30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3506 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta það, sem ég sagði áðan, öðru en því, að úr þessum málum hefur ekki verið ráðið enn, og ég get ekki gefið neinar tæmandi upplýsingar um, hvort það mundi geta orðið fyrir áramót. Hins vegar sýnist mér, að þó að till. hv. þm. yrði samþ. einhvern tíma í desembermánuði, þá væri hún í sjálfu sér ekki trygging fyrir því, að úr þessu rættist, þannig að ég sé ekki, að þingfrestunin í sjálfu sér hafi nokkurn skapaðan hlut að segja um afgreiðslu þessa máls. Ríkisstj. mun vera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að fá þetta mál leyst, hvort sem till. hv. þm. kemur til afgreiðslu eða ekki. Ég get fullvissað hann og hv. þm. um það, að ríkisstj. mun gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að bæta úr þessu, hvort sem það verður eftir þeim leiðum, sem hv. þm. hefur hér bent á, eða það verður eftir öðrum leiðum. Útgáfa vaxtabréfa í sjálfu sér er ekki nein trygging fyrir því, að fé fáist. Fé fæst ekki öðruvísi en einhver banki taki að sér útvegun á því, og það eina raunhæfa, sem hér er bent á í till., væri það, ef atvinnuleysistryggingasjóður gæti látið eitthvert fé af hendi. Það er vitað, að hann hefur það. En ég skal ekki inn á það fara hér. Það er náttúrlega samningsatriði við hann, þegar þar að kemur. En ég vil aðeins taka það fram, að samþykkt þessarar till. út af fyrir sig hefur enga úrslitaþýðingu í málinu, vegna þess að stjórnin mun gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að leysa það á þeim grundvelli eða svipuðum eins og till. fer fram á.