28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. talaði hér áðan nokkur orð. Hann tilkynnti hv. d., að hæstv. forsrh. væri veikur. Það er mjög leitt að heyra. Ég heyrði þess ekki getið hjá hæstv. forseta, að hann hefði boðað nokkur veikindaforföll. Þess vegna gekk ég fyrir mitt leyti út frá því, að hann mundi kannske vera hér í þinginu og e.t.v. í herbergi hér við hliðina, þar sem honum finnst stundum gott að hlusta á það, sem þingmenn segja. Honum hefur láðst að tilkynna veikindaforföll, sem hverjum þingmanni ber að gera, honum líka sem 1. þm. Reykn. Það er mjög leitt, að hann skuli ekki hafa verið við, einmitt af því að ég mælti nokkur orð til hans áðan, og það var engan veginn mín tilætlan, að þau skyldu endilega mælt að honum fjarverandi. Ég mun vafalaust verða að endurtaka þau, þegar hann verður hér við, þannig að honum gefist kostur á að segja sitt álit á þeirri gagnrýni, sem í því fólst, sem kom þar fram hjá mér. Ég vonast eftir, að honum batni fljótlega og við fáum þá ánægju að sjá hann hér aftur bráðlega og okkur gefist tækifæri til þess að ræða þessi mál, sem ég sérstaklega drap á og ættu framar öðrum hæstv. ráðh. erindi til hans.

Hæstv. dómsmrh, sagði síðan, að sá væri tilgangur ríkisstj. með þeirri fyrirætlun að fresta Alþ. nú svo snemma, eins og borizt hefur nokkuð til umr. utan dagskrár, að hæstv. ríkisstj. gæti ekki horft upp á annað eins og það, að Alþ. yrði sér til vanvirðu með því að sitja hér aðgerðalaust. Það er rétt og nauðsynlegt að leiðrétta þennan misskilning hjá hæstv. dómsmrh. Það er ekki nokkur minnsta hætta á því, að Alþ. komi til með að sitja hér aðgerðalaust. Þvert á móti bíða þess mjög mikilvæg verkefni, ekki aðeins þau, sem hæstv. ríkisstj. ber skylda til að leggja fyrir Alþ., heldur líka allmikið af málum, sem hv. þm., ekki aðeins úr stjórnarandstöðunni, heldur líka úr stjórnarflokkunum, hafa mikinn áhuga á að flytja. Ég efast ekki um, að ekki hvað sízt allur sá mikli fjöldi af nýkjörnum þm. úr stjórnarliðinu, sem nú koma í fyrsta skipti inn á Alþ. og hafa haldið miklar ræður og haft í frammi mikil loforð til kjósenda við nýafstaðnar kosningar, þeir bíða þess fullir áhuga að flytja hér frumvörp um, hvernig eigi að leysa úr ýmsum vandamálum landsins og berjast fyrir landsins gagni og nauðsynjum, þannig að það er engum efa bundið, að hér verði um næg mál að ræða, sem hæstv. ríkisstj. getur haft til athugunar, þegar hún fer að hugsa sinn gang.

