28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3486 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv, forseti sagði hér áðan, að vara ræðumenn við að fara hér inn á almennar umræður, þá vil ég geta um það í upphafi máls míns, að þegar hæstv. landbrh. svaraði hér fsp., sem var beint til hans af hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), þá fór hann, hæstv. ráðh., út í almenn mál án þess að svara þessari fsp. Ég held, að ég muni því álíta, að mér verði það til verndar að vitna til þess, að það, sem „höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það“.

Í sambandi við það, sem þessi hæstv. ráðh. sagði hér áðan, þá er það sem fyrr, að honum er ekki ljóst enn þá, hve mikils virði vinstri stjórnin var landbúnaðinum á Íslandi. Honum virðist ekki vera ljóst, að á tímabili vinstri stjórnarinnar voru meiri framfarir í landbúnaði en nokkru sinni fyrr. Það var betur gengið frá verðlagsmálum landbúnaðarins en nokkru sinni fyrr. Það var betur séð um lánsútveganir landbúnaðarins en nokkru sinni fyrr. Þetta vona ég, að hæstv. landbrh. fari að gera sér ljóst, og er illa farið, ef maður, sem skipar slíkt embætti sem embætti landbrh. er, gerir sér ekki grein fyrir þessu. Er ég hræddur um, að ef hann álítur, að þetta hafi ekki átt sér stað í landbúnaðinum einmitt á þessu tímabili, þá muni það verða til þess, að verk hans í þágu landbúnaðarins verði ekki svo góð sem skyldi, því að hann hlýtur að misskilja fleira en þetta. En ég vona, að hæstv. ráðh. átti sig á þessu.

Hæstv. ráðh. taldi, að það væri óeðlileg þessi óþolinmæði okkar framsóknarmanna yfir því, að ekki skyldu nú verða efndir á loforðum þeirra sjálfstæðismanna um að bæta bændastéttinni upp það, sem á vantaði í sambandi við verðlagsmálin í haust. Hann skildi ekki í þessu og hélt, að menn mundu þó yfirleitt treysta Sjálfstfl. En má ég minna þennan hæstv. ráðh. á það, að þegar fram fóru hér umræðurnar á þingi s.l. vetur um niðurfærslulögin, þá var því líka lýst yfir af hendi þeirra sjálfstæðismanna, að bændur fengju fullar uppbætur einmitt eins og lög stæðu til, að það væri 1. sept. í haust, þeir sjálfstæðismenn mundu og sjá um það? En hvað hefur skeð? Það, sem gerðist 1. sept., var ekki það, að við þessa yfirlýsingu væri staðið, heldur hitt, að það voru gefin út brbl. til þess að skerða hlut bænda meira en áður var orðið. Það er ekki að undra, þó að hæstv. ráðh. sé hissa á því, að menn séu óþolinmóðir yfir drættinum, sem í þessu máli er. En þá eru bara gefnar út nýjar yfirlýsingar. Þær yfirlýsingar voru á þá leið, að þeir sjálfstæðismenn mundu að sjálfsögðu sjá um, að úr þessu yrði bætt, þegar Alþingi kæmi saman.

Nú var það vitanlegt, og því var margyfirlýst á öllum þeim framboðsfundum, sem ég tók þátt í, að þeir sjálfstæðismenn hefðu getað ráðið þessu máli á s.l. hausti, ef þeir hefðu sjálfir óskað. Þeir hefðu hins vegar skipt sér á víxl með og móti málinu, eftir því sem hentaði þeim. Þeir hefðu ekki kosið þá að leysa málið í þágu bændastéttarinnar, eins og þeir hefðu áður yfir lýst, og þess vegna bæru þeir ábyrgð á því, eins og Alþfl. En þeir gáfu bara út nýjar yfirlýsingar. Og hverjar voru þær yfirlýsingar? Það voru þær, að málið skyldi verða leyst, þegar Alþingi kæmi saman. Það var aðeins eitt óljóst í þessu, og það var það, að Framsfl. gæti brugðizt, — ef framsóknarmenn standa við sitt, þá er hér ekkert í hættu. Nú er yfir lýst og skal vera yfir lýst af mér, að ég skal standa við það, sem ég hef sagt í þeim málum. Þeir framsóknarmenn aðrir, sem hér hafa talað, hafa gert slíkt hið sama. Því á ekki að leysa þetta mál nú þegar? Eftir hverju er að bíða? Á að bíða eftir því, að lögin falli úr gildi vegna þess tímatakmarks, sem þeim er sett? Og ef það er meining hæstv. ríkisstj. að senda Alþingi heim núna, án þess að þetta mál verði leyst, þá er það líka meining hennar að láta þessi lög ganga úr gildi vegna tímatakmarksins. Og þá leyfist mér að spyrja: Hvað tekur þá við á tímabilinu 15. des. til 28. jan.? Hvað á þá að gerast, ef ekki á að afgreiða þetta mál, áður en Alþingi verður frestað?

