28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3498 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. síðasta ræðumanns um framlagningu brbl., þá hefur það þegar verið tekið fram af hæstv. landbrh. og liggur í hlutarins eðli, að um framlagningu þeirra og meðferð á þinginu verður í einu og öllu fylgt ákvæðum stjskr. og réttum þingræðisreglum. Hæstv. fyrrverandi ráðh. og síðasti ræðumaður getur sparað sér allar áhyggjur af því, að á móti þessu verði brotið. Það kemur ekki til greina og hefur engum til hugar komið. Hitt ætti hann, jafnþingvanur maður, að vita manna bezt, að oft hefur dregizt, ekki aðeins dögum saman, heldur vikum og jafnvel mánuðum saman að leggja brbl. fyrir Alþ. En í þessu efni er áreiðanlegt, að núverandi ríkisstj. mun eins og í öðru fylgja ákvæðum stjskr. og þingræðis.

Varðandi umkvörtun hv. ræðumanns út af þessum umræðum og að þær hafi gjarnan mátt bíða til mánudags og að hann vildi nú fara að fá þeim lokið bráðlega, þá held ég, að ýmsir fleiri gætu tekið undir það, að þessar umræður séu með þeim þarfminnstu, sem hér hafi verið, en til þeirra er efnt af hv. þm. og sessunaut hans. Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) hóf þessar umr. með allrækilegri ræðu í dag, síðan tók hv. 3. þm. Reykv. (EOI) nokkuð rækilega til máls og loks hv. síðasti ræðumaður. Allt, sem þeir hafa sagt, er að efni til þess eðlis, að sjálfsagt hefði verið að láta það bíða, þangað til till. um frestun þingsins kom fram. Í stað þess að hafa þann þinglega hátt á hefur það nú borið við, sem ég man ekki eftir að hafi komið fyrir fyrr á minni þingtíð, og skal ég þó sízt amast við því, að hæstv. forseti fari þannig að, að heill fundardagur, þ.e. ekki aðeins venjulegur fundartími, heldur einnig síðari hluti dags, hefur farið í umr. utan dagskrár um mál, sem liggur fyrir að verður tekið fyrir með þinglegum hætti einhvern allra næstu daga, sjálfsagt á mánudag, ef lasleiki hæstv. forsrh. hamlar því ekki. Þess vegna verður að segja eins og er, að þessar umræður eru stórfurðulegar, eins og til þeirra er efnt. Ef um væri að ræða andstöðu við að veita afbrigði frá þingsköpum á því litla frv., sem hér er á dagskránni og mér þykir nú ljóst að héðan af muni trauðla koma til umræðu á fundinum, svo áliðið sem er orðið, þá hefði auðvitað verið eðlilegt að gera aths., þegar að uppburði þess máls kom og afbrigða var leitað. Það var ekki einu sinni beðið eftir því að hafa þann hátt á, sem hefði þó haft eitthvert fordæmi í þingsköpum, heldur var hv. stjórnarandstæðingum svo mikið niðri fyrir, að þeir hafa tekið þennan dag til þess að ausa úr skálum reiði sinnar á þann veg, sem við höfum nú orðið ásjáandi og áheyrandi að.

En vaxandi þetta litla frv., sem nú er á dagskránni fyrir utan hið litla mál hv. 3. þm. Reykv., þá held ég, að það séu fá dæmi, að það mál hafi verið afgr. án afbrigða frá þingsköpum. Allir þm., sem verið hafa hér áður, kannast við, að það hefur verið venja ár eftir ár að láta þessi frv. um gjaldaframlengingu koma til umr. og þau afgr. oft á einum og sama degi í báðum d. þingsins, og hversu mikill ágreiningur sem verið hefur um hin stærri mál, hefur aldrei orðið ágreiningur um að veita afbrigði fyrir slíku. En það er ljóst, að nýir siðir koma með nýjum herrum. Hér á að taka upp málþóf og tafir á þingstörfum með allt öðrum hætti en venja hefur verið fram að þessu.