Það var alger misskilningur, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh., að það væri aðeins verkefni Alþingis að bíða eftir því, að einhverri hæstv. ríkisstjórn þóknaðist að koma fram með einhver lagafrv. viðvíkjandi einhverjum efnahagsmálum. Það er ekki nema einn lítill þáttur í starfi Alþ. að fjalla um efnahagsmál. Það er ein einasta af öllum þeim n., sem settar eru hér í þinginu, sem hefur sérstaklega með þau mál að gera. Hér liggja fyrir öll möguleg önnur vandamál til úrlausnar á öllum mögulegum sviðum þjóðlífsins, allt frá félagsmálum til menntamála, allt frá landbúnaðarmálum til sjávarútvegsmála, og öll möguleg önnur mál og málasvið, sem þm. hafa áhuga á að flytja frv. um og þarf að ræða á Alþingi. Alþingi er engan veginn bara til þess að bíða eftir einhverjum úrlausnum, sem máske væru ekki svo sérstaklega góðar einu sinni, sem ein hæstv. ríkisstj. kynni að koma með viðvíkjandi einhverjum efnahagsmálum. Það er alger misskilningur á hlutverki og verkefni Alþingis, ef hæstv. ríkisstj. lítur svo á, að Alþ. eigi að vera eins og einhvers konar brúða til þess að afgreiða bara einhver efnahagsmál, þegar einhverri ríkisstj. fyndist það nauðsynlegt. Þvert á móti, Alþingi á að vera stofnun, sem á að ræða um öll þau mál, sem snerta þjóðlífið, og reyna að vinna þar að því á öllum sviðum mannlegs lífs að bæta um fyrir okkar þjóð. Ég held þess vegna, að það vofi engan veginn sú hætta yfir, að Alþ. sitji aðgerðalaust þennan tíma. Það kann stundum að hafa verið svo, þegar ríkisstj. hafa verið máske seinar á sér og Alþ. hefur komið saman 10. okt. og ríkisstj. ekki búnar að koma sér niður á málin, þegar kom fram í desember, að þá hafi einstaka sinnum orðið þannig, að lítið hafi verið á dagskrá stundum. En þegar Alþ. kemur saman 20. nóv., seinna en nokkurn tíma annars hefur eiginlega tíðkazt, þá eru sannarlega meira en næg verkefni, þegar Alþingi á á einum einasta mánuði fyrir jól að ræða þau mál, sem þm. hafa áhuga á að bera fram. Ég veit, að það gildir ekki aðeins um stjórnarandstöðuna og öll þau mál, sem hún flytur. Ég efast ekki um, að hv. þm. stjórnarflokkanna brenna í skinninu að koma með sín hugðarmál hér á Alþ. Svo er vitanlegt, að þar að auki eru mál, eins og hér hefur verið minnzt á nú utan dagskrár, sem sjálf hæstv. ríkisstj. á samkv. stjskr. að leggja fyrir Alþ., mál eins og brbl., sem hér hefur verið talað um, brbl. viðvíkjandi verðlagningu landbúnaðarafurða. Og það væri satt að segja undarlegt, ef ekki mætti fara að ræða þau mál hér og ekki væru gerðar ráðstafanir af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess nú þegar að sjá um, að þau brbl. væru lögð fyrir Alþ. Ég vil meira að segja leyfa mér að spyrja: Var ekki búið að gera ráðstafanir til þess að leggja slíkt lagafrv. fyrir Alþ.? Skyldi það ekki hafa verið komið upp í prentsmiðju? Því hefur kannske verið kippt til baka á síðustu stundu. Af hverju? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. Ég býst við, að starfsmenn stjórnarráðsins hafi afgreitt öll þessi mál, eins og þeirra er vani og alltaf hefur verið þingsiður, en e.t.v. hafi einhver hæstv. ráðh. áttað sig á því, að það væri eitthvað óþægilegt. En það dugir náttúrlega ekki að taka tillit til slíkra persónulegra óþæginda af ráðherrum, að þeim kæmi e.t.v. eitthvað illa, að málið væri rætt á þeim tíma, sem beri að ræða það í Alþ. Ráðherra má ekki setja slíkt fyrir sig. Hans skylda er að sjá um að leggja málið fyrir Alþ. og það sérstaklega fyrir þann tíma, er málið missir sitt raunverulega gildi, þ.e. gefa Alþ. tækifæri til að ræða slík mál, á meðan brbl. hafa raunverulegt gildi.