Það hafa ýmsir menn látið sér koma til hugar, að ástæðan til þess, að nú eigi að fara að fresta þingi svo fljótlega og alveg að nauðsynjalausu og náttúrlega fjarlægt öllum þingræðisvenjum, sem ég mun síðar víkja að, sé einmitt sú, að það eigi að reyna að losna við að leysa þennan hnút. Mér þætti gaman að heyra, og ég óska eftir því, að hæstv. ráðh. segi sína skoðun um það, hvort þarna er samhengi á milli og hvort það er ekki hans meining, að frá þessu máli verði gengið, áður en þingi verður frestað. Það er alveg óhugsandi og fjarri öllu lagi, ef Alþingi á að fara heim að þessu sinni, án þess að þetta mál verði leyst. Og ég verð að segja, að það er ekki að ástæðulausu, þó að bændastéttin í landinu og aðrir landsmenn fari að virða yfirlýsingar Sjálfstfl. lítils, ef þannig á að fara að.

Annars var það, sem hefur fram komið hér í þessum umræðum og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að það væri nauðsyn á því, að hæstv. ríkisstj. fengi vinnufrið til þess að koma sér saman um stefnuna og hvað gera skyldi, og sá vinnufriður fengist ekki, nema Alþingi væri sent heim. Ég man ekki betur en ég hafi heyrt talað um það nú að undanförnu, bæði fyrir og eftir kosningar, að stefnuskrá þeirra Alþfl.- og Sjálfstfl.-manna væri svo lík, að það væri auðvelt fyrir þá að koma sér saman um málefni, þess vegna ættu þeir tveir flokkar að vinna saman, því að þeir hefðu sameiginlega eða svo til sameiginlega stefnuskrá og ættu auðvelt með að leysa þau verkefni, sem fyrir hendi væru. Ég held líka, að því hafi verið margyfirlýst nú, einmitt meðan stjórnin var í burðarliðnum, að það væri ætlazt til þess af kjósendunum í landinu, að þessir tveir flokkar ynnu saman, og öll rök hnigju að því. Það er því óeðlilegt, ef þessir tveir flokkar með svo líka stefnuskrá, flokkar, sem eiga svo margt sameiginlegt, sem er beint áframhald af eðlilegri þróun, svo að þeirra orð séu notuð, eiga svo í erfiðleikum með að koma sér saman um málefni.

Þá hefði ég haldið líka, að vandinn, sem við væri að taka nú, væri ekki svo mikill, að það þyrfti að tefja stjórnina svo mjög. Ég minnist þess, að þegar Sjálfstfl. hafði í des. 1958 haft efnahagsmálin til meðferðar og látið sína sérfræðinga um þau fjalla, þá lýsti hann því yfir í Morgunblaðinu 19. des., hvað gera skyldi. Þeir höfðu þá minni tíma en hann tók frá því á kosningum og fram til þingsetningar til þess að athuga þau mál. En þrátt fyrir það höfðu þeir gert sér grein fyrir því, hvað hægt væri að gera og hvað þyrfti að gera, til þess að málefni þjóðarinnar væru í góðu lagi. En það, sem þurfti að gera þá að þeirra dómi, var að lækka kaupgjaldið í landinu um 6%. Ef það væri gert, þá væru aðrar ráðstafanir óþarfar. Þetta var dómur sjálfstæðismanna í yfirlýsingunni frá 19. des. s.l. Þeir fengu hins vegar ekki samstöðu um að hafa forustu um myndun ríkisstj., en stóðu síðar að því að mynda ríkisstjórn. Það, sem hefur verið gert síðan, er svo m.a., að kaupgjaldið í landinu var lækkað með niðurfærslulögunum hér um bil um þessa upphæð.

