30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3505 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Á þskj. 1 hef ég borið fram till. til þál. um ráðstafanir til fjáröflunar fyrir byggingarsjóð ríkisins. Ég hafði því einmitt haft hug á því að beina sams konar fsp. til hæstv. forseta og hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) bar hér fram áðan til hæstv. forseta og hefur nú fengið svör, sem geta þá að vissu leyti gilt viðvíkjandi því málefni að því er mig snertir einnig, að nú er sagt, að það sé allt í óvissu um, hvort þinginu verði frestað, og í annan stað, hvenær því þá kynni að verða frestað. Þar með var allt í óvissu um það, hvort þessi þál., sem hér er um að ræða, fái afgreiðslu fyrir jól eða ekki.

Ég sá það fyrst í blöðum stjórnarflokkanna, Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu, áður en ég hafði haft af því nokkurn ávæning hér á Alþ. og ég hygg áður en nokkrir alþm. fengu nokkuð um það að vita, að það væri ákveðið af ríkisstj., að þinginu yrði frestað annaðhvort á laugardag eða mánudag, þ.e.a.s. nú fyrir helgina, ellegar þá í síðasta lagi nú í dag. En nú er sem sé upplýst af hæstv. forseta sameinaðs þings, að það sé í óvissu, hvort þinginu verði frestað.

Ég vildi nú beina þeim fsp, til hæstv. ríkisstj., ef svo skyldi fara, að þinginu yrði frestað fyrr en á eðlilegum tíma, þegar jólafrí væri tekið, hvort hæstv. ríkisstj., sem húsnæðismálin heyra undir, ef þáltill. mín, 1. mál þessa þings, fær ekki afgreiðslu fyrir jól, muni þá sjá sér fært að hlutast til um, að veðdeild Landsbankans gefi nú þegar út vísitölutryggð bankavaxtabréf, B-flokks bréf, fyrir a.m.k. 20 millj. kr. eða einhverja þá upphæð, sem verulega þýðingu hefði fyrir starfsemi byggingarsjóðsins, nú helzt fyrir þessi áramót. Og í annan stað, hvort hún mundi eiga hlut að því, að Seðlabankinn tryggði sölu á B-flokks bankavaxtabréfum, t.d. fyrir tvöfalda upphæð þá, sem ég nefndi áðan. Í þriðja lagi, hvort hún mundi ekki sjá sér fært að beita sér fyrir því, að það mál verði tekið upp við atvinnuleysistryggingasjóðinn, að hann keypti annaðhvort A-flokks bréf, t.d. fyrir allt að 10 millj. kr., eða ef hann treystir sér ekki til þess, hvort þá mættu ekki takast samningar við stjórn sjóðsins um að leita samningsbundins bráðabirgðaláns til skemmri tíma. Ég veit ekki, hvort það er ástæða til þess að ætla hæstv. ríkisstjórn, ef hún losar sig nú við þingið, að hún hefði uppi áform um það, en það væri þá ástæða til að fá vitneskju um það, að fá jafnvel erlent lán, sem yrði endurlánað byggingarsjóði ríkisins, en sú till. hefur oftar en einu sinni verið uppi af hendi hv. sjálfstæðismanna, og væri því ekki óeðlilegt að ætla, að sú till. um úrlausn á lánsfjárskorti byggingarsjóðsins væri hæstv. núv. ríkisstj. hugstæð úrlausn, og e.t.v. gæti það verið svo, að það mál væri í undirbúningi hjá ríkisstj. eða hún hefði þegar komið sér niður á það að fara þá leið til þess að bæta úr hinum tilfinnanlega fjárskorti byggingarsjóðs ríkisins.

Ég tel, að þetta mál sé svo aðkallandi, að það sé eitt þeirra mála, sem sjálfsagt hefði verið að Alþ. afgreiddi til hæstv. ríkisstj. sem framkvæmdaratriði, ef það fær að starfa með eðlilegum hætti, og tel víst, að þessi till. hefði þá fengið afgreiðslu fyrir áramót og ríkisstj. fengið þetta verkefni í hendur að vinna að vilja Alþ. fyrir áramót. Hins vegar fýsir þingmenn auðvitað að vita, hvað verði um úrlausn þeirra mála, ef hún sendir þingið frá sér, sem þingið áreiðanlega hefði falið henni að vinna fyrir áramót, ef það starfaði áfram.

Ég beini þessum fsp. til hæstv. félmrh., sem ég hygg að húsnæðismálin heyri undir.