Það er talað um, að það eigi að fara að taka ráðin af þm. Það er vitanlega ekki hægt að fresta þingi í þann tíma, sem hér er till. um, nema því aðeins að meiri hluti þm. samþ. Og ég get fullvissað hv. 1. þm. Austf. (EystJ) um það, að áhyggjur hans út af því, að gengið muni verða á svig við óskir stuðningsmanna stjórnarliðsins um meðferð mála, eru gersamlega ástæðulausar, enda veit ég ekki neinn þm., sem væri ólíklegri til að gerast málsvari núverandi stjórnarstuðningsmanna, jafnt í þessum efnum sem öðrum, heldur en einmitt hv. 1. þm. Austf. Ég efast að vísu ekki um, að hans ráðríki endist til þess að vilja ráða þeirra málum eins og annarra, því að hér í landi má sig víst enginn hreyfa, nema þessi hv. herra telji, að sitt samþykki þurfi til að koma. En þó að víst sé, að ekki skorti hann viljann til forsjár fyrir þessum mönnum, þá er jafnvíst, að þeir munu fæstir leita til hans um umsjá sinna mála. Það er í raun og veru ekki heldur furða, þó að margt hafi farið hér úr lagi um stjórn mála undanfarin ár, þegar menn heyra þann hugsunarhátt koma fram í orðum, sem lýsti sér hjá hv. 1. þm. Austf. í ræðu hans nú áðan um samband stjórnar og þings. Hvarvetna þar, sem þingræðisstjórn hefur náð verulegum þroska, og þá ekki síður t.d. í landi eins og Bandaríkjunum, sem hv. flokksbróðir ræðumanns, hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ), hefur mjög vitnað til sem fordæmis fyrir Íslendinga, — í öllum þessum löndum er það alveg fastmótað, að stj. verður ætíð að leggja mál sín fyrir þingið og síðan standa eða falla með sínum málum og að þinghlé, hvort sem er á milli þess að fundum er frestað eða beinlínis er slitið þingi, eru fyrst og fremst notuð til þess, að stjórnin hafi til lagabálka, sem Alþ. eða þing, hverju nafni sem það nefnist í hverju þjóðfélagi, taki síðan til meðferðar. Áður fyrr var það alveg föst venja, að þegar þing kom saman, var lagður fyrir það fjöldi stjfrv. Stjórnin hafði þá haft tíma til þess að athuga mál og undirbúa þau fyrir þingið. Síðan tók Alþ. afstöðu til þeirra mála. Í því fólst engan veginn, að stj. hefði nokkurt einræðisvald yfir þm. Stjórnir voru ekki fastari í sessi áður fyrr en nú, það er flokkaskipun og aðstaða, sem ræður því hverju sinni, en störf þingsins gengu miklu greiðlegar og voru eðlilegri, og það er einn af göllum okkar skipulags nú, mjög alvarlegur galli, að undirbúningur mála af hálfu ríkisstj. og sérfræðinga hefur hina síðari áratugi mjög gengið úr skorðum og er alls ekki með þeim hætti, sem frambærilegur er. Þetta er í nánu sambandi við þá hnignun stjórnarráðsins, sem e.t.v. enginn núlifandi Íslendingur á frekari sök á en hv. 1. þm. Austf. með sinni löngu stjórnarsetu og sínum spillandi áhrifum á heilbrigða stjórnarhætti.

Nú er auk þess þannig ástatt, að komin er ný ríkisstj., sem tók við völdum fyrir rúmri viku. Það gefur auga leið og þarf ekki að fjölyrða um það, að sú stjórn hefur ekki haft færi á því að undirbúa mál með þeim hætti, að Alþ. geti tekið afstöðu til þeirra höfuðmála, sem því ber skylda til að fjalla um, m.a. fjárlög. Þau eru samin af öðrum fjmrh. en núverandi hæstv. fjmrh. Brbl., sem mjög hefur hér borið í tal, eru samin og gefin út af allt öðrum landbrh. en nú situr. Það verða, eins og við sjáum, mörg mál lögð fyrir þetta þing af stj. hálfu, vegna þess að fyrrverandi stj. vissi, að hún var aðeins til bráðabirgða, starfaði einungis í þeirri vitund, og núverandi stj. hefur ekki átt nokkurn kost á því að undirbúa mál. Þess vegna er það sjálfsögð skynsemi varðandi vinnubrögð, alveg óháð öllum pólitískum ágreiningi, að þessari nýju ríkisstj. gefist færi á því að undirbúa mál og leggja þau fyrir þingið með sama hætti og stjórnir venjulega eiga kost á, áður en þing kemur saman. Það er að vísu rétt, að þetta hefur oft verið vanrækt af stj. og sú vanræksla hefur farið vaxandi.

Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Austf., segir, að þetta sé vegna þess, að ríkisstj. þurfi að vera í samráði við sína flokksmenn varðandi málsmeðferð. Allir vita, að einhverjir verða að bera fram till., að flokkaskipun og starf er þannig hér á landi, að það eru engin vandkvæði fyrir forustumenn að hafa samráð við sína flokksmenn, jafnvel þó að þingið allt sitji ekki saman, og að það getur ekki komið í hlut annarra en ríkisstj. að vinna ríkisstjórnarinnar sjálfrar verk. Til þess er hún. Hún er til þess að semja till. hafa forustu, bera fram sínar till. á Alþ., síðan standa og falla með þeim. Það kann að vera svo í flokki hv. 1. þm. Austf., að ef stj. sé búin að bera fram till., þá sé metnaður svo mikill og ofríki flokksforráðamanna, að engum liðist að hreyfa þar hönd né fót öðruvísi en fyrir þá er lagt, en þannig er það a.m.k. ekki í þeim flokki, sem ég tilheyri.