Því hefur verið haldið fram af þeim, sem með stjórn landsins hafa farið á þessu tímabili, að þetta tímabil frá því í desember í fyrra hafi ekki orðið til þess að skapa ný vandkvæði í efnahagsmálum landsins, nema síður sé.

Eins og fram hefur verið tekið hér, höfðu sjálfstæðismenn forustuna um fjárlagaafgreiðslu í fjvn. á s.l. þingi og hér á hv. Alþingi á síðasta reglulegu Alþingi. Það þarf því enginn að láta sér detta það í hug, að þeir stjórnarflokkar, sem að núverandi ríkisstjórn standa, séu ókunnugir málum. Það eru ekki frambærileg rök, þegar því er haldið fram, að þess vegna þurfi þessi hæstv. ríkisstj. meiri frið en aðrar ríkisstj. til þess að leysa sín verkefni.

Ég vil líka minna á það, að því var haldið fram í kosningabaráttunni, að dýrtíðin í landinu væri stöðvuð og sú ríkisstj., sem við tæki af ríkisstj. Alþfl., mundi verða þakklát þeirri stjórn, Alþfl.-stjórninni, fyrir að hafa stöðvað dýrtíðina og skilað hreinu borði. Ég get því ekki skilið þær yfirlýsingar, sem hæstv, núverandi forsrh, gaf um 250 millj. á Varðarfundinum, við hvaða rök þær eigi að styðjast. Og ég fæ ekki heldur séð, að þau verkefni, sem nú er að fást við, séu þessari ríkisstj. erfiðari en öðrum ríkisstj., ekki sízt þegar á það má benda með rökum, að þessir tveir stjórnarflokkar hafa starfað að ríkisstjórninni í eitt ár og að þetta ár hefur að þeirra dómi verið notað til þess að leysa verkefnin það vel, að borðin eru nú hrein, þegar að þeim er komið. Ekki sízt er þetta fráleitt, þegar hugsað er til þeirrar yfirlýsingar, sem Sjálfstfl. gaf 19. des. eftir viðskilnað vinstri stjórnarinnar, sem hann hefur þó ekki lofað um of. Það mun þó hafa komið á daginn, að þær fyrningar, sem vinstri stjórnin skildi eftir handa þeim, sem við tóku, reyndust meiri og betri en gert var ráð fyrir. Það skýtur því mjög skökku við, ef þetta á að vera ástæðan til þess, að nú þurfi að fresta þingi, áður en nokkur þau störf eru leyst af hendi, sem eðlilegt er að leysa af hendi í þingbyrjun.

Þá má líka á það benda, að það kom fram í blöðum stjórnarflokkanna, meðan þeir voru að semja, að það væri fjarri öllu lagi, að það væri verið að semja um ráðherrastóla eða verkaskiptingu ráðherranna, það væri verið að semja um stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og þau verkefni, sem hún ætlaði að taka sér fyrir hendur. Hins vegar er því nú haldið fram, að það allt sé ógert. Hér eru því nokkur atriði, sem koma okkur ókunnuglega fyrir, og sýnist mér, að það hafi ekki verið að ástæðulausu, þó að ég og aðrir frambjóðendur Framsfl. teldu, að minna væri að gert í stöðvun dýrtíðarinnar en ríkisstjórnarliðið vildi vera láta.