En fyrir utan öll þessi atriði er eitt mál, sem ég vil alveg sérstaklega vekja athygli hæstv. ríkisstj. á, sem ég álít bókstaflega að sé stórhættulegt, sé beinlínis glæfralegt, að ekki sé tekið fyrir nú þegar á Alþ. og ríkisstj. gefi yfirlýsingu um, og það er sökum þess, að hæstv. forsrh., — mér þykir leitt, að hann skuli ekki vera við, — hefur talað þau orð á fyrrnefndum Varðarfundi, að það mundi vanta um 250 millj. kr. í kassann næsta ár. Þá hefur og að öllum líkindum, er ég hræddur um, út frá skrifstofum þeirra sérfræðinga, sem ríkisstj. hefur í sinni þjónustu, borizt út sú hviksaga hér í bænum, að það sé í vændum, að ríkisstj. leggi til að lækka gengið á íslenzkri krónu. Og ég vil taka það fram, að ég álít brýna nauðsyn, að ríkisstj. og Alþ, taki nú þegar þetta mái fyrir og það séu gefnar yfirlýsingar um, að slíkt sé ekki fyrirhugað.

Ég veit, að öllum hv. þm. er það ljóst, að í hvaða nágrannalandi okkar, þar sem einhver slík hviksaga kæmi á gang, að gengislækkun væri fyrirhuguð, þá mundi hver einasti fjmrh. eða ráðherra bankamála eða einhver af helztu mönnum ríkisstj. lýsa því yfir, jafnvel hvort sem slíkt væri satt eða ekki, að slíkt væri fyrirhugað, — hann mundi lýsa því yfir, að það hefði ekki við nein rök að styðjast. Ef það færi að kvisast út í Englandi, að það væri meiningin að fella pundið, þá veit hver einasti ykkar, hvað einn enskur fjármálaráðherra mundi segja. Hann mundi samstundis gefa yfirlýsingu um það, að slíkt væri alls ekki fyrirhugað, og það jafnvel kannske þótt það kæmi seinna meir á daginn, að eftir nokkra mánuði gerðu þeir e.t.v. eitthvað slíkt, bara vegna þess, að kæmust slíkar hviksögur á gang, mundi vera álitið, að svona hlutir hefðu sloppið út fyrir óvarkárni einhverra embættismanna. Og það dygði ekki að baka þjóðlífinu svo og svo mikil vandræði út af því, að einhverjir embættismenn, einhverjir sérfræðingar hefðu verið óvarkárir og ekki haft gát á tungu sinni.

Hins vegar hefur það því miður borið við hér á Íslandi allt of oft, að það hefur verið sýnd gífurleg óvarkárni í svona málum. Ég býst við, að Englendingum mundi þykja það undarlegt, ef forstjóri Englandsbanka færi að tala um það allt í einu, að það væri nú alveg brýn þörf á því að fella pundið. Og ég er hræddur um, að ríkisstjórnin gripi í taumana, ef slíkt væri gert, ef slíkur maður færi að tala þannig. Hér aftur á móti hefur það gerzt hvað eftir annað, að meira að segja bankastjórar í Seðlabankanum hafa látið sér eitthvað slíkt um munn fara og ríkisstj. ekki gætt þess að gera aths. við, að slíkar skoðanir kæmu upp hjá mönnum. Það er eitt af því skaðlegasta, sem hægt er að gera gagnvart einni þjóð, að láta slíkar slúðursögur um gengi hennar krónu komast á gang, án þess að þeim sé mótmælt.

Þegar þess vegna einn hæstv. forsrh. segir, að það vanti 250 millj. kr., og segir það úti í bæ og gefur Alþ. enga skýrslu og bætir því svo við, að það sé líklegast flest annað betra en að fara að leggja þetta í álögum á þjóðina, m.ö.o. gefur í skyn, að ríkisstj. hafi jafnvel dottið í hug að fara að fella gengi krónunnar, þá er hætta á ferðum, þá er verið að leika glæfraleik, svo framarlega sem ekki er tekið í taumana. Þegar það svo jafnvel fer að spyrjast út frá einum helzta sérfræðingi ríkisstj. í þessum málum, að það sé t.d. meiningin að setja dollarann upp í 38 kr., hvað haldið þið, að menn fari þá að hugsa í landinu og annars staðar? Og enginn segir neitt. Ríkisstj. segir ekki neitt og ætlar svo kannske bara að senda Alþ. heim án þess að gefa yfirlýsingu um og þverneita, að svona slúðursögur hafi við nokkuð að styðjast.

