30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3504 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf hér, og það gleður mig stórum, ef þannig verður á málum haldið, sem hann gaf í skyn, að það þyrftu ekki að verða neinar tafir á útlánastarfsemi ræktunarsjóðs eftir þeim leiðum, sem hann upplýsti, og ég treysti því, að hæstv. ráðh. verði ekki eftirbátur fyrirrennara sinna um fyrirgreiðslu í sambandi við lausn þessa máls.

Út af því, sem hann sagði um byggingarsjóðinn, þá var það ekki ætlun mín að fara hér út í deilur, hvorki um yfirfærslugjald né annað. Hitt er vitanlegt, að byggingarsjóður Búnaðarbankans hefur til þessa getað leyst starfsemi sína af hendi þannig, að þeir, sem hafa sótt þar um lán, munu í flestum eða öllum tilfellum hafa fengið þau. Og ég treysti því einnig, að það verði svo í framtíðinni eins og verið hefur hingað til. Ef hæstv. ráðh. tekst svo vel til í sambandi við afgreiðslu efnahagsmála síðar, að það komi ekki við almenning í þessu landi, ber að fagna því, þegar það sést, en fyrr ætla ég ekki að ræða um það mál.