En í sambandi við það, sem raunverulega er verið að ræða hér, og það, sem boðað er, að þm. skuli fara heim án þess að hafa leyst hér nokkur verkefni, þá er því að vísu haldið fram, að þetta sé gert í sparnaðarskyni. Það fer vel á því, að þeir aðilar, sem stóðu fyrir því að fjölga hér verulega í þingsölunum, skuli nú telja það sitt höfuðverkefni að gera þinghaldið ódýrara. Það fer líka vel á því, að þeir aðilar, sem fjölga í ráðherrastólunum, skuli beita slíkum rökum. En það gæti líka komið til, þegar þannig væri á haldið, að það væri farið að meta þinghaldið í krónutölum fyrir þjóðina, að þá væru sterkustu rökin, að ódýrast væri fyrir þjóðina, að þing væri ekki haldið. Ég hygg líka, að þegar nánar sé að gáð, muni það reynast orð að sönnu, að þessi sparnaðartillaga sé ekki raunhæfari en margar aðrar sparnaðartillögur, sem fram hafa komið úr þessari átt. En það er annað, sem ég ætla að vekja athygli á í sambandi við þessa þingfrestun. Það er engin ástæða til þess, að þingi sé frestað nú, vegna þess að það eru til byrjunarverkefni fyrir þetta Alþingi eins og önnur. Og það hefur ekki á þeim tíma, sem ég hef kynnzt Alþingi, bæði sem þm. og áður fyrr, verið svo mikið um langa fundarsetu á fyrstu dögum þingsins, að það sé ástæða til þess að fresta þingi. En það er eðlilegt, að fjárlagafrv. fái t.d. þá afgreiðslu að komast til nefndar. Fjvn. þarf að vinna verkefni í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, sem eru ekki bundin við það að móta stefnuna um afgreiðsluna. Það eru ýmis undirbúningsverkefni, svo sem að ræða við forstjóra hinna ýmsu stofnana og annað því um líkt. Þessi verkefni má vinna nú alveg eins og síðar. Og þau verður að vinna síðar, ef þau eru ekki unnin nú. Þess vegna eru það ekki frambærileg rök fyrir því að senda Alþingi heim nú.

En það hafa gerzt á þessu ári nokkur atvik, sem eru eins og í samhengi og af sömu rót runnin og till. um að senda Alþingi nú heim. Það gerðist í tíð vinstri stjórnarinnar, að það var lagður skattur á stóreignir í sambandi við lausn á efnahagsmálum. Þeir aðilar, sem áttu að greiða þann skatt, undu því illa. Þetta mál fékk eðlilega afgreiðslu hér á Alþingi og var samþykkt sem lög, eins og venja er til. Það var leitað til hæstaréttar um það, hvort þessi skattur væri samkvæmt stjórnarskrá landsins eða eigi. Hæstiréttur staðfesti, að svo væri. En hvað gerðist? Þeir aðilar, sem áttu að greiða þennan skatt, létu sér þetta ekki nægja. Þeir fóru að leita til erlendra dómstóla til þess að fá þar hefnd, að fá íslenzkum lögum og dómum hnekkt. Hvað er hér á ferðinni? Það, sem hér er á ferðinni, er ekkert annað en það, að hagsmunahópar eru að verða til í okkar landi, sem telja ekki eðlilegt að hlíta lögum, sem Alþingi Íslendinga setur, og hlíta æðsta dómstóli þjóðarinnar. Þegar þannig er að farið, dreg ég í efa, að okkar íslenzka þjóð og okkar litla og veika þjóðfélag þoli marga slíka hagsmunahópa.

Það eru fleiri dæmi, sem eru þessu lík. Hvað gerðist í sambandi við brbl., sem sett voru um landbúnaðarverðið? Það var það, að það urðu átök á milli aðilanna, sem áttu að starfa að framkvæmd þessara laga. Annar aðilinn átti vel innangengt hjá ríkisstjórninni. Þessir aðilar leituðu til dómstólanna í landinu um það, hvort rétt hefði verið að farið eða ekki. Og dómstólarnir kváðu upp um það, hvor aðilinn hefði rétt fyrir sér. En þá gerðist það, að annar aðilinn gekk frá samningaborðinu og neitaði að starfa lengur. Það var sá aðili, sem ríkisstjórninni var velviljaður. Ég segi: Var það eðlilegt af ríkisstjórn landsins að taka upp hanzkann með öðrum aðilanum og er það æskilegt fyrirkomulag í málefnum þjóðarinnar, ef annar aðilinn gengur frá dómi, þá skuli hinn, er fer að lögum, verða að sæta verri kostinum? En hvað gerði hæstv. ríkisstj. þáverandi? Hún notaði þetta mál sér til framdráttar á þann hátt að gefa út brbl. og reyndi að nota málið sér til framdráttar, án þess að eðlilegum landslögum væri hér hlítt. Ef þannig fer, að ef einhver aðili vill ekki hlíta landslögum, þá fái hann aukinn rétt, þá held ég, að réttarfar í þessu landi fari að verða mjög hæpið.