Ég er hræddur um, að þegar menn athuga, hvað er að gerast í þessum efnum, sjái menn, hvílíkt óráð það væri að ætla nú að fara að gefa undir fótinn öllum svona slúðursögum með því að senda Alþ. heim, og jafnvel að ríkisstj. láti í það skína, að hún ætli að fara að gera ýmsa hluti með brbl. Ég vil vekja athygli manna á því, að þegar svona slúðursögur komast á gang, ef stjórnarvöld landsins passa ekki upp á að leiðrétta þetta í tíma og afneita þeim, þá hefur þetta glæfralegar afleiðingar. Það hefur m.a. þær afleiðingar, að það er farið að taka út sparifé, þjóðin missir traust á sínum gjaldeyri og fólk missir traust á þeim peningum, sem það á í bönkunum. Ég vil vekja athygli á því, að þegar þannig stendur á í þjóðfélaginu, þá á ríkisstj. skýrt og skorinort að taka af öll tvímæli og lýsa því yfir, að henni hafi aldrei komið til hugar nein gengislækkun og fólk geti verið alveg rólegt með sitt sparifé í bönkunum. Ef ríkisstj. gerir ekki slíkt, er hún bókstaflega að ýta undir svona slúðursögur, sem grafa undan öryggi þjóðfélagsins. Og ef ríkisstj. dytti svo í hug, þegar verið væri að ræða svona hluti hjá almenningi, að fara að senda þing heim, hvað er hún þá að gera? Hún er að ýta undir trú manna, ef hún kynni að skapast, að það ætti að grípa til svona vitleysisráða. Ég skal ekki þar með segja, að það kunni ekki að vera til misvitrir sérfræðingar, sem dytti í hug að gefa ríkisstj. svona vitlaus ráð, ég skal ekki neita því, að það kunni að vera til. En ég er enn þá ekki farinn að sjá framan í þá ríkisstj. á Íslandi, sem er svo vitlaus að fara að slíkum ráðum. Og ég vil alveg sérstaklega leggja áherzlu á það, að ef það kynnu að vera einhverjar vomur á hæstv, ríkisstj., ef henni hefðu verið gefin svona slæm ráð, um, hvort hún ætti e.t.v. að fara að þeim, þá væri henni bezt að ræða slíkt nokkuð ýtarlega við Alþ. áður.

Það er engum efa bundið, að það er hægt að gefa ríkisstj. góð ráð í þessum efnum, og til þess eru þingmenn kjörnir. Það hefur aldrei verið kosinn á þing neinn sérfræðingur til þess að gefa ráð í þessum málum. Ég býst við, að þeir fengju satt að segja lítið fylgi, ef þeir færu að sýna sig, þeir sem hingað til hafa aðallega verið að tala fyrir gengislækkuninni.

Ég held þess vegna fyrir utan allt annað, að með tilliti til þeirra slúðursagna, sem munu upprunnar frá vissum sérfræðingum ríkisstj., beri henni nú þegar að athuga sinn gang til þess að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar í þjóðfélaginu og hætta þeim glæfraleik að ætla að fara að senda Alþingi heim.

