02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var í tilefni af upplýsingum, sem hér komu fram frá hæstv. fjmrh. um það, að vanta mundi milli 200 og 300 millj. kr. í nýjar tekjur fyrir ríkissjóð og útflutningssjóð, til þess að endar nái saman á næsta ári, miðað við óbreytt útgjöld þessara aðila frá því, sem verið hefur.

Hér koma þessar upplýsingar mjög einkennilega fyrir sjónir og vil því óska eftir nokkru frekari grg. frá hæstv. fjmrh. Ég minnist þess í þessu sambandi, að fyrrverandi hæstv. fjmrh. gaf fyrir skömmu yfirlýsingu í áheyrn alþjóðar um það, að hagur útflutningssjóðs væri nú mjög góður. Ég minnist þess einnig, að fyrrverandi hæstv. forsrh. ítrekaði þessa yfirlýsingu, að hagur útflutningssjóðs væri nú betri en hann hefði verið áður um langan tíma. Og við höfum þegar fengið hér á borðið hjá okkur fjárlagafrv. það, sem nú er jafnvel boðað að eigi að taka til baka, en í því segir, í grg. þess frv., að ekki sé ástæða til þess að búast við greiðsluhalla hjá ríkissjóði á yfirstandandi ári, árinu 1959. Mér þykja því kynlegar upplýsingar, sem núverandi hæstv. fjmrh. gefur um það, að það muni skorta 200–300 millj. króna á tekjur ríkissjóðs og útflutningssjóðs, til þess að þær fái staðið á móti útgjöldum, miðað við óbreytt útgjöld á næsta ári. Ég get ekki sett þetta saman, að það hafi verið rétt frá skýrt hjá fyrrverandi hæstv. ríkisstj. og að það geti einnig verið rétt, sem núverandi hæstv. fjmrh. segir um þessi efni.

En það væri þá ekki úr vegi að spyrja um það: Er kannske hæstv. ríkisstj. byrjuð á samningum sínum nú við sjávarútveginn um rekstrargrundvöll fyrir næsta ár? Er kannske eitthvað séð fyrir um það, hvaða útgjöld verður þar um að ræða? Ég tel, að það væri full ástæða líka til þess, nú þegar um það er rætt að senda þingið heim um þetta leyti árs, að þá fengju þm, að vita um það, hvort hafnir eru samningar við fulltrúa framleiðenda í þessum efnum eða hvort þingið á að fara heim án þess að vita nokkuð um það, hvernig fer með rekstur framleiðslutækjanna á næsta ári.

Ég vil sem sagt að lokum óska eftir því, að hæstv. fjmrh. geri hér frekari grein fyrir því, hvernig það má vera, að það skuli vanta 200–300 millj. kr. í ríkissjóð og útflutningssjóð, miðað við þær upplýsingar, sem áður hafa verið gefnar í þessum efnum, frá fyrrverandi hæstv. ríkisstj„ og gefnar hafa verið í fjárlagafrv. því, sem lagt hefur verið fram nú hér á Alþ.