Og hvað gerist svo nú hjá hv. Alþingi? Á yfirstandandi ári var breytt stjórnarskrá landsins, til þess, að dómi þeirra, er fyrir því máli stóðu, að vilji þjóðarinnar kæmi greinilega fram, það væri vilji þjóðarinnar, sem væri sú rödd, sem heyrðist á Alþingi. En hvað er nú hugsað? Það er hugsað, að 33 menn af 60 þm. komi sér saman um að senda sjálfa sig og hina 27 heim. Að vísu mun meiri hl., stjórnarliðið, halda áfram að vinna að sínum málum á annan hátt en stjórnarandstæðingar geta unnið að þeim, vegna þess að þeir hafa ríkisstjórnarapparatið í sínum höndum. Það, sem hér á að gerast, er að gefa meiri hlutanum á Alþingi einum tækifæri til þess að fást við málefni þjóðarinnar, einmitt á þeim tíma, þegar til mestra átaka kemur í þeim.

Um undanfarin ár hefur það verið svo, að um hver áramót hefur orðið að gera hér sérstakar ráðstafanir í sambandi við útvegsmenn í landinu. Það sama kemur og til nú. En þessi mál á að leysa, meðan alþm. sitja heima. Það er hugmyndin, að þeir skuli vera fjarverandi og að Alþingi sé ekki kvatt til, meðan þessi mál séu ráðin.

Það hefur komið fram í þessum umr. og verið um það spurt, hvort hæstv. ríkisstj. hugsaði sér að nota þingfrestunina til þess að gefa út brbl. á því tímabili og leysa málið á þann hátt. Það liggur ekkert fyrir um það frá hæstv. ríkisstj., að hún hugsi sér ekki að hafa þann hátt á.

Ef þannig er að farið, að ríkisstj. og þingmeirihluti sendir Alþingi heim til þess að geta á sama tíma stjórnað með brbl., þá er verið að gera lítið úr þingræðinu í landinu, og þá held ég, að þeir menn, sem þóttust vera að berjast fyrir því á þessu ári að gera Alþingi Íslendinga sem mest í samræmi við þjóðarviljann, hafi misskilið það og annað.

Nei, hér eru engir smáhlutir á ferðinni. Það er óskhyggja þeirra, sem ráða í þessu landi nú og hafa til þess bolmagn að losa sig við stjórnarandstöðuna, að gefa henni ekki kost á því að fylgjast með málefnum þjóðarinnar eins og stjórnarliðinu og losa sig við þá eðlilegu gagnrýni, sem henni er skylt að halda uppi. Það er einmitt þessi vinnufriður, sem hæstv. dómsmrh. var að tala hér um áðan. En ég hygg, að hann hefði ekki kosið þann vinnufrið, meðan hæstv. vinstri ríkisstj. sat hér að völdum, og hann var þá manna fúsastur til þess að gera ýmsar athugasemdir, ef á einhvern hátt var út af brugðið. Og mér er nú sem ég sjái hann þá, ef það hefði verið boðað til þingfundar á laugardegi í fyrstu viku þingsins. Ég skal segja ykkur, að það hefði þá verið komið hér fljótt upp í ræðustólinn í þann tíð.

Nei, hér eru engir smáhlutir á ferðinni, og ég held, að hæstv. ríkisstj. eigi að nota annað sér til framdráttar heldur en að reyna að slá um sig með því, að hún sé að spara þjóðinni eitthvert stórfé með þessari þingfrestun. Ríkisstj., sem þannig lítur á störf Alþingis, að það sé sparnaður fyrir þjóðina, að Alþingi starfi ekki, er á rangri leið.