Hæstv. dómsmrh. kom hins vegar í sinni ræðu að einu atriði, sem getur náttúrlega vel verið að sé undirrót að þessu undarlega tiltæki, að ríkisstj. leggur til að ætla að fara að senda Alþ. heim viku eftir að það kemur saman. Hann sagði, að hæstv. ríkisstj. þyrfti nú að fá tíma til að hugsa og koma sér saman. Já, það var náttúrlega ósköp leitt, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki hafa hugsað, áður en hún settist í stólana. Það er góður siður að gera það. Það er rétt fyrir menn, áður en þeir takast á hendur að ráða fram úr ákveðnum vandamálum, að vita, hvernig þeir ætla að fara að því, og ef hæstv. ríkisstj. er ekki búin að hugsa um þetta, þá held ég væri miklu nær fyrir hana að segja nú af sér og segja, að henni hafi því miður láðst, áður en hún settist í stólana, að hugsa um vandamálin, sem hún ætti að leysa, þegar hún væri setzt í þá, og láta Alþ. um það að ákveða, hvort ríkisstj. heldur áfram. Það er satt að segja viðkunnanlegra fyrir Alþingi, ekki sízt nýkjörið, að fá að vita það, þegar ein ríkisstj. sezt á laggirnar, hvaða aðferð hún ætlar að hafa til að leysa höfuðvandamálin. Og þegar menn nú þar að auki eru nýkomnir út úr kosningum, eru búnir að leggja öll vandamálin niður fyrir sér, eru búnir að marka sína stefnu skýrt og skorinort í kosningunum, hvað er þá til fyrirstöðu annað en leggja þessa stefnu fyrir þingið? Eða eru kosningaloforð og kosningastefnan eitt og stjórnarstefnan allt annað — og það þótt svona stutt sé liðið á milli? Það hefur þekkzt náttúrlega áður, að menn hafi afsakað sig á ýmsan hátt, þegar liðin hafa verið tvö ár frá kosningum, og menn hafi sagt, að ástandið sé nú orðið breytt frá því, sem var í kosningunum, og þess vegna sé eðlilegt, að menn þurfi að athuga sinn gang betur. En þegar menn eru eins og þessir tveir flokkar, sem nú hafa myndað ríkisstjórn, búnir að vera samábyrgir um ríkisstj. í heilt ár, búnir að koma sér saman um á hvern hátt eigi að leysa málin, jafnvel standa að tillögum um það fyrir kosningar, eins og kaupránslögunum, þá ætti sannarlega ekki að standa á slíkum stjórnarflokkum að vera búnir að hugsa sín mál og ekki þurfa að byrja með því að brjóta allar þingvenjur og ætla sér beinlínis að brjóta allt þingræði á bak aftur, aðeins til þess að ríkisstj. fái tækifæri til þess að hugsa. Og ég hef nú satt að segja ekki trú á, að hæstv. ráðherrar hafi ekki verið búnir að hugsa þessi mál áður. Ég er hræddur um, eftir því sem ég þekki þá, að þeir muni hugsa svo mikið um landsins gagn og nauðsynjar, að þeir séu alveg búnir að leggja þetta allt saman niður fyrir sér.

En ég er hræddur um, að það sé annað, sem skauzt upp úr hæstv. dómsmrh. Hann sagði: Ef ríkisstj. kemur sér saman. — Það er líklega það. Ríkisstj. er líklega ekki búin að koma sér saman. Það gæti m.ö.o. verið, að það væri eftir að semja í ríkisstj. um stjórnarstefnuna í þessum málum og að það, sem hæstv. ríkisstj. væri raunverulega að fara fram á með því að ætla að brjóta allar venjur þingræðis á bak aftur og breyta út af því, sem viðgengizt hefur í Alþingi Íslendinga um áratugi, það væri vegna þess, að ríkisstj. kæmi sér ekki sjálf saman. M.ö.o.: ef þingmenn sætu hér áfram núna, við skulum segja til miðs desember, og kæmu hér fram með öll sín frv., allt, sem þeir hafa áhuga á að gera fyrir almenning í landinu og fyrir sína kjósendur, sem svo nýverið eru búnir að kjósa þá, þá virðist vera sá ótti uppi hjá ríkisstj., að þá færu e.t.v. að riðlast fylkingarnar í stjórnarflokkunum, m.ö.o. að sumir þeir, sem fylgja núv. hæstv. ríkisstj. af hennar þingmönnum, séu svo veikir á svellinu, að þeir mundu, ef þeir stæðu undir þeim þrýstingi, sem það er, að Alþingi heldur fundi daglega, að það fara fram útvarpsumræður t.d., enn fremur að allmikið af háttv. kjósendum, eins og það hét fyrir skömmu, koma kannske á pallana og fara að hlusta á þingmenn, þá virðast hæstv. ráðherrar hræddir um, að það færi að verða einhver bilbugur á þingmönnum stjórnarflokkanna. Ráðið sé þess vegna að múlbinda Alþingi, senda þm. heim, svo að þeir geti ekki talað, sjá um, að það séu engir fundir í Alþ., sjá um, að það berist ekki utan af landi neinar samþykktir frá kjósendunum, sem nýlega var verið að skírskota til, þannig að hv. þm. stjórnarflokkanna fái að vera í friði fyrir sínum kjósendum, þeir væru losaðir við þann þrýsting, sem almenningsálitið er, þeim væri haldið utan þingsalanna, en kannske því fastar í þingflokksherbergjunum og þar gengið á milli, þangað til búið væri að temja þá, sem væru máske dálítið óþekkir til að byrja með. Er það þetta, sem er orsökin til þess, að hæstv. ríkisstj. vill fara að senda Alþ. heim? Hæstv. ríkisstj. er ekki viss um, að hún komi sér saman, ef þingið er að störfum, ef þingmenn stjórnarflokkanna verða fyrir þeim áhrifum, sem almennt eru allsterk hjá mönnum, meðan þing situr.

