30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3509 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð í tilefni af svörum hæstv. félmrh. við þeirri fsp., sem ég beindi til hans hér áðan. Satt að segja fannst mér heldur litið á svörum hans að græða og varð þess vegna fyrir vonbrigðum af þeim, vegna þess að það kom ekkert ákveðið fram um það, hvað ríkisstj. væri að gera í þessum efnum, heldur aðeins loforð, sem fólu ekki neitt ákveðið í sér, og það alveg sérstaklega tekið fram, að það væri mjög vafasamt, að ríkisstj. mundi gera nokkuð fyrir næstu áramót. Það teldi ég mjög miður farið, ef niðurstaðan yrði sú, vegna þess, hve fjölmargir þeirra, sem hafa sótt um lán til húsnæðismálastofnunarinnar, eiga örðuga aðstöðu og þurfa skjóta hjálp til þess að komast úr þeim vanda, sem þeir eru staddir í. Margir þeirra, sem hafa lagt mikið fé í íbúðabyggingar, sumt lánsfé, sem þeir þurfa að borga af háa vexti, eru strandaðir með þær og verða þess vegna að standa þarna undir miklum skuldum eða útgjöldum án þess að fá nokkuð í aðra hönd. Aðstaða annarra er jafnvel enn þá verri að því leyti, hve lélegt húsnæði þeir hafa eða jafnvel ekkert húsnæði, og þurfa þess vegna að hraða þessum byggingum. Þess vegna má það ekki dragast, að það séu einhverjar raunhæfar ráðstafanir gerðar hið allra fyrsta til að bæta úr þörfum þeirra, sem hafa verstu aðstöðuna, og að því þarf að stefna, að það verði gert nú þegar eða fyrir áramót. Þess vegna vænti ég þess, að þó að svör ráðh. væru nú ekki ákveðnari en þetta, þá sé þó vonandi meiri vilji hér á bak við en þar kom fram og það verði þess vegna eitthvað gert nú strax fyrir áramótin til að bæta úr þörfum þeirra, sem búa við lökustu aðstöðuna.

Ég vil líka benda á það í þessu sambandi, vegna þess að hæstv. ríkisstj. telur það eitt af sínum mestu og stærstu verkefnum að vinna að lausn dýrtíðarmálanna, að það er ekkert þýðingarmeira í sambandi við lausn dýrtíðarmálanna en það að hraða íbúðarhúsabyggingum í bæjunum. Ef við lítum á það, hverjar eru helztu orsakir dýrtíðarinnar hér á landi samanborið við önnur lönd, þá er stærstu orsökina fyrst og fremst að finna í húsnæðisskortinum og hinum mikla kostnaði við húsbyggingar og húsaleigu, sem er miklu hærri hér en í nokkru landi öðru. Úr þessu verður ekki bætt á raunhæfari hátt en þann að auka íbúðarhúsnæði svo mikið, að húsnæðisskortinum verði útrýmt, og ekkert vinnur betur að lausn málsins á þessu sviði en það að auka fjármagn byggingarsjóðs ríkisins og stuðla þannig að því, að það sé komið upp sem allra flestum íbúðum af hóflegri stærð. Þess vegna tel ég, að ef ríkisstj. hefur fullan áhuga á því að leysa dýrtíðarmálin, eins og hún talar um, þá eigi hún að beita sér meira að þessu verkefni en nokkru öðru, eigi sem sagt að láta það ganga fyrir öllu öðru, sem hún gerir í þessum málum, vegna þess að hér er um að ræða langsamlega stærstu meinsemdina í dýrtíðar- og verðbólgumálunum.

Í áframhaldi af þessu, sem ég hef nú sagt, vil ég þess vegna vænta þess, að hæstv. ríkisstj. láti hendur standa fram úr ermum, sýni það, að hún vilji raunverulega eitthvað gera í þessum málum, eitthvað annað en það að gefa teygjanleg loforð, og þess vegna verði þannig haldið á þessum málum, að eitthvert verulegt átak verði gert til lausnar þeim nú fyrir áramótin og það verði ekki dregið einhvern ótiltekinn tíma að gera eitthvert sérstakt átak í þessum málum.

Ég vil líka minna hæstv. félmrh. á það, vegna þess að hann var formaður í ríkisstj., sem nýlega lét af völdum, að ég man ekki betur en sú ríkisstj. gæfi mjög ákveðin fyrirheit um það, að hún vildi gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til að afla aukinna tekna handa byggingarsjóði ríkisins. Ég minnist þess ekki, — hæstv. ráðh. getur upplýst það, ef það er rangt hjá mér, — að sú ríkisstj., sem hann veitti forstöðu, hafi gert nokkurn skapaðan hlut til þess að auka fjárráð byggingarsjóðs ríkisins umfram það að láta hann fá þær takmörkuðu tekjur, sem hann átti að fá lögum samkvæmt. Þess vegna er það eiginlega tvöföld skylda hæstv. félmrh. að vinna vasklega að þessum málum, skylda hans til að efna loforð, sem ríkisstj. hans gaf, og svo skylda hans sem félmrh. að vinna nú að því alveg á næstu dögum að gera raunhæft og stórt átak í þessum málum með það fyrir augum, að það sé samkv. tillögum húsnæðismálastjórnar bætt úr þörfum þeirra, sem hafa lökustu aðstöðuna í þessum efnum og þurfa á skjótastri aðstoð að halda.

Ef það fást ekki skýrar yfirlýsingar af hálfu hæstv. ráðh. og ríkisstj. um þessi efni, er það náttúrlega ný hvatning til þingsins um það að vera ekki neitt að hraða sínum störfum að óskum hæstv. ríkisstj., heldur reyna að vinna að því, að þingið sitji sem lengst til þess að hrinda þessu máli og öðrum nauðsynjamálum áfram. Hins vegar lítur þetta allt öðruvísi út, ef ríkisstj. tekur þessu máli vel og öðrum, sem um er að ræða, og lofar því að vinna vel og myndarlega að lausn þeirra. Ég get a.m.k. sagt það hvað mig snertir, að ég hefði aðra afstöðu til þingfrestunartillögu ríkisstj., ef ég hefði tryggingu fyrir því, að hún ætlaði að vinna vel og ötullega, meðan þingfrestunin stæði yfir, að lausn mála eins og þessara. Ef hins vegar fást ekki skýr svör um þetta efni frá ríkisstj., er það náttúrlega ærin hvatning til þm. um að stuðla að því, að þingið sitji sem lengst og reyni á þann hátt að hafa áhrif á það, að hægt sé að þoka þessum og öðrum nauðsynjamálum áleiðis.