En svo vitum við, sem á þingi höfum setíð og horft upp á þá eymdarsjón, sem var að sjá Alþ. á tímum vinstri stj., að þó að þm. væri haldið hér mánuð eftir mánuð, þá fengu þeir ekki að fylgjast með í neinu, sem máli skipti, um sjálfa málsmeðferðina. Aðferðin var sú, að ríkisstj. sat og brallaði með sínum trúnaðarmönnum. Þegar hún var búin að koma sér saman, voru lögð fyrirmæli fyrir flokksmennina um að gera eins og hinir háu herrar höfðu komið sér saman um. Menn muna ósköp vel, hvernig afgreiðslu fjárlaga var háttað í árslok 1957. Menn muna ósköp vel, að fjvn. fékk ekki að sinna sínum störfum. Henni var haldið verklausri, jafnvel felldir niður fundir um sinn. Það var ekki fyrr en komið var fram í desember, að allt í einu voru lagðar fram skrár fyrir hv. þáverandi form. fjvn., og þá voru drifnir á fundir og hin þægu stjórnarpeð gerðu í einu og öllu það, sem hæstv. þáverandi fjmrh. lagði fyrir þau, eftir að þáverandi ríkisstj. hafði bak við þau tjöld, sem aldrei voru dregin frá, komið sér saman um sin skuggalegu verk. Þessi leikaraskapur um, að þm. hafi verið haldið hér til þess að hafa samráð við þá, — hv. 1. þm. Austf, getur haldið þessu fram alls staðar annars staðar en á Alþ., alls staðar annars staðar en gagnvart mönnunum, sem hann sjálfur hefur kúgað árum saman, og gagnvart öllum öðrum en þeim, sem séð hafa með eigin augum þá sorgarsögu um lítilsvirðingu Alþ., sem þessi hv. þm. öðrum fremur hefur beitt sér fyrir.

Sem betur fer, þarf ekki að kvíða því, að núverandi ríkisstj. muni beita slíkum aðferðum. Hún mun í öllu viðhafa réttar þingræðisreglur og gæta þess að taka í einu og öllu hæfilegt og sanngjarnt tillit til stjórnarandstöðunnar. Það tilheyrir réttum þingræðisháttum, að ekki sé níðzt á minni hlutanum, og því fer fjarri, að núverandi ríkisstj. hafi hug á því. Fram á hitt verður hún að fara við Alþ., að henni gefist færi á að undirbúa hinar þýðingarmestu ákvarðanir, sem allar aðrar ákvarðanir, er verulegu máli skipta varðandi efnahag og fjárhag þjóðarinnar nú, eru undir komnar. Jafnskjótt og þessar ákvarðanir stj. um hennar till. verða reiðubúnar, verða þær till. lagðar fyrir Alþ. á lögformlegan hátt og málið fær þinglega meðferð. Annað kemur ekki til greina. Hvort Alþ. svo verður frestað deginum fyrr eða síðar, skiptir sáralitlu máli. Menn höfðu vænzt þess, að ekki yrði fyrirstaða um að afgr. þau mál, sem stjórnarandstaða hefur ætíð afgr. með afbrigðum frá þingsköpum. Það var ætíð gert og aldrei fundið að því, þó að um margt væri deilt, meðan hv. 1. þm. Austf. var fjmrh., að afgr. öll þau mál, sem nú liggja hér fyrir í lagafrumvarpsformi, með afbrigðum og láta það ekki standa fyrir. Ef stjórnarandstaðan óskar eftir að ræða þau mál og nota sitt málfrelsi til þess, á hún sinn rétt til þess innan ramma þingskapa, og verður auðvitað um það, eins og annað, farið að réttum lögum. En ef menn vilja taka upp skipulega stjórnarhætti, hverfa frá niðurlægingartímabilinu, sem hér var á Alþ., meðan hv. 1. þm. Austf. var hæstráðandi, og komast til betri stjórnarhátta, þá er eitt sporið á þeirri leið, að stjórninni gefist færi á því að undirbúa sinar till. sem allra fyrst, vegna þess að vandinn er mikill og aðkallandi, sem fyrir liggur, og þær till. verði síðan, svo skjótt sem fyrst eru föng á, lagðar fyrir hv. Alþingi.