Er það þessi þrýstingur, sem hæstv. ríkisstj. vill losna við? Það hefur komið fyrir áður, að slíkar aðferðir hafa verið viðhafðar, að það hefur ekki verið kvatt saman þing eða haldið áfram þingi, þegar átt hefur að gera það samkv. stjskr., og þá hefur það venjulega verið vegna þess, að þá hafa verið einhver óþurftarmál, sem þurfti endilega að koma í gegn.

Ég verð nú að segja það, að ég varð dálítið hissa, þegar hæstv. dómsmrh. utan dagskrár á Alþ. sér ástæðu til þess að gefa yfirlýsingu, að það sé hætta á, að ríkisstj. komi sér ekki saman, svo framarlega sem Alþ. verði ekki sent heim. Þetta er yfirlýsing, sem er vissulega til þess fallin, að hv. alþm. brjóti heilann um hana. Ég verð að segja það, mér datt alls ekki í hug, að ríkisstj. væri svona tæp. Það er bara vika síðan hún var mynduð, bara ein einasta vika, og að hún væri komin að falli strax, mér datt það ekki í hug, fyrr en ég heyrði það hjá hæstv. dómsmrh., að hann sá ástæðu til þess að fara að gefa yfirlýsingu um þetta hér utan dagskrár á Alþingi, sem eðlilega verður ástæða til þess, að þingmenn fara að spyrja sig um allmargt og vilja grennslast eftir, hvort svo sé um þessa sterku og ágætu ríkisstj., sem nú hefur verið sett á laggirnar með þessa líka fögru yfirlýsingu og fleiri ráðherra en nokkurn tíma áður hefur tíðkazt, til þess að hægt sé að leysa vandamálin fljótt og vel. Það er ekki undarlegt eftir slíka yfirlýsingu, sem hæstv. dómsmrh. sér ástæðu til að fara að gefa hér utan dagskrár, að þingmenn fari að hugsa sinn gang og spyrja sig: Eigum við það virkilega á hættu, að stjórnin springi nú á næstunni? — Ég held, að það sé þá bezt, að Alþ. sé við. Ég held, að það væri ekki rétt fallega að farið, ef Alþ. væri bara látið fara heim núna og ríkisstj. svo að segja alveg að springa. Ég vonast þess vegna til þess, að hæstv. ríkisstj. sjái, að þegar hún fer að skýra okkur frá svona viðkvæmum fjölskylduvandamálum stjórnarflokkanna, að það sé engan veginn víst, að stjórnarflokkarnir komi sér saman, þá vex eðlilega áhuginn hjá þingmönnum fyrir því að vera til taks, svo framarlega sem stjórnin skyldi nú allt í einu detta í sundur, því að ekki er gott, að landið sé lengi stjórnlaust.

