02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3522 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka þátt í þeim umr., sem hér fara fram utan dagskrár, og skal ekki lengja þær. En út af því, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh., þykir mér rétt að bæta örfáum orðum við það, sem hv. 1. þm. Austf. (EystJ) hefur sagt.

Fyrir 10 árum, haustið 1949, stóð að ýmsu leyti mjög svipað á um pólitísk viðhorf og störf þingsins og gerir nú. Þá var mynduð ríkisstj. í þingbyrjun eða mjög snemma á þinginu, ríkisstj., sem þó var líklegt að ekki sæti til langframa, og þá voru boðaðar stórvægilegar aðgerðir í efnahagsmálum og vitað, að sérfræðingar voru að vinna að þeim og undirbúa skýrslur, sem ríkisstj. ætlaði endanlega að byggja till. sínar á. Eigi að síður fór 1. umr. fjárlaga fram hálfum mánuði eftir að ríkisstj. var mynduð þá um haustið, og sá þingmaður, sem tók við embætti fjmrh., vann að því mjög ötullega að semja þá ræðu og flytja þinginu skýrslu um ástand ríkissjóðs, eins og það lá þá fyrir. Síðar á því sama þingi voru gerðar miklar efnahagsráðstafanir, gengisbreyting, sem höfðu ríkuleg áhrif á fjárhagskerfi þjóðarinnar, en það haggaði ekki því, að fjárlagaræðan var flutt á eðlilegum tíma.

Þá gaf hæstv. fjmrh, þær upplýsingar, að ef til vill yrði gripið til þess ráðs að leggja fram nýtt fjárlagafrv. eftir áramótin. Það hefur komið fyrir áður, og á þetta hefur raunar verið bent í hv. Ed., þar sem hæstv. fjmrh. á sæti, að það hafa verið lögð fram tvö fjárlagafrv. fyrir hið sama fjárhagsár, en hin fyrri frv., sem voru ekki endanlega afgr., voru samt sem áður tekin til umr., þannig að fjmrh., sem þá sátu, gáfu Alþingi skýrslu um afkomu ríkissjóðs og efnahagsmálin á þeim tíma, sem þau frv. voru lögð fram, þó að ekki væri hægt að gefa endanlegar tölur um ýmislegt, sem í fjárlögunum endanlega stóð.

Ég vil því aðeins með þessum orðum láta það koma fram hér í hv. Sþ., að sú tilhögun, sem mér virðist að hæstv. fjmrh. boði að þessu leyti, mun vera án nokkurs fordæmis í þingsögunni.