með forustu ríkisstj., Sjálfstfl., hefur hér margsinnis haft uppi mikinn bægslagang og ásakanir á vinstri stjórnina svonefndu fyrir það, að í hennar stjórnarsáttmála var ákvæði um það, að varðandi lagasetningu, sem snerti sérstaklega almenn lífskjör í landinu, skyldi viðhaft samráð við verkalýðshreyfingu landsins. Þetta hafa fjölmargir af þm. Sjálfstfl. vítt hér á þingi og farið um þetta þeim orðum, að þeir hafa látíð í ljós megna óánægju sína yfir því, að vald skyldi dregið úr höndum Alþingis og út fyrir veggi þingsalanna. Þeir hafa bent á það, að einmitt í þingsölum, einmitt á Alþingi ætti að ráða ráðum þjóðarinnar, þar ætti að setja löggjöf og annars staðar ekki. Ég skal taka það fram, að að vissu leyti er ég þessu sammála, þótt ég telji hins vegar, að það sé misskilningur hjá hv. Sjálfstæðisflokksmönnum, að samráð við verkalýð landsins um lagasetningu sé að draga vald út úr þingsölunum. Þar er ég ekki sammála. Hitt veit ég, að ef það hefur verið samþ. á einhverjum klíkufundi, t.d. á Varðarfundinum, þar sem hæstv. forsrh. virðist hafa gefið þá efnahagsmálaskýrslu, sem hann þorir ekki að gefa hér eða vill ekki af einhverjum ástæðum gefa hér, þá er það að draga vald úr höndum Alþingis, og þá eru það vinnubrögð, sem Alþingi á ekki að þola.

Herra forseti. Ég hef farið hér nokkrum orðum utan dagskrár um þau mál, sem ég tel þessa dagana vera sérstaklega til þess líkleg að draga virðingu Alþingis ofan í svaðið. Ég vil ljúka máli mínu með því að skora alvarlega á forseta Alþingis og á hæstv. ríkisstj. að láta ekki slíkt viðgangast. En þó vil ég frekast af öllu beina máli mínu til allra alþm. um það, að hér er fyrst og fremst skylda þeirra að standa þannig á verðinum, að jafnvel mistök ríkisstj. geti ekki orðið til þess að rýra álit þeirrar stofnunar, sem þm. eru fulltrúar á, kosnir af þjóðinni. Til þess hafa allir alþm. óumdeilanlega skyldu, bæði siðferðilega skyldu og sömuleiðis skyldur við þá kjósendur, sem hafa sent þá í þessa stofnun.