Ég held þess vegna, að eftir þær upplýsingar, sem hæstv. dómsmrh. hefur gefið nú utan dagskrár á Alþ., sé alveg sérstök ástæða til þess, að hæstv. ríkisstj. endurskoði þessa till. sína um að fara að láta þingið fara heim svona óvenjulega snemma.

Það er engum efa bundið, að það er brýn nauðsyn á því, að bæði hæstv. ríkisstj. sé að verki hér á Alþ. með yfirlýsingum, sem komi í veg fyrir öngþveiti í okkar efnahagsmálum, og að Alþ. sé að verki til þess að tjá henni sín úrræði og sínar till. í ýmsum þjóðmálum og kannske ekki sízt efnahagsmálunum, og enn fremur, ef hæstv. ríkisstj. er orðin svona lasburða strax, að Alþ. sé viðlátið, ef það skyldi sýna sig, að stjórnarkreppa væri á næstu grösum.

Það hefur borið á góma í þeim umræðum, sem hér hafa farið fram utan dagskrár, hvort það mundi ætlun hæstv. ríkisstj., ef hún fengi nokkurt þinghlé nú fyrr eða síðar, að gefa út brbl. Það er að vísu til sú túlkun á svona þingfrestunum með þál., að leyfilegt sé að gefa út brbl. Þó mun það hafa komið fyrir, að ríkisstjórnir hafa gefið yfirlýsingar, þegar þær hafa fengið slíka frestun samþykkta, að ekki yrðu gefin út á meðan brbl. Og það er engum efa bundið, að með tilliti til þeirra óvenjulegu hátta, sem lagt er til að hafa, og þeirra yfirlýsinga, sem hæstv. ráðherrar gefa nú utan dagskrár, og þeirra slúðursagna, sem ganga í höfuðstaðnum, þá er alveg sérstök ástæða til þess, að hæstv. ráðherrar gæfu yfirlýsingar um, að það væri ekki þeirra meining að fara að gefa út brbl. í þessu þinghléi.

Ég vil vekja athygli á því, að ef svona óvenjulegir hættir væru viðhafðir, að fara að fresta þingi svona snemma, og það eftir að svona hættulegar slúðursögur fara að ganga og það eftir að það fer að kvisast, að ríkisstj. sé jafnvel sjálfri sér sundurþykk, þá er ákaflega eðlilegt, að það kæmi upp sá ótti hjá mönnum, að það yrði jafnvel farið að reyna að leysa viss fjölskylduvandamál ríkisstj. með einhverjum bráðabirgðalögum. Hvort það verður landbúnaðarvöruverðið, jafnvel gengislækkun eða eitthvað annað slíkt, þá fyrst sæju menn, hvert komið væri málefnum þjóðarinnar, ef þannig væri komið. Ég held þess vegna, að það sé alveg brýn nauðsyn út frá þeim yfirlýsingum, sem hæstv. ráðh. hafa gefið hér utan dagskrár, að það séu tekin af öll tvímæli um það, að hæstv. ríkisstj. hyggi ekki á neitt slíkt.

