30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3507 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. 4. landsk. þm. (HV) í ræðu hans áðan, að hann teldi möguleika á því eða a.m.k. þess vert, að það yrði reynt að semja um við atvinnuleysistryggingasjóðinn að fá allt að 10 millj. kr. lán til ráðstöfunar fyrir byggingarsjóð ríkisins. Af þessu tilefni vil ég aðeins taka það fram, að húsnæðismálastjórn hefur s.l. 3 mánuði gert ítrekaðar tilraunir til þess að semja við sjóðsstjórnina um lán til þessara hluta, en nú nýlega hefur form. húsnæðismálastjórnar fengið þau svör, að það væri ekki talið fært af hálfu sjóðsstjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs að lána neina peninga í þessu skyni. Ég vil aðeins, að þetta komi fram nú þegar, til þess að þm. vaði engan reyk í þeim efnum og til þess að sá „möguleiki“ liggi ljós fyrir af hálfu þeirra, sem halda, að þetta sé úrlausn, eins og nú stendur á. Hvað hins vegar kann að áorkast um þessa hluti í framtíðinni, get ég ekki um sagt, en svör sjóðsstjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs eru þessi í dag eftir 3 mánaða bið af hálfu húsnæðismálastjórnar að fá endanleg svör við þessari beiðni.