02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3515 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ummæli hv. 3. þm. Reykv. (EOl) gætu að vísu gefið tilefni til almennra umræðna. En eins og mér skildist á honum sjálfum, er allmikið orðið af þeim nú þegar síðustu daga á Alþ., og skal ég því ekki fara út í þá sálma, heldur stuðla að því af minni hálfu, að afgreiðsla mála geti gengið greiðlega hér í þinginu, og svara einfaldlega og sem athugasemdaminnst þeim fsp., sem hv. þm. ber fram.

Eins og hv. þm. og raunar alþjóð veit, hefur það aldrei tíðkazt, að ríkisstj. Íslands, hver sem hún er, réði því, hver talaði 1. des, af hálfu stúdenta. Það hefur stundum átt sér stað, að það hefur verið maður úr ríkisstj., en þá hefur það ætíð verið stúdentaráð Háskóla Íslands, sem það hefur ákveðið, — og eftir atvikum, eins og mér skilst nú, almennur stúdentafundur goldið samþykki sitt til þess, hver maður skyldi tala. Á þessu er engin breyting að þessu sinni frekar en áður. Ég hygg meira að segja, að ég hafi lesið það í því blaði, sem hv. 3. þm. Reykv. tekur væntanlega trúanlegra en flest önnur blöð, Þjóðviljanum, að gangur þessa máls hafi verið sá, að fyrst hafi stúdentaráð háskólans beðið Jónas Haralz um að tala og tala um efnahagsmálin. Síðan hafi einhverjum í hópi stúdenta ekki líkað, hvorki mannvalið né efnið, sem ræða átti um, og þess vegna hafi málinu verið skotið til almenns stúdentafundar. Á honum var með mjög verulegum atkvæðamun samþykkt að halda fast við ákvörðun stúdentaráðs. Það er því ljóst, að það er sami aðili og vant er, nú meira að segja með samþykki almenns stúdentafundar, sem hefur farið þess á leit við Jónas Haralz að tala á þessum tíma, hinn 1. des., og tala um efnahagsvandamálið.

Það þarf ekki að taka fram, að þetta var ekki gert að tilhlutan ríkisstj., sem var ekki búið að mynda, þegar þessi ákvörðun var tekin, né var ræðan frekar en aðrar slíkar ræður borin undir ríkisstj. Um ástæðuna fyrir því, að stúdentar völdu Jónas Haralz til að tala, get ég ekki sagt. Það er nýtt, ef stúdentar eru svo hollir við embættismenn, að þeir velji menn einungis vegna þess tillits, að þeir séu ráðuneytisstjórar, enn þá nýrra, að stúdentar séu svo stjórnhollir, að þeir velji mann sem talsmann stjórnar, sem er ekki búið að mynda, svo að ég hygg, að hv. þm. hafi komizt næst sannleikanum, þegar hann nefndi þriðja möguleikann, í hvaða eiginleika hinn ágæti ræðumaður hefði talað, að hann hefði verið beðinn um að tala sem vísindamaður, sérstakur fróðleiksmaður um þessi efni.

Nú má vel vera, að hv. þm. telji, að hinum ungu mönnum hafi missýnzt í þessu vali. En ef svo er, þá eru þeir ekki einir um þá missýningu eða misskilning, vegna þess að Jónas Haralz hefur ekki aðeins lokið ágætum prófum, notið mikils trúnaðar hjá tilteknum pólitískum flokki hér á landi áður fyrri, einmitt sakir afburða hagfræðiþekkingar, unnið hjá alþjóðastofnun úti í heimi og notið þar meira trausts en flestir aðrir, er óhætt að segja, heldur var hann einnig kallaður hingað til landsins af hinni hásælu, nú látnu vinstri stjórn til þess að vera sérstakur ráðunautur hennar í efnahagsmálum. Og þó að okkur sjálfstæðismönnum hafi ekki komið saman við vinstri stjórnina sálugu um margt, þá höfum við frá upphafi talið, að þarna hafi verið mjög vel valið, svo að ég held, að þessi maður hafi ekki aðeins úti í löndum, heldur einnig af hálfu allra aðila á Íslandi, sem af hans starfsferli hafa haft skipti, hlotið alveg óvenjulega viðurkenningu og þess vegna sé e.t.v. ekki óeðlilegt, að hinir ungu menn hafi beðið hann um að tala sem sérstaklega færan og fróðan mann um efnahagsmálin hinn 1. des. Það gerir hann svo auðvitað á sína ábyrgð, og þarf ekki að taka það fram, sem hv. þm. veit, að hér á landi gildir málfrelsi. Það er svo hvers og eins að meta, hvað hann gerir með skoðanir þessa manns eins og annarra manna. Það er ekki stjórnarvaldanna eða Alþ. að segja til um það. Þessi maður talaði í alþjóðar áheyrn, og það verður alþjóð, sem að lokum leggur dóm á það, hvers meta beri þær skoðanir, sem þarna voru fram settar.