Svo vil ég minna á það, að ég bar hér fram fsp. utan dagskrár áðan til núverandi hæstv. sjútvmrh. út frá bréfi, sem hann skrifaði tveim þingflokkum í haust, þar sem hann lýsti því yfir, að það yrði einmitt hægt að ræða hér á Alþingi svo að segja eins fljótlega brbl. um landbúnaðarvöruverðið eins og þótt aukaþing hefði verið kallað saman í september. Og ég bað einmitt hæstv. núverandi sjútvmrh. um að gefa hér sína yfirlýsingu um það, að þm. mættu treysta því, að þetta tækifæri fengju þeir. Og ég vil vekja athygli á, hvaða hætta er ella á ferðum, — sú hætta, að ein ríkisstj. getur farið að hafa þær aðferðir, þau vinnubrögð að gefa út brbl., meðan þing situr ekki, þegar þing svo er komið saman að láta fresta þingi, þegar kæmi að því, að slík brbl. ættu að fara að ræðast og taka ákvörðun um þau, og gefa máske út einhver brbl. í slíku þinghléi til þess að reyna að losa sig út úr einhverri klipu. Nú er það vitanlegt, að einmitt um þessi mál, brbl., voru Alþfl., sem var stjórnarflokkurinn, sá sem fór með ríkisstj. í sumar, og Sjálfstfl. á öndverðum meið. Er það máske svo, að þessir tveir flokkar séu enn þá á öndverðum meið í þessu máli og þegar ríkisstj. var mynduð á dögunum eða réttara sagt fyrir rúmri viku hafi engin stefna verið mörkuð í þessu, það hafi sem sé bara verið samið upp á stólana, en alls ekki málefnin? Er það kannske þetta, sem hæstv. dómsmrh. átti við áðan í yfirlýsingu, sem hann gaf um, að það mundi náttúrlega einhvern tíma koma að því, að eitthvað yrði lagt fyrir Alþingi, þó að því yrði frestað nú, ef stjórnin kæmi sér saman? Var það kannske þetta, sem hæstv. dómsmrh. átti við, að meira að segja þetta mál, sem var ágreiningsmál í sumar hjá þessum tveimur stjórnarflokkum, það hafi alls ekki verið orðið sameiginlegt mál hjá þeim, þegar þeir mynduðu ríkisstj., þeir hafi alls ekki verið búnir að semja um þetta, þeir hafi bara verið búnir að semja um stólana, en ekki um stefnuna. Sé svo, að þetta sé einmitt eitt af þeim málum, sem hæstv. dómsmrh. taldi að væri ekki alveg öldungis víst að hæstv. ríkisstj. kæmi sér saman um, þá fer náttúrlega að verða skiljanlegt það ofurkapp, sem hæstv. ríkisstj. leggur á að fresta nú Alþingi og fara máske að leysa þetta aftur með nýjum brbl. Og á þá máske starf Alþingis að verða þannig, að því yrði kannske frestað nú og svo komi það saman í janúarlok, þá sé búið að berja menn til hlýðni í stjórnarflokkunum, þá sem séu svo óþekkir núna, að hæstv. dómsmrh. sé hræddur um, að stjórnin kunni að springa á því, og þeir verði orðnir góðu börnin, þegar Alþ. kæmi saman aftur, og þá yrðu höfð heldur hröð handtök á, eins og virtist hafa átt að hafa núna, koma málunum í snarheitum í gegnum þingið og máske fresta svo aftur í eina tvo mánuði, þangað til fjárlögin væru máske til og eitthvað búið að athuga þau? Eiga það kannske að fara að verða vinnubrögðin á Alþingi Íslendinga? Ég er hræddur um, að það verði strax í upphafi að láta vita það, að svona vinnubrögð koma ekki til með að ganga.

Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að hæstv. ráðh, gefi okkur nú þá yfirlýsingu, að þeir sjái það með tilliti til þeirra starfa, sem þm. hér eru kosnir til að inna af hendi, með tilliti til þess hættulega ástands, sem mundi skapast í þjóðfélaginu, ekki sízt í efnahagsmálunum, ef þingi væri frestað nú, ekki sízt eftir allar þær slúðursögur, sem sérfræðingar ríkisstj. láta berast út frá sér, þá sé ástæða til þess, að þeir falli algerlega frá því að fara að halda áfram þeim tilraunum sínum, sem hafðar hafa verið í frammi til þess að senda Alþingi heim, gefi hér yfirlýsingar um það, að ríkisstj. hyggi ekki á neina gengislækkun, að almenningur megi treysta því, að ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að tryggja gjaldeyri landsmanna og vinni að því að efla traust manna á bönkunum. Ég held, að það sé alveg brýn nauðsyn, að hæstv. ríkisstj. gefi slíkar yfirlýsingar nú, ella væri hún að gefa undir fótinn þeim glæfralegu og hættulegu slúðursögum, sem farnar eru að ganga í höfuðstaðnum og þegar eru farnar að hafa hættuleg áhrif.